Leita í fréttum mbl.is

Pópúlístar hér og þar.

Þorsteinn Pálsson sem greinilega telur sig dómbæran á stöðu mála hér og í Bandaríkjunum skrifar í Fréttablaðið í dag um púpúlisma hér og þar.

"Trumpisminn í Bandaríkjunum hefur í fjögur ár verið óumdeild háborg popúlismans í heiminum. Af sjálfu hefur leitt að forseti Bandaríkjanna hefur verið áhrifamesti popúlisti í heimi. Áður var hann leiðtogi lýðræðisþjóða og frjálsra viðskipta. Í síðustu viku gerðu stuðningsmenn Donalds Trumps áhlaup á þinghúsið og stöðvuðu framgang lýðræðisins í nokkrar klukkustundir. Tilgangurinn var sá að tryggja honum áframhaldandi setu án tillits til úrslita kosninga.

Fordæmingin

Fáir atburðir hafa verið fordæmdir jafn einarðlega og almennt um víða veröld. Þetta var árás á lýðræðið. Árásin snerti heimsbyggðina fyrst og fremst fyrir þá sök að hún hefur lengi litið til Bandaríkjanna sem forysturíkis lýðræðis og stjórnfestu. Í sjálfu sér er Bandaríkjaþing bara ríkisstofnun. En hún er fólki í fjölmörgum þjóðríkjum kær af því að hún blasir við sem hátindur mikilvægra gilda, sem þær njóta. Öðrum er hún táknmynd um draum eða málstað, sem vert er að leggja mikið í sölurnar til að gera að veruleika. En hver eru líkleg áhrif þessa atburðar á stöðu Trumpismans í Bandaríkjunum og popúlismans í Evrópu og hér á landi? Er Trumpisminn dauður? Er popúlisminn í Evrópu úr sögunni?

Þar og hér

Popúlistar eru mismunandi frá einu landi til annars rétt eins og hægri flokkar, vinstri flokkar og frjálslyndir miðjuflokkar. Þeim verður því ekki jafnað saman í einu og öllu. En eigi að síður eru ákveðin stef sameiginleg flestum þeirra. Á hefðbundna pólitíska mælikvarða má finna popúlista lengst til hægri og lengst til vinstri. Í Evrópu markaði þjóðaratkvæðið um Brexit ákveðin þáttaskil. Þó að áhrif popúlismans hafi dvínað þar og víða annars staðar í álfunni eftir Brexit hefur honum vaxið ásmegin í Póllandi og Ungverjalandi. Hér á landi er það helst Miðflokkurinn, sem er nálægt því að vera popúlistaflokkur. Einnig má sjá sprota popúlískrar umræðuhefðar í hægri armi Sjálfstæðisflokksins, sem nærðir eru með stjórnmálaskrifum Morgunblaðsins. Sósíalistaflokkurinn er óskrifað blað, en í orðræðu einstaka talsmanna hans má líka greina vísi að popúlisma.

Aðferðafræðin

Aðferðafræði popúlista er að grafa undan trúverðugleika þeirra stofnana, sem mestu máli skipta fyrir lýðræði og valddreifingu. Stjórnvöld í Póllandi og Ungverjalandi beita ráðum af þessu tagi markvisst. Í báðum ríkjum hefur verið byrjað á því að grafa undan trúverðugleika sjálfstæðra dómstóla. Trúverðugleiki hefðbundinna, sjálfstæðra fjölmiðla, sérstaklega sjálfstæðra ríkisfjölmiðla, hefur skipulega verið dreginn í efa. Þá hefur spjótunum einnig verið beint að trúverðugleika fjölflokka málamiðlunar á þjóðþingum með orðræðu um nauðsyn sterkrar stjórnar. Þessi sjónarmið hafa svo endurómað vítt og breitt og í smærri skömmtum einnig hér.

Mesti sigur Trumpismans í Bandaríkjunum felst í því að forsetanum tókst að losa sig undan hefðbundnum gildum og viðurkenndum siðareglum og viðmiðum í málflutningi og stjórnarathöfnum. Rökræða gat ekki farið fram af því að menn töluðu út í tómið í fullkomlega aðskildum, pólitískum stjörnukerfum.

Áframhaldandi hætta

Árásin á þinghúsið hefur nú komið stuðningsmönnum forsetans í Repúblikanaflokknum í vörn. Og popúlistar í Evrópu og þeir sem haldið hafa uppi þeim merkjum hér heima hafa ekki fylgt honum yfir þetta strik.

En gunnfáni popúlismans hefur ekki verið dreginn niður.

Mesta hættan er sú að þessi atburður leiði til þess að öll aðferðafræði popúlismans verði viðurkennd upp að því marki að taka þinghús með ofbeldi. Allt hitt verði normalt.

Þessi hætta kallar á samstöðu hefðbundinna lýðræðisafla. Samstarf Evrópuþjóða innan Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins hefur sennilega ekki verið mikilvægara í annan tíma. Samvinna Evrópu við ný stjórnvöld í Bandaríkjunum mun einnig skipta sköpum um þróun lýðræðis og viðskiptafrelsis í heiminum.

Viðhorf til þessara grundvallargilda og trúverðugleika þeirra stofnana, sem um þau hafa verið mynduð, þurfa einnig að setja mark sitt á komandi kosningaumræðu hér heima. Stofnanir gegna lýðræðislegu hlutverki við valddreifingu og til að tryggja jafna stöðu borgaranna."

Ég velti því fyrir mér hver sé staða Viðreisnar og Þorsteins í samanburði við hans gamla flokk Sjálfstæðisflokkinn?

Hvor sé vinsælli hjá pöplinum?

Hvað sé pópúlismi þegar menn eru á atkvæðaveiðum? 

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki viss um að ég geti greint þarna a milli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þegar menn eru á atkvæðaveiðum má þekkja populisman á því að þar er ætíð um einhvern óvin að ræða sem þarf að ráðast á. Og þá skiptir engu hvort óvinirnir séu einhverjir óvinir í raunveruleikanum. Þeir geta verið kommissarar í Brussel eða innflytjendur, ofurlaunaaðall eða möppudýr, kvótagreifar eða höfuðborgarelíta. Vandamálin verða ekki það sem þarf að leysa heldur verður áherslan á að berja á óvininum. Að lofa skattlagningu ofurtekna elítunnar veiðir betur atkvæði en að lofa hátekjuskatti. Og gjöld á kvótagreifa skilar betur en skattar á útgerðir.

Vagn (IP-tala skráð) 15.1.2021 kl. 11:14

2 identicon

Fyrrum form. Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Pálsson er að fullu ósanngjarn að nefna Miðflokkinn popúlista-flokk, flokkinn, sem berst af almætti fyrir orkunni, virkjunum, bændum, gróðurhúsum og sjávarútvegi. Þeir eru ekki undir þjáningu og álagi ESBsinna, sem eru hættulegir fámenni okkar og fiskimiðum.

Ef Þorsteinn trúir því að kosningarnar í BNA hafi verið ósviknar og sannar á hann bágt. Biden, demokratinn - og sigurvegarinn, "barðist" - á bílastæðum með 12-20 bíla og Þjóðernissinninn Trump með 10-70 þúsund áheyrendur á hverjum kosningafundi. Þessi forsetakosning var nútíma "krossfesting".

Gísli Holgersson (IP-tala skráð) 15.1.2021 kl. 11:42

3 identicon

Sæll Halldór,

Ég er ekki alveg viss með skilgreininguna á popúlista, en ef hún er að vinna með kjafti og klóm fyrir almenning, standa við kosningaloforð og leita allra leiða til að standa ekki í stríði þá er Trump á toppnum.

Kristinn Bjarnason (IP-tala skráð) 15.1.2021 kl. 14:14

4 identicon

Ég heyrði í nótt að Vestan, að 92% TRUMP kjósenda mundu kjósa hann aftur. 

Takk.

Gísli Holgersson (IP-tala skráð) 15.1.2021 kl. 15:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband