Leita í fréttum mbl.is

Hvað ef?

við hefðum einhverjar leiðir til að koma sveitarstjórnum frá á kjörtímabili eins og þeir í Kaliforníu?

Í leiðara Morgunblaðsins eru þessar línur frá Gunnari Rögnvaldssyni:

"Næst á matseðli vikunnar var svo ríkisstjóri demókrata í Kaliforníu. Þar náðu kjósendur nægilegum fjölda undirskrifta sem þarf til að hægt sé að krefjast kosninga til að fjarlægja þann óhæfa mann úr embætti. En það segja of margir kjósendur Kaliforníu að demókratinn Gavin Newsom ríkisstjóri sé. Þúsundir fyrirtækja flýja nú frá ríkinu, stórfyrirtækin líka."

Hvað myndi gerast hérlendis ef þetta væri mögulegt?

Hrollvekjugrein Rögnu Sigurðardóttur og  Hjálmars Sveinssonar í Fréttablaðinu vekur upp slíka spurningu. Þar útlista þau þúsundmilljarða framtíðarsýn sína fyrir höfuðborgarsvæðið sem framhald af eyðibyggðastefnu meirihlutans í Reykjavík.

"Í myndum okkur að árið 2040 sé runnið upp. Hvernig er umhorfs í borginni - hvernig er lífið? Auðvitað vitum við það ekki nákvæmlega en við reiknum með að mannfjöldaspár Hagstofunnar séu nokkurn veginn réttar. Þar með vitum við í stórum dráttum hvað þarf að byggja mikið af íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði til ársins 2040. Við viljum að byggðin mótist af vistvænni þéttingarstefnu næstu tvo áratugina og að sáttmálar um loftslagsmál, samgöngumál og húsnæðismál haldi gildi sínu. Borgarlína verður orðin að veruleika ef við höldum vel á spöðunum. Við teljum einsýnt að umhverfismál, og lýðheilsa fái alltaf meira og meira vægi í útfærslu borgarskipulagsins en til þess þarf framtíðarsýnin að vera skýr. Nú er unnið að nýjum viðauka við Aðalskipulag Reykjavíkur – en hann felur í sér endurskoðun á stefnu um íbúðabyggð og blandaða byggð og framlengingu aðalskipulagsins til 2040. Við tökum undir okkur stökk til ársins 2040.

Lífvænlegasta borgin

Enn og aftur er Reykjavík í efstu sætum á lífsgæðalistum borga sem alþjóðleg ráðgjafafyrirtæki gefa út. Ljóst er að aukin áhersla á umhverfismál, vistvænar samgöngur, lýðheilsu, öryggi og tækifæri til útivistar og hreyfingar skapar Reykjavík sterka stöðu á slíkum listum. Byggt hefur verið upp metnaðarfullt hjólastígakerfi sem tengir höfuðborgarsvæðið saman með þéttofnu neti góðra stíga en stígarnir liggja líka út í óbyggða náttúru utan borgarmarkanna. Reykjavík er hjólaborg á heimsmælikvarða. Þrjár nýjar sundlaugar, auk ylstrandanna við Nauthólsvík, Köllunarklett og í Gufunesi, þykja lýsandi dæmi um hvernig hægt er að bjóða rysjóttu veðurfari byrginn með hugvitsamlegri nýtingu jarðvarmans. Margt fleira kemur til. Bílastæðum í landi borgarinnar hefur verið markvisst fækkað og þau tekin undir fjölbreytt og gróðursæl svæði til almenningsnota. Mengun af mannavöldum er sama og engin og borgin er kolefnishlutlaus. Hér þykir gott að ala upp börn enda eru hér góðir skólar og framsækin menntastefna. Borgin er eftirsótt af listafólki og hér er öflugt þekkingar- og nýsköpunarsamfélag. Auk þess er til þess tekið að fólk af erlendu bergi brotið, sem er hlutfallslega margt, eigi auðvelt með að aðlaga sig samfélaginu og samfélagið sig að þeim.

Borgarlínustöðvar tengja saman blómlega byggð

Borgarlínan er komin á fullt skrið. Hún rann af stað fyrir 16 árum og tengir nú saman allt höfuðborgarsvæðið. Vagnar nema staðar á borgarlínustöðvum á nokkurra mínútna fresti og við sjáum á skjá við hverja stöð hvenær von er á næsta vagni – og við tökum því sem sjálfsögðum hlut. Hjólastólar og barnavagnar komast greiðlega inn og út úr vögnum á borgarlínustöðvunum og aðgengi er fyrir alla. 

Þar sem áður var iðnaðarsvæði við Ártúnshöfða er nú blómleg íbúðabyggð, verslun og þjónusta. Við Vogabyggð er Sæbraut komin í stokk sem tengir saman byggð beggja vegna götunnar. Miklabraut er einnig komin í stokk og í stað umferðarniðs og mengunar eru nú aðeins vistvænar samgöngur á yfirborði. Hraðbraut sker ekki lengur hverfin í sundur. Borgarlínan fer um HR-svæðið og eftir Fossvogsbrú yfir á Kársnesið. Línan tengir saman miðbæ Reykjavíkur við Kópavog, Mosfellsbæ, Hafnarfjörð og Garðabæ. Við skjótumst nú á milli sveitarfélaga án þess að þurfa að setjast upp í bíl og keyra, án þess að eyða pening í mengandi eldsneyti til að komast leiðar okkar eins og gert var í gamla daga.

20.000 íbúðir

Um 1.000 íbúðir hafa verið byggðar í Reykjavík á ári síðastliðin 20 ár, alls um 20.000 íbúðir. Vaxtarmörk borgarinnar eins og þau voru skilgreind fyrir aldarfjórðungi hafa verið virt. Byggðin hefur þést á vistvænum forsendum. Fyrst og fremst hefur verið byggt á illa nýttum og þegar röskuðum svæðum. Áhersla hefur verið lögð á að þessi nýja byggð sé í sem bestum tengslum við Borgarlínuna, en á síðustu 20 árum hafa yfir 80% nýrra íbúða verið innan áhrifasvæðis hennar. Orðið húsnæði felur í sér fyrirheit um skjól. Tekist hefur að skapa fjölbreytt borgarhverfi þar sem allir félagshópar hafa tækifæri til búsetu. Fjórðungur nýja húsnæðisins er á vegum húsnæðisfélaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni.

Framtíðarsýn fyrir Reykjavík

Til þess að aðgerðir okkar skili árangri þarf skýra framtíðarsýn. Sú sýn er sett fram í Aðalskipulagi Reykjavíkur til ársins 2040. Við hvetjum borgarbúa til þess að kynna sér hana og þau leiðarljós sem vísa okkur leið inn í framtíðina."

Það væri gott til þess að vita ef til væri leið til að afstýra þessari framtíðarsýn fólks sem vill láta vatnið renna upp í móti trúlega í andstöðu við vilja kjósenda sem fyrir löngu hafa valið sér annan samgöngumáta en reiðhjól og Borgarlínu.(leturbreyt.bloggari)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Þetta er góð tillaga hjá þér, að taka Kaliforníu sem fyrirmynd. Margir vilja nú fá annan en Dag sem borgarstjóra í Reykjavík, en með klækjum tókst honum að ná völdum síðast. Þetta borgarlínugerræði í honum sýnir að hann er farinn að líkjast kóngunum í hinni spilltu Evrópu til forna. Hann er jafnvel farinn að stjórna út fyrir Reykjavík, þegar búið er að samþykkja borgarlínuna í öðrum sveitafélögum, en ekki var kosið um það svo almennir borgarar fengju að segja sitt álit.

Ingólfur Sigurðsson, 16.2.2021 kl. 17:48

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Hann er seigur hann Dagur, ég fer nú að  spyrja hann um þessa umtöluðu Borgarlínu,það eru svo mörg ár síðan við grilluðum með honum í Heiðmörk og alltaf var hann hrokur alls fagnaðar og vildi fleiri svona vinsæla staði fyrir fólk a grilla og skemmta sér.Hann á eftir að verða borgarstjóri,svei mér þá.

Helga Kristjánsdóttir, 17.2.2021 kl. 00:19

3 identicon

Hefðir þú trúað því fyrir 100 kótelettum síðan að núna væru 14% skólamáltíða vegan? Sást þú fyrir þá sprengingu sem orðið hefur í fjölgun hjólreiðafólks? Passar það inn í það sem þú heldur að fólkið kjósi? Hefur þig einhverntíman dreymt litla íbúð, gott reiðhjól og grænmetisborgara? Unga fólkið vill ekki sama lífsstíl og þú. Það vill ekki stórar íbúðir og bíla. Gamalt fólk sem er fast á síðustu öld á ekki að vera viðmið þegar framtíð borgar er skipulögð.

Þróunin er önnur en þú telur og vilji unga fólksins annar en þinn. Þeir sem erfa borgina vilja ekki þá borg sem gamlingjana dreymir og vilja bjóða þeim.

Vagn (IP-tala skráð) 17.2.2021 kl. 04:23

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Hversvegna Vagn mnn góður eru öll blöð full af bílaauglýsingum  en ekki reiðhjóla?

Af hverju vill æskufólk fá sér bíl en ekki hjól eða lætur sig dreyma um Borgarlínuferðamáta?

Ég tala talsvert við ungt fólk og það sér sig ekki bíða eftir Borgarlínu á stoppistöð í pusveðri? Það kýs bíl sem samgöngumáta.

Það er heldur ekki endilega Vegan eins og þú nefnir. Borðar saltkjöt og baunir jafnvel á sprengidag. Og Bollur.

Ég er fluttur í litla íbúð sem er nógu stór fyrir mig. Bjó áður í 400 m2.

Ég held að meðalaldur borgarbúa ráði þvi að það vill einkabíl en ekki Borgarlínu. Neðanjarðarbrautir í Moskvu eða New York eru þar vegna aðstæðna og þéttbýlis. Þú tekur þér far langar leiðir og færð þér svo leigubíl vegna þess að það er of seinlegt að keyra einkabíl. En í smábæ eins og Reykjavík með vondu veðurfari gegnir öðru máli.

Halldór Jónsson, 17.2.2021 kl. 04:39

5 identicon

Borgarlínan er eyðsluhít "stjórnmálaflokka" en ekki óskir almennings. "Er ÍSLAND í reynd lýðveldi" spyr Guðbjörn Jónsson í Morgunblaðinu í dag. Lýðveldið er ÞJÓÐIN en ekki ALÞINGI. Þetta hljómaði vel.

Ég vil sjá Engey tengda við Örfisey með 500/1000 bursta smáhýsum, byggt upp með gæðavið og rauðum hleðslusteini og steinlögðum götum, fagurlega lýst, með bryggjur, árabáta og viðskipti á staðnum.

Þetta væri úrvals og örugg fjárfesting fyrir VR og Ragnar Þór. "Gamla ÍSLAND" byggt upp á einum stað.

Gísli Holgersson (IP-tala skráð) 17.2.2021 kl. 12:39

6 identicon

Ungt fólk er ekki mikið að kaupa nýja bíla. Auglýsingunum er beint að þeim eldri, sem hafa pening en eru ekki að koma sér upp fjölskyldu eða eru í námi eða á leikskóla.

Og stór hluti þeirra sem kjósa einkabílinn verða dauðir eða hættir að keyra þegar borgarlínan kemst að fullu í gagnið. Fjölmennasti hópurinn sem borgarlínan er hönnuð fyrir er ófæddur eða ekki enn komin með bílpróf. Viðhorf þeirra er það sem skiptir máli en ekki þitt.

Vagn (IP-tala skráð) 17.2.2021 kl. 12:55

7 Smámynd: Halldór Jónsson

Það hlaut að vera að Vagn myndi vita betur en ég hvað unga fólk framtíðarinnar muni velja. Það velur Borgarlínuna en kaupir ekki bíla segir hann. Það er rétt að þá verð ég dauður og það skiptir megin máli.

Halldór Jónsson, 17.2.2021 kl. 18:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 3419712

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband