Leita í fréttum mbl.is

Gakktu í sjóðinn og sæktu þér hnefa

stóð í kvæðinu.

Fjöldi stöðugilda í grunn-og leikskólum í Reykjavík er 3.482 árið 2014. Sjálfsagt meira núna.

Viðreisn ætlar að taka hundraðþúsund á mánuði fyrir hvern þessara kjósenda eða 1.2 milljónir á ári í næstu fjögur ár úr sameiginlegum sjóði allra Reykvíkinga og borga þeim beint fyrir að kjósa Viðreisn.

Þorgerður Katrín, Benedikt Jóhannesson og Pavel Bartoschek eru sammála um réttmæti þessarar ráðstöfunar. Svona 4 milljarðar á ári fyrir eina stétt fólks. Til viðbótar voru mörg bjargráð kynnt til sögunnar fyrir þá sem vilja kjósa Viðreisn. Ódýrt þetta, meira hitt.

Hvaða kjósandi og skyldulið hans  kýs ekki þennan flokk þegar hann fær borgað fyrir það í beinhörðu?

Af hverju fór maður ekki í framboð úr því maður hefur Borgarsjóð til frjálsrar ráðstöfunar? Kaupa sér þægilega innivinnu?

Svo skrifaði Benedikt Jóhannesson stofnandi Viðreisnar á 11.tölublað Vísbendingar 2016:

 

"Þann fyrsta mars 2016 var bandarískur forstjóri ákærður fyrir að hafa staðið fyrir ólöglegu samráði milli tveggja orkufyrirtækja á árunum 2007 til 2012. Fyrirtækin höfðu komið sér saman um það hvort þeirra myndi senda inn lægra tilboð í útboðum og láta svo hitt félagið njóta afrakstursins. Forstjórinn, Aubrey McClendon, sagði ásakanirnar fráleitar. Þótt hann stýrði stóru jarðgasfyrirtæki var hann þekktari fyrir að vera stór hluthafi í NBA-körfuboltaliðinu Oklahoma City Thunder. Hann var einbeittur í yfirlýsingu sem hann sendi út sama dag: „Allir sem þekkja mig og viðskiptaferil minn vita að ég gæti ekki verið sekur um að brjóta samkeppnislög. Ég hef unnið allt mitt líf í því að skapa störf í Oklahóma, styrkja hagkerfi ríkisins og skaffa Bandaríkjamönnum næga og ódýra orku. Ég er hreykinn af þeim árangri sem ég hef náð á þessu sviði og mun berjast fyrir því að hreinsa nafn mitt og sanna að ég er saklaus.“

Forstjórinn átti að mæta á lögreglustöðina klukkan 10 morguninn eftir. Hann var kominn í vinnuna snemma og sendi tölvupóst til kunningja síns eitthvað á þessa leið: „Gaman að hitta þig í gærkvöldi.“ Þeir höfðu hist á skyndibitastað. Í kjölfarið skaust McClendon út í bílinn sinn, ók út á fáfarinn veg og steig bensínið í botn. Skyndilega sveigði hann til vinstri og negldi bílnum á brúarstólpa á 140 km/klst. hraða. Þar endaði ævi þessa athafnamanns.

Forstjórar eru líka fólk

Kannski finnst einhverjum þetta skiljanlegt, maðurinn hafði lent í miklum mótbyr. Kannski vissi hann upp á sig sökina og vildi ekki enda í fangelsi. Almenningur virðist oft halda að þeir sem stjórna fyrirtækjum séu illa innrættir harðjaxlar sem ekkert bíti á. Í raun eru þeir auðvitað mannlegir, ekki bara þegar þeim verður á í messunni heldur líka þegar þeir verða fyrir gagnrýni.

Flestir skilja að menn kunni að brotna niður við mótlæti. Erfiðara er að átta sig á því að forstjórar sem samstarfsmenn líta upp til og hafa notið velgengni geta átt við ýmis geðræn vandamál að etja. Sum eru ekki þess eðlis að þeir séu óstarfhæfir og stundum geta þau jafnvel hjálpað fyrirtækjunum, að minnsta kosti um tíma. Önnur verða hins vegar til þess að spilla árangri bæði forstjóranna og fyrirtækjanna sem þeir stjórna. Langoftast bitna veikindin á fleirum en þeim einum.

Hnöttinn af brautinni

Sigurður Sigurðsson skáld frá Arnarholti orti vel um geðsveiflur sem margir kannast við, flestir auðvitað fremur hjá öðrum en sjálfum sér. Kvæði hans Í dag er ég … er eins og lýsing á því hvað gerðist fyrir og eftir hrun. Í fyrsta erindinu er sögumaður ríkur: „Gakk þú í sjóðinn og sæktu þér hnefa, unz sál þín er mettuð og barmafull.“ Strax í því næsta hefur allt snúist á verri veg og hann er „snauður og á ekki eyri, ölmusumaður á beiningaferð.“

Gleðin tekur svo völd og skáldið ætlar að „dansa til morguns við hverja sem er.“ En skjótt skipast veður í lofti og strax í næsta erindi er hann reiður við allt og alla og ætlar að „hengja og skjóta’ alla helvítis þrjóta.“ Kannski hann hefði mætt á Austurvöll eins og svo margir. En í lokin er hann þreyttur og spyr: „Hvar er nú öll mín forna glóð?“

Þessar snilldarvísur Sigurðar eru ágæt lýsing á sveiflunum sem lýst er hér á eftir. Stjórnendur eru auðvitað ekki einir um að sveiflast upp og niður, en veikindi þeirra hafa áhrif á marga aðra. Jayne W. Barnard skrifaði um sálarflækjur forstjóra. Hann nefnir fimm þætti sem einkum hrjái þá: Sjálfsdýrkun, ofurbjartsýni, reiði, ótta og þunglyndi. Við þetta mætti auðvitað bæta ofnotkun áfengis og annarra fíkniefna. Öll þessi einkenni geta menn séð hjá þekktum stjórnendum (þó ekki öll samtímis). Auðvelt væri að vitna til slíkra manna hér á landi, en lesendum er látið eftir að velta fyrir sér hvaða Íslendingar í fremstu röð gætu þjáðst af þessum einkennum.

Sjálfsdýrkun

Forstjórar eru flestir metnaðarfullir menn og það að menn hafi náð á toppinn gefur til kynna að þeir hafi ákveðna hæfileika umfram aðra. Margir þeirra eru ríkir og hafa fengið margs kyns viðurkenningar. Hjá sumum leiðir velgengnin til eins konar Messíasarkomplex, þ.e. þeim finnst þeir geta tjáð sig um öll möguleg mál sem sérfræðingar, jafnvel þó að þeir hafi enga þekkingu á því sviði. Stundum getur þetta hjálpað fyrirtækjunum sem þeir stjórna. Forstjórarnir hafa skýra framtíðarsýn og telja að þeir séu einmitt réttu aðilarnir til þess að leiða hópinn til fyrirheitna landsins. Þeir sækjast stöðugt eftir hrósi og raða í kringum sig jámönnum.

Auðvitað hefur sjálfsdýrkun líka neikvæðar hliðar. Forstjórarnir hætta að virða almennar umgengnisvenjur, þeir gera lítið úr samstarfsmönnum, öskra á þá, skella hurðum og svo framvegis. Mjög oft kemur þetta fram í því að menn eru til í að taka að sér störf sem koma aðalstarfi þeirra ekkert við og þar sem þeir hafa í sjálfu sér ekkert sérstakt til málanna að leggja, til dæmis alþjóðleg samtök eða góðgerðarfélög.

Eitt einkenni er þegar forstjórar eru ósparir á skoðanir sínar um hin ýmsu mál í fjölmiðlum, hvort sem falast er eftir áliti þeirra eða ekki.

Þetta er allt að koma

Algengt sjúkdómseinkenni er þegar forstjórar missa dómgreindina. Þeim hefur einhvertíma tekist að ná árangri í vonlausri stöðu, jafnvel oftar en einu sinni. Í kjölfarið fyllast þeir svo mikilli vissu um eigin óskeikulleika að þeir eru til í að taka miklu meiri áhættu en réttlætanlegt getur verið. Þegar á móti blæs reiðast þeir þeim sem vara við áhættunni og kalla þá úrtölumenn. Meðan allt leikur í lyndi eru þeir í fararbroddi þeirra sem telja velgengnina nánast óumflýjanlega.

Þessi óhóflega bjartsýni leiðir til þess að menn grípa ef til vill ekki til nauðsynlegra varúðarráðstafana fyrr en það er orðið um seinan. Jafnframt getur hún orðið til þess að menn setji allt sitt traust á tækni sem ekki hefur enn verið prófuð. Forystumenn Enron töldu sjálfir að uppgjörsaðferðir þeirra væru eðlilegar, en þeir núvirtu allan framtíðarhagnað af orkusölusamningum 20 ár fram í tímann. Þannig var feiknahagnaður í ársreikningum, en enginn peningur í kassanum.

Bjartsýnin leiðir stundum til þess að menn bregðast of seint við málum sem geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir orðspor fyrirtækjanna. Menn minnast þess að í fortíðinni komust þeir upp með að menga eða svíkja undan skatti, án þess að það hefði miklar afleiðingar og átta sig ekki á því að almenningsálitið hefur breyst.

Á valdi óttans

Andstæðan við ofurbjartsýni er ótti. Stjórnandinn er svo hræddur við að gera mistök að hann frestar ákvörðunum endalaust. Stundum leggur hann hreinlega árar í bát, en oftar segist hann vera að bíða eftir frekari upplýsingum, ákveðin atriði þurfi að skoða betur og ekki megi rasa um ráð fram. Nánast alltaf líða fyrirtækin fyrir þetta aðgerðaleysi. Þeir sem halda, að tíminn leiði til þess að vandamálin hverfi, kunna að hafa rétt fyrir sér, en á meðan hefur fyrirtækið dregist aftur úr samkeppnisaðilum sem þorðu að taka á vandanum. Ótti er ekki bara vandamál forstjóra. Stjórnmálamenn sem þjást af ótta reyna að þæfa mál fram í hið óendanlega. Eftir á að hyggja er það samdóma álit nánast allra, að sá hæfileiki að geta tekið af skarið sé einhver mikilvægasti eiginleiki góðs stjórnanda.

Einhvern tíma var það orðað þannig að erfiðleikar í rekstri leiddu til þess að blóð flæði til heilans minnkar hjá stjórnendum. Þess vegna tækju menn svo oft fáránlegar ákvarðanir og gerðu jafnvel ýmislegt ólöglegt þegar allt stefndi í óefni. Fjölmörg dæmi eru um þetta frá dögunum í kringum hrunið, svo að dæmi sé tekið. Þannig getur óttinn tekið á sig ýmsar neikvæðar myndir.

Reiði

Bill Gates og Steve Jobs eru báðir þekktir fyrir að öskra á undirmenn sína. Jobs var líklega einhver leiðinlegasti náungi sem um getur, en samt tókst honum að leiða Apple frá barmi gjaldþrots í að verða eitt ríkasta fyrirtæki heims. Aftur og aftur kom hann með snjalla hönnun og ferskar hugmyndir. Sumir forstjórar eru ólatir við að gera hróp að undirmönnum. Aðrir gera lítið úr þeim í tölvupóstum eða með öðrum hætti.

Ekki þarf að fjölyrða um það hversu erfitt það er að þurfa sífellt að tipla í kringum forstjórann (eða aðra ef því er að skipta) og velta því fyrir sér hvernig skapi hann sé í þann daginn. Íslenskur næstráðandi sagði einhverntíma, að það væru takmörk fyrir því hversu lengi menn létu bjóða sér niðurlægjandi framkomu hrokafulls forstjóra.

Neysla

Ótrúlega margir stjórnendur drekka í óhófi (og nokkrir neyta annarra fíkniefna). Sumir fara svo leynt með efnin að samstarfsmenn átta sig ekkert á veikleikanum. Aðrir eru hins vegar þannig að þeir geta vart tekið tappa úr flösku án þess að áhrifin komi í ljós. Ekki þarf að fjölyrða um að dómgreindin brenglast þegar menn eru undir áhrifum, auk þess sem langvarandi neysla getur leitt til alls kyns líkamlegra kvilla.

Þunglyndi

Þunglyndi er mjög algengur sjúkdómur, sem oft er falinn. Stundum kemur hann fram í aðgerðaleysi og sumir halda að þunglyndi forstjórinn sé latur, hann þjáist af síþreytu eða kulnun, því að þunglyndi geti ekki hrjáð menn sem hafa náð æðstu metorðum og vita ekki aura sinna tal. Þannig er það þó alls ekki. Sumir læknar ganga svo langt að halda að þunglyndi sé algengara á meðal þeirra sem eru í fremstu víglínu viðskipta, stjórnmála eða annarra sviða mannlífsins.

Þunglyndi á sér oft skýringar sem eru óháðar ytra umhverfi og því ætti það að vera jafnalgengt hjá forstjórum og öðrum. Auk þess má ekki gleyma því stöðuga áreiti sem stjórnendur verða fyrir. Alls kyns vandamál lenda á þeirra borðum, mörg alls óháð rekstrinum sjálfum. Þeir eiga hins vegar erfitt með að ræða vanda sinn við aðra, því að með því að opna sig fyrir undirmönnum sýna þeir veikleika. Þeir eiga sjaldnast jafningja innan fyrirtækisins og enga yfirmenn.

Fyrir utan að þunglyndi er hættulegur sjúkdómur fyrir einstaklinginn sem af því þjáist er það mjög vont mál fyrir fyrirtækið þegar forstjórinn getur ekki tekið ákvarðanir vegna veikinda. Veikindin sjálf verða feimnismál. Winston Churchill þjáðist af þunglyndi, en þegar hann fékk hjartaáfall í stríðinu varð líka að halda því leyndu. Engan snöggan blett mátti sýna á leiðtoganum. Nú orðið er fátítt að menn leyni sjúkdómum nema helst geðrænum kvillum. Þannig viðhalda menn fáfræði og fordómum í kringum þá.

Hvað á að gera?

Einn vandinn við geðsjúkdóma og jafnvel geðræn einkenni af því tagi sem að framan greinir er að menn forðast eins og eldinn að tala um þá. Þess vegna er oft ekki gripið í taumana fyrr en allt of seint. Forstjóri sem er oft drukkinn missir dómgreindina og er í raun ekki sami maður og þegar hann er allsgáður.

Hér á undan eru nefnd ýmis einkenni, sem auðvitað eru missterk og þurfa ekki að vera sjúkleg í þeim skilningi að menn geti ekki starfað frá degi til dags, en verða það hins vegar þegar þau vara lengi og ágerast kannski með tímanum.

Þunglyndi getur komið fram í ótta og geðhvörf sýna sig stundum í ofurbjartsýni eða reiði þegar menn eru í uppsveiflu. Neysla getur svo leitt til bæði andlegra og líkamlegra sjúkdóma.

Ábyrgðin á því að leita sér hjálpar er auðvitað hjá forstjóranum sjálfum, en oft er eitt sjúkdómseinkennið að menn átta sig ekki á hvað er að. Því verða stjórnir fyrirtækja og sér í lagi stjórnarformenn að grípa í taumana áður en allt er komið í óefni. Aðalatriðið er þó að samfélagið viti að það er ekki eðlilegt að menn hegði sér einkennilega. Allt of algengt er að allir kói með, eins og sagt er, og vandi eins verður vandi fjöldans.

Þessi grein birtist í 11. tbl. Vísbendingar 2016."

Vom Rat bis Tat.

Nú sér Benedikt ljósið hvernig hann á að fá fylgi við flokkinn hans Viðreisn. Ætli þetta geti ekki landað svona 10.000 atkvæðum í kosningunum þann 26.maí? Verður hann kannski næsti Borgarstjóri út á þetta?

Býður einhver betur?

Gakktu í sjóðinn og sæktu þér hnefa

uns sál þin er mettuð og barmafull.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Antonsson

Kastljósið hjá þér er athyglisvert um skattvæðingu framboða. Lýðræðið er kostnaðarsamt eins og íþróttir. Hvort tveggja niðurgreitt af almenningi og haft til skemmtunar. Næsta skref verður að borga kjósendum fyrir að koma á kjörstað og sitja misjafnlega leiðinlega fundi.

Oft hef ég hrifist af fólki sem leggur sig fram um að búa til áhugavert þjóðfélag. Þora að stíga fram og gera hugsjónir að veruleika. Grein Benedikts er sérstök og áhugaverð. Lýsir athöfnum og eiginleikum sem fáir reifa. Benedikt hefði getað útskýrt betur hversvegna hann vildi losna við fimmþúsundkrónaseðillinn. Ekki galin hugmynd en óútfærð.

Þjóðfélög sem hafa margar byltur á áratugafresti eru eins og forstjórar í ólgusjó. Á Íslandi fara þessi umbrot oftast fram án byltinga. Á næturfundum með fáum útvöldum? Almenningur er þrautagóður og værukær. Saga Rússlands er gott dæmi um umbrot sem verða til þegar kjölfestan er horfin.

Vesturlönd ganga í endurnýjun lífdaga með óþoli og árrekstrum. Allt fer friðsamlega fram á yfirborðinu en undirniðri eru mikill átök. Enginn veit hve margir flokkar komast að kjötkötlunum. Fjölgun borgarfulltrúa hefði átt að bera undir kjósendur. Læt hér fylgja mynd úr Morgunblaðinu ef leyft er í athugasemdum? 

Frambjóðendur Viðreisnar í Reykjavík.

Sigurður Antonsson, 25.4.2018 kl. 21:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 3420142

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband