Leita í fréttum mbl.is

Einstein

Þetta einfalda og almenna gyðinganafn lætur hvern mann sperra eyrun þegar það heyrist.Það er eins og aðeins einn maður hafi borið það. Hann Albert. Reykjavíkurbréfið í Morgunblaðinu byrjar á að fjalla um þetta nafn sem er svo tengt þessum einstaka manni sem bar það. Það sem okkar vitrustu mönnum finnst eiginlega merkilegast við hannn og hans kenningar er það, hvernig í veröldinni datt honum þetta í hug? Hvernig gat hann hugsað þetta upp? Víst er að að fáir er taldir jafningjar. En bréfið er svona í heild:( Vinstri menn segja mér alltaf að enginn lesi Moggann svo ég verð að hjálpa honum Davíð til)

"Hann er nú enginn Einstein,« segja menn stundum um fjarstaddan, þegar gera skal lítið úr honum, án þess að segja beinlínis neitt ljótt, sem hafa megi eftir. Þetta fellur oft í góðan jarðveg og þeir í kring glotta á kostnað hins fjarstadda eða kinka kolli, rétt eins og þeir og snjallyrðismaðurinn séu smáafsteypur af ofurmenninu.

Menn á borð við Albert Einstein eru ekki einungis hafðir til vafasamrar viðmiðunar af þessu tagi. Í þá er vitnað ótt og títt, enda ekki lakara ef önnur rök skortir. En jafnvel þótt frómir menn og óljúgfróðir eigi hlut að, er töluverð hætta á því að með fljóti sitthvað sem Einstein og þeir aðrir hafa aldrei sagt og væri þvert um geð að tengt væri við þá. Bréfritari tekur áhættuna af því að detta í slíkan pytt. Hann þykist hafa heyrt haft eftir Albert Einstein, að áður en alltof langur tími líði frá muni mannkynið verða orðið eins á litið. Þetta átti að gerast á tiltölulega skömmum tíma. En rétt er að hafa í huga að Einstein hugsaði gjarnan í ljósárum í sinni lögmálagerð. Sjálfsagt mætti sannreyna meinta tilvitnun með því að ræsa netið til leitar. En því er sleppt. Helst þykjast menn muna að Einstein hafi talið að mannkynið myndi verða brúnleitt, svona eins og Íslendingar þrá að vera eftir 3 vikur á Costa del Sol. Einstein hefur ekki þurft flóknar formúlur til að komast að þessum niðurstöðum. Hann hefur séð að jörðin skreppur hratt saman, í óeiginlegri merkingu, og svo er það aflið, sem Einstein, með allar sínar gáfur, náði ekki að læsa í formúlu. Ástin.

 Einhver hefur kannski sent honum, í lauslegri þýðingu, ljóð Tómasar, sem upplýsir að hjörtunum svipi saman í Súdan og Grímsnesinu.

 Phileas Fogg vann frægt veðmál og ógrynni fjár, er hann komst á 80 dögum umhverfis jörðina. Það gerði Fogg að vísu án viðkomu á Íslandi, sem gerir sögu hans ótrúverðugri. Ekki Íslandsvinur, Phileas Fogg.

 En nú gæti Phileas farið umhverfis jörðina á skemmri tíma en Íslendingar fóru undan Eyjafjöllunum suður til Reykjavíkur (sem er raunar í annarri átt) og enginn nennti að veðja við hann um ferðina. Jarðarbúar lifa nú allir í næsta nágrenni og því verða aðalskipulög væntanlega færð frá sveitarstjórnum og undir Allsherjarþing S.þ. áður varir. Tvö skilyrði liggja þar með fyrir. Það fyrra að heimslýðurinn búi allur á sömu torfunni, og hitt er doktorsniðurstaða Tómasar skálds um að hjörtunum svipi saman í Súdan og Grímsnesinu.

 

Þar með er mannkynið komið í blandarann eina og sanna og kemur þaðan út ljósbrúnt og brúneygt.

 

Þar með eiga þeir sem flokka menn til góðs eða ills, gáfna eða heimsku eftir skrokklit ekki lengur í nein hús að venda. Nú þarf lítið til að hreytt sé »rasisti« í menn þegar fyrirferðarmestu kjánarnir telja sig hafa fengið síðustu töluna í bingóinu sjái þeir orðið múlatti notað eftir merkingu sinni.

 En þegar spá Einsteins hefur fullkomnast verður væntanlega skollinn á undurblíður friður.

 Sagan sýnir að þeir sem upphefja sig á kostnað fólks annarrar gerðar, þurfa ekki litinn til. Mörg dæmin má nefna. Andúðin á gyðingum víða, og ofsóknir nasista gagnvart þeim eru hrópandi. Stundum er talað um kynþáttahatur annars vegar og kynþáttafordóma hins vegar. »Fordómarnir« fela í sér afsökunarkeim. Þeir dómar eru felldir í krafti þekkingarleysis og heimsku. Kynþáttahatararnir á nasistatímunum þóttust hafa vísindalegan grundvöll fyrir sínum trylling. Kynþáttavísindi blómstruðu og háskóladeildir störfuðu undir hatti þeirra. Læknar á borð við níðinginn Mengele urðu alræmdir. En þessi ófögnuður átti ekkert erindi við vísindin. Stjórnmál, eins og þau leggjast lægst, hatur, heift og vitfirring fékk ekki dulist með skírskotun til vísinda, sem engin voru. 

Sama er að segja um kynþáttahatur á grundvelli litarhafts. Hörundsliturinn hefur ekkert með innræti manna, gáfur eða eðliseiginleika að gera. Þegar litið er til gyðinga, sem eru ekki fjölmennir í heiminum er bent á hversu margir afburðamenn á ólíkum sviðum koma úr þeirra röðum. Þeim lærðist á aldalöngum hrakningum að menntun og þroskuðum hæfileikum næðu ofsækjendur síst af fólki á flótta.

 Gætu helstu kraftakallar hitlersillskunnar litið úr gröfum sínum kæmi þeim margt undarlega fyrir sjónir. Þeir ætluðu að ærast þegar blökkumaðurinn Jesse Owens sló í gegn á Ólympíuleikunum í Berlín 1936. Á þeim árum þegar nasisminn virtist blómstra, samkvæmt óskeikulum kynþáttagreiningum var afburðamaðurinn Owens undirmálsmaður. Blökkumenn hafa löngum skarað fram úr í mörgum greinum íþrótta. Og úr ómerktum gröfum sæju foringjar herraþjóðarinnar að blökkumaður sæti í öndvegi bandarískra stjórnmála. Gyðingar þættu skara fram úr víða. Kínverjar væru á mörkum þess að verða helsta efnahagsveldi heimsins. Og Þýskaland hefði náð miklum áhrifum, virðingu og miklum fjárhagslegum styrk með því að feta hina þröngu braut lýðræðisins. Kannski færi það verst í hin gulnuðu bein að engum vísindamanni dytti í hug að kynþættir hefðu mest með þróun mannkynsins að gera. Kynþáttakenningarnar hefðu reynst gervivísindi allra gervivísinda

 

Kjánaleg hróp manna um rasisma án þess að ljóst sé hvað réttlætir meiðyrðin eru ekki til nokkurs gagns. Yfirborðs-kjag af því tagi og ógrundaðar ályktanir hafa þó ekki langtímaáhrif. Allt er sett í einn graut. Fæst stenst nokkra skoðun. Látið er eins og átrúnaður á Múhameð sé kynþáttabundinn. Heldur einhver að þeir milljarðar manna sem horfa til Jesú Krists sem haldreipi í lífsins óvissu og við kaflaskil lífs og dauða séu af einum og sama kynþættinum? Fjöldi manna er til víða um lönd sem hatast út í blökkumenn eða lítur niður á þá. Slíkir einstaklingar koma ekki eingöngu úr röðum hvítra og flestir hvítir menn hafa óbeit á þess háttar fólki. Vissulega hafa blökkumenn í Bandaríkjunum, ef litið er á þá sem hóp, ekki náð jafnlangt í lífsgæðakapphlaupinu þar vestra og hvítir menn. Þeir hvítu höfðu mikið forskot og það bil minnkaði of seint. En blökkumenn í Bandaríkjunum hafa sem hópur náð miklu lengra en blökkumenn í Afríku.

 

Bandaríkin eru enn eina heimsveldið. Forseti Bandaríkjanna er gjarnan sagður valdamesti maður í heimi. Barack Obama var kosinn forseti í góðri kosningu og endurkosinn fjórum árum síðar. Blökkumenn í Bandaríkjum eru tæp 14% þjóðarinnar. Hvítir menn eru um 78%. Kosning Obama var söguleg og hefði raunar verið óhugsandi fyrir hálfri öld, svo dæmi sé tekið. En hún tekur af öll tvímæli um að húðlitur manna hefur ekki úrslitaþýðingu í bandarískum stjórnmálum. Það gerði Bandaríkjunum gott að kjósa blökkumann sem forseta. En þeir gerðu það ekki þess vegna. Það hafði mikið gengið á í Bandaríkjunum. Óvinsæl stríð og efnahagsleg áföll. Barack Obama var einn af vinstrisinnuðustu þingmönnum landsins. Haustið 2008 voru Bandaríkjamenn einfaldlega tilbúnir til að gefa þess háttar manni tækifæri. Ekki verður endilega sagt að Obama hafi sem stjórnmálamaður nýtt tækifæri sitt vel. En það hafði ekkert með það að gera að hann er blökkumaður.

 

Kynþáttahatur er í raun ekki lengur til nema sem hluti af kynþáttafordómum. Kynþáttahatur byggist ekki á staðreyndum eða upplýstri umræðu. Það breytir engu um þetta þótt fjöldi manna hafi sig enn í frammi undir fána kynþáttafordóma.

 

Ríkisstjórnir landa sem eiga aðild að Sameinuðu þjóðunum vilja reka þá gyðinga sem búa í Ísrael á haf út. Í opinberum þjóðhátíðarræðum eru áköll um að drepa skuli gyðingana. Slíkar öfgar á að fordæma og veitast gegn þeim af hörku. En það er jafnfráleitt að forðast óþægilega þjóðfélagsumræðu með aðkasti og hrópum og reyna að þagga hana niður með vísun til eigin fordóma og hefja rasistastimpil á loft. Umræðan um samskipti Ísraela og nágranna þeirra á svo sannarlega rétt á sér. Með sama hætti og rétt er og skylt að ræða heiðarlega og öfgalaust hversu hratt ríki, stórt eða smátt, ætlar að taka á móti erlendum ríkisborgurum og þá með hvaða skilyrðum. Öfgarnar felast í því að reyna að útiloka slíka umræðu. Umræðubannið var megineinkenni stjórnmálastefnu sem fáir vilja aðhyllast nú.

 

Á löngum blaðamannafundi fyrir skömmu leitaðist Pútín forseti við að flokka vandræði Rússlands undir eðlislæga þörf vestrænna ríkja til að vængstýfa Rússa svo þeir fengju ekki að njóta sín með sanngjörnum hætti.

 

Að svo miklu leyti sem erfiðleikar Rússa eru til komnir vegna efnahagsþvingana annarra ríkja, kemst forsetinn ekki hjá því að líta í eigin barm, þótt evrópskir leiðtogar hafi vissulega haldið mjög illa á málum Úkraínu.

 

En Rússland hefði auðveldlega getað staðið af sér veikburða efnahagsþvinganir. En þegar hrun olíuverðs bættist við fauk í flest skjól. Rússland hefur byggt upp fjölbreytt atvinnulíf í sínu gjöfula landi. Olían var þeim eins og Nokia var Finnum, svo myndin sé einfölduð. Pútín lætur eins og efnahagsþvinganirnar og olíuverðslækkunin sé samræmt óvinabragð gegn Rússum. Það er fráleitt. Því miður, verður að segja.

 

Hrun á olíuverði er hættumerki þegar horft er til heimsins alls. Margir fagna, þegar verð á eldsneyti lækkar. Það gleður bílaeigendur og auðveldar fátækum að halda á sér hita á köldum vetri.

 

En olíuverðslækkunin er skammgóður vermir í þessum skilningi sem öðrum. Hún er vísbending um það, að hjól heimsins spóli í eigin fari. Tekjur munu lækka í kjölfarið. Og það er varasamt að hlakka yfir því, hvernig lækkun olíuverðs er að leika Rússa. Undir lok seinustu aldar gátu Rússar ekki greitt afborganir af skuldum sínum. Það var afleitt, en ekki til heimsvandræða. Fari svo nú, að Rússar geti ekki staðið við ríkisskuldbindingar sínar horfir málið öðru vísi við. Efnahagskerfið er miklu veikara nú, sérstaklega í Evrópu. Bankar víða í Evrópu ráða ekki við það standi Rússar ekki í skilum. Um miklar fjárhæðir er að tefla. Margföldunaráhrifin geta orðið hröð. Evrukreppan síðasta gæti orðið sem barnaleikur hjá því sem þá gerist.

 

Því er nær að reyna að ná til Rússa heldur en að hlakka yfir því að nú herðist snaran að hálsi þeirra. Fleirum gæti orðið erfitt um andardrátt

 

Aðventunni lýkur brátt og boðun hennar rætist. Jólalögin eru spiluð á öllum rásum og brátt fáum við að heyra sálmana fögru sem tengja okkur mörg góðum minningum og alúðlegu andrúmslofti.

 

Jólin eiga að vera tími samheldni og samveru. Fjölskyldan er þá í fyrirrúmi. En fjölskyldan er stærri og »gjörvöll mannkind« þarf að eiga kröfu til vonar og ljóss.

 

Íslandsvinurinn Bing Crosby raular svo notalega eitt frægasta jólalag allra tíma, drauminn um hvít jól.

 

Söngvarinn frægi á einhvern tíma að hafa sagt sem svo: »Ef við gerum ekki jólin að tilefni til að njóta sameiginlega þess, sem hefur fallið okkur í skaut, þá megnar ekki allur vetrarsnjórinn í Alaska að gera jólin okkar hvít.«"



Hér er vítt yfir farið og skarplega athugað. Það er itnað til og lagt út af Einstein. En hann var nú ekki óskeikull að honum sjálfum fannst og víst er að Einstein hafði áhyggjur af mörgu sem fram fór í heiminum á sinni tíð.  Hann fór fyrir hópi vísindamanna sem skrifuðu Bandaríkjaforseta bréf um að láta búa til Bombuna. Og fékk síðan móral að sagt var. Sem sýnir að hann var samt mannlegur einfeldningur eins og við hin þó hannn hefði ýmislegt fram yfir okkur.

Sér í lagi finnt mér athyglivert að íhuga eftir þennan lestur hvað er verið að gera okkur vegna refsiaðgerða vesturveldanna gagnvart Rússum?. Vegna einhverrar deilu um Úkraínu sem snertir okkur ekki. Væri hugsanlega sambærilegt við að einhver ráðamaður okkar hefði flutt Fiskistofu til Svalbarða í fylleríi og  menn í Kópavogi hefðu  orðið fúlir? Sérstaklega ef hávaðinn af Kópavogsbúum teldu sig  vera Íslendinga en ekki Svalbarðinga og vildu ekki flytja þessvegna þangað sem Norðmenn fara með fógetavaldið yfir Rússum? Álíka vitlaust.

Nú hitta þessar refsiaðgerðir þeirra vina okkar, sem við báðum árangurslaust ásjár í bankahruninu hjá okkur, íslensku þjóðina í bakið. Rússar geta ekki borgað makrílskuldina við okkur.  Hvað verður um makrílstofninn okkar í landhelginni eftir áramót?  Eigum við að leggja skipunum? Af hverju gjöldum við nú ekki Bretum, Bandaríkjamönnum og Þjóðverjum rauðan belg fyrir gráan og tökum upp vinsamlegri samkipti við Rússa? Eru það ekki beinir hagsmunir okkar að að Rússum sé hjálpað núna en þeir ekki barðir og hraktir? Hvernig var með hryðjuverkalögin?

Hann Albert Einstein var vissulega einstakur steinn í mannhafinu sem nær víðar en frá Súdan að Grímsnesinu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Skyldi fólk lesa Moggann meira en það vill vera láta?

Halldór Jónsson, 20.12.2014 kl. 22:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband