Leita í fréttum mbl.is

Hnitmiðuð atlaga að lífskjörum

er heiti á grein Halldórs Benjamíns í Fréttablaðinu í dag. Það er ástæða til að lesa hana orðið til orðs:

"Það er eðlilegt að verkafólk hjá Reykjavíkurborg vilji bætt kjör og á þar samleið með öðru launafólki. Þegar horft er á heildarmyndina, launahækkanir og aðrar kjarabætur samkvæmt Lífskjarasamningnum, batna kjör verkafólks umtalsvert og mun meira en hærra launaðra starfsmanna. Það tókst vel til og margir lögðu hönd á plóg.

Sveitarfélög sinna mikilvægri þjónustu við almenning og það mun valda stórum hópi íbúa þeirra miklum vandræðum ef til verkfalls Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg kemur. Það er ábyrgðarhluti að kynda undir deilum með rangfærslum og óbilgjörnum kröfum sem ekkert sveitarfélag getur orðið við.

Yfirlýsingar Eflingar um að kröfur félagsins ógni ekki Lífskjarasamningunum eru hreinræktaðar blekkingar. Verri gjöf til almennings getur vart hugsast á ársafmæli Lífskjarasamningsins en að kröfur Eflingar nái fram að ganga. Því þá eru þeir úr sögunni. „Leiðréttingin“, sem forysta Eflingar kallar svo, verður ekki upp á við á launum nokkurra hópa hjá borginni heldur lóðbeint niður á við á lífskjörum almennings.

Leiðrétting Eflingar felst í því að gera að engu þann árangur sem náðst hefur á síðustu árum við að horfa fyrst og fremst á raunhækkun launa, sem byggist á svigrúmi atvinnulífsins, en ekki háar prósentuhækkanir launa sem ekki er innstæða fyrir. Fyrirhugaðar aðgerðir Eflingar eru atlaga að Lífskjarasamningnum.

Málflutningur forystu Eflingar er bergmál löngu liðins tíma. Hnitmiðuð launaleiðrétting eins og Efling krefst er óframkvæmanleg nema í víðtækri og fyrirfram gerðri sátt við öll önnur stéttarfélög í upphafi kjaralotu. Slík sjálfsblekking á ekkert erindi í málefnalegar umræður um kjaraþróun og efnahagsmál. Um það vitnar áratugareynsla af kjarasamningsgerð á Íslandi. Núna er allt undir. Meginþorri verkalýðshreyfingarinnar stendur við sín orð og gjörðir. SGS-félögin hringinn í kringum landið – 18 talsins – þekkja eðli skemmdarverkastarfsemi Eflingar og undirrituðu kjarasamning við sveitarfélögin á nótum Lífskjarasamnings. Þau skildu Eflingu eftir og styrktu stoðir Lífskjarasamningsins. Það er virðingarvert.

Þaulreyndir verkalýðsleiðtogar félaganna 18 vita að þannig er hag félagsmanna þeirra best borgið. Á tímabili Lífskjarasamningsins hefur kaupmáttur– það sem fæst fyrir launin – vaxið um 3,6% hjá láglaunafólki en um 2,4% að meðaltali.

Vextir hafa lækkað um 1,5% og ekki verið lægri í 20 ár. Markverð skref voru stigin til styttingar vinnuvikunnar og nánast allur almenni vinnumarkaðurinn hefur samþykkt þessa launastefnu í kosningum um kjarasamninga. Trúnaður SA er ekki einvörðungu við atvinnurekendur heldur ófrávíkjanlegur gagnvart yfir hundrað og tíu þúsund starfsmönnum sem aðild eiga að 84 kjarasamningum sem SA hafa undirritað.

Þeir samningar voru samþykktir í því trausti að almenn sátt yrði um launahækkanir Lífskjarasamningsins. Búið er að semja fyrir 97% launamanna á almennum vinnumarkaði. Framganga Eflingar eru svik við hagsmuni yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar. Samningar á þeim nótum sem forysta Eflingar áformar að knýja fram yrðu verðbólgusamningar.

Verðbólga veldur tjóni, og baráttan við hana líka, þar sem landsmenn þurfa að búa við hærri vexti en annars þyrfti að vera og fyrirtækjum í alþjóðlegri samkeppni blæðir vegna sterks gengis krónunnar. Kjarasamningar með miklum prósentuhækkunum veikja því atvinnulífið og rýra lífskjörin þvert á það sem stefnt er að við gerð slíkra kjarasamninga.

Um það vitnar atburðarás á sjötta, sjöunda, áttunda, níunda og tíunda áratug síðustu aldar og þess fyrsta á þessari öld. Vegna þessa er ánægjulegt að sjá að viðbrögð stjórnenda Reykjavíkurborgar eru að bjóða sömu kjarabætur og kveðið er á um í Lífskjarasamningnum. Borgarstjórn getur ekki vikið sér undan ábyrgð og ekkert bendir til að hún muni gera það. Verði gengið til samninga við Eflingu, sem sprengir Lífskjarasamninginn, fer allur vinnumarkaðurinn í háaloft.

Það er ábyrgðarhluti sem varðar miklu fleiri einstaklinga en innan við tvö þúsund félagsmenn Eflingar. Þá dugir ekki að vísa til 15 ára gamals fordæmis sömu samningsaðila sem hafði fyrirsjáanleg áhrif, sprengdi sátt á vinnumarkaði og kom af stað höfrungahlaupi og gengisfalli sem allir töpuðu á. Úrslitastundin er fram undan"

Það þarf mikinn kjark til að segja að Halldór fari með staðlausa stafi.

Það er einungis á færi fólks eins og Sólveigar Önnu og hljómsveitarstjóra hennar, formanns Sósíalistaflokksins Gunnars Smára Egilssonar að gera svo hnitmiðaða atlögu að lífskjörum þjóðarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það þarf ekki kjark til að segja að nafni þinn fari með staðlausa stafi Halldór. Það þarf annað hvort mjög mikla heimsku eða óheiðarlegan popúlisma af verstu sort til þess að segja það.

Þorsteinn Siglaugsson, 29.1.2020 kl. 12:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 49
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband