Leita í fréttum mbl.is

Að nenna ekki að ljúga

er ekki gott veganesti í pólitík. Hreinskilinn stjórnmálamaður sem nennir ekki að skjalla upp heimsku kjósandann fer skemmra en lygalaupurinn.Það má sjá á glögglega í "hálftíma hálfvitanna" á Alþingi þar sem Pírataþingmennirnir láta ljós sín skína og sóa fjármunum þjóðarinnar að sínum hætti.

Villi Bjarna er er einn af þeim mönnum sem nennir ekki að ljúga blákalt að kjósendum. Hann skrifar svo í Mogga í dag:

"Það er hlutskipti stjórnmálamanna að ganga fyrir hvers manns dyr, kynna sig og ræða um landsins gagn og nauðsynjar við þá er þeir mæta. Þá er það alvanalegt að frambjóðandi telji upp og tíundi afrek sín til réttlætingar þess að sá er hann mætir kjósi sig næst þá er kosið verður. Viðmælandinn segir gjarna þegar fyrstu ræðu er lokið: „Þú hefur ekkert gert fyrir mig nýlega“. Þá verður fátt um svör hjá frambjóðanda, en eftir stundar umhugsun telur hann upp alla þá vegaspotta, brýr, skólabyggingar, íþróttamannvirki að ekki sé talað um flugvöllinn sem var ritaður á minnismiðann fyrir síðustu kosningar. Flugvöllurinn er kominn til að vera, enda þótt skorti allan áhuga á að fljúga á flugvöllinn.

Vegur með bundnu slitlagi austur með Suðurlandi kallaðist Austurvegur en varð að Vesturvegi því fólk vildi fremur kaupa þjónustu í Vestri en Austri.

Hví er spurt?

Það er svo er frambjóðendur hitta kjósendur að kjósendur spyrja spurninga. Algengustu spurningar eru;  Hvað ætlar þú að gera fyrir gamla fólkið? eða  Hvað ætlar þú að gera fyrir unga fólkið?

Enginn stjórnmálamaður gerir nokkuð að gagni fyrir framlög úr eigin vasa. Stjórnmálamenn eru fyrst og fremst í því að færa fé á milli vasa kjósenda. Sá sem svarar þessum spurningum á aðeins eitt rétt svar; það er að sækja fé til hins hópsins.

Sá er lofar að gera allt fagurt fyrir gamalt fólk þarf að sækja fé til annarra aldurshópa. Sá stjórnmálaflokkur, sem lofar nýjum framlögum sem nema hundruðum milljarða, en ætlar ekki almenningi að greiða, lýgur blákalt framan í kjósendur sína.

Hátekjuskattar geta aldrei skilað umtalsverðum tekjum, nema hátekjur byrji þar sem framhaldsskólakennarar fá greitt fyrir yfirvinnu.

Úrlausnarefni

Úrlausnarefnum í íslensku samfélagi mun seint ljúka. Að frátalinni innviðauppbyggingu í samgöngukerfum, þá eru úrlausnir í grunnþörfum mannsins stöðugt viðfangsefni. Málefni almannatrygginga eru eilífðarmál. Stundum virðist mér að engum sé ætlað að bera ábyrgð á eigin lífi. Öllum vandamálum er varpað á þá sem taka að sér að starfa að málum í almannaþágu.

Þeim er þetta ritar hafa verið málefni almannatrygginga hugleikin. Hann hefur leyft sér að hafna þeirri fullyrðingu að öll fátækt sé verk og afleiðing verka stjórnmálamanna. Má ekki ætla að einhverjir séu sinnar gæfu smiðir?

Fátækt er auðvitað úrlausnarefni í samfélagi þar sem landsframleiðsla er mikil og atvinnuleysi hverfandi.

Almannatryggingar og velferð

Við fæðingu eru verulegar líkur á því, að nýr borgari verði gamall. Einnig er vitað hverjar verða þarfir hins nýfædda á hverju aldursskeiði. Því á að gefa hverjum nýjum borgara sparisjóðsbók við fæðingu til þess að stuðla að ævilöngum sparnaði og fyrirhyggju. Þegar hinn nýi borgari nálgast fullorðinsaldur er eðlilegt að huga að lífeyrissparnaði og húsnæðissparnaði. Hvorugt er á ábyrgð stjórnmálamanna.

Það er skylda stjórnmálamanna að sjá til þess með löggjöf og hvötum að til séu leiðir sem gagnast borgurum landsins á árangursríkan og skilvirkan veg. Með því er átt við að lífeyrissparnaður og húsnæðissparnaður haldi raunverðgildi sínu í óstöðugu verðlagi. Það er ábyrgð stjórnmálamanna.

Lífeyrissjóðir hafa eina skyldu og hún er að tryggja sjóðfélögum lífeyri þegar lífeyrisaldri er náð. Það er ekki „siðferðisleg“ skylda lífeyrissjóða að standa undir hagvexti á komandi árum. Það er ekki skylda lífeyrissjóða að taka þátt í nýsköpun í atvinnulífi eða að tryggja fulla atvinnu. Veikgeðja stjórnmálamenn vilja nota eigur lífeyrissjóða til að þjóna duttlungum sínum og lýðskrumi í þessum tilgangi til að tryggja sér kjörfylgi með þess konar heimabökuðum „sannleik“.

Lífeyrisferli

Lífeyrisferli má hluta niður í nokkra þætti. Sá er þetta ritar hefur leyft sér að gera slíkt á svofelldan veg:

 Almannatryggingar

Lífeyrissjóðir

Séreignalífeyrissjóður

 Frjáls sparnaður

 Félagsþjónusta sveitarfélaga

 Ellistoð vegna dvalar- og hjúkrunarheimila

 Húsnæðismál

Það sem ekki hefur verið nefnt hér að framan er málefni almannatrygginga, félagsþjónusta sveitarfélaga og ellistoð vegna dvalar- og hjúkrunarheimila aldraðra. Í samfélaginu þarf að fást viðurkenning á því að frjáls sparnaður sé hluti af neti lífeyrisferlis. Nú um stundir er litið á frjálsan sparnað sem skattstofn eða frjáls gæði, svipað og rennandi vatn í almenningi. Það skilur á milli þegar eftirlaunaaldri er náð hvort lífeyrisþegi býr í eigin húsnæði eða leiguhúsnæði.

Það er svo að sumir borgarar eiga ekki möguleika á að afla sér tekna, eða hafa ekki átt slíka möguleika. Margir öryrkjar eiga ekki möguleika á að afla sér tekna á vinnumarkaði. Svo hefur einnig verið á liðnum árum að konur hafa ekki farið á vinnumarkað eða seint á lífsleiðinni. Það kann að eiga sér ýmsar orsakir. Almannatryggingar eiga að hlaupa undir bagga með þessum hópum.

Sá hópur vinnandi fólks er til, sem hefur verið á vinnumarkaði án þess að greiða í lífeyrissjóð. Sá hópur hefur oftar en ekki komist hjá að greiða opinber gjöld. Á þessi hópur sama rétt og öryrkjar eða þeir sem ekki hafa af einhverjum orsökum komist út á vinnumarkað?

Hefur sá sem hefur komið sér undan greiðslum í lífeyrissjóð sýnt af sér ábyrga hegðun? Ber samfélagið ábyrgð á þessum hópi? Eða löggjafinn og stjórnmálamenn?

Önnur spurning er hví velmegandi vilja tryggja sér far með þeim, sem illa eru settir og þarf að gera vel við í almannatryggingum. Hinir betur megandi vilja einnig fá tekjutryggingu hinna lakar settu. Til þess voru refirnir ekki skornir.

Hetjur að umbera asna

Samfélag er uppfullt af hetjum ef það getur umborið asna. Það samfélag, sem dáir og umber lýðskrumara, er ekki fullt af hetjum. Samfélag, sem umber asna, á alls ekki að gera asna og lýðskrumara að leiðtogum sínum. Lýðskrumarar í hlutverkum leiðtoga sem lofa öllum öllu fögru, lofa engum neinu nema verðbólgu. Samfélag, sem bregst sínum smæstu meðbræðrum, er ekki siðmenntað samfélag.

Samfélag, sem bregst vegna þess að hinir velmegandi vilja einnig fá aukabita í sinn skerf, er á jaðri siðmenningar. Í samfélagi siðmenningar er reynt að skilgreina ábyrgð hvers þegns en þegnar eiga ekki og mega ekki varpa allri ábyrgð af sér.

Einstaklingurinn ber nokkra ábyrgð á sjálfum sér."

Fá menn umbun fyrir að segja sannleikann í íslenskum stjórnmálum? 

Vilhjálmur er ekki lengur á Alþingi svarar þeirri spurningu að hluta til En aðal staðreyndin í því máli er að leita í  pópúlískum aðgerðum flokksforystunnar í Sjálfstæðisflokknum. eftir hann vann sitt sæti í prófkjöri sem svipti hann sætinu og færði hann niður á listanum frekar en að kjósendur hafi ekki metið hans málflutning. Megi þeirra skömm verða lengi uppi fyrir þá aðgerð.

En orð Vilhjálms um lygar og lýðskrum er vert að hugleiða þegar kemur að því að meta stjórnmálamenn eins og nú fara hátt á Alþingi í einskisnýtum orðavaðli utan vitrænnar dagskrár.

Sumir nenna ekki að ljúga endalaust.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 3419712

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband