Leita í fréttum mbl.is

Aðalfundur Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál

Ræða Erlends Borgþórssonar á aðalfundi:

"SKÝRSLA STJÓRNAR Ágætu félagar, Við erum nú á okkar fyrsta aðalfundi frá stofnun félagsins hinn 1.desember 2019. Til að fara aðeins yfir tilurð félagsins þá vorum við margir sjálfstæðismenn á umliðnum árum að nokkru leyti ósáttir við stefnu forystu flokksins.

Stefnu sem við töldum ekki vera í samræmi við hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins, stefnu sem okkur oft á tíðum virtist meira í ætt við stefnu andstæðinga flokksins. Þetta var algengt umræðuefni á meðal flokksmanna og horfðum við á eftir mörgu góðu flokkssystkini hverfa á braut vegna þessa. Þá byrjaði að þróast sú hugmynd að stofna félag innan flokksins sem hefði það að markmiði að viðhalda þeirri ímynd og hugmyndafræði sem hafði gert Sjálfstæðisflokkinn að stærsta stjórnmálaafli þjóðarinnar, nánast frá stofnun hans og fram á þessa öld.

Þetta er stefna sem byggist á íhaldssemi og frjálslyndri alþjóðlega sinnaðri stefnu. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður af tveimur stjórnmálaöflum sem að mörgu leyti höfðu ólíka sýn, en það sem sameinaði þá var baráttan um fullt sjálfstæði þjóðarinnar, sem tókst að lokum árið 1944. Sjálfstæð þjóð með stefnu Sjálfstæðisflokksins er það sem gerði flokkinn að því afli sem hann varð. Flokkurinn hefur frá upphafi haft forystu um nánast allar framfarir sem hafa orðið með það að markmiði í byrjun að ná sömu lífskjörum almennings á Íslandi og í Skandinavíu. Það tókst undir handleiðslu og hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins þ.e. að nýta frelsi einstaklingsins til orðs og athafna.

Til marks um forystu flokksins í öllum helstu framfaramálum þjóðarinnar, þá var fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins, Jón Þorláksson aðalhvatamaður að virkjun Elliðaár til framleiðslu á rafmagni fyrir Reykvíkinga, hann stofnaði Vatnsveitu Reykjavíkur til vatnsöflunar í Heiðmörk en áður höfðu Reykvíkingar fengið mengað vatn úr Vatnsmýrinni sem olli m.a. taugaveiki í Reykjavík, Jón stofnaði Hitaveitu Reykjavíkur og lagði leiðslu frá Reykjum í Mosfellsbæ, eitthvað sem gjörbreytti lífsgæðum almennings í Reykjavík. Á undanförnum áratug hefur mörgum flokksmönnum, ekki bara í Sjálfstæðisflokknum því þessi umræða fer víst einnig fram í öðrum flokkum, virst sem stór hluti forystu þjóðarinnar hafi misst sjónar á mikilvægi þess að viðhalda sjálfstæðinu.

Það virðist sem þjóðinni sé stýrt af embættismönnum sem fara fram, veifandi reglugerðarverkum erlendra þjóða sem sett eru ofar íslenskri löggjöf. Allt er þetta í nafni þess að þá séum við í þjóð á meðal þjóða þegar í reynd við erum þá eingöngu þjóð á meðal ríkja sem sífellt minna orðið á ráðstjórnarríkin sálugu, sem liðu undir lok á níunda áratug síðustu aldar, þá búin að eyðileggja alla innviði þjóða sinna með álíka stjórnarháttum og við viljum aðhyllast í dag. Hvílík alþjóðahyggja! Þessu viljum við breyta og það hefur sameinað okkur í Félagi sjálfstæðismanna um fullveldismál. Við viljum viðhalda þeirri stefnu að vera frjálslindir, alþjóðasinnaðir íhaldsmenn.

Við viljum nýta auðlindir þjóðarinnar til að styrkja land og þjóð sem fullvalda sjálfstætt ríki. Á stofnfundi hinn 1.desember 2019 var ákveðið að félagið skyldi ávallt halda uppi þeim góða sið að halda ár hvert upp á Fullveldisdaginn 1. desember. Þrátt fyrir Covid-19 sem haldið hefur nánast öllu félagsstarfi niðri, þá héldum við upp á daginn með þvi að senda út hátíðardagskrá í gegnum YouTube.com Fengum við Styrmir Gunnarsson formann félagsins og einnig hátíðargest, sem var Arnar Þór Jónsson héraðsdómari.

Skrifstofa Sjálfstæðisflokksins og sérstaklega framkvæmdastjóri flokksins Þórður Þórarinsson eiga heiður skilið fyrir veita dyggilega aðstoð að gera þetta mögulegt. Þetta tóks frábærlega vel og vakti mikla ánægju. Til marks um það þá hafa í dag 1.120 manns horft á upptökuna, álíka efni sem er á youtube og líkja má við 1.desember hátíð okkar er yfirleitt með um 40-50 áhorf. Þetta sýnir, að ég held, þann mikla áhuga sem þjóðin hefur á fullveldinu og ekki síður mikilvægi þess fyrir þjóðina að viðhalda sjálfstæði sínu. Sjálfstæði þjóða er ekkert sjálfgefið, það þarf að hlúa vel að því því en sagan segir okkur hversu auðvelt það er að tapa sjálfstæði þjóðar."

Jón Magnússon lögmaður var kjörinn formaður félagsins. Hann flutti ávarp:

 

Kæru vinir.

Ég þakka það traust sem þið sýnið mér með því að kjósa mig sem formann félagsins. Við sendum öll okkar bestu kveðjur til fráfarandi formanns félagsins, Styrmis Gunnarssonar með ósk um góðan bata og þakkir fyrir það mikla starf, sem hann hefur unnið fyrir félagið. Í ljósi þess var vel við hæfi að gera hann að heiðursfélaga eins og samþykkt var af öllum fundarmönnum hér fyrr á fundinum.

Stofnfundur félagsins var haldinn þ.1.12.2019 á þeim fundi talaði Jón Gunnarsson ritari Sjálfstæðisflokksins um nauðsyn þess að við berum virðingu fyrir skoðunum hvers annars og markmiðið væri að ná sem flestum sem virða grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins til að starfa á vettvangi hans.

Ásmundur Friðriksson alþingismaður flutti líka ræðu á stofnfundinum og sagði m.a, „Skilaboðin mín sem Sjálfstæðismanns hér í dag eru að við hlustum á raddir fólksins í landinu og þá vakna aftur væntingar um fyrri styrk Sjálfstæðisflokksins.“ Formaður félagsins Styrmir Gunnarsson sagði við það tækifæri, að markmiðið væri að skapa sérstakan vettvang til þess að ræða um þau málefni líðandi stundar sem snerta fullveldi þjóðarinnar og halda jafnframt uppi reglubundinni fræðslu ekki síst fyrir ungt fólk um sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Athyglisverðar voru líka ræður þeirra Viðars Guðjohnsen jr. og Jónasar Elíassonar á stofnfundinum en þeir gerðu hvor á sinn hátt með skörulegum hætti grein fyrir mikilvægum atriði sem varða sjálfstæðis- og fullveldisbaráttu þjóðarinnar. Allt frá stofnun félagsins hefur verið leitast við að félagið fengi skipulagsbundinn sess innan Sjálfstæðisflokksins. Því miður hefur það ekki gengið sem skyldi fram að þessu, en í samtali við ritara flokksins Jón Gunnarsson í dag, sagði hann að samþykkt hafi verið að félagið starfi innan vébanda Sjálfstæðisflokksins, sem félag Sjálfstæðisfólks á grundvelli skipulagsreglna flokksins, en geti ekki kosið fulltrúa á Landsfund eða í flokksráð flokksins.

Félagið hefur ekki fengið neina formlega tilkynningu um þetta, en þessi atriði mun nýkjörin stjórn taka upp við forystu flokksins við fyrsta tækifæri og leiða þau til lykta. Barátta þjóðarinnar fyrir sjálfstæði og fullveldi er löng og þeirri sögu var gerð góð skil á stofnfundi félagsins og ákveðnir þættir hennar hafa verið rifjaðir upp og verið til umræðu á fundum félagsins á liðnu starfsári. Mér finnst samt við hæfi að rifja upp nokkur atriði um sögu sjálfstæðisbaráttu Íslendinga Á tímum verslunareinokunarinnar á tímum dansks einvaldskonungs urðu Íslendingar að sæta afarkostum varðandi verslun og viðskipti. Landinu var skipt niður í umdæmi sem iðulega tóku ekki mið af staðháttum og fólkið hafði ekki frelsi til að versla við þá kaupmenn, sem þeir vildu heldur einungis við þá, sem þeim var heimilað miðað við búsetu.

Sagan af Hólmfasti Guðmundssyni hjáleigumanni á Brunnastöðum skýrir vel niðurlægingu Íslendinga á einokunartímanum og orsök eymdarinnar, sem landsmenn neyddust til að búa við. Hólmfastur gerði sig sekan um þann glæp að selja kaupmanninum í Keflavík 3 löngur, 10 ýsur og 2 sundmagabönd árið 1698 í stað þess að eiga þessi viðskipti við kaupmanninn í Hafnarfirði. Vegna þessa var hann kaghýddur við staur af því að hann gat ekki greitt sektina sem hann var dæmdur til að greiða og amtmaðurinn helsti valdsmaður hins danska arfakonungs vildi ekki líta við gömlu bátskrifli sem Hólmfastur átti.

Einokunarverslunin gekk sitt skeið á enda og breyting varð á verslunarhögum landsmanna til hins betra en það gerðist ekki baráttulaust. Það er nú einu sinni þannig, að ófrelsi einokunar- og einvaldsafla verður aldrei lagt niður nema til komi barátta frjálsborins fólks fyrir rétti sínum. Í baráttuvímu í upphafi 20.aldarinnar voru landsmenn fullir bjartsýni og kröfðust fulls stjórnskipulegs fullveldis.

Árið 1907 voru kosnir úr öllum kjördæmum landsins fulltrúar til að mæta á Þingvallafund, sem haldinn var í júní 1907 á þeim fundi sagði Bjarni frá Vogi m.a. í ræðu: „Það er fyrsta grein laga vorra, að oss öllum skylt að vilja, að Ísland nái aftur fornum frægðarljóma sínum og sjálfstæði og víkja aldrei“ og nokkru síðar: „En þeir menn, sem berjast með erlendu valdi gegn rétti þessarar þjóðar og þeir sem eigi vilja berjast með þjóðinni – þeir menn skulu gerðir þjóðernislausir vargar í véum.“ Í dag þekkjum við hverjir það eru, sem eru þjóðvinir og vilja berjast á forsendum fullvalda þjóðar og hverjir það eru sem meta fullveldi þjóðarinnar með sama hætti og baunaréttur var metinn forðum þegar frumburðarréttur var seldur í árdaga. Fullvalda þjóð má aldrei falla í þá freistni að selja fullveldisrétt sinn vegna ákveðinna veraldlegra tímabundinna gæða.

Margir halda að baráttu fyrir frelsi og fullveldi geti verið endanlega útkljáð í bráð og lengd á ákveðnum tímapunkti eða vegna ákveðinna atburða. En svo hefur aldrei reynst. Slíkri baráttu lýkur aldrei. Við sem börðumst gegn kommúnismanum á meðan sú böðuls hendi ógnaði sjálfstæði og tilverurétti frjálsra ríkja í Evrópu töldum að við hefðum sigrað þegar járntjaldið féll og Sovétríkin liðuðust í sundur. En svo var ekki. Kommúnistarnir fóru í felur en sækja nú fram með ýmsu móti til að grafa undan vestrænum þjóðfélögum og menningarlegum gildum vestrænna þjóða, frelsi þeirra og fullveldi. Baráttunni fyrir frelsinu lýkur aldrei og baráttu smáþjóðar fyrir að halda fullveldi sínu og sjálfstæði lýkur aldrei.

Í því sambandi er rétt að rifja upp það formaður Sjálfstæðisflokksins Bjarni Benediktsson eldri sagði um þessi mál, þegar flestir meðal þjóðarinnar töldu að hinu endanlega markmiði varðandi frelsi og fullveldi þjóðarinnar væri endanlega náð með samningnum sem tók gildi þ. 1. Desember 1918 Bjarni segir að með vissum hætti megi segja að ánauð þjóðarinnar hafi verið lokið með ofangreindum samningi en hann spyr.

„Var fullt stjórnskipulegt frelsi hennar með því fengið“? Var verkefni hinar eiginlegu sjálfstæðisbaráttu þar með úr sögunni? Mundi sá bóndi telja sig að fullu frjálsan , sem að vísu mætti ákveða sjálfum sér og heimafólki sínu reglur til að fara eftir, en þyrfti þó að leita samþykkis óðalsbónda á fjarlægri jörð til þess til þess að fyrirmælin hefðu nokkra þýðingu? Ef hann mætti ekki hafa skipti við nágranna sína, nema fyrir milligöngu óðalsbóndans eða öllu heldur vinnumanna hans, yrði að hafa einhvern þessara vinnumanna með í förinni, ef hann skryppi í kaupstað, og engin þessara viðskipta hefði lögformlegt gildi nema óðalsbóndinn samþykkti? ------ „og mundi hann telja þann eignarrétt á jörð sinni mikils virði, sem því skilyrði væri háður, að þrjátíu menn mættu hafa af henni öll hin sömu not og sjálfur hann“?

Þessi lýsing Bjarna heitins Benediktssonar eins merkasta stjórnmálamanns þjóðarinnar fyrr og síðar á vel heima sem lýsing á því ástandi sem við búum við í dag í sumum samskiptum við Evrópusambandið á grundvelli EES samningsins. Því verður að breyta og það kallar á endurskoðun á samningnum. Margir hafa haft allt á hornum sér gagnvart þessu félagi og talið þau sjónarmið og áherslur sem félagið beiti sér fyrir eigi ekki heima í nútímaþjóðfélagi. Þar er helst vikið að sjónarmiðum sem varðar gæslu hagsmuna lands og lýðs, ættjarðarást sem og vernd íslensks þjóðernis. Fáir hafa andmælt og skilgreint betur hvað um er að ræða en fyrrum biskupinn yfir Íslandi Sigurbjörn Einarsson en hann sagði m.a.í bók sinni Draumar landsins árið 1949.

„Ættjarðarást sem hverjum heilbrigðum manni er í blóð borin, á að leiða til þjóðrækni og þjóðhollustu. Það er manngildiskrafa. Og svo sem á öðrum sviðum gilda hér meira athafnir en orð.“ Einnig: „Hollur metnaður fyrir hönd þjóðar sinnar niðurlægir enga aðra þjóð, Hann er þvert á móti þjónusta frumlægrar, eðlisgóðrar hvatar við mannkynið. „ Sama hugsun er reifuð af Jóni Sigurðssyni forseta heitnum en hann sagði í ritgerð sinni „Um Alþingi Íslendinga árið 1841. „Veraldarsagan ber ljóst vitni þess, að hverri þjóð hefur þá vegnað bezt, þegar hún hefur sjálf hugsað um stjórn sína og sem flestir kraftar hafa verið á hræringu.“ Ágæta fundarfólk. Ég lít svo á, að með starfsemi okkar séum við að halda áfram baráttu íslensku þjóðarinnar fyrir fullu sjálfstæði og fullveldi.

Íslenskir stjórnmálamenn hafa ætíð háð þá baráttu með rökum frelsisins og heilbrigðrar þjóðerniskenndar. Þannig eigum við líka að fara að. Þess vegna eigum við að setja sér metnaðarfull markmið í starfi félagsins. Við myndum okkar félag á grundvelli sjónarmiða okkar og hugsjóna. Við ömumst ekki við því að aðrir myndi önnur félög sem okkur kunna að vera mótdræg, en viðmiðun okkar er að sækja fram á grundvelli ákveðinna frelsishugmynda, sem við höfum skilgreint með einstaklingsfrelsi og þjóðfrelsi að leiðarljósi í samræmi við grunnhugmyndir Sjálfstæðisflokksins frá stofnun hans.

Höft og bönn vegna Kóvíd faraldursins munu taka enda, en meðan takmarkanir eru þá verður stjórnin að ráða fram úr því með hvaða hætti hún tryggir að félagsstarfsemin sé lifandi. Þær áætlanir sem gerðar voru í tíð fyrri stjórnar um fundi og fræðsluerindi eru góðra gjalda verð og ber að hrinda í framkvæmd, þegar aðstæður leyfa. En fram til þeirrar stundar skulum við undirbúa okkur sem mest og best og starfa á þeim grunni sem skáldkonan Margrét Jónsdóttir sem orti ljóðið „Ísland er land þitt“, sem sumir segja að ætti að vera þjóðsöngur Íslands, en hún sagði Fylkið ykkur jafnan undir merki þeirra, er vilja vernda og efla íslenskt þjóðerni og íslenska tungu og reynið ávallt að fylgja málstað þeirra sem berjast fyrir því sem er rétt. Gjör rétt þol ei órétt var vígorðið sem bæði ég og fyrrverandi formaður störfuðum eftir. Við skulum starfa með þeim hætti."

Ég vil hvetja alla Sjálfstæðismenn til að senda tölvupóst til Jóns Magnússonar :

jm@ilog.is 

 með kt. heimilisfangi, netfangi og farsíma og Jón mun koma því áfram til ritara.
 
Það er best að fá þetta í einu með hverju nafni svo hægt sé að senda það  til þess sem sér um félagatalið. 
 
Þó að miðstjórn vilji ekki enn viðurkenna þetta félag formlega þá skulum við reyna að gera það nægilega stórt þannig að hún verði að taka tillit til þess.
 
Berjumst gegn landsöluöflunum í Viðreisn og Samfylkingunni.Störfum í anda sjálfstæðistefnunnar frá 1929.
 
Sameinaðir stöndum vér í Félagi sjálfstæðismanna um fullveldismál. 
 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónatan Karlsson

Virðingarverð færsla og falleg hugsjón, en því miður aðeins spurning um tíma hvenær félaginu verður úthýst úr Valhöll, því landsölu öflin eru víðar en í Viðreisn og Samfylkingunni þó þið heiðurskarlarnir sjáið þau ekki beint fyrir framan nefin á ykkur.

Jónatan Karlsson, 5.4.2021 kl. 16:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.1.): 4
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 3420083

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband