Þó að tölurnar sem um ræðir séu mun lægri en þær sem sáust þegar flóttamannastraumurinn var í hámarki árið 2015, hefur straumurinn sett mikið álag á þær stofnanir Ítalíu sem fara með þessi mál. Þá krefst vandinn þess að haldið sé úti mikilli öryggisgæslu á Miðjarðarhafinu. Hafa nú þegar um 2.200 manns látist á þessu ári við það eitt að reyna að komast yfir, svo vitað sé, og í hverri viku berast nú fregnir þess efnis að bjarga hafi þurft fjölda fólks úr bráðum sjávarháska.
Þær lausnir sem lagðar hafa verið til í þessum efnum eru tvíþættar. Þær snúa annars vegar að því hvernig Evrópusambandið geti aðstoðað Ítalíu við að bera þær byrðar, sem koma flóttamannanna hefur sett á landið, og hins vegar hvernig draga megi úr fjöldanum sem leggur sig í hættu við að reyna að komast yfir Miðjarðarhafið.
Þessi umræða um vandann á Ítalíu er umhugsunarverð, ekki aðeins vegna vandans þar, heldur einnig stöðunnar hér á landi. Á Ítalíu er kerfið komið að þolmörkum að sögn stjórnvalda þar í landi, jafnvel þó að fjöldinn sem þeir hafi tekið við á þessu ári sé einungis um 0,1% af fólksfjölda Ítalíu.
Hér á landi hefur sömuleiðis orðið sprenging í komu fólks, sem sækist eftir alþjóðlegri vernd eða hæli, þó að orsök hennar sé að verulegu leyti af öðrum rótum runnin. Greint var frá því hér í blaðinu í gær, að um 80% fleiri umsóknir hefðu borist til Útlendingastofnunar á fyrri hluta þessa árs en á sama tíma í fyrra. Fari fram sem horfir, gæti stefnt í að heildarfjöldinn á þessu ári verði um 2.000 manns samkvæmt upplýsingum Útlendingastofnunar.
Verði sú raunin gæti það hæglega farið svo að koma flóttafólks hingað til lands yrði hlutfallslega langt umfram það, sem Ítalir telja vera við ystu þolmörk. Augljóst er að stjórnmálamenn geta ekki látið eins og þessi mál séu aukaatriði fyrir Íslendinga eða að þau muni leysast af sjálfu sér án aðgerða. Vandinn er þegar orðinn stór en því miður er umræðan lítil og sú sem þó fer fram byggist iðulega meira á hleypidómum og upphrópunum en staðreyndum og leit að lausnum."
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.