Leita í fréttum mbl.is

Verðlaun ef vel gengur!

Vilja Evruspekingarnir ekki gengisstyrkingu erlendra gjaldmiðla?

Af hverju skoða menn ekki skrá Seðlabankans sem sýnir hagnað fólksins af því að hafa krónuna en ekki Evruna?

Ragnar Önundarson reynir að uppfræða hugmyndafræðing Viðreisnar, Ola Anton Bieltvedt,  í gengismálum í Morgunblaðinu í dag. Auðvitað er það vonlaust verk en eitthvað meðalgreint fólk hefur gott af því að renna yfir röksemdafærslu Ragnars þegar hann skrifar:

"Ole Anton Bieltvedt lætur grein mína í Mbl. 3. september sl. „Sveigjanlegt gengi er jafnaðartæki“ verða tilefni greinar í blaðinu hinn 18. september. Hann virðist aðeins hafa lesið fyrri hluta greinar minnar því hann segir: „Sjálftökufólkið sem Ragnar kallar svo er mest verkafólk og aðrir launþegar …“ Í greininni stendur aftur á móti þetta: „Forstjórar fákeppnisfélaganna taka sér hins vegar það sem þeim sýnist í krafti aðstöðu sinnar“ og ennfremur „á meðan kjörnir fulltrúar, þingmenn og ráðherrar, taka þátt í sjálftökunni mun ekkert breytast“. Vegna þessarar fljótfærni fellur stór hluti greinar Oles Antons um sjálfan sig. Hann er stórorður, nefnir gengisfyrirkomulag landsins „svikula hentistefnu siðlausra og skammsýnna stjórnmálamanna“. Voru allar ríkisstjórnir síðustu þrjátíu ára virkilega skipaðar svikulum, siðlausum illmennum? Ég held ekki.

Sjálftökufólkið

Ég hef enga von um að geta komið Ole Anton í skilning um að sveigjanlegt gengi sé skárri kosturinn af tveimur slæmum. Ef einhver skyldi hafa tekið grein hans alvarlega vil ég samt árétta eftirfarandi. Er tímabært að setja gríðarlega harðan aga, á eingöngu starfsfólk gjaldeyrisgreina, með sársauka atvinnumissis yfir höfði sér, meðan langflestir mundu sleppa? Svar sumra þeirra sem búa við afkomuöryggi er já, en ég segi nei. Gera þarf atvinnulífið fjölbreyttara og stöðugra en áður. Orkuvinnsla og stóriðja er stöðugust, við eigum óvirkjaða græna orku, notum hana. Vörumst að þynna gjaldmiðilinn út með prentun peninga. Ef það er gert þarf að draga þá aukningu til baka þegar tilætluðum árangri er náð. Mesti ágalli EES-aðildarinnar fær litla umræðu. Fákeppni er allsráðandi í viðskiptalífinu. Öllum kostnaði er velt yfir á neytendur. Eigendur og stjórnendur fákeppnisfélaga eru í aðstöðu til sjálftöku arðs og launa. Embættismenn og stjórnmálamenn taka laun m.v. þennan sjálftökuhóp. Þetta er sjálftökufólkið. Hinir borga.

Með allt á þurru?

Landsmenn flytja inn mest af sínum nauðsynjum og gjaldeyrir gerir það mögulegt. Hugmyndin um að setja hinn miskunnarlausa aga evrunnar á landsmenn hefur ágalla: Við efnahagsáfall sem ylli gjaldeyrisskorti mundu nokkur þúsund manns missa vinnuna vegna gjaldþrota sjávarútvegs- og ferðaþjónustufyrirtækja. Aðrir, margfalt fleiri, gætu haldið lífi sínu áfram um sinn, eins og ekkert hefði í skorist. Það þýðir að landið mundi safna erlendum skuldum. Ekki yrði fyrirséð hve lengi og hve miklar þær yrðu, en staðan yrði ósjálfbær.

Upplausn

Gjaldþrota fyrirtæki eru leyst upp. Viðskiptasambönd og markaðsstaða glatast. Starfsmannahópurinn tvístrast og þekkingin með. Eignir eru seldar á uppboði. Þessi ferill tekur langan tíma. Hvort sem það er aflabrestur, verðfall, eldgos eða faraldur sem veldur bresti í komu ferðamanna, þá taka svona sveiflur tíma. Til að menn vilji reisa ný fyrirtæki á grunni gamalla er ekki nóg að geta keypt eignir á uppboði. Menn þurfa að sjá fram á hagnað. Þangað til bíða menn og sjá til. Langan tíma tekur og kostar mikla vinnu og áhættu að koma lífvænlegu fyrirtæki á fót. Atvinnuleysið verður meira og varir lengur.

Hin leiðin

Til að hagnaðarvon myndist þyrfti að lækka launin. Það er kallað „niðurfærsla“ og stundum „hin leiðin“, af því að leiðirnar eru bara tvær; gengislækkun eða niðurfærsla launa. Dettur einhverjum í hug í alvöru, að á meðan stærstur hluti þjóðarinnar lifir sínu lífi áfram eins og ekkert hafi í skorist verði sátt og friður um að þeir sem allt byggist á, starfsmenn gjaldeyrisaflandi greina, verði endurráðnir á miklu lægri launum? Menn yrðu að lækka öll laun í landinu. Yrði samstaða og sátt um launalækkun án skuldalækkunar? Mundi sjálftökufólkið lækka sín laun? Frysta þyrfti laun í meira en eitt kjörtímabil, e.t.v. tvö. Í kosningabaráttu yrði úrbótum lofað. Skipt yrði um ríkisstjórn. Ný stjórn mundi afnema tengingu krónunnar við evru, ef sú leið sem Viðreisn mælir með hefði verið reynd. Aðild að ESB sem Samfylkingin kýs hefði langan aðdraganda og langvarandi, óafturkallanlegar afleiðingar af sama toga.

Hagsmunablinda

Sársauki og reiði, enn og aftur misskipting og mismunun. Fengum við ekki nóg af slíku eftir hrun? Svonefnt „fljótandi gengi“ sem lagar sig eftir aðstæðum með því að lækka þegar áföll verða, en styrkist svo á ný þegar batnar í ári, heldur gjaldeyrisaflandi fyrirtækjum gangandi. Framleiðslan, verðmætasköpunin, heldur áfram. Viðskiptasambönd og markaðsstaða varðveitast. Þjálfaðir starfsmenn og þekking þeirra líka. Komist er hjá miklu atvinnuleysi, húsnæðismissi og óöryggi barna og fullorðinna. Það er hagsmunablinda að skeyta ekkert um þetta, bara af því að maður sjálfur er ekki í bráðri hættu að missa tekjur sínar.

Af tvennu illu

Fljótandi gengi lætur okkur taka áföllin saman. Af tvennu illu er það skárri kostur en þau ósköp sem felast í „hinni leiðinni“. Atvinnuleysi er og verður mesta böl hvers samfélags. Við höfum lengi náð góðum árangri með því að taka höggin saman, höldum því áfram."

Ég er bara ekki sammála Ragnari um að fljótandi gengi sé betra af tvennu illu. Það er einfaldlega miklu betra því það hefur innbyggða gulrót í kerfið sem gagnast öllum lýðum.

Það verðlaunar ef vel gengur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 3419711

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband