Leita í fréttum mbl.is

Vilhjálmur Bjarnason

sýnir mikil stílþrif í Morgunblaðinu í dag. Í bland er honum mikil alvara með það hvað að baki býr hugmyndum um einhvern þjóðarsjóð sem er einhver sparnaðarsjóður til að mæta áföllum. Mér algerlega óskiljanleg hugmynd. Hvað stoðar að leggja í rassvasann ef maður heldur  áfram að sukka en dregur ekki úr útgjöldum? Hvað þýðir að stunda svona sjóðmyndun ef maður ræðst gegn sparnaði almennings með skattlagningu að hætti kommúnista?

Villi skrifar svo:

 

Þjóðbrókarsjóður

"Í Lýðveldinu Matthildi gilti undarleg stjórnarskrá. Þegar eitthvað var að mátti auðveldlega finna lausn í málamyndasamningi Vinstri stjórnarinnar. Nú er vinstri stjórn aftur sest við völd í Lýðveldinu Íslandi. Enn er komin ný „stjórnarskrá“ í formi „málamyndasamnings“ sem svipar til þess í „Lýðveldinu Matthildi“. Þessi „stjórnarskrá“ er heilar 40 blaðsíður í útprentun. Mér er tjáð að þó nái „málamyndasamningurinn“ ekki orðafjölda hinnar ítarlegu stjórnarskrár Sovétríkjanna, en sú hafði lausn á öllum vanda.

Þjóðremba

Í ljósi þess hverjir eru tveir af þeim flokkum sem mynda þá ríkisstjórn sem sest er að völdum er rétt að rifja upp þjóðrembu. Eins og allir vita er öll list þjóðleg en jafnframt hefur verið bent á það að öll þjóðleg list er vond. Hinn ágæti hönnunarfræðingur Goddur hefur bent á að Jósef Stalín, Adolf Hitler og Jónas Jónsson hafi haft svipaðan og jafn þjóðlegan smekk á myndlist. Jónas mun seint hafa verið sammála hinum tveimur í mörgu. Þó er honum lagt í munn að Jósef Stalín hafi látið mála góðar myndir. Því eru þessi þjóðlegu sjónarmið rifjuð upp að í „málamyndasamningnum“ er auk margra annarra fyrirætlana áformað að stofna þjóð- legan þjóðarsjóð. „Þjóðarsjóður verður stofnaður utan um arð af auðlindum landsins og byrjað á orkuauðlindinni. Hlutverk sjóðsins verður að byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum.“ Þetta er sannarlega Þjóðbrókarsjóður. Þjóð- inni er ætlað að gyrða sig í brók í forsjá stjórnvalda, án þess þó að þjóðin „brókar væri með sótt“ þegar stjórnarfrúr og herrar mæla. Guð láti gott á vita þegar hvatt er til ráðdeildar og sparnaðar. En þar rekur sig hvað á annars horn þegar gerð er atlaga að frjálsum sparnaði á öðrum stað í „málamyndasamningnum“. Það á nefnilega að hækka fjáreignatekjuskatt um 10% til að ná niður frjálsum sparnaði. Það er í samræmi við hugmyndir hinnar vinstri intellígensíu að skattleggja allt sem hreyfist en taka það sem ekki hreyfist í bótalausu eignarnámi.

Hvert er afgjaldið í „þjóðbrókarsjóðinn“?

Reikna má með að afgjald það sem renni í þjóðarsjóðinn Þjóðbrók verði af tvennum toga. Einn hlutinn er skattur sá er fjármálafyrirtæki þurfa að standa skil á, þar sem gjaldstofninn er skuldir fyrirtækjanna. Afgjaldið er 0,376% en það eru neytendur, lesist heimilin í landinu, sem greiða þann skatt. Hitt afgjaldið sem mun renna í Þjóðbrók rennur svo sannarlega. Það er nefnilega upprunnið í vatni og gufu og hefur farið í gegnum hverfla hjá Landsvirkjun. Það má jafnframt ætla að sérstakt gjald verði lagt á Orkuveitu Reykjavíkur vegna þess að hún er mjög hagkvæm og veitir íbúum á Suður- og Vesturlandi birtu og yl gegn vægu gjaldi, enda réð snilldarandi lengst af för í því fyrirtæki.

Seinna afgjaldið frá Landsvirkjun

Afgjaldið frá Landsvirkjun á sér merkilegan uppruna. Svo vill til að Landsvirkjun hefur á starfstíma sínum virkjað rennslisvatn nokkurra fljóta með mjög hagkvæmum virkjunum. Síðar komu svo að auki gufuvirkjanir. Sú orka er þessar virkjanir hafa framleitt hefur orðið meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þannig hefur afl Fljótsdalsvirkjunar, sem framleiðir rafmagn sem veitt er frá Kárahnjúkum, verið um 10% meira en áætlanir gerðu ráð fyrir. Í greinargerð með frumvarpi til laga um „virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar“ segir: „Kárahnjúkavirkjun er sérstök virkjun hérlendis að því leytinu að hún er alfarið reist til að afla orku til eins stórkaupanda. Í samræmi við framangreint lagaákvæði verður því markmiðið með orkusölunni það eitt að viðhalda og helst bæta hag fyrirtækisins.“ Þessi kaupandi heitir Alcoa Fjarðaál hf. og starfrækir álver á Mjóeyri við Reyðarfjörð. Þess má til gamans geta að Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi stjórnmálamaður, fjallaði eitt sinn um flugvélakaup af alkunnri þekkingu sinni um það efni og sagði þá: „Þegar um svo afgerandi fjárfestingu er að ræða, ... fjárfestingu sem er í sama „klassa“ og hin þekkta og sumir mundu segja illræmda Kröfluvirkjun landsmanna ...“. Nú á þessi alræmda virkjun að leggja að mörkum í Þjóðbrókarsjóð! Það urðu miklar deilur í Alþingi um þessar framkvæmdir við Kárahnjúka og Fljótsdalsvirkjun og þá samninga um sölu á raforku sem voru forsenda virkjunarinnar. Lyktir deilna urðu þær að við atkvæðagreiðslu sögðu 44 já en 9 sögðu nei. Af þessum 9 þingmönnum sem sögðu nei voru 6 úr Arftaka Kommúnistaflokks Íslands sem nú heitir „Vinstri grænir“ Allra handa. Fulltrúar þeirra eru nú í forystu á Al- þingi og í ríkisstjórn með væntanlegan forseta þingsins og núverandi forsætisráðherra. Væntanlegur forseti Alþingis, sem setið hefur á Al- þingi lengur en hálf þjóðin man, sagði nei, enda hafa þingmenn þess flokks oftast allra sagt nei í atkvæðagreiðslum á Alþingi. Nú borgar þessi „illræmda“ virkjun væntanlega af arði sínum í Þjóðbrókarsjóðinn!

Fyrra afgjaldið frá Landsvirkjun

Hið fyrra afgjald frá Landsvirkjun kemur frá rennsli Þjórsár, sem hófst með virkjun við Búrfell. Þá var kaupandi raforku Alusuisse en er nú Rio Tinto á Íslandi. Þegar upphaflegar framkvæmdir við Búrfell voru samþykktar á Alþingi árið 1966 gengu fulltrúar hinna þjóðlegu stjórnmálaflokka, Framsóknarflokks og Alþýðubandalags, á fund forseta Íslands og báðu hann náðarsamlegast að synja lögum um virkjun undirskrift. Í þann tíð var talað um hina þjóð- legu atvinnuvegi. En það var að reka sauðfé á beit, moka skít og veiða þorsk í fimm punda pakkningar Tekið skal fram að Alþýðubandalagið var einnig arftaki Kommúnistaflokks Íslands.

Að orna sér við elda

Vinstri stjórn var samþykkt í flokksráði Sjálfstæðisflokksins á 87. afmælisdegi Kommúnistaflokks Íslands. Nú geta arftakar stofnendanna ornað sér við elda sem aðrir hafa tendrað og viðhaldið en þeir hafa ávallt verið andsnúnir. Þjóðbrókarsjóður verður ekki til af engu. Greiðendur í Þjóðbrókarsjóðinn eru íslenskur almenningur, Alcoa Fjarðaál og Rio Tinto á Íslandi. Sem fyrr er veröldin samsæri vangetunnar gegn snilldarandanum. Vonandi hafa stjórnarherrar úthald til að efla þjóðlegan sparnað þegar frjálsum sparnaði verður útrýmt! Eða þannig! Eftir Vilhjálm Bjarnason » Þetta er sannarlega Þjóðbrókarsjóður. Þjóðinni er ætlað að gyrða sig í brók í forsjá stjórnvalda.

Vilhjálmur Bjarnason Höfundur var alþingismaður"

Þess má geta að Vilhjálmur var svikinn um þingmennsku sína sem hann hafði unnið í prófkjöri af kjördæmisráði fyrir tilstilli formanns flokksins sem tróð konu inn í annað sæti á lista flokksins í kosningunum illræmdu fyrir ári síðan sem varð honum til ógæfu og háðungar með stjórnarþátttöku með Bjartri Framtíð og Viðreisn. Listinn var látinn halda sér í síðustu kosningum og þar missti Vilhjálmur Bjarnason atvinnuna en konan var látin halda sínu sæti.

Auðvitað ætti hún þegar í stað að segja af sér með tilliti til hvernig Vilhjálmur fer illa út úr því að hafa staðið upp fyrir henni úr sæti sem hann átti en ekki hún og Vilhjálmur að setjast á þing í sætið sem hann á en konan ekki nema fyrir ofbeldi formanns og kjördæmisráðs. 

En líklega fær Vilhjálmur Bjarnason að snýta rauðu bótalaust og atvinnulaus eftir það að horfa uppá það að Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú leitt VG Allra Handa  til æðstu valda sem honum líkar greinilega ekki meira en svo.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 3419714

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband