Leita í fréttum mbl.is

Reiði

varð meistara Jóni Vídalín að hugleiðingum vegna reiðigirni sjálfs síns sem hann þekkti vel og var ekki ánægður með. Svo segir meistari Jón:

"Heiftin er eitt andskotans reiðarslag. Hún afmyndar alla mannsins limi og liði. Hún kveikir bál í augunum. Hún hleypir blóði í nasirnar, bólgu í kinnarnar, æði og stjórnleysi í tunguna, deyfu fyrir eyrun. Hún lætur manninn gnísta með tönnunum, fljúga með höndunum, æða með fótunum. Hún skekur og hristir allan líkamann og aflagar svo sem þegar hafið er uppblásið af stórviðri. Og í einu orði að segja: Hún gjörir manninn að ófreskju og að holdgetnum djöfli í augum þeirra sem heilvita eru."

Jenna Jónsdóttir rithöfundur skrifar svo í Mogga í dag:

"Ein sterkasta tilfinningin þegar einstaklingur er órétti beittur er reiðitilfinning. Hún grípur ekki aðeins um sig í vitundinni, heldur skekur hún allan líkamann og afskræmir andlitið. Hún safnar úr undirvitundinni öllum ljótum orðum og vondum og býr til úr þeim hárbeitt vopn sem skal særa og skera í nafni réttlátrar hefndar.

 

Tæplega hefur nokkur gert reiðinni jafngóð skil og Jón Vídalín, sem segir hana »andskotans verkfæri«. Ef nánar er hugað að orðum Jóns, sem áttu að vera öllum til strangrar viðvörunar á þeim tíma, kemur flest í ljós sem staðfestir það að reiðin er slæm tilfinning, sem eitrar sálarlífið og ormétur persónuleikann.

 

Slíkt getur orðið að svo stóru sálarmeini að það safnar sífellt í sig og sýkir út frá sér. Þótt reiðihafinn verði fyrst og fremst sjálfur þolandi stórtækra kvala geta þær brotist út úr vitundinni og orðið skaðvaldur hans í umhverfinu og mannlegum samskiptum öllum - án minnsta tilefnis.

 

Einstaklingur, sem hugsar vandlega ráð sitt þegar honum finnst gert á hlut sinn og yfirvegar tilefnið frá báðum hliðum, er ósjálfrátt að búa gæfusamlegum viðbrögðum rúm í vitund sinni. Stór orð og meiðandi missa þannig mátt sinn og þorstinn til hefndar dvín, líkamleg viðbrögð verða mild og yfirbragð rólegt. Skynsemin tekur smám saman að hreiðra um sig og virkni hennar fer að gæta í öllum athöfnum. Dómgreindin verður fær um að sinna sínu hlutverki - að yfirvega orð og gerðir og koma því til skila sem þarf í þessu tilfelli, án áreitni og niðurlægingar. Gjörðum hennar fylgir beinskeytt hreinskilni, blönduð skilningi og góðvilja. Innri líðan einstaklingsins virkar í samræmi við slík viðbrögð og skyggni hans á mikilvægi jákvæðra, mannlegra samskipta eykst. Geranda tilefnisins deyfast vopn í höndum - og stundum eyðast.

 

Eðlislæg góðvild, sem í byrjun lífs er hverjum og einum í brjóst borin, þótt bæði sé hægt að slæva hana og murka, kemur í ljós sem hvati að þroskavænlegu innra hegðunarmynstri, sem aftur skilar sér út í þjóðfélagið til gæfu og léttleika í persónuleika einstaklingsins.

 

Á lífsferli hans verða það minningar um hið góða og glaða sem fyrstar skjóta upp kollinum, af því að honum hefur auðnast að virða þær og geyma þær best, til farsældar þegar litið er yfir farinn veg.

 

Ritað 18. mars 1991"

Höfundur Öddubókanna sem enn lifir í hárri elli skrifaði svo fyrir aldarfjórðungi. Ekki hefur dregið mikið úr heiftinni og reiðigirninni á samfélaginu þrátt fyrir varnaðarorð þessara þroskuðu manneskja beggja, Jóns og Jennu. Maður hreinlega nýtur þess að berja á fólki í því sem maður er sannfærður um að sé réttlát reiði. Svo fær maður smá upplýsingar sem gera mann að fífli og maður óskar sér niður úr gólfinu og lengra ef hægt er.  Mórallinn endist stundum ævilangt.

Reiðin er eðlislæg svörun við áreiti. Hvernig við hemjum hana er svo listin. "Stilltu þig gæðingur" er sígilt heilræði í reiðikasti. 

En að fara eftir því er oft erfitt þegar reiðin á í hlut. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Frábær greinarstúfur Halldór

Með góðum kveðjum

Jenný Stefanía Jensdóttir, 5.6.2014 kl. 14:29

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Takk fyrir þetta góða vinkona Jenný

Maður segir oft meira en maður ætti að gera vegna stundarupptendrunar. En það er eins og það hlaupi í mann púki þegar svo stendur á og maður verður eins og meistari Jón lýsir því. Sem betur fer rennur af flestum bræðin og þá tekur oft iðrunin við. Maður er ekki merkilegri en þetta. Maður getur bara reynt að róa sig niður og svo reynt að hugsa áður en maður talar. En það bara tekst ekki alltaf.

Halldór Jónsson, 5.6.2014 kl. 18:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 3419714

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband