Leita í fréttum mbl.is

Orsök hrunsins

liggur Frosta Sigurjónssyni í augum uppi. Hann skrifað þetta í greinargerð með tillögum sínum um stjórnskipun Lýðveldisins í desember 12.12.2012. Spurning er hvort þessu máli er nægilegur gaumur gefinn.

Bankarnir vaða hér um eftirlitslaust og prenta peninga. Sumir segja að þeir stefni þjóðinni ótrauðir til annars hruns undir forystu Seðlabankans sem leyfir þeim að hækka vexti og laða þannig að aflandskrónur sem blási upp hrunbóluna.

" Umsögn til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar 12. 12 2012: 

Peningavaldið - Umsögn um frumvarp til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þingskjal 510 - Mál nr. 415.


Með peningavaldi er átt við valdið til að búa til peninga, eða ígildi peninga, og setja í umferð.

Ógætileg meðferð peningavaldsins er vafalítið ein af höfuðástæðum hrunsins og má færa rök fyrir því að ný stjórnarskrá fjalli um peningavaldið og hvernig skuli koma í veg fyrir að því verði misbeitt.

Stjórnarskrá þarf einnig að gera greinarmun á valdi til útgáfu og úthlutunar nýrra peninga en þessi tvö valdsvið mega ekki vera á sömu hendi.

Það hlýtur að teljast alvarlegur galli á stjórnarskrárfrumvarpinu að í því sé ekki gerð tilraun til að koma böndum á peningavaldið.

GREINARGERÐ

Taumlaus peningamyndun er meginorsök hrunsins
Við einkavæðingu viðskiptabankanna árið 2002 færðist peningavaldið að mestu leiti frá ríkinu til eigenda bankanna. Á næstu fimm árum ríflega fimmfölduðu einkabankarnir peningamagn í umferð. Sú aukning var gersamlega úr samhengi við vöxt þjóðartekna og afleiðingin var hrun gjaldmiðilsins.

Enn hefur ekkert verið gert til að koma peningavaldinu í skjól fyrir sérhagsmunum. Enn hafa einkabankarnir aðstöðu til að búa til peninga og ákveða hver skuli fá nýja peninga. Verði þessu ekki breytt, mun það halda áfram að bitna á landsmönnum með verðbólgu, vaxtabyrði, óstöðugleika og skuldsetningu.

Viðskiptabankar búa til ígildi peninga með útlánum
Viðskiptabankar eru í aðstöðu til að skapa ígildi peninga með útlánum. Viðskiptabanki skapar ígildi peninga með því að veita lán og afhenda lántakanda innstæðu í stað seðla. Innstæðuna býr bankinn til úr engu. Innstæðan er í raun loforð bankans um að afhenda seðla hvenær sem óskað er. Innstæðan er handhægari en seðlar og lántaki og allir aðrir líta á innstæðu í banka sem ígildi peninga, enda er hægt að nota þær til að greiða skuldir og jafnvel skatta.

Peningamyndun er skattheimta
Bankinn hagnast mjög á því að búa til ígildi peninga, því hann greiðir litla sem enga vexti á innstæðuna en innheimtir hins vegar markaðsvexti á útlánið. Íslenskir bankar hafa búið til 1.000 milljarða með þessum hætti og nema tekjur banka af vaxtamun inn- og útlána tugum milljarða árlega.

Banki sem eykur eigið fé sitt um 2 milljarða getur búið til 25 milljarða af nýjum innstæðum og lánað þær út (miðað við 8% eiginfjárkröfu). Þegar veitt eru ný lán myndast innlán sem eru nýir peningar og rýra verðgildi þeirra peninga sem fyrir eru. Innstæður í bönkum eru í minna mæli óverðtryggðar en útlán og bankar græða því á rýrnun þeirra.

Fái bankar að beita peningavaldinu í eigin þágu, er ekki við öðru að búast en þeir leggi sig alla fram um að auka gróða sinn af vaxtamun og verðbólgu, þótt það verði á kostnað alls almennings.

Alþjóðlegt vandamál
Sama fyrirkomulag peningamála er við lýði í nær öllum löndum. Peningavaldið er víðast hvar komið í hendur einkaaðila. Afleiðingin er nánast taumlaus peningaprentun. Vaxtabyrði þjóða af því að hafa gjaldmiðil sinn að láni frá einkabönkum þyngir í sífellu skuldabyrði þeirra. Svo er komið að alvarleg skuldakreppa ríkir í heiminum og á torgum stórborga safnast almenningur saman til að mótmæla ráðaleysi stjórnvalda.

Peningavaldið tilheyrir þjóðinni
Taka þarf peningavaldið frá viðskiptabönkunum og skipta því upp milli seðlabanka og ríkisstjórnar landsins.

En það nægir ekki að koma peningavaldinu til ríkisins, einnig þarf að tryggja tvískiptingu valdsins til að draga úr freistnivanda.

Seðlabanki fari með útgáfuvald peninga
Seðlabankinn gefur í dag út seðla og mynt, en þessir miðlar eru sáralítið notaðir í viðskiptum. Bankainnstæður (rafrænir peningar) búnar til af einkabönkum eru uppistaðan í peningamagni landsins. Bankar skapa peninga með útlánum og nær allt fé í landinu er myndað með þessum hætti og ber vexti sem greiðast bönkum. Þessu þarf að breyta.

Aðeins Seðlabanki ætti að hafa leyfi til að búa til peninga fyrir  fyrir hagkerfið og hann getur gert það án skuldsetningar.

Seðlabanki á að meta og stýra því hve mikið peningamagn er í hagkerfinu á hverjum tíma, út frá þjóðhagslegum markmiðum eins og verðbólgu, sjálfbærum hagvexti, atvinnuleysi og fleiri þáttum.

Ríkisstjórn fari með úthlutunarvald peninga
Í dag ákveða bankar hverjum skuli afhenda nýtt fé og til hvers það skal notað. Hagsmunir bankans ráða þar för, þótt nýir peningar rýri alla peninga sem fyrir eru í kerfinu.

Þar sem nýir peningar valda kostnaði hjá öllum almenningi, er eðlileg krafa að nýjum peningum sé ráðstafað með lýðræðislegum hætti. Ríkisstjórn er best til þess fallin og getur gert það með fjárlögum.

Nánari upplýsingar um peningavald og skiptingu þess má finna áwww.betrapeningakerfi.is

Virðingarfyllst


Frosti Sigurjónsson
rekstrarhagfræðingur"

 

Er einhver þess umkominn að segja að þetta sé rangt hjá hagfræðingnum Frosta? Ég get ekki séð að svo sé þó hugsanlega séu fleiri þættir sem ráða peningaskortinum sem er viðvarandi í þessu þjóðfélagi.

Hér eru til nógir peningar til að byggja hótel á öðru hverju götuhorni. En það er útilokað að finna peninga til að borga nýjan spítala? Það er ekki hægt að hjálpa fátæku fólki? Hvaða þá ellibelgjum? Eiga þeir síðastnefndu nokkra framfærslukröfu á núverandi samfélag þó annað sé sagt á tyllidögum? Röklega er það hæpið.

Kári heimtar nýja skatta til þess að moka 80 milljörðum ótilgreint meira í heilbrigðiskerfið. Hærri laun og meira flotterí? Hvenær mun þurfa enn meira? Því hefur Kári ekki svarað. Af hverju á að byggja flatan spítala við Hringbraut þegar betra er að byggja turn? Engin svör?

Orsök hrunsins var hélt ég að bönkunum leyfðist að slá ótakmarkað í útlöndum og lána íslenskum almenningi prentpeninga sem lögum samkvæmt mátti ekki og var dæmt ólöglegt af Hæstarétti stundum en stundum ekki. Svo var lánað ótryggt allskyns skálkum sem fóru út í heim með aurana og borguðu ekki til baka vagna vankunnáttu bankastjóranna í grunnatriðum bankafræði.Sumir þeirra eru nú látnir gjalda fyrir vanþekkinguna.

Seðlabankinn gat bundið þessar erlendu lántökur bankanna en gerði ekki. Hann er því beinlínis ábyrgur fyrir því að banksterarnir gátu komið sér og landinu á hausinn.

Þannig tapaði ég mínum 4 bönkum, Icesave og allr þeirri gargandi snilld sem það var ef rétt hefði verið að staðið. Nú eru einhverjir að reka þessa gömlu banka mína í sömu húsum, með sömu málverkin á veggjunum, sömu tölvurnar, sama starfsfólkið. Eini munurinn að ég er úti en þjófarnir, ríkið og vogunarsjóðirnir sem Steingrímur J. fyrir hönd ríkisins, skenkti Íslands-og Arajón-bankana, eru inni.

Hefðu kratarnir ekki rekið sinn venjulega svikarýting í bak Geirs H. Haarde eins og þeir gerðu fyrr við Þorstein Pálsson hefði Steingrímur J. aldrei komist til að valda þjóðarslysinu í bankamálunum.

Varla verður rýtingsstungum krata gleymt í stjórnmálasögunni. Enda telja þeir slíkt sitt aðalsmerki eins og Benedikt Gröndal lýsti flokknum. Kratar hafa yfirleitt verið vanhæfastir til vináttu í íslenskum stjórnmálum. Hviklyndið virðist samgróið kratismanum eins og við blasir í Samfylkingunni.  

Orsakir hrunsins eru sjálfsagt fleiri en Frosti tilgreinir en stjórnlaus innlend peningaprentun er áreiðanlega ein þeirra.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 3419710

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband