Leita í fréttum mbl.is

Íslendingabragur

Sæmundur Bjarnason skrifar svo:

"Árið 1867 (Semsagt fyrir meira en 150 árum) hóf 17 ára piltur að gefa út tímaritið „Baldur“. Piltur þessi var ættaður frá Fáskrúðsfirði og 3 árum síðar birtist í blaði þessu kvæði eftir hann sem nefnt var Íslendingabragur. Óhætt er að segja að kvæði þetta hafi komið sem sprengja yfir Reykjavík, sem á þessum tíma taldi um 2000 manns. Af þremur erindum kvæðisins hefur það í miðjunni orðið einna frægast og hljóðar þannig:

En þeir fólar, sem frelsi vort svíkja
og flýja í lið með níðingafans,
sem af útlendum upphefð sér sníkja,
eru svívirða og pest föðurlands.
Bölvi þeim ættjörð á deyjanda degi,
daprasta formæling ýli þeim strá,
en brimrót fossar, fjöllin há
veiti frið stundar-langan þeim eigi.
Frjáls því að Íslands þjóð
hún þekkir heims um slóð
ei djöfullegra dáðlaust þing
en danskan Íslending.

Höfðað var mál gegn höfundinum og hann flýði land í kjölfarið. Tímaritið „Baldur“ hætti að sjálfsögðu að koma út. Landsyfirvöld sáu til þess. Piltur þessi hét Jón Ólafsson og af honum er löng og merkileg saga, sem ekki verður sögð hér. Kvæðið varð hinsvegar samstundis landsfrægt og er það á margan hátt enn, enda stóryrt í meira lagi, þó það þyki ekki sérlega svívirðilegt í dag.

Þetta er allsekki ein af mínum örsögum. Hvert eitt og einasta orð í þessari samantekt er sannleikanum samkvæmt."

Þessi Jón var langafi minn og var ævintýramaður eins og bókin hans Gils heitir.

Hann kjaftaði Grant forseta til að  setja undir sig herskip og sigla með sig til Alaska til að kanna fýsileika þess að Íslendingar flyttust þangað.Þeir fóru að drekka saman hann og forsetinn og þar kom að þeir drukku Hvítahúusið þurrt og þá fóru þeir á búllur og héldu áfram. Þar koma að Jón varð ófær en Grant ekki og vildi meira en hann var blankur. Jón átti silfurdollar sem hann léði Grant. En Grant hefur víst aldrei borgað til baka.

Skýrslan um leiðangurinn er til í Library of Congress og til er mynd af Jóni í löjtentsbúningi US Navy.Þeir Jón könnuðu Kodíakeyju og leist vel á. Jón varð svo bókavörður í Chicago í mörg ár og er amma mín Sigríður alin upp í forinni og hestaskítnum á götunum þar.

Hún fór svo 17 ára með föður sinum til Íslands og sagði að sér hefði þótt hún horfa inn í sjálft helvíti að sjá til dimmrar Reykjavíkur um haust  í stað ljósanna sem hún var vön fyrir vestan.

Hún giftist svo dr.Ágústi H. Bjarnason alþýðufræðaranum og prófessor, föður Hákonar skógræktarstjóra, Jóns Ólafs rafmagnsverkfræðings, Helgu Valfells, Maríu Ágústu sem voru verslunarlærðar og Haraldar rafvirkjameistara og bjuggu þau í Hellusundi 3. Jón átti tvo syni fyrir vestan með hjákonu sem hétu Austmann og urðu minnst annar ,Kristján, þekktur  augnlæknir.Og enn einn son hér í Flóanum sem hét Guðjón og á afkomendur.Einn sonur hans varð eftir fyrir vestan og varð tannlæknir og á afkomendur þar og kallast þeir Ólafsson.

Jón gaf út stafrókskver í 15000 eintökum held ég sem stór fjöldi lærði og fleiri kennslubækur, hann sat á  þingi og var ritstjóri fleiri blaða um ævina en aðrir Íslendingar, bæði hérlendi ogfyrir vestan haf. Jón var fæddur í mars 1850 og dó í júlí 1917.Hann hitti mann niðri á Pósthúsi daginn aður en hann dó og spurði sá hvernig honum liði. Þá sagði Jón:

Höndin skelfur heyrnin þver

helst þó sálar kraftur

sjónin nokkuð ágæt er

og aldrei bilar kjaftur.

 

áður hafði hann lýst sér svo:

 

Hálfan fór ég hnöttinn kring

hingað kom þó aftur

og átti bara eitt þarflegt þing

og það var góður kjaftur

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 3419866

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband