Leita í fréttum mbl.is

Hæstiréttur dæmdi ekki um neyðarbrautina

heldur hvort tveir einstaklingar, löglega kosnir, mættu gera samning sín á milli um ráðstöfun verðmæta og ekki fæli í sér saknæman verknað.

Hæstiréttur var ekki að dæma um hvort neyðarbraut væri nauðsynleg eða ekki. Fyrir hann er lögð skýrsla verkfræðistofunnar EFLU sem kemst að þeirri niðurstöðu að brautin sé óþörf að teknu tilliti til gefinna forsenda. Á þeim grundvelli sér Hæstiréttur ekki annmarka á að þessir tveir einstaklingar versli sín á milli og óþarfri neyðarbraut skuli þar með lokað. Hæstiréttur er ekki að skoða verslunarhagsmuni einstaklinga sem tengjast málinu með all-áberandi hætti og hefðu vakið spurningar um vanhæfi víða ef upp hefðu komið. En þetta kom ekkert að dómborðinu og kemur málinu ekkert við.

Það sem kemur málinu við að EFLA skilar skýrslu sem vísindalega er talin vafasöm. Hennar verkfræðilegi heiður er auðvitað í veði ef einhvern tímanna væri farið vísindalega ofan í málið. Tengsli EFLU við hagsmunaaðila eru svo annar þáttur sem er langt í frá ekki hafinn fyrir gagnrýni. 

Jóhannes Loftsson skrifar rökfasta grein  í Morgunblaðið í gær.

Hann segir:

"Eitt eftirminnilegasta atriði Monty Python grínaranna hefst með því að húsráðandi kemur til dyra og mætir þar tveimur embættismönnum. Embm.: Góðan daginn. Getum við fengið lifrina þína? Húsr.: Hvað? Embm.: Lifrina, það er stórt líffæri í kviðarholinu þínu? Húsr.: Ég veit hvað lifrin er, en ég er eiginlega að nota hana. Embm.: En þú ert búinn að skrifa upp á viljayfirlýsingu um lifrargjöf, og við viljum fá hana núna. Húsr.: En ég þarf hana til að lifa. Embm.: Engar áhyggjur, það hefur enginn lifað af lifrargjafaaðgerð hjá okkur fram að þessu. Eftirleikurinn varð síðan blóðugur. Oft er því kastað fram að listin endurspegli raunveruleikann, en aldrei grunaði mann að það ætti við um þennan svarta húmor.

Það á nefnilega að fara að fjarlægja neyðarbraut Reykjavíkurflugvallar sem enn verið er að nota. Bara á fyrstu fimm mánuðum síðasta árs þurfti sjúkraflugið að lenda á brautinni 16 sinnum. Brautin er einnig mikilvæg öryggi allra minni flugvéla auk björgunar- og leitarflugs, sem oft er farið við erfiðar veðuraðstæður.

Flest venjulegt fólk skilur að þegar öryggisþjónusta er skert þá er lífi fólks stofnað í hættu. Í áhættumatinu sem unnið var vegna fyrirhugaðrar lokunar brautarinnar voru þessir stærstu áhættuþættir hins vegar undanskildir, sem eru hreint óskiljanleg vinnubrögð því áhættumat án tillits til stærstu áhættuþátta er ekki pappírsins virði.

Veifandi þessu ónýta plaggi og viljayfirlýsingu fyrrverandi innanríkisráðherra, þá hefur núverandi borgarstjórn gengið fram af mikilli óbilgirni til að knýja á um að neyðarbrautinni verði lokað strax í haust.

Puntlýðræði valdaelítu

Það sem er hvað undarlegast við þessa framgöngu alla er að um 70% borgarbúa og 80% landsmanna vilja halda Reykjavíkurflugvelli í óbreyttri mynd. Enn merkilegra er að þar sem lokunin kemur til með að skerða heilbrigðisþjónustu landsbyggðarinnar varanlega, þá má í raun segja að lokun brautarinnar stríði gegn tveimur stærstu undirskriftasöfnunum í sögu lýðeldisins: Undirskriftasöfnuninni sem Hjartað í vatnsmýrinni stóð fyrir og nýlegri undirskriftasöfnun um eflingu heilbrigðiskerfisins. Hvað varð um lýðræðið? Hvernig stendur á því að valdhafar í borginni hlusta ekki á almenning í þessu mikla hagsmunamáli? Athyglisvert er að við stjórnartaumana í Reykjavík eru sömu flokkar og hvað mest hafa talað fyrir að festa eigi þjóðaratkvæðisákvæði í stjórnarskrá. Þessi lýðræðisást þeirra virðist þannig eitthvað valkvæð, og hverfur um leið og þeir halda sjálfir um stjórnartaumana. Lýðræðishjal sem er blekkingar einar.

Varnarleysi var ekki besta vörnin

Frededric Bastiat sagði eitt sinn að það versta sem gæti komið fyrir góðan málstað væri ekki það að fá óvægna gagnrýni, heldur að vera varinn af vanhæfni Þessi aðvörun kemur ofarlega í huga þegar Reykjavíkurflugvallardómsmálið er skoðað. En við málsvörn gleymdist að taka fram að áhættumatið undanskildi áhrif lokunar á sjúkraflutninga. Þar gleymdist að benda á að eitt að- alsönnunargagn ákæranda var skýrsla sem var það óskiljanleg að yfirferðaraðilinn neitaði að rýna hana.

Þar gleymdist að benda á að eini nothæfistuðullinn sem rétturinn fjallaði um uppfyllti engan veginn kröfur íslenskra reglugerða þar sem hann var reiknaður fyrir ranga stærð flugvéla og tók hvorki tillit til skyggnis né almennra brautarskilyrða eins og ísingar. Þar gleymdist að nefna að allar veðurforsendur áhættumatsins byggðust á mildasta og stilltasta veðurtímabili frá upphafi mælinga. Eins gleymdist öll efnisleg gagnrýni á orðalag viljayfirlýsingarinnar sem dómsmálið fjallaði um. En nú er dómur fallinn og því of seint að deila á þennan vitleysisdóm.

Það sorglega við þetta mál er að þótt íslenska ríkið hafi verið var ákært í málinu, þá var í raun verið að rétta yfir sjúklingum sjúkraflugsins. Dómurinn gæti reynst dauðadómur því hann gæti haft áhrif á hátt í 30 sjúkraflutninga á ári. Það er síðan algjört met í tilætlunarsemi að ætlast eftirleiðis til þess að sjúkra-, björgunar- og leitarflugmenn þurfi að taka enn meiri áhættu í starfi sínu en þeir þegar gera. Hvernig á flugmaður að velja á milli þess að reyna hættulega lendingu eða snúa við með sjúkling í lífshættu? Þetta skilningsleysi valdaelítunnar á kringumstæðum venjulegs fólks er algjör siðblinda. Í stað þess að yfirvöld séu þjónn fólksins þá er valtað yfir hagsmuni almennings með blekkingum og yfirgangi.

Hvað er til ráða?

Enn er von, því Alþingi getur gripið inn í með lagasetningu, sem festir völlinn í sessi eða leitar álits þjóðarinnar, t.d. samhliða næstu alþingiskosningum. Viðleitni Alþingis fram að þessu hefur þó ekki verið neitt til að hrópa húrra yfir. Það vill hins vegar þannig til að á næstu mánuðum þarf Alþingi að endurnýja umboð sitt.

Ætlar ríkisstjórnin virkilega að láta það verða sitt síðasta verk fyrir kosningar að gera ekkert meðan heilbrigðisþjónusta landsbyggðarinnar er skert á þennan hátt?

Til að Reykjavíkurflugvöllur verði að kosningamáli þá þarf fólk að láta sína kjörnu fulltrúa vita að afstöðuleysi í þessu máli er ekki lengur ásættanlegt. Aðeins þannig má koma í veg fyrir skemmdarverkið."

 

Ég verð að taka undir með höfundi. Hæstiréttur var ekki að dæma um tæknimál heldur samningsrétt. Hann var heldur ekki að dæma um tilvist flugvallar. 

En ég ætla að segja það, að það verður á brattan að sækja hjá mér fyrir hvert þingmannsefni sem situr á þessu þingi að biðja mig um styrk, hafi sá hinn sami ekkert gert í að vernda Reykjavíkurflugvöll og verið búinn að lofa því áður. Svikahrappa kýs ég ekki vegna þessa máls og Júdasa þar af síður.

Það skuluð þér vita allir þingstaular að gagnvart mínu atkvæði skjótið þér yður ekki með afstöðuleysi á bak við þennan Hæstaréttardóm.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi stutta aukabraut, sem framsókn gaf nafnið neyðarbraut í kosningabaráttunni, stóð að mestu ónotuð og gleymd í fjölda ára. Það var ekki fyrr en farið var að tala um að loka henni sem áhugasamir flugáhugamenn fóru að nota hana í tíma og ótíma. Með því átti að sanna gagnsemi hennar og nauðsyn. Virkaði ekki og brautinni verður lokað öllum að skaðlausu.

Davíð12 (IP-tala skráð) 10.7.2016 kl. 00:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 3419714

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband