Leita í fréttum mbl.is

Ærleg taug Ögga

kemur fram hjá honum í Mogga í dag. Stjórnmálamaður sem setur svona fram er sjálfur er ekki drullusokkur heldur valmenni sem ég virði að meiru. Mynd Hallgríms Helgasonar afmynduðu af bræði og brjálsemi á bílrúðunni hjá Geir H. Haarde  hefur seint farið úr huga mér síðan þetta var. 

Öggi segir í Mogga í dag:

"...„Þetta var það hræðilegasta sem ég gerði á mínum þingferli. Níðingsverk. Ég áttaði mig raunar á því strax við atkvæðagreiðsluna eins og ljósmynd sem birtist á forsíðu Morgunblaðsins daginn eftir ber glöggt með sér (sjá hér á opnunni). Málið var lagt upp kollektíft, ákæra átti fjóra ráðherra úr báðum stjórnarflokkunum, en á endanum var Geir einn leiddur í gapastokkinn. Þarna breyttist málið að eðli til og snerist upp í ofsóknir á hendur einum manni.

Það var ekki meining þeirra sem að þessu stóðu og þeim þótti þetta illt. En því betur sem ég hugsaði málið þá þótti mér þetta hafa verið rangt gagnvart öllum þeim sem átti að ákæra. Allt var þetta heiðvirt fólk sem var að reyna að gera sitt besta. Mistökin lágu í hinum pólitíska kompás. Og vissulega voru þau mistök ekki smá.

En þetta voru ekki fyrstu mistökin í íslenskri pólitík og örugglega ekki þau síðustu.“ ESB-málið gríðarlega erfitt – Annað þungt mál var umsóknin um aðild að ESB sem Samfylkingin lagði mikla áherslu á í téðu ríkisstjórnarsamstarfi þvert á vilja VG. Þar lentir þú og fleiri í miklum hremmingum, ekki satt? „Jú, ég lenti í miklum hremmingum í ESBmálinu.

Ég studdi umsóknina en var um leið gagnrýninn á aðild að Evrópusambandinu. Þarna er illskiljanleg mótsögn sem ég reyni að skýra í bókinni. Kannanir á þessum tíma, haustið 2008 og fram á vorið 2009, þegar stjórnin var mynduð, sýndu að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vildi ganga inn í ESB og taka upp evru.

Þessu urðum við að bregðast við á einhvern hátt. Mér þótti eðlilegt að bera málið undir þjóðina við upphaf þessarar vegferðar en taldi það jafnframt stórvarasamt því líkur væru á að við myndum tapa þeirri atkvæðagreiðslu.“

– Af hverju keyrði Samfylkingin þá ekki á þjóðaratkvæðagreiðsluna? „Það var vanhugsað af hennar hálfu að gera það ekki.

Össur [Skarphéðinsson] vildi þjóðaratkvæðagreiðslu á þessu stigi en Jóhanna ekki. Það var eins gott, því hefðu sjónarmið Samfylkingarinnar orðið ofan á í þjóðaratkvæðagreiðslu á þessu stigi hefðum við andstæðingarnir verið dæmdir til þagnar.“ – Síðan var flogið með umsóknina til Brussel.

„Já, niðurstaðan var sú að sækja um aðild án þess að spyrja þjóðina og við í VG samþykktum það gegn hörðum mótmælum innan flokksins en á þeirri forsendu að hver maður gæti galað með sínu nefi. Það gerðum við sum og ég sjálfur mjög ákveðið allan tímann meðan ég sat í þessari ríkisstjórn. Í upphafi töldum við að málinu yrði lokið á einu og hálfu ári en það gekk ekki eftir. Á þeim tímapunkti áttum við að setja niður hælana og krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hefði það verið gert er ég sannfærður um að málið hefði verið út úr heiminum.“ – Svo var bullandi óánægja í grasrót flokksins allan tímann. „Bullandi óánægja. Sem var mjög erfitt og fór illa með okkur. Sjálfur lenti ég á milli tvegga póla; annars vegar þeirra sem alls ekki vildu sækja um og hins vegar þeirra sem vildu sækja um og halda umsókinni til streitu jafnvel eftir að kjörtímabilinu lyki.

Ég vildi hins vegar koma með krók á móti bragði þegar sýnt var að ESB hygðist draga málið á langinn, setja niður tímasetningu og segja að við kysum um þá niðurstöðu sem þá lægi fyrir. Þetta er ekki gerlegt sögðu nauðhyggjumenn. En auðvitað var það gerlegt sem við sem stjórnvald á Íslandi kæmum okkur saman um og þar með hefði málið verið út úr heiminum.“ – Nú hefurðu staðið fyrir utan þingið í nokkur ár, hvernig líst þér á stöðuna í dag og nýju gömlu ríkisstjórnina sem var að taka við?

„Þetta stjórnarmynstur hefði verið í góðu lagi í móðuharðindunum eða í heimsstyrjöld en gengur ekki núna. Nú heyrir maður að þau ætli að ná sátt um kvótakerfið. Sátt um hvað og við hvern? Og hverjar eiga áherslur okkar í utanríkismálum að vera? Ef menn eru sjálfum sér samkvæmir og fara eftir þeim hugsjónum sem þeir segjast hafa þá gengur þetta dæmi ekki upp. Yfirlýst markmið ganga í gagnstæðar áttir og hljóta því einhverjir að vera að svíkja sína kjósendur illa. Þetta er mjög óheilbrigt fyrir stjórnmálin og samfélag sem brýnt er að ræsa og lífga við eftir erfiða tíma. Það fylgir engin örvun þessari ríkisstjórn.“

– Ertu með þessu að segja að við séum dæmd til stöðnunar? „Já, það finnst mér. Það er verið að frysta hin félagslegu viðhorf sem er afleitt á tímum þegar hinn þungi straumur í heiminum öllum er á forsendum fjármagnsins. Það er málið. Gegn því þarf að rísa upp og hvernig fara vinstrimenn að því? Ekki með því að komast að einhverjum málamiðlunum í litlum herbergjum. Þvert á móti þarf að fara með kyndlana um samfélagið og fíra upp.“

– En bauð það sem kom upp úr kjörkössunum upp á eitthvað annað mynstur? „Það hefði alveg verið hægt að mynda annars konar og mun skárri stjórn. Nú eða þá skipa sér í stjórnarandstöðu. VG hafði ekki lítil áhrif í stjórnarandstöðu fyrsta áratuginn sem sá flokkur lifði. Ekki vanmeta áhrif vígreifrar baráttu.

“ Allir geta lært – Er Samfylkingin þá vænlegri til samstarfs nú en hún var á árunum 2009-13? „Allir geta lært og athyglisvert var að þegar skoðanakönnun var gerð um afstöðu fólks til einkareksturs í heilbrigðisþjónustunni fyrir síðustu kosningar kom í ljós að 100% kjósenda Samfylkingarinnar voru á hinni félagslegu sveif. Kjósendur eru lykilatriðið í þessari jöfnu; það er miklu auðveldara fyrir þá sem kosnir eru á félagslegum forsendum að ná saman en að vinna með einhverjum sem kosnir eru á allt öðrum forsendum. Í því er ekki fólgin nein lítilsvirðing gagnvart andstæðingi á öndverðum meiði heldur þvert á móti virðing við hann og kjósendur hans.

Hægrisinnaðir kjósendur hafa ekkert síður verið sviknir, þó í minna mæli sé, því undansláttur gagnvart þeim hefur verið minni en gagnvart vinstri sinnuðum kjósendum. Í stuttu máli þá ganga þessi kaffibollastjórnmál, þar sem keppikefli er það eitt að sigla lygnan sjó, ekki til lengdar.

“ Ögmundur nefnir í þessu sambandi átökin á íslenskum vinnumarkaði á níunda og sérstaklega tíunda áratugnum sem hverfðust um tvo stórviðburði, annars vegar verkfall BSRB 1984 og hins vegar Þjóðarsáttina 1990. Um þetta fjallar hann ítarlega í bókinni. „Þarna voru tveir meginstraumar í þjóðfélaginu; annars vegar var kauphækkunarkrafan samfara gagnrýni á hávaxtastefnu fjármálakerfisins og hins vegar verðhjöðnunarstefna en þessi sjónarmið sameinuðust í Þjóðarsáttinni svokölluðu. Sjálfur hafði ég fylgt kauphækkunarmönnum og andstæðingum fjármálaokurs í Sigtúnshópnum. Í dag er vísað í Þjóðarsáttina eins og verið sé að fletta upp í helgiritum en veruleikinn var allt annar. Meginhluti þjóðarinnar sagði sig nefnilega fljótlega frá Þjóðarsáttinni þegar hún sá að böggull fylgdi skammrifi. Hann var sá að nota átti lognið og stöðugleikann til að umbylta samfélaginu í þágu markaðshyggju.

Menn byrjuðu til dæmis fljótlega að selja aðgang að heilsugæslustöðvum, sem var ókeypis hér áður. Þjónustugjöldin áttu að innræta sjúklingum kostnaðarvitund, eins og það var kallað. Þannig hófu menn undirbúning markaðsvæðingar sem var þá að byrja að gera vart við sig alþjóðlega. Lognið sem þarna skapaðist var með öðrum orðum misnotað. Síðar hafa menn búið til nýjar sáttir, svo sem með draumi um SALEK sem átti að færa samninga á vinnumarkaði undir handarjaðar sérfræðinga á miðstýrðu borði og nú síðast Lífskjarasamninginn. Þegar ég heyrði þá nafngift fór um mig enda ljóst að einhver auglýsingastofan hafði komið að málum og markmiðið að búa til það andrúmsloft að þeir sem vildu ganga lengra eða gera hlutina öðruvísi en miðstýrt vald vildi væru að eyðileggja „lífskjarasamninginn“. Og það var alveg bannað.

Hvað, ertu á móti bættum lífskjörum? Sjálfur vil ég hafa hemil á verðlagi, vöxtum og svo framvegis og er ekki andvígur samfloti í kjarasamningum en svo eru mörk, ég vil ekki handjárna alla þjóðina. Það þarf að vera líf í tuskunum og ákveðinn hreyfanleiki. Það á ekkert síður við á vinnumarkaðnum en í stjórnmálunum. Það er fyrst og fremst straujárnið sem ég er á móti; þessi vinna má ekki fara fram undir straujárni sem „sérfræðingar“ stýra.

“ Áhugsamur um fréttamennsku Við ljúkum spjalli okkar þar sem við hófum það, á fjölmiðlum. Ögmundur var í áratug, frá 1978- 88, fréttamaður á Ríkissjónvarpinu, starf sem hann sótti um fyrir orð tengdaföður síns, Andrésar Björnssonar, þáverandi útvarpsstjóra. Í bókinni kemur fram að hann hafi kunnað ákaflega vel við sig í fréttunum og gat hæglega hugsað sér að gera það að ævistarfi sínu. Það varð þó ekki.

„Ég fór í sagnfræði og stjórnmálafræði án þess að vita hvað ég vildi taka mér fyrir hendur. Ég sóttist eftir almennri menntun sem síðan gagnaðist mér ágætlega í fréttamennskunni. Ég var mjög áhugasamur um það starf og gat alveg hugsað mér það til frambúðar. En ég vildi líka vera virkur í samfélaginu. Áður en yfir lauk áttaði ég mig þó á því að ekki voru allir áhugasamir um það. Ég sóttist eftir starfi fréttastjóra Ríkissjónvarpsins árið 1988 og þrátt fyrir góðan stuðning starfsmanna fór það á annan veg.

Þá steig ég inn á annan vettvang, var kjörinn formaður BSRB, sem átti ágætlega við mig. Sjálfur sé ég ekkert því til fyrirstöðu að blaða- og fréttamenn taki þátt í hinni pólitísku umræðu, ef þeir svo kjósa. Síðan skulum við bara dæma þá af verkum þeirra. Sjálfur vildi ég láta dæma mig af verkum mínum en ekki hvað ég segði annars staðar. Hvernig rækti ég starf mitt? Ég lagði í mínum störfum ríka áherslu á að öll sjónarmið kæmust að, bæði frá hægri og vinstri. Við það voru ekki allir sáttir. Vildu bara sinn uppáhaldslit.

“ Talandi um skoðanir blaðamanna þá kveðst Ögmundur sjá eftir gömlu flokksblöðunum. „Ég hef alltaf viljað skoðanir og sjá skarpar línur. Þannig var það á tímum flokksblaðanna. Hart var tekist á, líf of fjör. Og maður vissi hvar allir stóðu.“ – Þú gagnrýnir suma fjölmiðla í bókinni fyrir einhliða fréttaflutning í Icesave-málinu. Voru þeir hlutdrægir í því máli?

„Já, sumir. Sérstaklega Ríkisútvarpið og Fréttablaðið. Sama staða var uppi í orkupakkamálinu. Morgunblaðinu og Stöð 2 gekk betur að leiða fram ólík sjónarmið eins undarlegt og það kann nú að hljóma að þessi orð komi frá mér. En þannig var það.“

Hann segir fjölmiðlun enn þá heilla sig og mjög áhugavert sé að fylgjast með því sem er að gerast á þeim vettvangi í dag. „Margir fögnuðu því þegar samfélagsmiðlarnir komu fram á sjónarsviðið, þar með opnaðist almenningi leið inn í umræðuna. En viti menn, þar eru krumlur fjármálavaldsins komnar sem annars staðar og loka bara á menn ef þeim líkar ekki hvað þeir eru að segja. Mér leist ekki á blikuna þegar farið var að tala um upplýsingaóreiðu og að koma þyrfti skikk á hana. Hvar endar sú vegferð?

Ríkisvaldið er farið að teygja sig þarna inn, eftir atvikum í samkrulli við þá sem eiga þessa stóru miðla eins og Twitter og Facebook. Þá er nú stutt fram á bjargbrúnina fyrir lýðræðið. Fjölmiðlun er gríðarlega mikilvæg í lýðræðissamfélagi enda byrja einræðisöflin, þar sem þau vilja festa sig í sessi, alltaf á að loka þeim eða beygja þá undir sig. Varðstaða um frjálsa fréttamennsku, góða og mikla umfjöllun er lykilatriði fyrir framtíð lýðræðisþjóðfélagsins

Ögmundur og Steingrímur J. Sigfússon unnu árum saman þétt og náið saman. Þung mál sem komu upp í tíð vinstristjórnarinnar 2009-13 reyndust hins vegar snúin og vík varð milli vina. Morgunblaðið/Ómar Ögmundur og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sáu hlutina ekki alltaf í sama ljósi.

 

Mér fannst Öggi yfirleitt ekki vera vitlausasti komminn þó við væru ekki bandamenn nema í Icesave. Svona einlægt orðaval notar ekki vondur maður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 10
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 57
  • Frá upphafi: 3418272

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 57
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband