Leita í fréttum mbl.is

Lífeyrissjóðasukkið

er yrkisefni Sigurðar Oddssonar verkfræðings í Mogganum í gær.

Þetta ættu sem flestir að lesa og hugleiða hvert stefnir. Þessir 27 sjóðir eru með eiginlega lungann úr öllu lausu fé í landinu og það vex dag frá degi.

Þeim er stjórnað af allskyns fólki sem hefur ekkert umboð eigenda sinn sem mark er á takandi. Þetta er bara venjulegt fólk af götunni með enga sérstaka fjármálaþekkingu né menntun eins og gengur. Það verður að reiða sig á ráðgjöf rándýrra sérfræðinga sem eru svo algerlega ábyrgðarlausir eins og gengur.

Þó að þeir tapi svo sem þúsund milljörðum öðru hverju þá virðist enginn af eigendunum kippa sér upp við það. Röfla bara lítillega í blöðum þegar lífeyririnn lækkar og skrifa um fátækt aldraðra sem svik stjórnamálamanna. Búið og ekkert er gert.

Þó að þeim bjóðist tryggar fjárfestingar hér innanlands eins og kaupa 40.000.000 krónu bréf í einkaíbúð sem gulltryggt leigist fyrir 200.000 á mánuði eða meira sem gæfi meira en 3.5% ávöxtun þá kaupa þeir heldur annað sem gefur stjórnarsetur og laun fyrir spíssana og gæðingana. Spillingarsjónarmiðin ráða auðvitað meiru en það sem ætti að vera leiðarljósið: að bæta hag sjóðsfélaganna sem eiga fjármagnið sem þessir fósar eru að sukka með.

En Sigurður skrifar svo:

"Helgi í Góu hefur lengi barist fyrir mannsæmandi íbúðum fyrir aldraða. Nokkrum árum fyrir hrun sýndi hann í sjónvarpsþætti, hversu lítið mál væri fyrir lífeyrissjóði að byggja sérhannaðar íbúðir fyrir eldri borgara.

Bréfritari benti líka á fyrir hrun, hvernig sjóðirnir gætu keypt íbúðir af lífeyrisþegum og leigt þeim þær aftur. Þannig hefðu lífeyrissjóðir verðtryggt lífeyrinn við undirskrift kaupsamnings og með greiðslu húsaleigu hefðu seljendur fjármagnað kaupin fyrir sjóðina. Sjóðirnir svöruðu engu eða í mesta lagi að þeir mættu ekki fjárfesta í íbúðarhúsnæði. Höfnuðu bestu fjárfestingu, sem hægt er að hugsa sér. Misstu alveg sjónar á hlutverki sínu, sem er að tryggja sjóðsfélögum áhyggjulaust ævikvöld.

Í staðinn héldu þeir áfram fjárfestingum í erlendum verðbréfum sem aldrei fyrr og montuðu sig af hárri ávöxtun í útlöndum. Ávöxtun sem var fals, því þeir báru alltaf saman krónur án tillits til gengis. Sjóðsfélagar stóðu undir „hagnaðinum“ með hærri afborgunum af verðtryggðum lánum.

Seðlabankinn pönkaðist áfram á krónunni með okur stýrivöxtum. Krónan gaf undan og féll aftur og aftur og „gróði“ sjóðanna óx. Krakkið kom haustið 2008. Þá kom í ljós að sjóðirnir höfðu tapað 1.000 milljörðum á braski með erlend verðbréf og svo þykjast þeir vera fagfjárfestar. Tapið er nokkur hátæknisjúkrahús.

Hvernig var þetta hægt með stöðugu innrennsli lífeyris af öllum launagreiðslum í landinu?

Svarið hlýtur að liggja í stjórnun sjóðanna.

Sjóðsfélagar fá lítið að koma að, hverjir veljast fyrir þeirra hönd í stjórnir sjóðanna. Í stjórn eru mest verkalýðsforingjar, sem ekki kunna á peninga. Þeir eru á margfalt hærri launum, en þeir sem þeir eiga að semja fyrir.

Svo voru forstjórar sjóðanna á ofurlaunum, því þeir báru svo mikla ábyrgð. Þrátt fyrir allt tapið eru þeir enn á spenanum.

Frá atvinnurekendum koma í stjórn sjóðanna pólitískt valdir forstjórar fyrirtækja. Mörgum þeirra þykir fínt að vera í stjórn lífeyrissjóðs og þiggja laun fyrir. Hversu vonlaus kokteill þetta er til reksturs kemur fram í hversu lítill lífeyrir sjóðsfélaga er eftir áratuga lífeyrisgreiðslur.

Gylfi Arinbjörnsson og Jóhanna hefðu getað leiðrétt vísitölu eftir hrun í stað þess að láta lán stökkbreytast, þannig að margir misstu allt sitt í kjaftinn á innlendum og/eða útlenskum hrægömmum.

Þrátt fyrir fyrri loforð Jóhönnu börðust þau gegn afnámi verðtryggingar. Líklega töldu þau að allsherjar lausn fælist í inngöngu í ESB. Ekki að furða að Samfylkingin gufaði upp og eðalkratar vilji vekja upp sinn gamla „góða“ Alþýðuflokk.

Sjóðirnir áttu kost á ýmsum fjárfestingum eftir hrun, eins og t.d. HS Orku o.fl., en þorðu ekki.

Þeir hefðu líka getað keypt húsnæði þeirra, sem voru að missa það og leigt þeim það aftur. Í stað þess buðu þeir upp húsnæði og báru út sjóðsfélaga.

Í framhaldinu lánuðu þeir fasteignafélögum til kaupa á íbúðum sjóðsfélaga á uppboðum. Þessi félög fengu auk þess sér díl á íbúðum hjá SÍ.

Nú fjárfesta lífeyrissjóðir í fasteignafélögunum. Árangurinn er eins og bæjarstjóri Kópavogs benti á. Hækkun húsnæðis og húsaleigu.

Lífeyrissjóðirnir gætu keypt Landsbanka Íslands (LÍ). Það væri góð fjárfesting. Þá gætu þeir lánað einkaaðilum beint til uppbyggingar atvinnulífs í stað þess að eiga í öllum fyrirtækjum landsins og braska með erlend verðbréf.

Í umræðunni var sagt að lífeyrissjóðirnir væru einu innlendu aðilarnir, sem gætu keypt Landsbanka og/eða Arion banka, en þeir mættu ekki eiga í bönkum og yrðu að selja hlut sinn smám saman.

Af hverju má alþýðan ekki hagnast á sameiginlegum eignum þjóðarinnar? Bara einhverjir útvaldir og þá helst þeir, sem var trúað fyrir kvótanum.

Áður gátu þeir valsað með gróðann í skattaskjól og til baka gegnum þvottastöð Seðlabankans. Nú skal þeim leyft að kaupa LÍ í smá skömmtum og fá árlegan skattaafslátt á arðinn af sjávarauðlind þjóðarinnar.

Ætli þeir fái ekki næst Landsvirkjun á sama hátt.

Alla vega er yfirlýst stefna Bjarna og Benedikts að selja sem mest af eignum þjóðarinnar.Sporin: Borgun og Seðlabankabréf í Arion hræða.

Þeir frændur stefna greinilega hraðbyri að því að gera alla landsmenn að kommúnistum eða jafnvel Framsóknarmönnum, þrátt fyrir að Framsókn hafi sparkað niður sínum besta manni og sparkað svo í hann liggjandi."

Þetta færir manni heim sannin um það spillingardíki og forað sem blasir við í stjórnum lífeyrissjóðanna. Sem dæmi um áhrifaleysi og vonleysi venjulegs lífeyrissjóðsfélaga þá gæti ég ekki nefnt einn einasta stjórnarmann í mínum lífeyrissjóði Verslunarmanna.

Það er kominn nýr formaður í verslunarmannafélagið mitt.Ætli hann geri nokkuð annað en að detta í drullupyttinn og verða samdauna þrátt fyrir kosningayfirlýsingar? Það rekur flesta í rogastans þegar bara Donald Trump virðist leggja upp úr því að standa við kosningaloforð. En kannski gerir formaðurinn eitthvað í þessu? Við skulum gefa honum sjans. 

Lífeyrissjóðasukkið heldur áfram af fullum krafti án þess að við hrærum hönd né fót.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

sæll halldór

augljósasti feillinn er hvernig er hægt að tapa þessu, langeinfaldasta dæmið er ad setja þetta á reikning, bók t.d. maður þarf að vera sérstaklega spes til að takast að klúðra 1000 milljörðum, ekki veitir af þeim núna í spítalana og skólana sem lafa á skammt úr hnefa. Meira ruglið

bjarni (IP-tala skráð) 2.6.2017 kl. 16:37

2 Smámynd: Þórir Kjartansson

Held að loksins sé að fjölga í þeim hópi sem sér hverslags ómöguleg óværa þetta lífeyrissjóðaskrímsli okkar er

Þórir Kjartansson, 3.6.2017 kl. 00:40

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sigurður Oddsson er alger þungaviktarmaður í nánast öllum skrifum sínum, maður sem undantekningalaust má mæla með að menn lesi. Þakka þér, Halldór, fyrir að vekja athygli á þessum alvarlegu málum -- og þakkir til Sigurðar!

Jón Valur Jensson, 3.6.2017 kl. 06:33

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Takk fyrir undirtektir allir þrír

Halldór Jónsson, 3.6.2017 kl. 10:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 3419716

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband