25.12.2018 | 12:30
Góð grein Illuga
Jökulssonar í tilefni jólanna og hækkandi sólar.
Illugi skrifar:
"
Þann 25. desember árið 274 var mikið um dýrðir í Rómaborg. Keisarinn Árelíanus hafði ákveðið að þann dag skyldi opnað nýtt hof í borginni. Það var svo sem enginn skortur á hofum í borginni og ekki allfjarri hinu nýja hofi, á hinum fornu Marsvöllum, var einmitt eitt af vinsælustu og glæsilegustu hofunum, sjálft Pantheon sem enn stendur. Sögur herma að Pantheon sé hof allra guða en það er vafa undirorpið. Að minnsta kosti er ljóst að Árelíanusi dugði ekki Pantheon þegar hann vildi marka nýjan áfanga í sögu Rómar með því að helga nýtt og tilkomumikið hof, eins og þeir höfðu margir gert, hinir sögufrægu keisarar fyrri tíma. Nýtt goðmagn skyldi nú taka hin æðstu völd í guðaveldi og hugmyndaheimi Rómverja og 25. desember yrði dagurinn hans.
Og nei, ekki var það Jesúa frá Nasaret þótt hann hafi síðar lagt undir sig daginn sem Árelíanus keisari helgaði sínum nýja yfirguði sem aftur á móti er ástæða þess að kristnir menn hafa í 1.700 ár notað þennan dag sem fæðingarhátíð frelsara síns frá Nasaret.
Uppreisnir, valdarán, plágur
Árelíanus hafði vissulega ástæðu til að halda hátíð og boða nýtt upphaf með nýjum yfirguði. Hann var um sextugt en þróttmikill og hraustur og þess albúinn að láta til sín taka lengi enn. Og á því var ekki vanþörf því Rómaveldi hafði verið illa statt þegar hann tók við valdataumum árið 270. Í hálfa öld hafði gengið á með uppreisnum, valdaránum og borgarastyrjöldum sem drógu allan mátt úr ríkinu. Mikil plága sem gekk yfir um 250 bætti ekki úr skák, né ósigrar í austri gegn Persum. Svo var komið að Gallía (Frakkland) og Bretland höfðu sagt skilið við Rómaveldi og komið sér upp eigin keisara. Miðausturlönd höfðu verið hernumin af skörungnum Zenóbíu drottningu í eyðimerkurborginni Palmýru í Sýrlandi, þar á meðal Egiftaland, hið mikilvæga kornforðabúr ríkisins. Og germanskir þjóðflokkar í Mið-Evrópu höfðu líka nýtt sér hve uppteknir Rómverjar voru við að bíta hver annan á barkann, og þeir voru jafnvel farnir að birtast á Ítalíuskaganum sjálfum, rænandi og ruplandi, en slíkt hafði ekki gerst öldum saman.
Riddaraliðsforingi rænir völdum
Árelíanus var af bændaættum, líklega fæddur þar sem nú heitir Serbía og þá var byggð Illyríuþjóðum. Sumir telja þó að hann kunni að hafa verið upprunninn á Grikklandi. Hann gekk í herinn, komst þar smátt og smátt til frama sem riddaraliðsforingi og árið 270 lýsti hann yfir uppreisn gegn nýjum keisara sem Quintillus hét. Þrautþjálfaðar hersveitir Árelíanusar voru fljótar að sigrast á dátum Quintillusar sem týndi sjálfur lífinu eftir fáeina mánuði á valdastóli á Tíberbökkum. Árelíanus sýndi strax að hann hafði bein í nefinu og snerist af hörku gegn germönsku þjóðunum sem farnar voru að sækja sífellt lengra yfir landamærin. Strax um haustið 270 þurfti Árelíanus að ýta nokkrum germönskum herjum út af Norður-Ítalíu og síðan kljást við nokkra tilvonandi valdaræningja úr röðum Rómverja sjálfra. Árið eftir gerðu Germanir mikla innrás inn á Ítalíuskaga og voru komnir langleiðina suður til Rómar þegar Árelíanus birtist og brytjaði þá niður. Þótt þeir sem eftir lifðu hrökkluðust burt var tímanna tákn að keisarinn hófst nú handa við uppbyggingu nýrra múra umhverfis Rómaborg, en svo örugg hafði borgin verið í mætti sínum í 500 ár að ekki hafði verið talin þörf á að halda hinum fyrri borgarmúrum við.
Mat Apolloníus frá Tíana mikils
En þótt Árelíanus léti byggja múra í varnarskyni, og kallaði rómverska herinn heim frá Dakíu (Rúmeníu), því hann taldi ekki svara kostnaði að verja skattlandið gegn ásókn Gota, þá hóf hann um leið mikla sókn gegn öðrum óvinum ríkisins. Þar reið sérstaklega á að sigrast á hinni svipmiklu Zenóbíu í Palmýru og því öfluga ríki sem hún var að koma á fót í Litlu-Asíu, Sýrlandi, Palestínu og Egiftalandi. Það bar til tíðinda á leið Árelíanusar austur til Palmýru snemma árs 272 að hann þyrmdi borginni Tíana í Litlu-Asíu, þar sem íbúar höfðu búist árangurslaust til varnar, vegna þess að hann mat svo mikils heimspekinginn Apolloníus sem uppi var á 1. öld e.Kr. og kenndur var við borgina. Apolloníus var á sínum tíma mjög merkur kenningasmiður og ótrúlega margar hliðstæður má draga milli ævi hans og ævi Jesúa frá Nasaret. Dálæti Árelíanusar á hinum milda Apolloníusi sýnir að þótt keisarinn hafi verið brynjuklæddur alþýðumaður að höggva óvini í herðar niður mestalla ævina, þá var hann hugsandi maður líka og áhugasamur um jafnt heimspeki sem trúmál. Enda sýndi það sig brátt.
Fjögur góð ár
Svo fór að herforingjar Zenóbíu stóðust Árelíanusi ekki snúning og þegar her hans stóð undir fátæklegum borgarmúrum Palmýru lögðu íbúar niður vopn en Zenóbía var handtekin á flótta. Árelíanus hugðist sýna íbúum Palmýru mildi en þegar þeir gerðu uppreisn ári síðar sneri hann aftur og átti nú enga miskunn í hjarta. Borgin var rænd og íbúar flestir seldir í þrældóm.
Vorið 274 fór Árelíanus enn í herferð og knúði fyrirhafnarlítið til uppgjafar hershöfðingja þann sem tekið hafði sér keisaranafn yfir Gallíu og Bretlandi. Árelíanus gat litið hróðugur yfir sín fyrstu fjögur ár á keisarastóli, hann hafði sigrað alla óvini, treyst landamærin, náð miklum landflæmum aftur undir Róm og komið á langþráðum stöðugleika.
Drottning leidd í hlekkjum um borgina
Skyldi engan undra að öldungaráðið í Róm, sem enn var við lýði þótt völd þess væru hverfandi, skyldi útnefna Árelíanus restitutor orbis, sem þýða má svo að keisarinn hafi verið endurreisari heimsins. Hann fór líka sigurför þar sem Zenóbía drottning var leidd hlekkjuð um Rómarstræti, fólki til aðhláturs, en svo fékk hún reyndar að lifa óáreitt til ellidaga, ólíkt flestum óvinum Rómar sem skreyttu sigurfarir hershöfðingja og keisara. Þeir voru nær undantekningarlaust afhausaðir eftir að hafa gegnt sínu hlutverki við að skemmta hinum blóðþyrstu íbúum heimsborgarinnar.
Þannig sýndi Árelíanus að hann skar sig á ýmsan hátt frá þeim herforingjum sem skiptust svo ört á um keisaratignina á hinni róstusömu 3. öld. Og hann hugsaði líka lengra en bara að næstu innrás, næsta stríði, næsta áfalli. Hann vildi byggja upp fleira en borgarmúrana. Í því skyni hófst hann handa við mjög róttækar umbætur á myntsláttu og peningamálum, sem ollu úlfúð í fyrstu en reyndust vel þegar fram í sótti, og svo ákvað hann að reisa nýtt hof og tefla fram nýjum yfirguði sem vera átti öllum Rómverjum til heilla.
Umburðarlyndi Rómverja
Það var eitt af snoturri einkennum Rómarstjóra að þeir hirtu yfirleitt lítið um guðshugmyndir þegna sinna, enda þrifust afar fjölbreytt trúarbrögð hlið við hlið í ríkinu. Rómverjar gerðu kröfu um að menn viðurkenndu eins konar yfirguðdóm ríkisins, sem á seinni öldum hafði oftar en ekki verið túlkaður sem guðlegur keisarinn sjálfur, en að því gefnu mátti hver trúa því sem henni eða honum sýndist. Það var helst kristindómurinn sem var til vandræða því prelátar þeirrar trúar bönnuðu sínum trúuðu að viðurkenna í orði ríkisguðdóminn, en sögur um ofsóknir gegn kristnum mönnum vegna þess arna voru þó stórlega ýktar. Ýmis fleiri vinsæl trúarbrögð voru á kreiki í ríkinu Míþra-trúin ættuð að austan var þar helst, launhelgar komnar úr hermennsku, eldur, fórnir, drekka blóð Kri-, nei, Míþra, meina ég. Og svo úði og grúði af alls konar goðmögnum, stórum og smáum, og bættust sífellt fleiri við.
Árelíanus virðist hafa komist að þeirri niðurstöðu að til þess að auka samheldni og hinn eftirsóknarverða stöðugleika væri æskilegt að koma á ríkistrú eða að minnsta kosti festa mun betur í formi það yfirgoðmagn sem öllum þegnum ríkisins væri ætlað að viðurkenna. Og til þess að móta og finna það goðmagn, þá leitaði Árelíanus ekki langt yfir skammt, heldur bara til mömmu sinnar.
Mamma kemur til bjargar!
Svo er sagt að móðir keisarans hafi verið hofgyðja sólarguðs sem um þetta leyti var farið að kalla Sol Invictus eða Hina ósigrandi (eða ósigruðu) sól. Bæði á Ítalíu og víðar um ríkið hafði ýmiss konar sólarguðadýrkun lengi tíðkast og margir guðir höfðu hlotið þann sóma að vera nefndir sólarguðir. En þarna upp úr miðri 3. öld má sem sagt segja að fram úr hinum og þessum sólarguðum hafi verið komin hinn ósigrandi Sól sjálf sem meginguð. Þetta þekkti keisarinn vel, sé það rétt að móðir hans hafi stýrt tilbreiðslu á Sólinni í einhverju hofinu í Illyríu. Og Árelíanus ákvað nú að Sol Invictus gæti þjónað vel sem sameiningartákn í því endurreista Rómaveldi sem hann hafði lagt drög að. Hann notaði þýfið sem hann hirti úr Palmýru til þess að reisa sólarhofið mikla sem hann lét vígja 25. desember 274, en þá voru vetrarsólstöður samkvæmt rómversku tímatali. Þótt munur á sólargangi eftir árstíðum sé lítill í Róm miðað við það sem við hér á norðurslóðum þekkjum, þá gerðu Rómverjar sér þó vel grein fyrir mikilvægi þeirrar dagsetningar þegar sól tekur að hækka á lofti, og vetrarsólstöðurnar voru því kjörin fæðingardagur hins nýja yfirguðs Árelíanusar.
Og dagurinn var síðan helgaður tilkomu og fæðingu hins nýja yfirguðs.
Sunnudagur er dagur Sol Invictus
Sol InvictusSíðari tíma túlkun.
Árelíanusi vannst hins vegar ekki tími til að skjóta fastari stoðum undir þann heim sem hann hafði endurreist og heldur ekki þann guð sem hafði valið til að stýra goðheimum Rómverja. Haustið 275 var hann myrtur af embættismönnum sínum sem óttuðust strangleika hans og reiði.
Aftur fór allt á ringulreið í ríkinu og það leið tæp hálf öld þangað til aftur komst á stöðugleiki þegar keisarinn Konstantínus I hafði brotist til valda eftir langa hrinu borgarastyrjalda. Konstantínus var sonur eins af lífvarðaforingjum Árelíanusar, hann var líka upprunninn í hinni núverandi Serbíu og hann komst eins og Árelíanus að þeirri niðurstöðu að til þess að treysta innviði ríkisins og margnefndan stöðugleika væri nauðsynlegt að koma á yfirguði sem allir þegnar yrðu að endingu að lúta. Konstantínus var mjög veikur fyrir Sol Invictus og þegar hann kvað upp úrskurð um sérstakan vikulegan frídag fyrir alla þegna sína, þá valdi hann dag sólarguðsins hans Árelíanusar: Sunnudaginn. Og hann viðhélt hátíð hinnar ósigrandi sólar þann 25. desember ár hvert.
Jesúa helgar sér fæðingardag sólarguðsins
Á hinn bóginn komst Konstantínus að lokum að þeirri niðurstöðu að guð hinna kristnu, Jesúa frá Nasaret, væri líklega heppilegri sem hinn nýi yfirmaður í goðheimum. Og Konstantínus fór þá að ýta undir kristindóminn með ráðum og dáð, þótt hann gerði aðra guði alls ekki útlæga það gerðist rúmri hálfri öld síðar, eða árið 380, á valdatíma keisarans Þeódósíusar. Strax á tímum Konstantínusar í upphafi 4. aldar var Jesúa frá Nasaret farinn að leggja undir sig fæðingardag Sol Invictus. Þegar kristindómurinn festist í sessi varð smátt og smátt samdóma álit kristinna manna að Jesúa hefði fæðst á þessum degi og eftir að áhrif hinna germönsku þjóðflokka í Norður-Evrópu urðu sífellt meiri í Rómaveldi og þeir tóku kristni, þá styrktist fæðingarhátíð Jesúa enn, því Germanir voru vanir að halda hátíð þegar dag tók að lengja á ný og kölluðu jól.
Svo það var Jesúa sem stal jólunum ef svo má segja, ekki síður en hinn mislyndi Trölli í barnasögu Dr. Seuss."
Þetta fannst mér fróðleg og vel skrifuð saga hjá Illuga og ég skelli henni því hér til hægðarauka fyrir lesendur.
Forfeður okkar drukku jólin út að fornum sið. Líklega hafa norrænir menn allstaðar séð ástæðu til að fagna endurkomu sólar og því upplagt að slá fleiri flugur í einu höggi,Kristni, Kærleika, Ofát og Ofdrykkju, allt sem fólki finnst best í þessum heimi.
Því segi ég við alla sem slysast inn á þessa síðu og lesa grein Illuga hér, Gleðilega Hátíð öllsömun og takk fyrir samskiptin á árinu sem er að líða.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 4
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 42
- Frá upphafi: 3419710
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 35
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Bloggvinir
- ghe13
- sigurjonth
- andrigeir
- annabjorghjartardottir
- ansigu
- agbjarn
- armannkr
- asdisol
- baldher
- h2o
- bjarnihardar
- dullur
- bjarnimax
- zippo
- westurfari
- gattin
- bryndisharalds
- davpal
- eggman
- greindur
- bjartsynisflokkurinn
- elfarlogi
- eeelle
- sunna2
- ea
- fuf
- fhg
- vidhorf
- gerdurpalma112
- gilsneggerz
- gudni-is
- lucas
- zumann
- gp
- gun
- topplistinn
- tilveran-i-esb
- skulablogg
- gustafskulason
- gustaf
- heimssyn
- diva73
- helgi-sigmunds
- hjaltisig
- minos
- hordurhalldorsson
- astromix
- fun
- jennystefania
- johanneliasson
- johannvegas
- jonatlikristjansson
- fiski
- jonl
- jonmagnusson
- jonlindal
- bassinn
- jonvalurjensson
- jvj
- thjodarskutan
- juliusbearsson
- katagunn
- kje
- ksh
- kristinn-karl
- kristinnp
- kristjan9
- loftslag
- altice
- ludvikjuliusson
- maggij
- magnusthor
- mathieu
- nielsfinsen
- omarbjarki
- huldumenn
- svarthamar
- pallvil
- peturmikli
- valdimarg
- ragnarb
- samstada-thjodar
- fullveldi
- siggus10
- sisi
- siggisig
- ziggi
- siggith
- stjornlagathing
- pandora
- spurs
- kleppari
- saethorhelgi
- tibsen
- ubk
- valdimarjohannesson
- skolli
- valurstef
- vilhjalmurarnason
- vey
- postdoc
- thjodarheidur
- icerock
- steinig
- thorsteinnhelgi
- icekeiko
Athugasemdir
Sömuleiðis Halldór og hafðu það sem allra best.
Megi nýja árið verða allri þjóðinni gjöfullt
og hamingjuríkt.
M.b.kv. ávallt.
Sigurður Kristján Hjaltested, 25.12.2018 kl. 20:03
Takk, takk Halldór fyrir beitta og ómetanlega pistla þína hér á Mbl. blogginu. Án þín væri þetta tóm flatneskja !
Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 26.12.2018 kl. 03:37
Þetta var góð grein og takk fyrir alla pistlana þína.
Gleðilega hátíð til þín og þinna.
Jón Thorberg Friðþjófsson, 26.12.2018 kl. 06:27
Kæru vinir sem heimsækið mig. Hjartans þakkir fyrir allt og hafið það ávallt sem best
Halldór Jónsson, 26.12.2018 kl. 10:51
Já og Gunnlaugur, þakka þér oflofið.
Halldór Jónsson, 26.12.2018 kl. 10:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.