Leita í fréttum mbl.is

Óli Bieltved

er einhver einbeittasti áróðursmaður Íslendinga fyrir fullveldisframsali og inngöngu í Evrópusambandið og væntanlegri herskyldu í hinum ráðgerða Evrópuher Þjóðverja og Frakka.

Hr. Bieltved skrifar í Morgunblað dagsins:

"Eins og allir vita eru kosningar fram undan og margir telja sig kallaða til forystu og leiðtogahlutverka.

Á dögunum skrifaði frambjóðandi, ung og gæfuleg kona, grein í blaðið undir fyrirsögninni „Aðild að Evrópusambandinu fer gegn hagsmunum Íslands“. Þegar komið er inn í textann bætir frambjóðandinn ungi um betur og segir hugmyndina um að Ísland gangi í Evrópusambandið „arfavitlausa“. Er þá djúpt í árinni tekið, ekki síst þegar til þess er litið að flest önnur smáríki V-Evrópu telja sig best komin innan vébanda ESB og er staða sumra þeirra sambærileg við okkar. Ég er hér að tala um Eistland, Lettland, Litháen, Írland, Lúxemborg, Slóveníu, Möltu og Kýpur. Einnig má minna á að hugur þegna Skotlands, N-Írlands og Wales virðist standa nokkuð til ESB-aðildar. Sennilega vantar þá eitthvað af vitsmunum í það fólk sem þessar 11 evrópsku smáþjóðir leiðir.

Og hver eru svo rök þessa ágæta frambjóðanda, þessarar stóryrtu ungu konu, fyrir því að það væri arfavitlaust að ganga í ESB?

„Með því að standa utan við Evrópusambandið höldum við okkar sjálfstæðu viðskiptastefnu og höfum fullt forræði á viðskiptasamningum við önnur ríki,“ segir hún. Frambjóðandinn skýrir síðan frá því að Ísland hafi nú fríverslunarsamninga við 74 ríki og að frekari samningar við m.a. Indónesíu, Ekvador, Gvatemala, Argentínu, Brasilíu, Paragvæ og Úrúgvæ bíði gildistöku. Telur hann þetta gott mál og þarft.

En hver er raunveruleikinn í þessum málum? 90-95% af utanríkisviðskiptum Íslands eru við Evrópu og Bandaríkin enda er íslenskur varningur og þjónusta í háum kostnaðar- og gæðaflokki sem einvörðungu efnaðir neytendur á efnahagslega sterkum mörkuðum ráða við. Þau lönd sem frambjóðandinn gleðst yfir að Ísland hafi náð fríverslunarsamningi við hafa enga burði til að kaupa íslenskan varning. Ætla má að allir þessir miklu og víðtæku viðskiptasamningar séu að mestu gagnslausir og hrein tíma- og peningasóun. Með fullri inngöngu í ESB hefði hins vegar fengist fríverslun við Kanada, Kóreu og Japan, samtals 220 milljónir efnaðra neytenda, sem ESB hefur fríverslunarsamning við og henta fyrir íslenskan hágæðavarning og –þjónustu. Næst kemur frambjóðandinn galvaski að því að sjávarútvegsstefna ESB sé „… stefna sem fyrir löngu hefur sannað gagnsleysi sitt og skaðsemi“. Skýringar eru engar. Aftur tekur ung kona mikið upp í sig. Fullmikið.

Malta var í sambærilegri stöðu og við Íslendingar þegar landið gekk í ESB. Lifði mest á fiskveiðum og ferðamennsku. Líka fámennt eyríki, sem hafði ráðið fyrir og nýtt sín fiskimið um ár og aldir. Út á þessa sögulegu staðreynd fékk Malta að halda fullum yfirráðum yfir sínum miðum við inngöngu og fengu önnur ESB-aðildarríki þar engan aðgang. Telja má öruggt að við Íslendingar fengjum sams konar samning við inngöngu.

Svo kemur margt í belg og biðu hjá frambjóðandanum: Stefna ESB í dreifbýlisþróun, skattamálum, gjaldmiðilssamstarfi, byggðastefnu, réttarvörslu, dóms- og innanríkismálum, tollabandalagi, utanríkistengslum, öryggis- og varnarmálum, fjárhagslegu eftirliti, framlagsmálum og stofnunum, en allt á þetta að vera kolómögulegt.

Fyrr má nú rota en dauðrota kom upp í hugann við lestur þessarar lönguvitleysu, sem ég leyfi mér svo að kalla, enda efast ég um að frambjóðandinn sjálfur hafi vitað vel hverju hann var að romsa upp úr sér og skrá á blað.

Ef ESB kæmi að dreifbýlis- og byggðamálum hér væri það helst í formi fjárframlags eða styrkja. Skattamál eru innanríkismál aðildarríkja. Hvert aðildarríki ræður sjálft hvort það tekur þátt í gjaldmiðilssamstarfi. Svíar gera það t.a.m. ekki. Varðandi réttarvörslu og dómsmál erum við nú þegar sterktengd ESB eins og dæmin (Landsréttarmálið) sanna, varðandi innanríkismál erum við nú þegar í Schengen þar sem við opnum landamærin fyrir öllum hinum ESB- og Schengen-ríkjunum (og þau fyrir okkur), um tollabandalög og utanríkistengsl gæti ESB aðeins gagnast okkur og um öryggis- og varnarmál erum við auðvitað öll, Ísland og ESB-ríkin flest, í sama báti; NATO.

Loks þetta um þá fullyrðingu frambjóðandans og utanríkisráðherrans að Ísland hafi aðeins tekið upp 13,4% af regluverki ESB: Fjölmargar reglugerðir ESB ná alls ekki til Íslands þannig að ef heildarfjöldi reglugerða er talinn, og svo einfaldlega talinn fjöldi þeirra reglugerða sem Ísland hefur innleitt, kann að koma út lág prósentutala. Þetta er þó ekki það sem gildir, heldur áhrif og vægi þeirra gerða og reglugerða sem Ísland hefur tekið upp.

Norðmenn eru með svipaðan ESS-samning og við. Á 20 ára afmæli norska EES-samningsins lét ríkisstjórn landsins gera úttekt á samningnum og áhrifum hans. Hlutlausir sérfræðingar gerðu 900 bls. skýrslu um málið. Í inngangi stendur þetta í enskri útgáfu: „Norway has adopted roughly ¾ of EU legislation compared to those Member States that participate in everything…“ 75%. Þetta var 2012. Ætla má að staða Íslands sé svipuð.

Skýrslan bendir einnig á þá neikvæðu staðreynd að Norðmenn hafa engin áhrif á stefnumál ESB og koma hvergi að ákvörðunum. Það sama gildir auðvitað um Ísland í stöðunni. Ef Ísland væri fullgilt aðildarríki fengjum við sex þingmenn á Evrópuþingið, okkar eigin kommissar – hver þjóð hefur bara einn, líka Þjóðverjar og Frakkar – og auk þess fengjum við fullt neitunarvald hvað varðar stefnumörkun, stærri ákvarðanir og samningagerð ESB við önnur ríki eða álfur. Við gætum þá loks látið í okkur heyra og að okkur kveða með þau lög og reglugerðir sem við erum svo að taka upp.

Hvað segja frambjóðendur og utanríkisráðherra um það? Vart vill sjálfstætt fólk láta draga sig á asnaeyrum. "

Það býr mikil sannfæring að baki skrifum Hr. Bieltveds sem er ekki síðri en forystumanna Viðreisnarfylkingarinnar, Loga Más og Þorgerðar Katrínar.En að sama skapi eru rökin varla þess eðlis að sannfæri marga sjálfstæða Íslendinga.

Alþjóðlegir verslunarhagsmunir höfundarins gætu leikið hér hlutverk til viðbótar við hugsjónir um minnkun vægis þjóðríkisins.En afnám landamæra og þjóðareinkenna er grunntónn í Evrópuhugsjóninni.

Verslunarfrelsi við allan heiminn en ekki aðeins við aðeins fjórðung hans innan tollabandalags ESB vega líklegra þyngra í hugum Íslendinga allt frá Jóni Sigurðssyni til þess að þeir hafni inngöngunni þó vel sé skrifað hjá Hr. Bieltved. 

Síðustu fálmkenndu viðbrögð ESB í alþjóðlegum málefnum og veiruráðstöfunum benda ekki til skilvirkni sem íslendingum sé að skapi. Enda verður ekki farið fram hjá vilja Sjálfstæðisflokksins ef hann stendur óskiptur með sjálfstæði Íslands eins og nú virðist vera raunin á.

En maður verður að virða einbeitni baráttumanna eins og hins alþjóðlega kaupsýslumanns Hr. Óla Bieltveds.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband