Leita í fréttum mbl.is

Forsjárhyggjan

er hin rauði þráður í eðli íslenskra stjórnmálamanna. Og allstaðar annars staðar þar sem kratisminn hefur teygt anga sinna inn í heilabú fólks og mengað þau varanlega.

Óli Björn Kárason  virðist vera af þeirri sjaldgæfu tegund sem sem ekki hugsar alfarið á þennan hátt. Hann minnir óneitanlega á góða Repúblikana vestan hafs, þar sem eimir enn eftir af landnemahugsuninni þar sem "Löngum var ég læknir minn, lögfræðingur prestur, smiður kóngur kennarinn, kerra plógur hestur" sjónarmiðið er þáttur í skaphöfninni. Í dag skrifar Óli  Björn slíka grein sem mér finnst sjálfsagt að varpa fram til umræðu þar sem sumir bloggarar lesa ekki Mogga. Óli Björn segir (og ég feitletra að vanda):

"Á hverjum degi reyna góðhjartaðir stjórnmála- og embættismenn að hafa vit fyrir samferðamönnum sínum sem í »fávisku« sinni vita ekki hvað þeim er fyrir bestu. Lög eru innleidd og reglugerðir settar í þeim göfuga tilgangi að verja almenning gagnvart sjálfum sér. Eftirlitsstofnunum er komið á fót til að tryggja að einstaklingar og fyrirtæki fari eftir fyrirmælum. Í nafni umhyggju eru sérstakir skattar lagðir á vörur sem hinir góðhjörtuðu telja ekki æskilegt að venjulegt fólk neyti í miklum mæli. Aðrar vörur eru bannaðar.

 

Ríki barnfóstrunnar þenst út og faðmur hennar breiðir úr sér enda henni fátt mannlegt óviðkomandi. Ríkisbarnfóstran hefur tekið að sér að ala okkur upp og tryggja að enginn fari sér að voða. Þess vegna hefur hún ákveðið - í nafni heilbrigðis - að við Íslendingar skulum aðeins borða íslenska kjúklinga, svína- og nautakjöt. Aðeins útvaldir megi nota írskt smjör til að framleiða íslenska osta. Í visku sinni hefur barnfóstran ákveðið að rauðvínið skuli selt í sérbúðum ríkisins, undir vakandi eftirliti þar sem vöruúrvalið ræðst af öðru en vilja og löngun viðskiptavinanna.

 

Þótt ríkisbarnfóstran sé ströng og eigi oft erfitt með að fyrirgefa hefur hún á stundum þurft að láta undan. Einu sinni var barnfóstran sannfærð um að ekkert okkar hefði gott af því að hlusta eða horfa á annað en ríkisstimplað ljósvakaefni. Í umhyggju sinni var barnfóstran þess fullviss að það væri miklu betra að landsmenn drykkju sterka drykki í stað þess að leggjast í bjórdrykkju, nema þá helst í flugvélum og á sólarströndum.

 

En ríkisbarnfóstran gefur aldrei eftir án átaka og hún er stöðugt á varðbergi fyrir nýjum hættum. Í ástríki sínu er hún sannfærð um að fákunnandi einstaklingar geti ekki borið ábyrgð á eigin lífi og fyrirtækjum sé ekki treystandi til að bjóða góða vöru og þjónustu á hagstæðu verði. Reglur, eftirlit og höft eru einkunnarorðin sem unnið er eftir.E

 

Mörgum líður vel í hlýjum og öruggum faðmi barnfóstrunnar, lausir undan áhyggjum sem fylgja því að axla ábyrgð. Afleiðingin er sú að farið er að líta á neytendur sem hóp af kjánum, einfeldningum eða ómálga smábörnum.

 


 

Af ótta við barnfóstruna og í samræmi við þær kröfur sem hún hefur sett í samráði við evrópsk samtök barnfóstra, leggja framleiðendur út í að merkja vörur sínar með ærnum tilkostnaði. Ekki til að veita upplýsingar um innihald og eðli vörunnar heldur til að vara kjánann - kaupandann - við. Í samræmi við tilskipun barnfóstrunnar er gengið út frá því að almenn heimska sé ráðandi. Þannig segir á umbúðum fyrir smur- og hreinsiefni að »ef efnið er drukkið« þá »hafið samband við lækni«. Með öðrum orðum er gengið út frá því að einhverjum komi til hugar að svala þorsta sínum á smur- og hreinsiefni. Á dós með viðarvörn er tekið fram að efnið geti »valdið lungnaskaða við inntöku«. Á þrýstihylki með kveikjaragasi er tekið fram að reykingar séu bannaðar og lagt bann við að úða á eld eða glóandi hluti.

 

Skordýraeitur er merkt sérstaklega og bent á að ekki megi geyma það hjá matvælum eða öðrum neysluvörum og sérstaklega er tekið fram:

 

»Ekki má nota efnið á fólk eða húsdýr.«

 

Í samræmi við kröfu barnfóstrunnar er undirstrikað að ekki megi nota skordýraeitrið á »fleti þar sem matvæli eru unnin, matbúin eða þeirra neytt«.

 

Í bæklingi sem fylgir rafmagnssög er varað við að setja hendurnar fyrir sagarblaðið. Með sama hætti er sérstaklega tekið fram á umbúðum Súperman-búnings, að þó menn klæðist búningnum geti þeir ekki flogið. Á sama tíma og kaupandi Súperman-búningsins er upplýstur um þessa annmarka eru merkingar umbúða matvæla (í samræmi við reglur) oftar en ekki illskiljanlegar.

 

Auðvitað skaða þessar merkingar fáa. Það eru aðeins peningabuddur neytenda sem eru fórnarlömb enda greiða þeir á endanum kostnaðinn. En merkingarnar eru birtingarmynd barnfóstruríkisins þar sem byggt er á hugmyndafræði forræðishyggjunnar um nauðsyn þess að hafa vit fyrir fávísum almenningi.

 

Í skjóli forræðishyggju barnfóstrunnar hefur eftirlitsiðnaðurinn fengið að leika lausum hala. Öflugar eftirlitsstofnanir eru taldar mikilvægari en almenn löggæsla og öryggi borgaranna. Opinberu fé er því dælt í stofnanir en framlög til löggæslu eru skorin við nögl. Forgangsröðun forræðishyggjunnar er skýr að þessu leyti.

 

Á undanförnum áratugum hafa opinberar stofnanir fengið æ ríkari valdheimildir. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins (31. júlí 2013) hefur haldið því fram að margar þessara stofnana hafi »sýnt að þær kunna ekki með þær að fara«:

 

»Þær gæta ekki meðalhófs. Þær svara ekki eða eins og út úr kú athugasemdum þolendanna, sem eru hluti almennings í landinu. Gerðar eru óbilgjarnar kröfur til þeirra sem í myllu stofnananna lenda, en síðan er dregið á langinn að gera hreint fyrir sínum eigin dyrum. Eins og bent hefur verið á, þá virðist iðulega út frá því gengið að í samskiptum við slíkar stofnanir hafi sönnunarbyrðinni heimildarlaust verið snúið við.«

 

Varlega má ætla að beinn kostnaður íslenskra fyrirtækja vegna opinbers eftirlits sé 15-20 milljarðar króna á ári. Óbeinn kostnaður vegna minni framleiðni, lakari samkeppnisstöðu og skilvirkni hleypur á milljörðum.

 

Þannig rýrir ríkisbarnfóstran lífskjör almennings - skjólstæðinga sinna - á hverju ári. Á móti kemur að við erum hægt og bítandi orðin áhyggjulítil um eigin farsæld. Og tilfinningin fyrir því hvað það er að vera frjáls einstaklingur dofnar í hvert sinn sem barnfóstran breiðir út faðminn."

Hér er skýrt að orði kveðið eins og Óla Birni er tamt. Samt er hann að tala um mál sem hin dauða hönd kratismans hefur lætt inn í sálir okkar á langri ævi. Við erum ófrjáls að flestu leyti. Nema þegar farið er að tala um réttindi minnihlutahópa, homma, lesbía, hælisleitenda og lesblindra. Þá er frelsi þeirra  komið ofar öllu. 

Dæmið um forsjárhyggjuna birtist í viðirðisaukakerfinu. Í stað þess að stíga djarft skref og færa viðriðsaukaprósentuna í eitt þrep  án undantekninga, sem öll rök mæla fyrir, þá er áfram burðast með hriplekt kerfi af því að forsjárhyggju mengun hugarfarsins getur ekki hugsað öðruvísi.

Nú á að hækka matarskattinn úr 7 & í 12%. Og sagt að þetta sé 5 % hækkun í stað 71.5 % hækkunar á skattlagningu matvöru sem kemur kannski út sem 5 % á verði matarkörfunnar án vsk. Einhver hefði talið að íslenskir millifærslumeistarar færu létt með að reikna út matarbætur handa vísitölufjölkyldunni sem gæti fengið þær inn á húsnæðislánin sín eins og séreignarsparnaðinn samkvæmt ítrustu kröfum um forsjá til þess að þessu yrði ekki eytt í vitleysu. Nei, þetta er of stórt til að rúmast í meðalkrataheilanum á Alþingi Íslendinga.

Fann einhver fyrir þessum sykurskatti hans Steingríms J.? Breytti hann einhverju í bruggvenjum landans?  Vörugjöldin lækkuð? Mun almenningur taka eftir því? Hverfa ekki svona tittlingaskítir inn í verðlagið hjá þjóð í framfara-og hagvaxtarsókn?

Í skólakerfinu ríður forsjárhyggjan húsum. Ávísanakerfi Miltons Friedmanns er komið ínn í sænska skólakerfið. Foreldrarnir mega velja skóla. Einkaskólar mega græða. Hér var lokað hjá Óla í Hraðbraut fyrir það og úr grunnskólum okkar kemur enginn sem kann bæði að lesa og reikna. Ég geri það að gamni mínu að spyrja þýska krakka sem ég hitti hvað 7x8 séu. Þau svara undanteknigarlaust rétt. Prófið þetta sjálf á íslenskum grunnskólakrökkum?

Kostur má ekki selja morgunkorn sem er merkt í Ameríku. Okkur talin trú um að evrópskar kröfur séu gerðar fyrir neytendur í verndarskyni en ekki í tollverndarskyni. Og eftirlitsiðnaðurinn trúir því eftir að Alþingi fór að stimpla allt sem kemur frá ESB án þess að lesa textann.

Er ekki kominn tími til fyrir mig að hætta að trúa á jólasveininn? Hætta að að hugsa um íslenska pólitík og snúa mér að öðru svon rétt fyrir andlátið?

Forsjárhyggjan gegnsýrir allt þjóðfélagið og heldur því áfram hvað sem Óli Björn skrifar. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Halldór

Ég er alveg sammála ykkur Óla Birni.

Forræðishyggjan og eftirlitið með öllum sköpuðum hlutum  er lamandi áþján, sem dregur allan mátt úr þeim sem við þurfa að búa.

Að þurfa að kaupa sér 10-20 leyfi til að stofna smáfyrirtæki í ferðaþjónustu til dæmis og greiða svo fyrir kannski 2-5 heimsóknir einhverra plebba á ári hverju, til að líta eftir öllu heila klabbinu er auðvitað óþolandi.

Og afleiðingin er bara svört starfssemi, því menn nenna ekki að standa í ruglinu með reglugerðirnar, eftirlitið og allan kostnaðinn sem fylgir öllu kjaftæðinu.

Og í mörgum tilfellum komast góðar hugmyndir ekki á koppinn út af því að mönnum hrís hugur við báðum kostunum, bæði þeim löglega og ólöglega.

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 10.9.2014 kl. 11:16

2 Smámynd: Elle_

Já, þetta er nefnilega yfir 70% hækkun á skatti á mat.  Og það er alveg óþolandi að núverandi stjórn skuli ætla að gera þetta.  5-7% skattur á mat er yfirdrifið nóg.  Yfir 70% hækkun er níðingsskapur. 

Og það var ekki einu sinni Steingrímur, það er Bjarni Ben með nýtt kalt mat.  Það yrði allt vitlaust í sumum löndum, kannski fjölda landa, ef stjórnmálamönnum einu sinni dytti í hug að hækka matarskatt yfir 70%.

Elle_, 10.9.2014 kl. 17:09

3 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Hvar getum við komist í fjárlögin, til þess að skoða þau? Eða getum við það kannski ekki fyrr en þau eru orðin að lögum?

Var að leita að þeim í gær. Fann 2014 lögin. Skoðaði þau þá.

Allir eru að fjasa um virðisaukann - sem heitir núna allt í einu matarskattur (ég er viss um að innan fárra ára verður lagður á alvöru matarskattur), en hvað með allt hitt?

Erum við enn að borga formúgur í sendiráð og aðra slíka vitleysu?

Hvað gáfum við hryðjuverkasamtökum mikið núna?

Eftirlitsiðnaðurinn er ekkert gegnsær heldur, svo við sjáum aldrei nákvæmlega hve mikið hann kostar. En tollgæzlunni getum við flett upp.

Ásgrímur Hartmannsson, 10.9.2014 kl. 17:23

4 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Það á engin heiðarlegur,  samviskusamur maður að reka lítið fyrirtæki á Ísandi. 

Lítil fyrirtæki eru núin og nöguð af lífeyrissjóðum, stéttar félögum, betlurum og ríkisstofnunum sem hafa engan yfirboðara. 

Réttur gagnvart þessum stofnunnum er enginn án fjármuna og lögfræðinga. 

Hrólfur Þ Hraundal, 10.9.2014 kl. 21:07

5 Smámynd: Halldór Jónsson

Takk fyrir þetta öll.

Elle, það sem Bjarni hefur sagt að auðvitað yrðu menn að bæta höggið sem yrði af því að færa skattþrepin saman. kerfið yrði svo miklu auðveldara og betra ef þrepið væri bara eitt. Hugsaðu þér allt sem myndi skila sér betur því skilin yrðu svo miklu betri með lægri skattprósentu. ég er viss um að Bjarni mundi vilja kannski 17 % vask á allt án undantekninga. Hann gerir sér fulla grein fyrir því að það leggur hann ekki á fjölskyldurnar að hækka matarkörfuna kannski um 8 % á einu bretti án bóta.

Heldurðu að það sé nokkur vandi að útdeila matarstyrk eftir skattframtölunum sem gerði þessa skattabreytingu mögulega?

Halldór Jónsson, 10.9.2014 kl. 23:21

6 Smámynd: Elle_

Kannski, Halldór minn.  Kom það fram í sambandi við skattafyrirætlanirnar þó?  Það væri í alvöru nauðsynlegt miðað við yfir 70% ruddalega hækkun.

Elle_, 10.9.2014 kl. 23:40

7 Smámynd: Elle_

Kannski heitir þetta ekki formlega matarskattur, Ásgrímur, en það er alveg eðlilegt heiti, eða bara skattur á mat, það er það sem það er, er það ekki?  Hvað þýðir annars virðiseitthvað?  Guð einn veit.

Elle_, 10.9.2014 kl. 23:44

8 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Elle, það er ég viss um að innan tíðar verður lagður á matarskattur. Annar, meina ég. Í stað sykurskattsins, og til viðbótar við virðisaukann (sem eykur ekki virði neins, gerir það bara dýrara.)

Ég veðja á að næsta ríkisstjórn setji hann á fyrir þig.

Svo setja þeir sykurskattinn á aftur. Nema hærri. Og nefna hann kærleiksgjald, eða eitthvað annað ámóta gáfulegt.

Ásgrímur Hartmannsson, 11.9.2014 kl. 09:19

9 Smámynd: Halldór Jónsson

Elle mín,

71.4 % hækkun matarskattsprósentunnar er ekki nema innan við 4,67 % hækkun á matarkörfunni.112/107.9.35% ef hækkað er í 17% . Maður sem kaupir 7% vöru fyrir 200 þúsnd á mánuði borgar 18.700 meira. Ef sá sem ekki á neitt fyrir sig að leggja til að kajupa mat samkvæmt skattframtali fær sendar 18.700 kr. á mánuði þá er hann jafnsettur. Nema að allt annað verðlag hefur lækkað 6.8 %, 117/125,5. Bensín, bílar,heimilstæki, útseld vinna, júnaimit.

Halldór Jónsson, 11.9.2014 kl. 09:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 6
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 68
  • Frá upphafi: 3418293

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 65
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband