Leita í fréttum mbl.is

Reykjavíkurbréf

eftir óþekkta höfundinn Á Mogganum er beinskeytt og rökvíst að vanda. Þar sem vinstri menn og lesendur Fréttablaðsins lesa ekki Mogga set ég það hér og feitletra fyrir þá leslötu af mínum hætti:

"Það vottar fyrir kosningahug hjá ýmsum, enda ljóst að annaðhvort verður gengið að kjörborði næsta vor, svo sem eðlilegast er, eða í vetrarbyrjun.

Kjósa að kjósa ekki

Síðustu borgarstjórnarkosningar, þátttaka í prófkosningum af ýmsu tagi og ólund yfir kosninga óðagoti benda til þess að kjörsókn kunni að verða dræm. Þeir eru þó til sem segja engan eðlismun á því hvort fleiri eða færri kjósi. Aðalatriðið sé að allir eigi kost á að kjósa. Um það snúist lýðræðið. Hvort menn vappi á kjörstað eða inn á Víðihlíð í staðinn sé útfærsla en ekki inntak. Mætingarleysið sýni afstöðu rétt eins og mætingin.

Bréfritari þráttaði um þetta atriði við vitran mann og benti honum á að lýðræðið væri fágæti. Þess vegna væru þeir enn til sem færu í lagningu eða klæddu sig upp á á kjördag. Sjálfur færi bréfritari t.d. alltaf í fermingarfötin sín og greiddi sér jafnvel áður en hann færi á kjörstað.

En hinn sjálfskipaði Sókrates sló hann út: Þú getur bæði farið í lagningu og puntað þig og samt sem áður ekki mætt. Það væru raunverulega enn meiri skilaboð en hitt. Ekki voru þessir fimleikar umræðunnar sannfærandi. Hin aðferðin er nær, að mæta á kjörstað, uppstrílaður eða í lörfum, og skila auðu. Það ætti að vera nær skilaboðum en fjarveran ein, enda hafa þeir jafn mikið fyrir lífinu, sá sem kýs og hinn sem skilar auðu.

Beint lýðræði í æð

Ýmsir segja „beint lýðræði“ betri kost en fulltrúalýðræði. Það hljómar sennilega. En er það endilega víst? Fæst mál eru þannig vaxin að já eða nei sé svarið við þeim. Icesave var það. Það fjallaði um eina grundvallarspurningu. Á almenningur að taka ábyrgð á gjörningum sem hann kom aldrei að? Icesave er eina málið í 72 ára lýðveldissögu þar sem forseti hefur sett sig gegn ríkisstjórn og þingmeirihluta. Um það var kosið tvisvar, svo ríkur var brotavilji stjórnarherranna.

Án minnstu athugunar má kannski gefa sér að Alþingi hafi samþykkt 5.000 lög þessi 72 ár. Forsetinn hefur haft synjunarvaldið allan þennan tíma. Fjölmörg af þessum þúsundum laga þingsins hafa verið umdeild og sum beinlínis illa þokkuð af fjölda manns. Sárasjaldan hafa menn borið sig upp við forsetann sinn að segja nú nei.

Og aðeins hefur verið kosið um eitt mál. Hvar var hann þá, þessi mikli áhugi fyrir beinu lýðræði?

Flugvöllurinn í Reykjavík er umdeilt álitamál. Stofnað var til atkvæðagreiðslu á meðal borgarbúa (og aðrir íbúar landsins hunsaðir) og verulegum fjármunum veitt í kynningu. Þátttakan í þeim kosningum varð léleg og óbindandi samkvæmt reglum um kosninguna. Mjög mjótt var á munum þeirra sem þó höfðu sig á kjörstað og örlítið fleiri þeirra sem þó kusu vildu samþykkja brottflutning flugvallarins.

Þáverandi borgaryfirvöld sögðu yfirlætislega að þrátt fyrir dræma þátttöku og fyrirliggjandi reglur um að niðurstaðan væri óbindandi teldu þau sig samt „siðferðilega“ bundin af niðurstöðunni. Fátt siðlegt við það? Langflestir sáu í gegnum snakkið um siðferðisþroskann. Framganga þessara borgaryfirvalda var kunn. Menn vissu að hefði hin nauma niðurstaða orðið á annan veg hefðu viðbrögðin orðið það líka. Þá hefði réttilega verið sagt að niðurstaðan væri óbindandi. Þátttakan að auki til þess fallin að taka lítið mark á úrslitunum. Það er jafn mikið stjórnsýslulegt brot að ganga á svig við bindandi niðurstöðu og að tilkynna að niðurstaða sem að réttum reglum var óbindandi yrði samt talin bindandi.

Minnti þetta óþægilega á viðbrögðin þegar kosning um spurningaleik í anda hugmynda ólögmæts stjórnlagaráðs náði ekki að vekja nægilegan áhuga kjósenda. Sumir sem tengdust því máli hafa síðan verið uppi með furðufuglasjónarmið um það að marklausi spurningaleikurinn þýddi að Alþingi hefði ekki heimild (væntanlega frá furðufuglunum) til að fjalla um stjórnarskrármál öðruvísi en ólögmæta nefndin hefði gert.

Önnur áhrif

Yrði það hins vegar ákveðið að flest mál sem einhverju skiptu skyldu fara í þjóðaratkvæði væri fróðlegt að sjá áhrif þess á kosningar til Alþingis. Líklegt er að kosningaþátttaka hrapaði niður á plan Evrópuþingskosninga. Það er ekki aðeins að talað sé fyrir „beinu lýðræði“ um allt sem einhverju skipti.

Hinir sömu virðast sannfærðir um að allir skuli kjósa rafrænt og helst að heiman frá sér, enda sé það sennilega forsenda fyrir beinu lýðræði. Það skrítna er að þeir sem trúa því að þjóðin þrái beint lýðræði óttast líka að hún nenni ekki að taka þátt í því, þurfi í hvert skipti að verja hálfri klukkustund frá tölvuleikjunum til að taka þátt í því.

Talsmenn Pírata, eins stærsta stjórnmálaflokksins, sem nærast á neti og niðurhali, sýndu óvenjuleg tilþrif á dögunum. Þeir segja hreint út að rafræn kosning geti aldrei verið „fullkomlega leynileg“, sem er eftirtektarverð yfirlýsing og gæti verið rétt. En Pírötum þykir það engu skipta. Þeir gengu raunar lengra og gáfu þjóðinni sýnishorn.

Þeir skoðuðu, án þess að ræða það við frambjóðendur eða kjósendur, feril rafrænna kosninga í sínum eigin ranni. Þeir töldu sig finna út hver hefði kosið hvern og þannig sannað „18 manna smölun“.

Varla hefur þetta atferli verið í samræmi við lög.

Hið villta vestur

En í þessu samhengi er fróðlegt að horfa til Bandaríkjanna. Þar eru kosningar framkvæmdar með fjölbreyttum hætti og ólíkt því sem Íslendingar eiga að venjast. Þar er jafnvel pólitískt ágreiningsefni hvort skylda megi fólk til að sýna persónuskilríki áður en það fær gildan kjörseðil í hendur. Demókratar berjast gegn og repúblíkanar með. Í öðru lagi er sums staðar kosið með rafrænum vélum á kjörstað og fullyrt er að með einföldum búnaði, sem kosti aðeins 50 dollara, geti menn auðveldlega tengt sig við kosningavélina og kosið nokkrum sinnum án þess að nokkur merki þess sjáist.

Svo eru póstkosningar sem lúta ekki sömu ströngu formreglum og utankjörstaðakosning á Íslandi. Og loks eru það beinar rafrænar kosningar. 

Fyrir nokkru hélt Donald Trump því fram að stæði hann ekki uppi sem sigurvegari á næstu kosninganótt þýddi það að átt hefði verið við úrslitin.

Einhver hefur hugsað sem svo, hér á norðurevrópskum slóðum: „Það sem getur oltið upp úr manninum.“ En annað hefur komið til, sem vekur upp spurningar.

Daginn fyrir flokksþing Demókrataflokksins birti WikiLeaks tölvupósta sem þóttu sanna að flokksmaskínu flokksins hefði verið skipulega beitt gegn Bernie Sanders og í þágu Hillary Clinton. Þessu hafði Sanders haldið fram en forystan staðfastlega neitað. Tölvupóstarnir sýndu að grunur Bernie var réttur.

Í fyrstu var reynt að skrökva sig frá vandanum en það dugði skammt og formaður flokksins hraktist úr embætti. Demókratar voru forðum aðdáendur lekara, t.d. í Watergate, en ekki núna. Þess var krafist að alríkislögreglan klófesti hakkarana.

Færist fjör í leik

Fljótlega varð sá orðrómur sterkastur að hakkararnir væru á vegum Pútíns forseta Rússlands, þótt engar beinar sannanir hafi fundist. Það var heppilegt fyrir FBI, enda ekki auðvelt að klófesta Pútín. Demókratar bættu um betur og gerðu því skóna að Pútín hefði ekki verið einn að, heldur verið í einhvers konar makki með Donald Trump.

Pútín er klókari en svo að vera í makki með Donald Trump, manni sem gat ekki einu sinni þagað yfir því að hann hefði keypt Clinton-hjónin til að sitja brúðkaup sitt fyrir 300.000 dollara (rúmar 40 milljónir króna). Meira vit hefði verið í samsæriskenningu um að Pútín hakkaði í makki við gamla sovétvininn Bernie Sanders. Hann var jú fórnarlambið sem misnotkun flokksskrifstofunnar beindist að.

Pútín mikli

En í framhaldinu hafa blossað upp kenningar sem ábyrgir áhrifamenn í Washington hafa tekið upp á sína arma, um að veruleg hætta sé á að Pútín (nema hvað) muni láta hakkara brjótast inn í kosningakerfi Bandaríkjanna, eða í það minnsta þann hluta þess sem sé tölvuvæddur. Jafnvel þótt þessum hökkurum óvinaríkis tækist ekki að breyta úrslitum eða brengla þau verulega gætu þau laskað illa almennt traust Bandaríkjamanna á lýðræðislegum kosningum. Tækist það yrði sá skaði óbætanlegur.

Yfirmaður leyniþjónustunnar CIA hefur látið málið til sín taka og fullyrt er að Obama forseti hafi áhyggjur og hafi því tekið málið upp við Pútín starfsbróður sinn á leiðtogafundum G-20 ríkjanna í Kína nýlega. Í umræðum um þessi mál hafa sérfræðingar fullyrt að komi upp orðrómur sem ekki takist að kveða niður um að niðurstaða rafrænna kosninga hafi verið brengluð af skemmdarverkamönnum sé varla nokkur leið að sannreyna. Þeim og Pírötum ber því saman.

Gamla aðferðin að fara yfir hvert pappírsatkvæði aftur sé ekki lengur fyrir hendi.

Fátt er svo...

En þótt rafrænar kosningar hafi þennan ókost má ekki gleyma því að með þeim tekst að eyðileggja kosninganóttina endanlega fyrir almenningi. Óþarft verður með öllu að hafa mann í því að vekja þá Ólaf og Boga, því að hægt verður að senda úrslitin beint í síma hvers og eins og geta því allir ótruflaðir haldið áfram leit sinni að Pókemon, sem nú er helst talið að kunni að vera í framboði fyrir Pírata.

Margt bendir til að kosninganóttin sé það fyrirbæri sem helst stafi enn einhver lýðræðisleg spenna frá. Þegar hún verður frá munu fleiri gleyma því að fara á kjörstað. Spekingar segja að það geri ekkert til, því að söm séu skilaboð kjósenda. En svo eru þeir til sem halda því fram að áhugaleysið stafi af því að það vanti mun. Það vanti hugsjónir, baráttu og líf.

Í því sambandi er fullyrt að jafnvel KR-ingar myndu hætta að fara á völlinn ef þar hlypu 22 keppendur um í röndótta búningnum og ákveðið hefði verið að ekki skipti máli á hvaða mark væri skotið, því að þess háttar átakafótbolti væri úr sér gengið háttarlag. En þó gæti vissulega komið á móti ef viðurkennt væri að enn væri nokkur eftirspurn eftir fallegum mörkum og þess vegna myndi jafnréttis- og mannréttindaráð borgarinnar, í samráði við siðaregluvörð hennar, umsjónarmann Gleðigöngu og næturvörð Menningarnætur, úthluta mörkum í leikslok, í samræmi við uppfærðan kynjakvóta í Vesturbænum og meðalhraða á Hofsvallagötunni.

Þegar yfirvöld hefðu lagt svo mörg mörk af mörkum ættu menn að geta tekið gleði sína á ný. Heyrst hefur að Bjarni Fel hafi enn sínar efasemdir.

Aðrir halda að Pútín sé á bak við þetta. "

Þarna er á rökvísan hátt farið yfir þau rök sem eru gegn síbyljunni á Útvarpi Sögu og í Fréttablaðinu om beint lýðræði. Fyrrum ritsjóri Morgunblaðsins virðist mér stundum eitthvað hallur undir þessar hugmyndir, hugsanlega án þess að velta göllunum, og sérstaklega á rafrænum kosningum,  nægilega fyrir sér. Rekjanleiki pappírskosninga á kjörstað hefur er óumdeilda kosti fram yfir aðrar atkvæðagreiðslur.

Höfundur rifjar upp hvernig Píratar framkvæma lýðræðið í rafrænu kosningum til að endurraða upp niðurstöðum prófkjöra. 

Þetta Reykjavíkurbréf er svo sannrlega orð í tíma talað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 11
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 74
  • Frá upphafi: 3418435

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 69
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband