Leita í fréttum mbl.is

Dýrkeypt della

er CO2 fælni íslenskra stjórnvalda. Þau hlaupa eftir gervivísindum Al Gore og múgsefjun sem hann hefur átt þátt í að útbreiða og síðast með skelfilegum afleiðingum á Parísarráðstefnunni sem teymdi okkur fram af hengifluginu í heimsku.

Jóhannes Lofsson verkfræðingur skrifar afburða grein um afleiðingar dellunnar dýrkeyptu í Morgunblaðið í dag sem enginn má láta framhjá sér fara. Greinin heitir Hver gætir hagsmuuna Íslands. Sem er eðlileg spurning í ljósi þess sem sést á meðfylgjandi línuriti Jóhannesar sem sýnir örsmæðaráhrif útblásturs Íslands á þessu byggingarefni alls lífs á jörðinni CO2.

 Jóhannes segir:

"Nýlega kynntu sex ráðherrar vinnu við aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar til að stöðva hlýnun jarðar. Hefja á átak í að aka um á rafbílum, breyta á gróðurlandi í mýrar og villiskóga og hafa útlenskt skattheimtukerfi á íslensk fyrirtæki. Engin plön eru þó uppi um að endurskoða rammaáætlun og virkja meira heldur er stefnt að því að breyta hálendinu í þjóðgarð.

 

Dýr rafbílavæðing

 

Rafbílar eru öflug undratæki, en hafa þó þann galla að nota rafmagn. Rafmagnsnotkun þeirra er ekkert öðru vísi en öll önnur rafmagnsnotkun á Íslandi. En þar sem íslensk rafmagnsframleiðsla fer fram með endurnýjanlegum orkugjöfum (en ekki kolum), þá draga íslenskir rafbílar úr CO² losun Íslands. Áhrif CO² eru hins vegar hnattræn og því gildir sama um allan íslenskan orkufrekan útflutningsiðnað. Íslensk álver eru t.d. vegna vatnsorkunnar með 9 sinnum minni CO²-losun en meðalálver úti í heimi. Stóri munurinn á rafbílavæðingu og stóriðjunni er stærðargráðan. Á meðan álverið í Reyðarfirði er að nýta 650 MW af endurnýjanlegri orku, þá mundi rafbílavæðing 10% bílaflotans ekki þurfa nema 10 MW. Áhrif rafbílavæðingar á heildarútblástur eru því hverfandi.

 

Í ljósi þessa er áhersla yfirvalda á rafbílavæðingu Íslands sem alheimslausn afar undarleg. Lágmarkskrafa áður en farið er í slíkt átak er að skoða kostnaðinn. Í dag eru rafbílar undanþegnir bæði vörugjöldum og virðisauka, auk þess sem enginn skattur er á hleðslurafmagninu. Fyrir 4 milljóna króna bíl þýðir þetta um 4 milljóna skattaafslátt fyrsta áratuginn. Ef um 10% fólksbíla fengju slíka skattameðferð yrði heildarupphæðin um 100 milljarðar. Það verður að teljast nokkuð vel í lagt að búa til 10 MW orkunotkun fyrir verðmiða sem slagar hátt í kostnað Kárahnjúkavirkjunar (650MW).

 

Er það nú orðið hlutverk ríkisins að fjármagna rándýran bílahobbíisma eða miðar þessi sóun kannski frekar að því að veita syndaaflausn loftslagssynda þar sem þjáning skattgreiðenda vegur þyngra en raunveruleg gagnsemi aðgerða.

 

Villiskóga- og mýrargerð

 

Skógrækt er göfug tómstundaiðja en áhrifalítil sem lausn á loftslagsvanda. Rækta þarf um 150 ferkílómetra af skóglendi til að ná samsvarandi kolefnisbindingu og 10 MW vatnsaflsvirkjun gefur í útblástursminnkun. Þetta er glórulaus sóun.

 

Þótt »endurheimt votlendis« hljómi vel, þá er nafngiftin orwellsk því aðferðin felur í sér að eyðileggja land. Að borga bændum fyrir að eyðileggja landið sitt, er ekki bara niðurlæging fyrir þá, heldur afturför sem stríðir gegn heilbrigðri skynsemi. Tilgangsleysi sóunarinnar skein best í gegn þegar átakið hófst við að fyrrverandi umhverfisráðherra og fyrrverandi forseti brugðu sér út á hlað við Bessastaði og fóru að moka í uppþornaðan skurð og breyta framtíðarbyggingarlandi höfuðborgarsvæðisins í mýri. Þessi tvö höfðu greinilega ekki heyrt af lóðaskortinum sem herjar á aðra höfuðborgarbúa.

 

Hagkvæmustu verkefnin hindruð

 

Virkjanir á hreinni orku eru ekki bara arðsamar, heldur líka afar áhrifamikil leið fyrir Íslendinga til að hafa raunveruleg áhrif á CO² útblástur heimsins. Slík skynsemi virðist þó vefjast fyrir mörgum stjórnmálamanninum. Í síðustu rammaáætlun var fjöldi virkjanakosta að óþörfu settur í biðflokk og aðra risakosti má ekki skoða vegna nálægðar við þjóðgarða, sem fara sífellt stækkandi.

 

Íslensk álver eru síðan, þrátt fyrir sinn gríðarlega útblásturssparnað, látin greiða stórar upphæðir í mengunarkvóta á meðan mengandi samkeppnisaðilar í þróunarríkjum sleppa. Sama kvótakerfi er á útblæstri flugvéla milli Íslands og Evrópu og án þess að tillit sé tekið til hversu óhagstætt slíkt sé fyrir þjóð þar sem langar flugleiðir eru í allar áttir.

 

Vísindi en ekki trúarbrögð

 

 

Það er engin skynsemi í stefnumörkun stjórnvalda í þessu máli og aðgerðir virðast frekar einkennast af trúarsannfæringu en að einhver rökhugsun liggi að baki. Loftslagsvísindi eru gríðarflókin og menn eiga enn langt í land með að skilja þau til fulls. Reiknilíkönum tekst t.d. illa að skýra náttúrulegar hitasveiflur fyrri alda og mögulegt er mannlegi þátturinn (þ.e. CO²) sé stórlega ofmetinn. Stórar langtímahitasveiflur hafa nýlega verið í hámarki og eru við að detta (eða dottnar) í kaldari fasa. El Niño er nýlokið, áratuga sjávarstraumasveiflur í Norður-Atlantshafi og Kyrrahafi eru við að fara í kaldari fasa og sólvirknin fer minnkandi. Ekki er því útilokað að bráðlega þurfi að leiðrétta spálíkönin. Allt á þetta eftir að koma í ljós.

 

Það ætti að vera forgangsmál fyrir Íslendinga að reyna að fá aukinn kvóta til að auðvelda uppbyggingu grænnar stóriðju, því nóg er eftir af orku. Slíkt ætti ekki að vera tiltökumál fyrir viðsemjendur, því það er allra hagur að heildarlosun minnki. Samhliða verður að halda öfgum úr Rammaáætlun þannig að arðsemi sé metin að verðleikum og góðum virkjanakostum sé ekki ýtt út af borðinu að tilefnislausu. Afar óeðlilegt er að Ísland sé að taka þátt í skattheimtukerfi á flug, ef við komum verst út úr því af öllum þátttökuþjóðum.

 

Þeir sem semja fyrir Íslands hönd eiga skilyrðislaust að gæta hagsmuna Íslands og aldrei fórna þeim fyrir annarlegar friðþægingarþarfir."

 

"

Þeir sem vilja kynna sérvísindaleg rök fyrir áhrifum CO2 á óverulega hnattræna hlýnun skal enn á ný bent á grein Ágústar H. Bjarnason rafmagnsverkfræðings i dreifbýlisblaðinu Sámi fóstra sem út kom í 37.000 eintökum nú í apríl.

Þar veltir Ágúst upp spurningunni um hvað sé rétt hitastig jarðar, hvort það hafi verið rétt á litlu ísöldinni, Maunder Minimum,  sem hófst um 1450 og lauk ekki fyrr en eftir 1920 og hafði þá staðið í mörg hundruð ár og valdið þjóðflutningi Íslendinga til Vesturheims á nítjándu öldinni og hungursneyðum um allan heim, var það rétt við landmám Íslands eða á tímum risaeðlanna fyrir tvö hundruðog fimmtíu milljón árum? Er það réttara núna eða minna rétt? Jörðin er orðin öll grænni og gefur meira af sér af fæðu með hækkandi hitastigi meðan maðurinn breytir matvælum í etanól til að blanda í bensínið sem veldur hungri í Afríku og er bein afleiðing af dellutrúboði Al Gore og hans nóta.

Jóhannes Loftsson á þakkir skildar fyrir að setja ráðstafanir stjórnvalda okkar í tölulegt samhengi við Kárahnjúkavirkjun og sýna okkur svart á hvítu hversu óralangt stjórnvöld séu frá því að skilja hið stóra samhengi hlutanna og hvaða afleiðingar þessi dýrkeypta della er að hafa á efnahag okkar Íslendinga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

http://media.breitbart.com/media/2017/05/dt170514.jpg

Ásgrímur Hartmannsson, 15.5.2017 kl. 16:38

2 Smámynd: Jóhannes Loftsson

Takk fyrir að deila greininni og vekja athygli á þessari dellu. Datt reyndar út smá miðkafli hjá þér, sem er svo sem í lagi.

Jóhannes Loftsson, 15.5.2017 kl. 22:28

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Bið margfaslds forláts Jóhannes á hroðvirkninni, ég skal gera leiðréttingu ef þú sendir mér línurnar.

Halldór Jónsson, 17.5.2017 kl. 00:31

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Er hún ekki svon jÓHANNES ?

Halldór Jónsson, 17.5.2017 kl. 13:25

5 Smámynd: Halldór Jónsson

Jóhannes, ertu ekki til í að senda mér emil á halldorjonss@gmail.com

Halldór Jónsson, 17.5.2017 kl. 13:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 3419714

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband