Leita í fréttum mbl.is

Hvert leiða lífeyrissjóðirnir?

hið íslenska samfélag?

Nú eiga 15 % af allri launaveltu samfélagsins að renna til lífeyrissjóðanna. Enginn virðist velta öðru fyrir sér en að þetta bara bæti hag ellimanna. En er það svo?

Styrmir Gunnarsson veltir upp annarri hlið peningsins sem einhverjir hafa hugsanlega hugleitt en lítt komið orðum að eða athygli fangað.Það er sem betur fer stundum hlustað á Styrmi og vona ég að enn sé svo:

Greinin er svohljóðandi fyrir þá sem aldrei lesa Mogga og leyfi ég mér að feitletra að mínum smekk:

"Bernie Sanders, öldungadeildarþingmaður frá Vermont, gerði sér áreiðanlega ekki hugmyndir um að hann kæmist svo langt sem raun ber vitni, þegar hann ákvað að gefa kost á sér sem forsetaefni demókrata í Bandaríkjunum. Hann hafði annað markmið með framboði sínu í upphafi, þ.e. að sveigja Hillary Clinton og demókrata almennt nær þeirri stefnu í þjóðfélagsmálum sem hann sjálfur berst fyrir. Og hann hefur náð árangri.

Ganga má út frá því sem vísu að sumir þeirra sem hafa boðið sig fram til embættis forseta Íslands hafi gert sér glögga grein fyrir að möguleikar þeirra væru takmarkaðir en að þeir hafi séð tækifæri með forsetaframboði til að koma ákveðnum málum á dagskrá þjóðfélagsumræðna. Þannig er vel hugsanlegt að Andri Snær Magnason hafi litið á forsetaframboð sem aðferð til að koma áherzlumálum sínum á framfæri, svo sem umhverfisvernd og verndun íslenzkrar tungu, sem hugsanlega gæti nýtzt honum síðar í annars konar afskiptum af þjóðmálum.

Augljóst er að Davíð Oddsson stefnir að því að ná kjöri sem forseti Íslands en úr ýmsum áttum heyrist það sjónarmið að hann hafi viljað fá tækifæri til að tala beint og milliliðalaust við þjóðina um hrunið og sína aðkomu að því í ljósi þeirrar þungu gagnrýni sem hann hefur legið undir í þeim efnum. Hann er byrjaður á því m.a. í athyglisverðri seríu myndbanda.

Sturlu Jónssyni vörubílstjóra hefur áreiðanlega verið ljóst að möguleikar hans til að ná kjöri væru litlir en smátt og smátt er að koma í ljós að framboð hans hefur annan tilgang en þann sem snýr að Bessastöðum. Hann hefur boðskap fram að færa, sem hann hefur unnið að af dugnaði, þrautseigju og ótrúlegu úthaldi (enda af Deildartunguætt!) sem lýsa má með þremur orðum:

Munið eftir smælingjunum.

Í gær og í dag stendur landsfundur Samfylkingarinnar. Hvers vegna er sá landsfundur nefndur til sögunnar í sambandi við framboð Sturlu Jónssonar?

Vegna þess að með framboði sínu er Sturla að minna þjóðina á að þeir þjóðfélagshópar eru enn til sem verkalýðshreyfingin var stofnuð til að berjast fyrir, og stjórnmálahreyfingar jafnaðarmanna urðu til í því skyni að verða pólitískir málsvarar þeirra hópa. Framboð hans lýsir í hnotskurn vanda Samfylkingarinnar og reyndar jafnaðarmannaflokka víða í Evrópu: Þessir flokkar hafa misst tengslin við uppruna sinn og rætur.

Þeir hafa gleymt því að þessir þjóðfélagshópar eru enn til og þeir hafa misst tengslin við verkalýðshreyfinguna, eins og Árni Páll Árnason hefur staðfest. Þeir hafa í þess stað orðið einhvers konar tæki menntaðrar pólitískrar yfirstéttar, sem hefur yfirtekið þá. Árni Páll Árnason gerði tilraun til þess í vetur að efna til umræðna á vettvangi flokks síns um þennan dýpri vanda hans en fann ekki hljómgrunn. Það er hins vegar ljóst að formannsskipti í Samfylkingunni skipta engu máli ef flokkurinn neitar að horfast í augu við og ræða sín eigin innri vandamál.

En rétt og skylt er að ítreka að Samfylkingin er ekki eini jafnaðarmannaflokkurinn í Evrópu sem stendur frammi fyrir slíkum vanda. Það á við um þá fleiri og nú síðast eru vísbendingar um að jafnaðarmenn í Þýzkalandi sigli inn í svipaða stöðu. Uppgangur flokka yzt til hægri og vinstri í Evrópu byggist m.a. á því að þeir þjóðfélagshópar sem Sturla Jónsson er að berjast fyrir leita skjóls hjá flokkum eins og Þjóðfylkingu Marine Le Pen í Frakklandi, Danska þjóðarflokknum eða Valkosti fyrir Þýzkaland. Háskólaelítunni í Samfylkingunni virðist um megn að skilja þetta, sem getur auðveldlega orðið til þess að sá flokkur þurrkist út í haust.

Verkalýðshreyfingin hér á Íslandi er líka í þeirri hættu að týna sjálfri sér. Hún er nú orðin mesti áhrifaaðilinn í stjórn og rekstri nokkurra stærstu fyrirtækja á Íslandi. Það hefur gerzt með þeim hætti að lífeyrissjóðirnir hafa tekið við því hlutverki nafnkunnra viðskiptajöfra fyrir hrun að verða svonefndir „kjölfestufjárfestar“ í helztu fyrirtækjum.

Hjá lífeyrissjóðunum er í gildi það afkáralega og úrelta fyrirbæri að stjórnir þeirra eru skipaðar af stjórnum við- komandi launþegafélaga og atvinnurekenda. Stjórnir lífeyrissjóðanna tilnefna svo fulltrúa í stjórnir þeirra fyrirtækja, sem lífeyrissjóðirnir eiga ráðandi hluti í. Þar hefur verkalýðshreyfingin áhrif til jafns við atvinnurekendur.

Þetta þýðir að þegar verkalýðsforingjar býsnast yfir launakjörum og fríðindum stjórnenda stórra fyrirtækja eru þeir að tala við sjálfa sig. Þeir eru í stöðu til að snúa þeirri þróun við. Og þeir eru í stöðu til að hafa áhrif á launastefnu fyrirtækjanna gagnvart starfsmönnum sínum. Þeir sitja með öðrum orðum beggja vegna borðs.

Og vegna þess að verkalýðsfélögin eru þar með orðin hluti af fjármálaveldinu í landinu hafa þau gleymt því að þjóðfélagshóparnir sem Sturla Jónsson höfðar til eru enn til.

Forystumenn jafnaðarmannaflokkanna á Íslandi og verkalýðshreyfingarinnar ættu að íhuga að setjast niður með forsetaframbjóðandanum og kanna hvort hann getur hjálpað þeim við að finna sjálfa sig. Raunar má spyrja hvort það gæti hugsanlega hleypt nýju lífi í Samfylkinguna að skipa Sturlu til sætis í fremstu röð frambjóðenda flokksins í næstu þingkosningum. Þessari hugmynd er varpað hér fram landsfundi Samfylkingarinnar, sem lýkur í dag til umhugsunar."

Þjóðfélag okkar Íslendinga stefnir til einhverskonar lífeyrissjóðakapítalisma. Helst svipað því og þjóðfélagsmódel olíuríku arabaríkjanna er. Óhemju auður og allt lífsblóð þjóðarinnar streymir þar í fjárhirslur konungsættarinnar. Hún ráðstafar því að eign smekk og geðþótta og virðist þá hagur smælingjanna vera lítils metin í samanburði við skíðabrekkur á lúxushótelum kóngafjölskyldunnar.Styrmir lýsir hliðstæðum áhrifum á Íslandi svo vel að þar er engu við að bæta.

 

Jafnvel Sjálfstæðismenn afgreiða þessa þróun sem hliðaráhrif gjaldeyrishaftanna þar sem þeir séu bundnir heima með peningana sína. En þeir sjá ekki hvílíkt díki spillingar blasir við í framhaldi íslenska lífeyrissjóðakerfisins sem ekki gefur Saud-fjölskyldunni hið minnsta eftir.

Styrmir á mínar þakkir fyrir þessa snörpu greiningu á eðli vandans sem við stöndum frammi fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórir Kjartansson

Fáir eru gleggri í þjóðfélagsrýninni en Styrmir. Sammála hverju orði sem þarna er sagt um lífeyrissjóðina.

Þórir Kjartansson, 4.6.2016 kl. 17:33

2 identicon

Sæll og blessaður Halldór Jónsson

Ég minni á að SALEK samkomulagið verður aldrei samþykkt án stuðnings núverandi ríkisstjórnarflokka, já Sjálfstæðisflokksins, helsta pilsfalda- og alræðisflokks landsins.

Er ekki ráð að gamlir íhaldsmenn taki nú Bjarna Ben á hné sér og rassskelli SALEK srengjabrúðuna rækilega?

Svo finnst mér furðulegt að Styrmir vilji endilega að sá ágæti baráttumaður sjálfstæðra manna (í orðsins fyllstu merkingu þess orðs), Sturla Jónsson verði frambjóðandi helferðarfylkingarinnar.  Nær væri að Styrmir hefði kappkostað að mæla með Sturlu til framboðs í Sjálfstæðisflokknum.

Virðingarfyllst

Dr. Símon Jónsson

Dr. Símon Jónsson (IP-tala skráð) 4.6.2016 kl. 22:16

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Frá hvaða skóla og í hvaða fagi ertu doktor Símon?

Halldór Jónsson, 5.6.2016 kl. 13:52

4 identicon

Sæll Halldór.

Fyrir skemmstu spurðist þú fyrir
um þýðingu á orðinu Schadenfreude.

Hygg að orðið meinfýsi standi því næst
að teljast boðleg þýðing þess.
Orðið illgirni má nota líka en er þó
síðra hinu fyrra.

Í einstaka samböndum í þýzku getur
Schadenfreude haft svipaða merkingu og orðið
kaldhæðni en engan veginn á það við í því
tilfelli sem þú spurðist fyrir um.

Húsari. (IP-tala skráð) 6.6.2016 kl. 12:54

5 Smámynd: Halldór Jónsson

Já, ég held að meinfýsni nái því best

Halldór Jónsson, 6.6.2016 kl. 19:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 3419712

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband