Leita í fréttum mbl.is

Á sjálfstýringu

er margt í ríkisrekstrinum þar sem handvaldir aðilar hafa sjálftökuaðstöðu á skattfé. Jónas Haraldsson skrifar góða grein í Fréttatímann. Hann segir m.a. svo:(fleitletranir mínar)

"Rannsókn á vegum alþingis á orsökum hrunsins árið 2008 var í senn eðlileg og nauðsynleg. Efnahagslegar hamfarir í kjölfar falls bankanna settu þjóðina nánast á hliðina. Enn erum við að súpa seyðið af því sem gerðist fyrir sex árum og búum við höft sem torvelt hefur reynst að losna undan. Af þessum efnahagslegu hrakförum þarf að draga lærdóm svo koma megi í veg fyrir að slík ósköp endurtaki sig.

Það er hins vegar ekki sama hvernig rannsóknum á vegum þingsins er staðið og það er þess að gæta að meðferð fjármuna, afmarka þau verkefni sem vinna skal svo sem framast er unnt, áætla kostnað vegna þeirrar vinnu og gæta þess að kostnaðaráætlanir standist. Fari svo að verk rannsóknarnefnda reynist viðameira en áætlað var þarf að taka á því sérstaklega og samþykkja auknar fjárveitingar, telji alþingi nauðsyn á því.
Kostnaður við þrjár rannsóknarnefndir alþingis í kjölfar hrunsins sýnir að þessa kostnaðareftirlits hefur ekki verið gætt. Kostnaður við rannsóknarstarfið hefur farið úr böndum og eftirlitslaust virðist hafa verið haldið áfram með opinn tékkareikning á ríkissjóð, það er að segja skattgreiðendur. Alþingi brást í eftirlitshlutverki sínu, eins og Karl Garðarsson alþingismaður hefur bent á. Undir þá gagnrýni hefur Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður tekið, en báðir eiga sæti í fjárlaganefnd þingsins.
Mestur fengur var í rannsóknarskýrslunni um aðdraganda og orsakir falls bankanna 2008, þótt dýr væri, 454 milljónir króna, en mikil vinna lá að baki hennar en sú vinna gekk tiltölulega hratt. Fall bankanna var stærsti orsakavaldur hrunsins en meginniðurstaða Rannsóknarnefndar Alþingis var að skýringar á falli Glitnis, Kaupþings og Landsbankans hefðu, auk margs annars, verið of ör og áhættusamur vöxtur, meiri en innviðir þeirra þoldu. Stjórnvöld hefðu þurft að bregðast við þegar bankakerfið var orðið allt of stórt miðað við stærð hagkerfisins en það hefðu þau ekki gert með afgerandi hætti. Þá hefðu stærstu eigendur allra stóru bankanna fengið óeðlilega greiðan aðgang að lánsfé hjá þeim banka sem þeir áttu í krafti eignarhaldsins. Fram kom í rannsókninni að í bönkunum þremur – og Staumi-Burðarási að auki – voru helstu eigendur hvers banka meðal stærstu lántakenda hans.


Þótt eðlilegt hefði verið að auki að efna til rannsóknar á Íbúðalánasjóði annars vegar og sparisjóðunum hins vegar má ljóst vera að kostnaður við þær skýrslur hefur farið langt fram úr því sem ætlað var og nánast eftirlitslaust þandist vinnan út. Heildarkostnaður vegna skýrslnanna þriggja liggur nærri 1400 milljónum króna. Íbúðalánasjóðsskýrslan kostaði rúmar 249 milljónir króna en átti upphaflega að kosta 70 milljónir. Kostnaður við sparisjóðaskýrsluna keyrði síðan um þverbak. Vinna við hana dróst svo mjög að henni var skilað tveimur árum síðar reiknað var með í upphafi. Kostnaður við sparisjóðarannsóknina, sem skilað var í apríl síðastliðnum, nemur nú hvorki meira né minna en 678 milljónum króna. Þar af eru um 130 milljónir króna sem fallið hafa til á þessu ári en ekki var gert ráð fyrir neinum fjárveitingum vegna rannsóknarinnar í síðustu fjárlögum. Karl Garðarsson segir í gagnrýni sinni að um hreina sjálftöku hafi verið að ræða.

Hvernig má slíkt verða? Af hverju greip alþingi ekki í taumana? Gagnrýnin snýr beint að eftirlitshlutverki þingsins. Hluti vandamálsins var sá, að mati Karls, að verkefnin voru ekki nægilega afmörkuð. Rannsóknarnefndirnar áttu í raun að ákvarða sjálfar umfjöllunarefni sitt og fyrir vikið urðu rannsóknirnar allt of umfangsmiklar. Eftirlit alþingis hafi ekkert verið og reikningar borgaðir þegjandi.


Það voru gerð mistök hvað varðar áætlanagerð og eftirfylgni og eftirlit alþingis í fyrstu skýrslunni, í annarri skýrslunni og svo sannarlega í þriðju skýrslunni, segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þar sem hann bendir á mistökin en um leið segir þingmaðurinn að verra sé þegar menn læri ekkert af mistökum sínum."

Ég batt vonir við þau orð Bjarna Benediktssonar fyrir kosningar í þá veru að slitastjórnir bankanna myndu ekki fá að halda áfram endalaust. Nú er ríkisstjórnin orðin bráðum hálfnuð og þetta lið heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist. Á þetta bara að vera svona áfram? Hefur Guðlaugur Þór rétt fyrir sér að menn læri ekki neitt af mistökunum?

Er ríkissjóður bara á sjálfstýringu þegar réttir aðilar eru komnir með lúkurnar ofan í hann? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristmann Magnússon

Ja hvað segja nú Pétur Blöndal og Vigdís Hauksdóttir sem vildu bara reka yfirmenn stofnana ríkisins sem fóru fram úr (röngum) áætlunum þingsins. Eiga bara ekki þeir þingmenn sem samþykktu þessar rannsókanrnefdir þá að segja af sér þingmennsku ??? ! ! ! !

Kristmann Magnússon, 1.9.2014 kl. 09:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband