Leita í fréttum mbl.is

Hvert fór virðingin fyrir ráðdeildinni?

og samúðin með sparandanum?

Allt gengur út á að menn skuldi og eigi sem minnst að borga til baka.Enginn á að leggja fyrir án þess að vera rændur.Bara skulda sem mest og borga ekki til baka.Það virðist vers boðorðið?

Þórarinn V. Þórarinsson skrifar þarfa grein um þessa firringu í Morgunblaðið í dag:

"Ákvörðun stjórnar VR að skipta út þeim helmingi stjórnarmanna Lífeyrissjóðs verslunarmanna, sem félagið tilnefnir, í því skyni að breyta útlánsvöxtum sjóðsins hlýtur að vekja þeim nokkurn ugg, sem eiga lífeyrisréttindi sín í sjóðnum. Ástæða aðgerðanna er sögð sú, að nýleg breyting á vöxtum sjóðfélagalána sé í andstöðu við áherslur stjórnar VR og nýgerðra kjarasamninga.

Mér hnykkti við þegar ég heyrði formann VR ræða um lífeyrissjóðina sem „fjármagnseigendur“ og útlista þá áherslu félagsins að lækka beri alla vexti til að auka kaupgetu starfandi fólks.

Þessir „fjármagnseigendur“ eru þó ekkert annað en sjóðfélagarnir sem treysta því að sjóðurinn geti og muni greiða þeim sem bestan lífeyri við starfslok.

Tryggingastærðfræðingur hefur reiknað út áhrif ávöxtunar fjármuna sjóðanna á lífeyrisréttindi.

Útreikningurinn sýnir að lækki meðalávöxtun úr 3,5% í 2,5% þá skerðir það lífeyri um nær 20%. Lækkun úr 2,26% í 2,06%, sem eru vextirnir sem um er deilt, leiddi af sér 4,2% lækkun lífeyris ef allt safnið væri ávaxtað á þessum kjörum. Auðvitað er það ekki gert því sjóðirnir ávaxta fé í alls kyns eignum til að ná sem hæstu meðaltali.

Lögmálið er skýrt;

vextir af lánum lífeyrissjóðs enda sem lífeyrisgreiðslur sjóðfélaga; séu þeir lækkaðir lækkar það lífeyri sjóðfélaga.

Svo einfalt er það samhengi.

Lífeyrissjóðir eru sérstakur félagsskapur sem komið var á fót í þeim eina tilgangi tryggja sjóðfélögum eins góðan lífeyri og tök væru á.

Þetta er að jafnaði hvað lengsta samningssamband sem menn stofna til og því afar mikilvægt að því megi treysta að staðið verði við loforðin og að sjóðirnir geri ekki annað en að taka við og ávaxta iðgjöld til að greiða sem bestan lífeyri.

Það er skylduaðild að lífeyrissjóðum; menn ráða því almennt ekki í hvaða sjóð þeir greiða. Því er enn brýnna að reglur um starfsemi sjóðanna og meðferð á fjármunum þeirra séu svo skýrar að enginn fái ratað í þá freistni að seilast til fjármuna þeirra til að bæta hag einhverra sem þeir bera fyrir brjósti.

Þetta gildir jafnt um félögin sem eru gæslumenn sjóðanna og ríkisvaldið sem stundum hefur talið sig vinna að svo góðum málum að rétt væri að lífeyriskerfið legði fram lánsfé á lágum vöxtum.

Ég get nefnt fjölda núlifandi og genginna forystumanna verkalýðsfélaga sem varði hagsmuni félagsmanna sinna af því að lífeyriskjör þeirra yrðu ekki skert með útlánum á lægri vöxum en markaðurinn býður, jafnvel til hinna bestu verkefna.

Aðilar vinnumarkaðarins hafa lengst af borið gæfu til að standa gegn ásókn í fjármuni sjóðanna af þessum toga. Þannig var árið 1995 sett í samning um lífeyrismál, sem m.a. VR er aðili að, skýrt ákvæði sem segir að „stjórn sjóðsins skal sjá um ávöxtun fjármuna hans. Er stjórninni skylt að ávaxta féð með hliðsjón af þeim kjörum, sem best eru boðin á hverjum tíma, að teknu tilliti til ávöxtunar og með hliðsjón af langtímaskuldbindingum.“

Þetta ákvæði er enn kjarninn í samþykktum Lífeyrissjóðs verslunarmanna um ráðstöfun á fjármunum sjóðsins. Þar er líka kveðið á um að stjórn sé „óheimilt að gera nokkrar þær ráðstafanir sem bersýnilega eru til þess fallnar að afla tilteknum sjóðfélögum, fyrirtækjum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna umfram aðra aðila eða á kostnað sjóðsins. Í þessum ákvæðum felast takmarkanir á heimild sjóðsins til þess að ákveða að lána sjóðfélögum gegn lægri vöxtum en unnt er að fá á markaði.

 Þessar reglur leiða ekki fram einhverja ákveðna vaxtaprósentu en undirstrika að það er stjórnar sjóðsins, en ekki annarra, að ákveða útlánakjörin og það þá í eðlilegu samhengi við vaxtamyndun á markaði almennt.

Ég dæmi ekki um  það hvort lífeyrissjóðurinn sé að einhverju leyti bundinn við tiltekin viðmið skv. þegar gerðum lánasamningum.

Séu um það áhöld hlýtur niðurstaða að finnast eftir eðlilegum leiðum. Ákvörðun um vexti eða vaxtaviðmið fyrir ný lán er hins vegar augljóslega aðeins á valdsviði sjóðsins en ekki stjórnar VR. Hún á enga aðild að einstökum ákvörðunum um ávöxtun á fjármunum Lífeyrissjóðs verslunarmanna eða ráðstöfun fjármuna hans.

Það hlutverk liggur hjá stjórn sjóðsins og stjórnin er bundin af samþykktum og lögum en ekki fyrirmælum stjórnar VR. Trúlega má deila um, hvort VR geti ákveðið að skipta út öllum stjórnarmönnum, sem félagið tilnefndi og skipa nýja í þeirra stað.

Ég hygg hins vegar að tæpast verði um það deilt, að það fái ekki staðist grundvallarreglur um sjálfstæði stjórnar og ábyrgð stjórnarmanna að félagið skipi nýja stjórnarmenn með bundið umboð til þess að gera tilteknar breytingar á fjárfestingarstefnu sjóðsins.

Í því felst tilraun til yfirtöku á daglegri stjórn sjóðsins, því ætla verður að umboð hinna nýju stjórnarmanna sé ekki aðeins takmarkað hvað varðar ákvörðun um þennan tiltekna útlánaflokk.

Það er sjóðfélögunum mikilvægt að stjórn lífeyrissjóðsins sé óbundin af öðrum hagsmunum en þeim sem í því felast að fylgja eftir samþykktum hans og lögum með það að markmiði að hámarka þann lífeyri sem sjóðurinn fær greitt. Á það verðum við að treysta sem eigum réttindi í Lífeyrissjóði verslunarmanna."

Útlánsvextir hljóta að fylgja almennu vaxtastigi í landinu, Það hefur lengi verið talið hér hærra en annarsstaðar gerist. 3.5 % upphafleg ávöxtunarkrafa lífeyrissjóða  þarf ekki endilega að vera alltaf raunhæf og verða að taka breytingum eftir markaði.

En að sparendum sé ekki mögulegt að leggja inn launin sín á verðtryggða reikninga til skemmri tíma en 3.ára er mér óskiljanleg.

Af hverju ekki til 3. mánaða?

Þó ófjármagnstekjuskattskyldir vextirnir væru núll á slíkum reikningi  bæri það vott um virðingu fyrir sparandanum sem hvergi virðist vera lengur að finna í bankakerfinu né því þjóðfélagi skuldaranna sem við nú byggjum.

Hvert fór eiginlega virðingin fyrir ráðdeildinni?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Árni Stefánsson stjórnarmaður í LÍV hefur þetta að segja um popúlísma skuldaranna:

"Þessu til rökstuðnings má vísa til útreikninga sem Bjarni Þórðarson tryggingastærðfræðingur tók saman veturinn 2011-2012, að beiðni fjármálaráðuneytisins, sem sýna hvaða réttindaskerðingu sjóðfélagar í almennum lífeyrissjóðum mættu búast við ef vaxtaviðmið lífeyrissjóða væri lækkað.

Þar kom fram að að ef vaxtaviðmið lækkar úr 3,5% í 2,5% myndi nauðsynleg skerðing áunninna lífeyrisréttinda þrítugs sjóðfélaga verða 36%, fertugs 29,5%, fimmtugs 22,5% og sextugs 14,5%.

Það er ljóst að margir sjóðfélagar myndu ekki fella sig við slíkar stefnubreytingar. Það er margsannað að ekki er hægt að borða kökuna og geyma hana á sama tíma."

Af hverju er sparnaður gerður útilokaður?

"

Halldór Jónsson, 28.6.2019 kl. 13:30

2 identicon

Ég dái ríkt dugnaðarfólk,sem berst til verka af eigin dugnaði og áhættu. Endalausar vinnustundir, sem gleðja okkur og aðra. "vinnan göfgar manninn", segir máltækið. TRYGGJA skal SPARNAÐ BARNA og SPARNAÐ FULLORÐINS FÓLKS af RÍKINU, ef það geymist árum saman í "LANDSBANKANUM" OKKAR.

Hitt ríka fólkið,sem notar KJARARÁÐ og skattfé almennings og ORÐNIR ESB sinnar "innan ríkisstjórnar" njóta EKKI sömu blessunar.STÓRNMÁLAFLOKKURINN fyrir ÍSLAND sést vel í dag! 

LÍN er bölvun barna okkar og fullorðinna. Sköffum góða sumar vinnu framhaldsskóla nemenda til skólagöngu. HVETJUM til SPARSEMI og RÁÐDEILDAR.

ÍSLAND VAR FULLKOMIÐ undir handleiðslu FÖÐURLANDSSINNAÐRA LEIÐTOGA og GÁTUM FJÖLGAÐ OKKUR SJÁLFIR.

GÍSLI HOLGERSSON - ICELAND (IP-tala skráð) 29.6.2019 kl. 16:34

3 identicon

Þar sem sparifé landsmanna er safnað saman á einn stað til ráðstöfunar fyrir örfáa aðila verður til spilling. Að sjálfsögðu vill stjórn lífeyirssjóðsins fá að vera í friði með þessa fjármuni. Það er ekkert sem afsakar það að skerða frelsi almennings með þessum hætti yfir sínu sparifé. Hægri menn í dag eru orðnir svo heilaþvegnir af kommúnisma að þeir láta sér þetta vel líka. Ég kæri mig ekki um að einhverjir sem ég veit engin deili á séu að ávaxta mitt sparifé.

Kristinn Bjarnason (IP-tala skráð) 30.6.2019 kl. 09:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 3419866

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband