Leita í fréttum mbl.is

Reykjavíkurbréfið

hver svo sem skyldi þó nú skrifa það, er þarft innlegg í umræðuna um þann stórskaða sem EES samningurinn er að valda okkur Íslendingum í bráð og lengd. Þar sem enginn vinstri maður les Mogga eða viðurkennir að gera það, er bréfið hér þó að kommatittirnir geri ekki tíðreist á mitt vesæla blogg:

Þ egar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráð- herra, stofnaði á dögunum til málfundafélags um stjórnmál og þjóðfélagsmál í víðtækari merkingu, urðu viðbrögð við framtakinu eftirtektarverð. Sum reyndar full fyrirsjáanleg.

Hin opinbera skoðun

Fréttastofa „RÚV“ leynir því sjaldan, að henni er lítið um Sigmund gefið. Hún er eindrægnari í stjórnmálalegum dilkadrætti en aðrir, þótt henni sé uppá- lagt í lögum að standast slíkar freistingar. Það má þó segja fréttastofunni til hróss að hún gæti jafnræðis með því að gera almennt fátt með þau lagafyrirmæli sem um hana gilda og komist upp með það. Þar bera aðrir þó sök. Þessi fréttastofa gekk á Sigmund um hvað honum gengi til og hvers vegna honum nægði ekki að tala „innan þingflokksins og á þingi“. Fréttamaðurinn rökstuddi spurningu sína þannig: „Nú hefurðu ekki látið stórkostlega mikið til þín taka á þessu nýja þingi, finnst þér þú ekki geta komið málum á dagskrá þar?“ Nú væri fróðlegt að vita fyrir þann, sem ekki stígur í vitið, á hvaða mati þetta skens fréttamannsins er byggt. Hverjir hafa „látið stórkostlega mikið til sín taka á þessu þingi?“ Hvers vegna hafa þau afrek farið framhjá öllum nema fréttastofunni? Sé þessi afreks úttekt til, rís hún undir því að vera frétt? Bréfritari ætti ekki að viðurkenna að hann hefur ekki setið límdur yfir „þessu þingi“ og þekkir engan fullfrískan mann sem gerir það. Enn síður ætti hann að viðurkenna að þekkja ekki nærri alla þingmennina í sjón og hefur ekki enn hitt neinn sem gerir það, utan þeirra, sem fá fyrir það greitt. Sjálfsagt eru til mannglöggir utan þings sem gætu nafngreint alla 63. Þeir sem eigast við í keppni framhaldsskólanna og þekkja hvern þjóðfána og byggðamerki eru líklegir. Stikkprufur, sem eru gerðar á umræðum á Alþingi, benda ekki til að einhverjir þar hafi látið „stórkostlega mikið til sín taka“. Vissulega heyrast stundum þarna hróp af litlu tilefni. Svo stór orð eru notuð út af litlu, að ef atburðir yrðu af stærri gerð væri óhjákvæmilegt að búa til ný orð svo að allt félli ekki flatt. Þegar stórmál eru til umræðu, sem enginn hefur frétt af nema þingmenn, hleypur hver af öðrum með tölvuna sína í ræðustól, eins og hann sé að koma henni í viðgerð fyrir lokun og les af henni eitthvað sem gæti verið tölvupóstur. Allir fara með sömu rulluna og mætti flýta málsmeðferðinni verulega með því að þeir sætu kyrrir og ýttu á „læk.“ Það þriðja og það sem bréfritari ætti síst að viðurkenna er sú skoðun að ekki hafi mátt dragast mikið lengur að láta þingfararkaup elta uppi almenna launaþróun, ef horft er yfir lengri tíma en sumum hentar að gera. Kjaraefndin birti dóm sinn á meðan enn var óvíst til hvaða einstaklinga ákvörðunin tók. Það fór vel á því. En þar með verður það ekki fyrr en í aðdraganda næstu kosninga sem ljóst verður hvort þingmannslaun, sem nálgast að vera sambærileg þeim sem millistjórnendur hafa, lokki burðugara lið til verka en upp á síðkastið.

Auglýst eftir innihaldi

Málefnalegar umræður mættu vera fleiri á þingi. Það mundi ekki að lengja þinghaldið því upphlaupsþætti mætti skera niður við trog. Það er þó óvíst að þar með næði þingheimur betur til fjöldans en nú. Fjölmiðlar fylgjast helst með þinginu þegar blásið er í þokulúðra þess. En á daginn kemur jafnan að mest er þar um útúrsnúninga og fjas um fjarstæðukenndar getgátur. Málefnalegri umræður myndu ekki ná til almennings strax, þar sem fáir eiga á von á þeim. Engu að síður gerðu þær þinginu gott. Þær myndu gagnast flokkum við stefnumörkun fyrir kosningar og eftir atvikum í viðræðum þeirra um stjórnarmyndun. Upphlaupin gagnast við hvorugt. Reglubundinn undirbúningur fyrir vandaðar umræður tryggði að nýbakaðir ráðherrar komi ekki óviðbúnir að verki. Þeir myndu því síður festast í klónum á kerfinu og breytast í páfagauka páfanna, eins og gerist sorglega oft. Það er hægt að nefna fjölda málaflokka þar sem umræður á þingi gera minna en ekkert gagn. Umræður um um sjávarútveg eru oft á því plani að bílaplan væri skárra. Þeir sem taka þátt láta iðulega eins og að umræða um öll þau mál hafi fyrst hafist daginn áður. Áður gat fjöldi þingmanna tekist á um utanríkismál, þau sem tengdust Íslandi sérstaklega og almennt. Nú fer allt fram í uppþotsstíl, helst með tilvitnun í fyrirsagnir héðan og þaðan eða byggt á þrugli úr „samfélagsmiðlum“.

Þeir, sem við miðum við og bannorðin

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, hefur lengi og víða tekið þátt í málefnalegri umræðu, bæði á þingi og utan þess. Hann var einkar vel heima í því sem honum var trúað fyrir í ríkisstjórn. Störf hans í efstu lögum fjölmiðla, útgáfustarfsemi og innan veggja stjórnarráðsins urðu til þess að enginn, sem knúði á hans dyr, kom að tómum kofa. Björn orðar það svo í pistli að áhugi íslenskra vinstrisinna á atvinnurekstri kvikni jafnan þegar þá gruni að uppi séu áform um að færa einhvern rekstur sem er í höndum ríkisins til einkaaðila: „Orðið „einka“ fyrir framan orðið „rekstur“ fær hárin til að rísa og rekið er upp hræðsluóp.“ Nú er það auðvitað þannig að afstaða til einkarekstrar er ekki einhlít. Hún skarast stundum eftir öðru en hreinum flokkslínum. Þeir eru til, sem efast ekki um að hvaðeina færi betur í einkarekstri en á forræði hins opinbera. Þeir voru til hér á landi og eimir enn eftir af því, sem töldu að öruggast væri að- „fulltrúar almennings“, hið opinbera, héldi utan um flest. Opinberir aðilar hafi ekki önnur markmið en þau að þjóna eiganda sínum, almenningi, og lúti honum. Einkarekstur fylgi sömu lögmálum. Forsvarsmenn þess hugsi fyrst og síðast um sig og það hljóti að enda illa fyrir almenning. Eins og í fyrra dæminu séu hagsmunir eigandans í fyrirrúmi en ólíkt því sé hann ekki sá sami og þeir sem njóta þjónustunnar. Þótt mörg dæmi héðan og þaðan megi vissulega nefna um slíkt sýnir reynsla að þetta er mikil einföldun sem segir ekki hálfa söguna. En rökin eru tæk með öðru í umræðu, sem fer fram án þess að hróp, köll og fordómar einkenni hana. Hér er ekki tóm til að færa fram helstu rök gagnstæðra viðhorfa, enda eru þau núorðið vel þekkt flestum.

Nýleg skrítin dæmi

Það koma þó oft upp skrítnir fletir á efninu, eins og þegar heill hópur lækna og sjúkraliðs fer utan með sjúkling sinn þótt fullkomin aðstaða sé tiltæk hér Ónýta tilskipunarfélagið og aðrar Ellur ’ Á Íslandi er sátt um að vel geti farið á því að tiltekin starfsemi sé á hendi ríkisins. En sjálfsagt er að endurmeta reglulega hvort forsendur hafi breyst. Hvort ríkisreksturinn sé orðinn íþyngjandi fyrir almenning. Jafnvel allur óþarfur eða að hluta og hvort nýta mætti kosti einkaframtaksins betur. Reykjavíkurbréf26.05.17 heima. Þann „einkarekstur“ má ekki nýta vegna bannhelgi. En þá grípur tilskipun frá ESB inn í. Hún eins og aðrar slíkar hefur verið innleidd hér af sérstakri deild blindra og heyrnarlausa, sem sjá jafnan um þann þátt og er stimpluð af embættismönnum og kjörnum fulltrúum sem hafa tileinkað sér sömu takta. Tilskipunin bannar lengri en 90 daga biðtíma tiltekinna að- gerða. Ríkiskassi viðkomandi lands, sem bannar framkvæmd aðgerðar hérlendis vegna fjárskorts, verður að standa undir því að senda öll herlegheitin utan, þar sem er opin stofa. En þar eru ekki tiltækir starfsmenn, svo þeir fara með sjúklingnum utan, frá aðstöðu sinni sem stendur auð. Þetta er einkennileg staða. Vilji menn alls ekki nýta aðstöðu hér heima og vera innan tilskilins frests hefði þeim verið rétt að neita að staðfesta tilskipun ESB. En þá vill þannig til, að þeir, sem andvígastir eru „einkavæðingu“ á þessum rekstri, telja tilskipanir frá ESB allt að því guðlegan boðskap. Því sé rétt að leggja í mun meiri kostnað til að hlýðnast tilskipuninni heldur en fylgdi því að nýta hann hér heima. Það er auðvitað fagnaðarefni að bræðurnir frá Bakka og öll þeirra ætt skuli vera komin í leiðtogahlutverk hjá íslenska stjórnkerfinu, en aðrir þættir málsins eru minna gleðiefni.

Um hvað snýst þetta?

Meginatriði er hvort ríkið vilji tryggja með skattfé landsmanna að tiltekin þjónusta sé veitt eða ekki. Hin spurningin, hvort nýta megi niðurgreiðsluféð betur með aðkomu einkareksturs, er annað mál. Björn Bjarnason bendir á að árlega njóti 120 þúsund manns þjónustu á einkasjúkrahúsum í Danmörku, en Danmörk er eitt af þessum örfáu löndum sem „við viljum helst bera okkur saman við“. Er ekki SÁÁ dæmi um vel heppnað samstarf hins opinbera við einkaaðila, frumkvöðla og velunnara, við baráttu við sjúkdóm, sem lengi var feimnismál? Hvað skyldu hafa sópast inn margir tugir milljarða króna frá stofnun SÁÁ vegna einstaklinga og heimila sem voru að tapast, en fengu nýja von, þrótt og afl? Í fréttum í gær var sagt frá því að ASÍ teldi að eðlisbreyting væri að verða á barnabótakerfi landsins. Velferðarráðherra hafnaði því, en viðurkenndi að ríkið hefði ekki látið bæturnar fylgja þróun kaupmáttar. Ráðherrann bætti því við, að nýskipaður hópur myndi skoða málið og skila áliti fyrir árslok. Dettur einhverjum í hug að einkafyrirtæki myndi bregðast þannig við vandamáli sem upp væri komið? Snakka saman í hálft ár. Hvorki þetta dæmi né öll hin sanna að ríkisrekstur sé ómögulegur. Á Íslandi er sátt um að vel geti farið á því að tiltekin starfsemi sé á hendi ríkisins. En sjálfsagt er að endurmeta reglulega hvort forsendur hafi breyst. Hvort ríkisreksturinn sé orðinn íþyngjandi fyrir almenning. Jafnvel allur óþarfur eða að hluta og hvort nýta mætti kosti einkaframtaksins betur. Einokunarþjónustu hlýtur almannavaldið þó að fara varlega í að láta frá sér og búa tryggilega um hnúta sé það gert.

Tvær hliðar

Það er ekki hollt að hugsa allt í svörtu eða hvítu. Þar til nýlega göptu allir undir „alþjóðavæðinguna“ og töldu hana allra meina bót. Auðvitað skapast margvísleg færi þegar hindrunum er ýtt úr vegi viðskipta einstaklinga og þjóða, þvert á landamæri. En farið var of hratt og þess ekki gætt nægilega, að gleðiboðskapnum fylgdu gallar sem sníða þurfti burt. Þess vegna slær pendúllinn nú til baka. Og þar sem ofsa gætti í uppsveiflu nýrra hátta, er hættan sú, að pendúllinn fari lengra í bakkastinu en gott sé. Gamall húsgangur minnir áheyranda á, að „Heimurinn er sem hálagler, hugsaðu um það sem á eftir fer.“ Það má gera þótt annað en eilífðin eigi í hlut. Alþjóðavæðing, aumingjavæðing og einkavæðing eiga fátt sameiginlegt nema væðinguna. En ekki er algilt að öll væðing sé ill. Fiskkassavæðing og rafvæðing til sveita fór vel. Klámvæðingin er allt önnur Ella. Og það var líka Ella Fitzgerald, sem hefði orðið 100 ára í síðasta mánuði og annar Fitzgerald myndi hafa orðið 100 ára eftir 2 daga. En það er allt annar Jón"

Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin horfir á þessa geðveiki sem viðgengst í því að senda sjúklinga utan með margföldum kostnaði á grundvelli einhverrar tilskipunar ESB? Af hverju gerir enginn neitt í því að einn raðherrann er látinmn komast upp með það fíflarí að hindra starfsemi klíníkunnar fyrir Íslendinga en leyfir hana til útlendinga sem leiðir til þessa brjálæðis sem bréfritari lýsir?

Það eru fleiri en höfundur Reykjavíkurbréfsins sem eru klumsa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Ég las Reykjavíkurbréfið og fannst það alveg ágætt, og er hjartanlega sammála því, sem þar stendur. Þetta fréttastofulið hjá Rúv er sér til háborinnar skammar og hefur verið það í langan tíma. Það er kominn tími til að fara að moka þessu liði út. Þetta gengur ekki lengur.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 27.5.2017 kl. 18:55

2 Smámynd: Sigurður Antonsson

"Stórkostlegt þing og RÚV"? Framfarafélag Sigmundar er ekki í kvöldfréttum Sjónvarps, þótt það sé stjórnmálalegt útkall um sumarmál. Vinstri menn óttast endurkomu Sigmundar þegar hann nær vopnum sínum aftur. Í skjóli falins valds er fréttastofan að mynda skoðanir og breyta umræðunni. Það er slagsíða á fréttum RÚV og umræðu í spjallþáttum. Erfitt að horfa upp á allar auglýsingarnar sem koma frá grandalausum "einkafélögum".

Sigurður Antonsson, 27.5.2017 kl. 19:43

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Ég er sammála ykkur í flestu þessu. Þeir hjá RÚV reka sjálfstæða pólitíska stefnu og Sigmundur Davíð er ekki hátt skrifaður þar. Þeir bera fulla ábyrgð þegar drullusokkurinn, hvað hann nú hét helvítið, setti upp gildruna með Svíunum til að steypa Sigmundi

Halldór Jónsson, 27.5.2017 kl. 21:51

4 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Fáranlegasta fúsk'ever og drullusokkurinn heitir Jóhannes.

Ég varð afar snortin þegar þegar Ella my favourete bar á góma hjá þér,elskan hefði orðið 100 ára. Ég fór á þá einu hljómleika sem hún hélt hér í Háskólabíói. Miðinn var allt of dýr og færri höfðu efni á að sækja hljómleikana þótt hún nyti gífurlegra vinsælda hér,ég hefði látið mig vanta eitthvað fremur en sleppa þessu tækifæri..Mér fannst hún verða fyrir vonbrigðum gaman væri að setja hér inn smellinn hennar "How high the Moon" fæ enn gæsina þegar hún inorovise'r í því lagi (frá 1940 ef ég man rétt). Þetta er nú sem ég pikkaði út úr þínum ágætasta pistli,MB.KV......

Helga Kristjánsdóttir, 28.5.2017 kl. 02:13

5 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

-Inproviser-ar..,  ertu í Bandaríkjunum Halldór? þótt mér komi það nú ekki við.

Helga Kristjánsdóttir, 28.5.2017 kl. 02:34

6 Smámynd: Halldór Jónsson

Já Hrlgas, er að fara heim frá Orlando í dag.Já hún Ella var einstök, ég sá hana í Stutttgart í den.

Og líka Óskar Peterson. Stóð við hliðina á honum við flygelinn í Liederhalle þegar hann tók óvænt aukalög þar sem hann var kominn i stuð. Því gleymi ég aldrei. Maðurinn fór þvílíkum hamförum að hann svitnaði í gegnum jakkafötin sem urðu blaut og náturlega rannn af honumúr andlitinu. Þvílíkt heyri ég aldrei aftur, þvílík snilld og tækni,

Nú eru þau bæði farin vestur eins og við segjum í fluginu. Þau spiluðu talsvert saman og það voru toppar hjá báðum. Maður hlustar orðið allt og lítið á þau eð amúsíkina gömlu yfirleitt.Eða þá hann Art Tatum serm ég sá aldrei.

Halldór Jónsson, 28.5.2017 kl. 12:27

7 Smámynd: Halldór Jónsson

En ég sá Lionel Hampton , benny Goddman, sem ég flaug nú með til Blönduóss eitt sinnog á mynd af mér með honum haldandi á klarinetttöskunni,Stan Getz er líka ógleynanlegur og Dizzy Gillespie sem blés út kinnarnar eins og blöðrur,ofl .

Halldór Jónsson, 28.5.2017 kl. 12:30

8 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ó Ég kemst í Jazz,ham maðurinn minn var jazzgeggjari og þessir kallar voru til á viníl í "bílförmum"..Oskar Petersson var snillingur einhverjir í okkar röðum kölluðu hann eimreið,en Erol Garner vann á hjá mér með sinn sérstaka takt; og svo allir hinir......

Helga Kristjánsdóttir, 29.5.2017 kl. 14:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 3419866

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband