Leita í fréttum mbl.is

Vatnið skal renna upp í móti!

segja þeir  Dagur B. og Hjálmar.

Farþegum með Strætó skal fjölga, hversu marga tugi milljarða af skattfé sem það kosta megi. Borgarlína og léttlest frá Reykjavíkurflugvelli skulu leysa vandann sem felst í mótþróa almennings og bíleigenda. Lokum og þrengjum göturnar svo markmiðin megi nást.

Samt velja Borgarbúar ennþá einkabílinn en ekki Strætó. Strætófarþegum fækkar og spárnar ganga ekki eftir. Tímabundið vandamál segja þeir kumpánar.

Svo segir í Mogga:

"Á árunum 2011 til 2015 jókst akstur Strætó bs. á höfuðborgarsvæðinu um 42% en farþegum fjölgaði um 18,8%.

 

Þetta má lesa úr gögnum frá Strætó bs. sem félagið tók saman að beiðni Morgunblaðsins.

 

Samkvæmt ársreikningum félagsins jukust fargjöld úr 1.014 milljónum árið 2011 í 1.655 milljónir 2015, eða um rúm 63%. Það er langt umfram fjölgun farþega á tímabilinu.

 

Þær upplýsingar fengust hjá Strætó að ofangreindar tölur um akstur, farþegafjölda og fargjöld eigi við höfuðborgarsvæðið. Það sama gildi um tölur um framlag ríkis og eigenda, þ.e. sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, í ársreikningi.

 

Framlögin jukust um 58%

 

Samkvæmt þeim tölum hefur framlag ríkis og sveitarfélaga aukist úr alls 2,38 milljörðum 2011 í 3,76 milljarða 2015. Það er aukning um 58%. Til samanburðar hækkaði vísitala neysluverðs um 13,3% á tímabilinu og er þá borið saman meðaltal vísitölunnar hvort árs. Framlögin hækkuðu því að raunvirði um 45%, samanborið við 18,8% fjölgun farþega á tímabilinu. Þessi þróun birtist líka í því að framlög á farþega jukust um tæplega 33% á árunum 2011-2015, eða úr 264 kr. í 351 kr.

 

Þessi aukning er hluti af þeirri pólitísku stefnumörkun að fresta stórframkvæmdum við vegamannvirki á höfuðborgarsvæðinu.

 

Tvöfalda átti hlutfallið

 

Haustið 2011 var þannig undirrituð viljayfirlýsing af hálfu innanríkisráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins, Vegagerðarinnar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um 10 ára tilraunaverkefni um að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Meðal markmiða var að »tvöfalda a.m.k. hlutdeild almenningssamgangna í öllum ferðum sem farnar eru á höfuðborgarsvæðinu á samningstímanum«.

 

Segja má að áform um borgarlínu séu framhald þessarar stefnumörkunar. Með henni á enda að stórefla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Meðal markmiða borgarlínu er að árið 2040 verði 12% ferða á svæðinu farin með almenningssamgöngum. Það yrði um þreföldun frá 2014, miðað við ferðavenjukönnun Capacent Gallup. Sérstakar akreinar fyrir nýja kynslóð strætisvagna eru meðal þess sem á að stytta ferðatíma og gera strætó að vænlegri valkosti.

 

Samkvæmt ferðavenjukönnun Capacent Gallup árið 2011 var hlutdeild almenningssamgangna á svæðinu þá 4,5%. Af markmiði samkomulagsins leiðir að hlutdeildin skyldi vera minnst 8-9% árið 2022. Samkvæmt könnun Gallup 2014 var hlutfallið þá 4,8%, 0,3% hærra en 2011.

 

Verður sennilega ekki náð

 

Hrafnkell Á. Proppé, svæðisskipulagsstjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, segir að með þetta í huga sé ólíklegt að 8-9% markinu verði náð 2022.

 

»Þetta gengur ekki nógu vel, miðað við markmiðið. Ef þróunin verður sú sama næstu ár og síðustu fimm ár mun markmiðið ekki nást. Það þarf engan stjarneðlisfræðing til að sjá það. Það þarf að stíga markvissari skref eigi það að nást og um það snýst borgarlínuverkefnið meðal annars. Það er nokkuð ljóst að almenningssamgöngur þurfa að komast á annað stig til að raunhæft sé að þær verði alvöru valkostur,« segir Hrafnkell.

 

Borgarlínan hækki hlutfallið

 

Hann segir aukna tíðni og meira framboð ferða með borgarlínunni geta átt þátt í að hækka hlutfallið.

 

»Já, og ferðahraðinn í kerfinu. Með núverandi strætókerfi eru farþegar jafn fastir og bílarnir í umferðarsultunni í morgunumferðinni og svo aftur síðdegis. Ávinningurinn er því ekki nógu mikill af því að færa sig [úr einkabílnum yfir í strætó]. Það er í raun þetta sem við ætlum að ná fram með borgarlínunni.«

 

Meðal markmiða samkomulagsins 2011 var að fjölga farþegum á stofnleiðum og lækka nettókostnað fyrir hverja ferð í akstri Strætó bs. Þá skyldi meðalhlutfall fargjalda í rekstrarkostnaði 2022 vera 40%, í samræmi við eigendastefnu Strætó bs. Samkvæmt ársreikningi Strætó 2015 voru tekjur af fargjöldum þá 1.655 milljónir en rekstrargjöld alls 6.749 milljónir. Hlutur fargjalda var því tæplega 25%. Til samanburðar voru fargjöldin 1.277 milljónir 2012 og rekstrargjöldin 3.916 miljónir. Hlutur fargjalda var því tæp 33% árið 2012, eða 8% hærri en 2015, þvert á markmið samkomulagsins."

Vatnið skal renna upp í móti segja Borgaryfirvöld. Hvað sem það kostar af skattfé eða skynsemi. Endurkjósum Dag B. og Hjálmar og Samfylkinguna og Pírata til vonar og vara til að tryggja farveg vatnsins til hæstu hæða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

 Gaman að banda á að það virðist enn vera þannig að sumir hafa ekki áttað sig á að Strætó er byggðarsamlag þannig að Reykjavik hvorki ræður því fyrirtæki ein né gerir þessar áætlanir. Heldur eru það öll bæjarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Þ.e. frá Akranesi til Hafnafjarðar.  Álgjör óþarfi að klína öllu á Dag enda gerir hann ekki þessar áætlanir né stjórnar þessu. Það er stjórn Strætó og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem vinna þetta skiputlag.

Og flugvöllurinn fer á næstu árum þar sem að það er dýrt að halda úti velli á verðmætu landi fyrir nokkra áhugaflutmenn og minnkandi innanlands flut enda er svo rosalega dýrt að flúga innanlands.

Magnús Helgi Björgvinsson, 29.6.2017 kl. 09:55

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Allt þetta umstang fyrir 0,3% aukningu farþega en 58% aukningu framlaga.  Að ætla sér svo að byggja skýjaborgir um borgarlínu á grunni þessarar útkomu sýnir að Dagur og co hafa ekkert lært. Svo sannarlega sjá þeir vatnið renna upp í mót.

Ragnhildur Kolka, 29.6.2017 kl. 10:25

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Magnús Helgi krati bregsst ekki í tryggðinni við rangan málstað sem endranær, á það getur maður ávallt treyst.

Jafn öruggt er að það má treysta á Kolka hvað dómgreindina varðar.

Halldór Jónsson, 29.6.2017 kl. 10:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 3420142

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband