Leita í fréttum mbl.is

Góð grein um Reykjavíkurflugvöll

frá Jóni Karli Snorrasyni flugstjóra í Mb. í dag. Jón Karl skrifar svo:(bloggari feitletrar að vild)

 Ótrúleg aðför er nú gerð að Reykjavíkurflugvelli, sérstaklega af borgarfulltrúum Samfylkingar og ákveðnum sjálfstæðismönnum. Þessir fulltrúar sjá ekki borgina austur fyrir Öskjuhlíð að því er virðist. Það er eins og allt sem máli skiptir skuli vera í miðbænum, 101, eða í Vatnsmýrinni, þótt flest rök mæli með því að byggja fremur upp almenna þjónustu og sjúkrahús austan við Elliðaár þar sem umferðaræðar liggja í kross í allar áttir.

 

Bendi ég sérstaklega á hið stórgóða landrými við bakka Elliðaár, þar sem Steypustöðin, BM Vallá, bílasölur og ýmis salt- og jarðvinnufyrirtæki borgarinnar eru nú. Þarna er mikið landrými beggja vegna árinnar og sérlega veðursælt og skjólgott fyrir austan- og norðanáttum, þar sem Esjan góða skýlir mun betur fyrir norðanáttum en við Lækjargötuna og 101.

Ég trúi því að þarna verði byggður upp nýr miðbær, þegar nýir menn með framtíðarsýn komast til valda, ekki þessar miðbæjarrottur í 101.

Reykjavíkurflugvöllur hefur öðlast sess sem sérlega vel staðsettur fyrir innanlandsflug og kennslu- og einkaflug og öðlast hefðarrétt sem ekki á að hrófla við, enda í útjaðri borgarinnar til suðvesturs.

Ég undrast að aldrei skuli vera rætt við og fengið álit manna sem starfað hafa á flugvellinum við t.d. áætlunarflug í áratugi og þekkja því aðstæður og hafa kannski hugmyndir um hvað betur mætti fara sem þó ekki rýrir notagildi flugvallarins og eins að borgin fengi meira rými næst miðbænum.

Ég hef starfað á Reykjavíkurflugvelli frá 1968, fyrst sem hlaðmaður flugvéla og á farþegaafgreiðslu Flugfélagsins. Síðan sem flugnemi í nokkur ár og svo flugmaður á Fokker-flugvélum FÍ eða í samtals um 20 ár.

Skoðun mína hef ég oft látið uppi um að gera flugvöllinn meira aðlaðandi fyrir borgina. Flugvellir þurfa ekki alltaf að vera ljótir og ruslaralegir fyrir umhverfið, eins og Reykjavíkurflugvöllur var vissulega í áratugi. Á síðustu árum hefur margt verið gert til að snyrta og fegra umhverfi hans en gera má meira. Mín hugmynd er sú, að gera flugvöllinn til frambúðar þannig úr garði, að ekki þurfi að þrasa meira um framtíð hans á þessum stað, hann er hvergi betur kominn, nema ef væri á Bessastaðanesi, sem væri stórgóður staður fyrir flugvöll, enda nánast á miðju Stór-Reykjavíkursvæðinu og óskert að- og fráflug sérlega gott í allar áttir.

Í Reykjavík má lengja austur/versturbraut um 800-1000 metra út í Skerjafjörð, þannig að gera megi góð blindflugsaðflug inn á báða enda og yrði sú flugbraut aðalflugbraut sem nota má í 90% tilfella.

Ég mundi leggja eindregið til að lögð yrði hitalögn í yfirborð annarrar flugbrautarinnar þar sem affall úr geymum á Öskjuhlíð rynni um en hleypa mætti aukahita á þegar suðvestan éljagangur gengur yfir, sem kemur fyrir nokkra daga á hverjum vetri. Þá væri hægt að leggja af þriðju brautina. Þannig yrðu lendingar og flugtaksskilyrði gerð örugg með tilliti til bremsu og hliðarvinds, enda flugbrautin þá auð af snjó og ís. Þetta yrði einstætt á heimsvísu!

Stytta má hæglega braut 19, norður/suðurbraut alveg að Hótel Loftleiðum, þannig að hún yrði samt sem áður um 1000 metrar. Þannig mundi allt aðflug yfir miðbæinn hækka verulega þar sem lendingarþröskuldur færist mun sunnar. Þessa flugbraut gætu allar smærri flugvélar áfram notað í báðar áttir eftir vindátt, og t.d. Fokkerar og Dash-flugvélar Flugfélagsins einnig þegar hliðarvindur á austur/vestur-brautina er orðinn of mikill, enda þurfa þá stærri flugvélar styttri flugbraut til lendinga og flugtaks.

Ég tel að þarna mætti hæglega gera flugvöllinn stórgóðan og stolt Reykjavíkur um ókomin ár. Það þykir mikill kostur víða erlendis að hafa innanlandsflugvöll eins og við höfum nú í Reykjavík nánast í miðbænum.

Einnig getur Reykjavíkurflugvöllur áfram þjónað sem varaflugvöllur fyrir millilandaflugið frá Keflavík, sem í 80-90% tilfella er bara um pappírslegan flugvöll að ræða, þar sem eldsneyti á varavöll er í lágmarki vegna nálægðar við Reykjavíkurflugvöll, t.d. í norðanátt og björtu veðri, þegar ekkert er til fyrirstöðu að lenda í Keflavík þarf að hafa eldsneyti á varaflugvöll, hvort sem hann er í Reykjavík, á Egilsstöðum eða í Glasgow, alltaf og það skiptir máli hvort flugvélin þurfi að bera einungis 2,5 tonn eða 6-10 tonn aukalega. Það kostar nefnilega mikla peninga á ársgrundvelli að bera eldsneyti sem ekki er þörf fyrir.

Lítið mál er að gera steyptan stokk undir Suðurgötuna fyrir umferðina í hverfið í Skerjafirði og færa síðan flugtengda starfsemi, eins og Fluggarðana, suður fyrir austur/vesturbrautina , í Skerjafjörð, svo sem flugskóla og einkaflug með flugskýli og flughlöð, en gefa borginni eftir athafnasvæði nær miðborginni fyrir norðan afgreiðslu Flugfélagsins, en þar þarf að byggja nýja flugstöð fyrir innanlandsflugið á sama stað, enda styst fyrir þá sem þurfa að nota flugið út á land.

Með von um að hugmyndabanki landsmanna komi að þessu stórmáli sem Reykjavíkurflugvöllur er og hefur verið stórum hluta landsmanna í gegnum áratugina.

Trúi ekki öðru en að settur nefndarformaður, Ragna Árnadóttir, kalli til reynslubolta úr fluggeiranum, sem skipta hundruðum, til að leggja þessu þjóðþrifamáli lið."

Ég er náttúrlega ekki sammála Jóni Karli um að skerða núverandi flugbrautir hætishót. Flugvöllur er stolt hverrar borgar í Bandaríkjunum þar sem maður þessir til. Undirstaða tekna borgar af samgöngum og viðskiptum. Nokkuð, sem Latteliðið hugsar lítið um, er, að það eru viðskiptin og athvafnalífið sem færa því þægindin sem koma með borgarlífi. Borg án samgangna er ekki borg heldur fornleifar. Það á að endurbæta flugvöllinn og lengja A-V út í sjó með Suðurgötustokk.

Reykjavíkurborg getur ekki sannað eignarrétt sinn á neinu landi undir Reykjavíkurflugvelli utan einhverra fermetra sem hún sannanlega keypti af Eggerti Briem ú Vatnsmýrarbletti 5 vegna hollenska veðurflugsins 1919. Allt annað land var tekið eignarnámi undir völlinn og Bretar afhentu hann til baka til íslenska ríkisins 1947 í heilu lagi. Þetta skulum við verja í líf og blóð.

Jón Karl fer villir vegar þegar hann heldur að  frá Rögnu-nefndinni komi eitthvað bitastætt sem gagnist ef óbreyttur meirihluti situr í Reykjavík. B.Dagur og S.Björn létu skipa þessa nefnd í Machiavellskri fléttu sinni til að drepa málinu á dreif fram yfir kosningar. Einbeittur brotavilji þeirra kumpána stendur hinsvegar til að eyðileggja Reykjavíkurflugvöll fái þeir til þess styrk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 3420088

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband