Leita í fréttum mbl.is

Falsfréttir

sem hugstak er eitt af því góða sem Trump fyrrum forseti kom á blað.

Óli Björn, sem mér finnst stundum að sé eini hugsjónamaðurinn sem eitthvað kveður að í Sjálfstæðisflokknum, tekur þetta hugtak fyrir í Morgunblaðsgrein í dag. 

Þessar upplýsingar þurfa að birtast daginn fyrir kjördag með áskorun til kjósenda, ef þeir hafa þá yfirleitt heila, að finna mótrök. Eða afgreiða allt sem vel hefur verið gert sem selvfölgeligheder og heimta að Píratar og Inga Sæland smyrji einhverju ofaná.

En Óli Björn skrifar:

"Í harðri pólitískri baráttu getur verið áhrifaríkt að endurtaka stöðugt staðleysur. Hamra á rangfærslum í tíma og ótíma. Sé þeim ekki mótmælt er hættan sú að jafnvel þeir sem ættu að vita betur og hafa verið í aðstöðu til að fylgjast með og jafnvel tekið þátt í ákvörðunum, trúa matreiðslu áróðursmeistaranna.

Líklega er fátt betra hráefni fyrir meistara villandi upplýsinga en skattar og gjöld. Í matreiðslunni eru möguleikarnir aðeins takmarkaðir við hugmyndaauði. Og jafnvel réttar upplýsingar geta gefið villandi niðurstöðu til að þjóna pólitískum markmiðum.

Dæmi:

Árið 2017 var Gunnar með 350 þúsund krónur í mánaðarlaun. Hann greiddi í tekjuskatt og útsvar rúmar 71 þúsund krónur. Skattbyrðin var 20,35%.

Á þessu ári er Gunnar í nýju starfi og með töluvert hærri laun, eða 550 þúsund krónur á mánuði. Hann borgar nær 127 þúsund krónur í skatta. Skattbyrðin er 25,38%.

Áróðursmeistarinn nýtir sé þessar upplýsingar og heldur því fram að skattar hafi hækkað. Auðvitað lítur hann fram hjá hærri launum og eðli stighækkandi tekjuskatts. Hann hirðir í engu um að umfangsmiklar kerfisbreytingar voru gerðar á tekjuskattskerfi einstaklinga sem gjörbreytir niðurstöðunni og tryggir að Gunnar er að greiða á þessu ári umtalsvert lægri fjárhæð í skatta en hann hefði gert að óbreyttu.

Raunveruleg lækkun

Árin 2020 og 2021 tóku gildi róttækar breytingar á tekjuskattskerfinu með því að innleitt var nýtt lægra skattþrep. Markmiðið var og er að lækka skattbyrði einstaklinga og þá sérstaklega þeirra sem eru tekjulágir. Tryggja að eftir sitji fleiri krónur í vösum launafólks. (Og þrátt fyrir óáran vegna kórónuveirunnar var breytingunum hrint í framkvæmd).

Dæmið um Gunnar lítur því nokkuð öðruvísi út þegar skattgreiðsla er reiknuð út frá sömu launum. Í hverjum mánuði er Gunnar að greiða liðlega 15 þúsund krónum minna í staðgreiðslu en hann hefði gert að óbreyttum reglum m.v. 550 þúsund króna laun. Með öðrum orðum: Ráðstöfunartekjur hans eru tæplega 183 þúsund krónum hærri á þessu ári en þær hefðu verið ef engar breytingar hefðu náð fram að ganga. Þetta er raunveruleg og áþreifanleg skattalækkun á kjörtímabilinu.

Svo er hægt að líta á þróunina út frá stöðu Gunnars 2017. Með 350 þúsund krónur á mánuði var skattbyrðin 25,38% eins og kemur fram hér að ofan. Hefði hann notið kerfisbreytinganna sem gerðar hafa verið síðustu tvö árin, hefði skattbyrðin verið rétt um 15,7%.

Á kjörtímabilinu, sem nú er að ljúka, hefur tekjuskattur einstaklinga lækkað í heild um liðlega 21 milljarð króna. Þessi lækkun kemur eftir umtalsverða lækkun tekjuskatts á árunum 2016/17. Það má því ætla að einstaklingar séu að greiða rúmlega 30 milljörðum minna í tekjuskatt á þessu ári en þeir hefðu gert ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði setið með hendur í skauti og haldið skattkerfinu óbreyttu frá tíð vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Þessar kerfisbreytingar hafa allar verið gerðar undir forystu Bjarna Benediktssonar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Áfangasigrar

Þeir sem þekkja skoðanir mínar í skattamálum vita að ég er óþolinmóður og hefði viljað sjá róttækari breytingar á skattkerfi einstaklinga en einnig verulega lækkun og uppstokkun á öðrum skattstofnum ríkisins. En ég get ekki annað en glaðst yfir áfangasigrunum.

Frá því Sjálfstæðisflokkurinn tók sæti í ríkisstjórn hefur tryggingagjaldið lækkað nær árlega. Árið 2013 var það 7,69% en er komið niður í 6,10%. Lækkun um meira en 20% eða yfir 25 milljarða á ári. Á sama tíma hafa útgjöld sem tryggingagjaldinu er ætlað að standa undir hækkað verulega. Hitt er rétt að tryggingagjaldið er enn of hátt og raunar vondur skattur sem leggst á laun – störf. Nauðsynlegt er að endurskoða hugmyndafræðina að baki tryggingagjaldinu og þá ekki síst til að létta undir með litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Áfangasigrarnir hafa verið fleiri.

Sjálfstæðisflokkurinn beitti sér fyrir því að einstaklingum væri heimilt að nýta séreignasparnað – skattfrjálst – vegna kaupa á íbúðarhúsnæði.

Skattfrelsismark erfðafjárskatts var hækkað úr 1,5 milljónum í fimm milljónir króna.

Söluhagnaður frístundahúsnæðis í eigu einstaklinga var gerður skattfrjáls með sama hætti og af íbúðarhúsnæði enda hafi viðkomandi átt eignina í a.m.k. sjö ár. Um leið tryggt að sala skerði ekki réttindi í almannatryggingakerfinu.

Með skattabreytingum voru kynslóðaskipti í landbúnaði auðvelduð. Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sigldi málinu í höfn.

Frítekjumark fjármagnstekna var tvöfaldað og nú eru fjármagnstekjur allt að 300 þúsund. Færri greiða fjármagnstekjuskatt en áður þrátt fyrir að skattprósentan hafi hækkað úr 20% í 22%. Þvert á skoðanir pólitískra andstæðinga Sjálfstæðisflokksins, held ég því hins vegar fram að skattprósentan sé hættulega há og að nauðsynlegt sé að lækka hana á komandi árum. En frítekjumarkið kemur hlutfallslega þeim best sem hafa ekki háar fjármagnstekjur.

Stoðir almannaheilla styrktar

Það var sérstaklega ánægjulegt að taka þátt í að hrinda í framkvæmd baráttumáli Bjarna Benediktssonar um skattalega hvata til að styrkja almannaheillafélag. Nú geta einstaklingar dregið framlög til almannaheillastarfsemi fyrir allt að 350 þúsund krónur á ári frá skattskyldum tekjum. Á sama tíma var svigrúm fyrirtækja til að styrkja almannaheillafélög tvöfaldað. Ég er sannfærður um að með þessum breytingum muni líknarfélög, björgunarsveitir, skátar, íþróttafélög og önnur samtök sem vinna að almannaheillum, styrkjast og eflast. Og það er undir okkur, hverju og einu, komið að taka ákvörðun um það.

Dæmin eru fleiri um hvernig byrðarnar hafa orðið léttari hjá heimilum og fyrirtækjum. Breyting á skattlagningu tekna vegna höfundaréttar styrkir skapandi greinar. Uppstokkun á skattaumhverfi atvinnulífsins vegna rannsókna og þróunar hefur rennt nýjum og styrkari stoðum undir nýsköpun og sprotafyrirtæki. Hvatar til grænna fjárfestinga fyrirtækja hafa verið innleiddir.

Og fyrir sjálfstæðismenn er gott að muna eftir að árið 2015 rættist gamall draumur. Þá voru almenn vörugjöld felld niður að frumkvæði Bjarna Benediktssonar. Ekki var þar við látið sitja. Tollar voru felldir niður á öllum vörum, að búvörum undanskildum. Þessar skattabreytingar ýttu undir aukna samkeppni og lækkuðu vöruverð.

Enn er verk að vinna

Ótaldar eru margvíslegar aðrar breytingar en hitt er rétt að dæmi eru um að gjöld og skattar hafi hækkað. Álagning krónutöluskatta er ómarkviss og ógagnsæ. (Hafa raunar stundum lækkað milli ára að raungildi). Þá er einnig ljóst að gjaldskrá opinberra stofnana endurspeglar oft illa þann kostnað sem fellur til við þjónustuna og ekki hefur verið nægjanlega tryggt að viðskiptavinir viðkomandi stofnunar njóti þess hagræðis sem hefur eða mun nást með stafrænu Íslandi.

Ég fæ heldur ekki séð að hægt sé að leggja á kolefnisgjöld með óbreyttum hætti, en þau hafa hækkað verulega á síðustu árum. Þetta er eitthvað öfugsnúið að fyrirtæki sem sannarlega hefur dregið úr losun skuli þurfa að sæta stöðugt hærra kolefnisgjaldi. Það sem oft eru kallaðir grænir skattar þurfa í heild sinni endurskoðunar og við þá endurskoðun verður að hafa hugfast að slík skattaheimta er ekki ætluð til að auka tekjur ríkisins, heldur leysa aðra skattlagningu af hólmi. Eðli máls samkvæmt eru grænir skattar tímabundnir og renna sitt skeið þegar markmiðum er náð.

Það er því enn verk að vinna varðandi tekjuskattskerfi einstaklinga – gera það enn einfaldara og skýrara, draga úr jaðarsköttum og létta skattbyrði, (ég hef lagt fram róttækar kerfisbreytingar, sem ekki verður farið yfir hér enda gert áður). Í gegnum skattkerfið er hægt að auðvelda launafólki að taka með beinum hætti þátt í atvinnulífinu og skjóta þannig styrkari stoðum undir fjárhagslegt sjálfstæði þess. Um leið verður að lækka skattprósentu fjármagnstekna.

En þótt mörg verkefni séu enn óunnin á sviði skattamála, stendur sú staðreynd óhögguð – skiptir engu hvernig meistarar villandi upplýsinga matreiða – að álögur á einstaklinga og fyrirtæki eru tugum milljarða lægri á þessu ári en þær hefðu orðið með óbreyttum leikreglum vinstri stjórnarinnar."

Þetta varð ekki til af sjálfu sér. Hvernig geta Píratar, Kommúnistar og Inga Sæland fullyrt að þetta hefði allt orðið meira og betra ef þeir hefðu komið til skjalanna. Þetta er áþreifanlegt.

En kjósendur gleymi því ekki að að ný vinstri stjórn getur rúllað þessu öllu til baka og gott betur. Og búið til falsfréttir sem ganga í þveröfuga átt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 10
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 57
  • Frá upphafi: 3418272

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 57
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband