Leita í fréttum mbl.is

Stjórnarskráin tilheyrir allri þjóðinni

en ekki bara sumum.

Það eru ekki allt of margir sem hafa lagt það á sig að blanda sér í stjórnarskrárdekilur enda rís  þrætubókarfólkið þá yfirleitt öndvert við.

Sveinn Guðjónsson blaðamaður skrifar afbragðs grein í Morgunblað  dagsins um tilurð og framgang þessarar nýju stjórnarskrár, sem þetta lið kallar svo af fullkominni ósvífni og móðgun við staðreyndir málsins. Rétt eins og að þarna bíði einhverjar fullskapaðar gulltöflur í grasi.

En þessi ritsmíð sem þetta lið kallar hina nýju stjórnarskrá  var ekki einu sinni af höfundunum hugsuð nema sem uppkast og umræðugrunnur í stjórnarskrárumræðum. Ekki sem fullsköpuð stjórnarskrá fyrir heila þjóð sem ætti að taka upp í heilu lagi.

Enda blasir sú staðreynd við hverjum við hverjum þeim sem leggur það á sig að lesa þessa ritgerð Þorvaldar Gylfasonar og hirðar hans.

 

Enda er mála sannast að þjóðin hefur komist nokkuð vel af með þá stjórnarskrá sem hefur dugað henni í stórum dráttum frá 1944. Þó eitthvað megi betur fara þá er það ekki sama og að lopaspunamenn úr pólitískum sértrúarhópum  eigi að fara að skrifa þjóðinni eitthvað Magna Charta eftir sínu höfði sem allir eigi að falla fram og lofsyngja.

En Sveinn Guðjónsson skrifar svo:(Bloggari leyfir sér að breyta greinarskilum til áherslu og feitletra eftir sínum smekk sumsstaðar)

"Umræða um nýja stjórnarskrá hefur að vonum vaknað til lífsins í aðdraganda kosninga, enda hafa Píratar gert það að skilyrði fyrir þátttöku í nýrri ríkisstjórn að lögfesta tillögur stjórnlagaráðs þar að lútandi. Vísað er til þjóðarviljans, sem fram hafi komið í þjóðaratkvæðagreiðslu í október árið 2010, þar sem tillögur stjórnlagaráðs hafi verið samþykktar með yfirgnæfandi meirihluta kosningabærra Íslendinga.

Full ástæða er til að draga þessar fullyrðingar í efa. Flestir eru sammála um að tímabært hafi verið að gera ákveðnar breytingar á gömlu lýðveldis-stjórnarskránni, enda væri hún barn síns tíma. Menn eru hins vegar ekki á eitt sáttir um aðferðafræðina sem beitt var og hvernig að þessum tillögum var staðið á sínum tíma.

Staðreyndir málsins eru í stuttu máli þessar:

Í kosningunum til stjórnlagaþingsins var þátttakan aðeins 36,8%, það er að 63,2% virtust ekki hafa áhuga á framgangi málsins. Hæstiréttur dæmdi þessa kosningu ólöglega vegna alvarlegra formgalla og voru þá kjörnir fulltrúar skipaðir í svokallað stjórnlagaráð og þeim falið að semja drög að nýrri stjórnarskrá.

Kjörsóknin um tillögur stjórnlagaráðs var 48,4%. Með öðrum orðum höfðu 51,6% þjóðarinnar ekki áhuga. Af þeim sem kusu vildu 67% miða við uppkastið frá stjórnlagaráðinu.

Þetta merkir að þriðjungur kjósenda samþykkti þetta uppkast. Tveir þriðju hlutar þjóðarinnar samþykktu það ekki, mættu annaðhvort ekki á kjörstað eða greiddu ekki atkvæði með því.

Í ljósi þessara staðreynda eru fullyrðingar um þjóðarvilja og yfirgnæfandi meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu því afar vafasamar, svo vægt sé til orða tekið. Fremur mætti tala um hreinar og klárar rangfærslur.

Falleinkunn Feneyjanefndar

Frumvarp stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá var sent til Feneyjanefndarinnar svokölluðu, sem skipuð er helstu sérfræðingum Evrópu í stjórnskipunarrétti.

Er skemmst frá því að segja að Feneyjanefndin gerði alvarlegar athugasemdir við frumvarpið og gaf því í raun falleinkunn.

Fréttastofa RÚV birti frétt 12. febrúar 2013 þar sem greint er frá áliti Feneyjanefndarinnar og þar segir m.a.:

„Í áliti nefndarinnar er sérstaklega tekið fram að margar greinar frumvarpsins eru of almennt og óljóst orðaðar sem leiðir til þess að afar erfitt getur verið að túlka þær og fara eftir þeim. Stofnanakerfið, sem lagt er til í frumvarpinu, er sagt frekar flókið og að það skorti á samræmi. Þetta eigi við um þau völd sem falin eru þingi, ríkisstjórn og forseta, valdajafnvægið og samspil þessara þriggja stoða stjórnkerfisins sé í mörgum tilfellum of flókið. Þetta eigi líka við um hið beina lýðræði, sem tryggja á samkvæmt frumvarpinu.

Sérfræðingar Feneyjanefndarinnar segja að þótt fagna megi þeim möguleikum sem frumvarpið færir almenningi til að taka þátt í ákvarðanatöku þá þurfi að skoða þá möguleika mjög vel, bæði hina lagalegu hlið og hina pólitísku.

Feneyjanefndin telur jafnvel hættu á pólitísku þrátefli og óstöðugleika, sem geti grafið undan stjórn landsins. Í mannréttindakaflanum telja hinir erlendu sérfræðingar að þótt fjölmörg grundvallarréttindi séu tryggð skorti bæði á nákvæmni og innihald hvað varðar umfang og eðli þeirra réttinda og þær skyldur sem réttindi leggja á bæði hið opinbera og einkaaðila. Það mætti skýra betur þær greinar sem fjalla um dómskerfið, segir í álitinu, sérstaklega þær sem fjalla um sjálfstæði dómara og ríkissaksóknara.“

– Fjölmargt fleira mætti tína til úr áliti Feneyjanefndarinnar sem dregur úr trúverðugleika frumvarps stjórnlagaráðs.

Þjóðaratkvæðagreiðslan

Píratar hafa frá upphafi lagt áherslu á að fá frumvarp stjórnlagaráðs samþykkt nánast óbreytt.

Og þeir eru ekki einir um það því stofnað hefur verið félag áhugafólks um framgöngu málsins.

Nú skal ekkert um það sagt hvort þetta fólk viti ekki af áliti Feneyjanefndarinnar eða kæri sig kollótt og sé ráðið í að hafa álitið að engu. Það er auðvitað sjónarmið út af fyrir sig.

Þetta fólk klifar stöðugt á því að nýja stjórnarskráin hafi verið samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta í lýðræðislegri þjóðaratkvæðagreiðslu, sem er rangt.

Í tillögum stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir 114 greinum og hafa margir lögfróðir menn talið að slíkur greinafjöldi sé óheppilegur þegar um stjórnarskrá sé að ræða, sem reyndar kemur fram í áliti Feneyjanefndarinnar.

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni“ var einungis spurt um sex greinar frumvarpsins.

Fyrsta spurningin var: Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá? Að túlka það þannig að þeir sem segðu já við þessu væru hlynntir því að nýja stjórnarskráin verði tekin upp óbreytt er villandi og beinlínis forheimskandi að mínu mati.

Það er auðvitað margt í frumvarpi stjórnlagaráðs sem nota má til hliðsjónar við breytingar á stjórnarskránni, en þar er líka fjölmargt sem ekki á heima í slíkum sáttmála. Þær þjóðir sem hafa borið gæfu til að fara frekar í breytingar á gildandi stjórnarskrám en umbylta þeim frá grunni hafa jafnan náð farsælli lausn í þessum efnum.

Stjórnarskráin tilheyrir allri þjóðinni og því er mikilvægt að ná víðtækri sátt um breytingar á henni. Að setja í stjórnarskrá ákvæði sem orka tvímælis eða eru í andstöðu við afstöðu meirihluta landsmanna er ekki líklegt til sátta í samfélaginu.

Ég fæ því ekki betur séð en að með einstrengingslegri afstöðu sinni í þessum efnum séu Píratar að dæma sig úr leik í stjórnarmyndunarviðræðum að loknum kosningum." 

Það er fengur að þessari skýru greinargerð Sveins um þetta svokallaða stjórnarskrármál sem hefur til þessa aðeins náð að draga úr  áhuga fólks á kostum málsins þar sem sem þeir háværustu hafa því miður fælt frá með ofstopa sínum. Því sitja landsmenn líklega lengi enn án þess að nokkuð verði gert í breytingum á stjórnarskrá landsins.

Sem er farsælla en flan í forað flokkadrátta um slíkt alvörumál sem Stjórnarskrá er og margir hugsandi menn hafa bent á.

"Stjórnarskráin tilheyrir allri þjóðinni" segir Sveinn og hefur þar lög að mæla. 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Hvað er Femeyjanefndin?

"Nefnd Evrópuráðsins um lýðræði með lögum (e. The European Commission for Democracy through Law), sem í daglegu tali er kölluð Feneyjanefndin (e. Venice Commission), er ráðgjafarnefnd Evrópuráðsins um stjórnskipunarmál.

 

 

Nefndin var stofnuð í Feneyjum árið 1990 en í kjölfar falls Berlínarmúrsins var mikil þörf á aðstoð og ráðgjöf um stjórnskipun og við stjórnarskrárgerð í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, sem voru í þann mund að losna undan oki Sovétríkjanna. Á síðustu tuttugu árum hefur nefndin þróast frá því að sinna nokkurs konar neyðaraðstoð við gerð stjórnarskráa í alþjóðlega viðurkennda og sjálfstæða hugveitu um lagaleg málefni.

 

 

Nefndin var upphaflega stofnuð af 18 ríkjum en árið 2002 var stofnsamningur hennar víkkaður út þannig að ríkjum utan Evrópu var gert kleift að eiga fulla aðild að nefndinni. Núverandi aðildarríki eru 58 talsins, þau eru öll 47 ríki Evrópuráðsins auk Kirgistan, Síle, Kóreu, Marokkó, Alsír, Ísrael, Perú, Brasilíu, Túnis, Mexíkó og Kasakstan.

 

 

Hvert aðildarríki skipar einn fulltrúa í nefndina, til fjögurra ára í senn. Fulltrúarnir eru sjálfstæðir í störfum sínum en þeir eru einkum sérfræðingar í stjórnskipunar- eða þjóðarétti, dómarar við hæstarétt eða stjórnlagadómstól eða þingmenn á þjóðþingum aðildarríkjanna. Núverandi fulltrúi Íslands í Feneyjanefndinni er Herdís Þorgeirsdóttir, doktor í lögum. Nefndin kemur saman til allsherjarfundar í Feneyjum fjórum sinnum á ári, í mars, júní, október og desember."

Halldór Jónsson, 25.9.2021 kl. 20:58

2 Smámynd: Grímur Kjartansson

Í umræðum um "nýju" stjórnarskrána hef ég oftar en ekki lenti í því að þeir sem ákafasta telja hana nauðsynlega hafa ekki lesið þá nýu stjórnarskrá sem þó er hægt að finn á netinu. Enda sumt þar afspyrnu mikið torf og illskiljanlegt t.d.
"Heimilt er að skipta landinu upp í kjördæmi. Þau skulu flest vera átta. Samtök frambjóðenda bjóða fram lista, kjördæmislista eða landslista eða hvort tveggja. Frambjóðendur mega bjóða sig fram samtímis á landslista og einum kjördæmislista sömu samtaka. Kjósandi velur með persónukjöri frambjóðendur af listum í sínu kjördæmi eða af lands[1]listum, eða hvort tveggja. Honum er og heimilt að merkja í stað þess við einn kjördæmislista eða einn landslista, og hefur hann þá valið alla frambjóðendur listans jafnt. Heimilt er að mæla fyrir um í lögum að valið sé einskorðað við kjördæmislista eða landslista sömu samtaka."

Grímur Kjartansson, 25.9.2021 kl. 22:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 3419866

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband