Leita í fréttum mbl.is

Lifi íslenzka krónan !

Hér er margt skrafað um ömurlegheitin í íslenzka krónusamfélaginu. Kratafylkingin telur allra meina bót að ganga í Evrópubandalagið og taka upp evruna sem gjaldmiðil. Þá geti fólk fengið sér lán eins og þeir í útlöndum án þess að hafa verðtryggingu á láninu, sem sér um að maður borgar mörgum sinni hærri tölur til baka en maður lagði upp með. Vegna þess að við höfum hækkað reikningana sem við skrifum hvort á annað meira en við máttum. Afleiðingin verður verðbólga sem einhverjir þekkja og vilja helst fá eftur sem fyrst. 

Mér finnst margir gleyma því, að með því að taka upp evruna eru menn komnir í evruland þar sem kaupið er til muna lægra en hér. Og til að hækka það á kostnað annara stétta munu ekki duga hefðbundnar terroristaaðgerðir, eins og loka skólunum eða sjúkrahúsunum, flugsamgöngum eða vöruflutningum. Það verður ekki hægt að hafa aðra kjarasamninga en þar gerast. Þeir sem halda að þeir geti haldið áfram að hegða sér eins og þeim sýnist lifa í einhverju Shjangríla eða Gotham City hjá Batman.Við munum ekki getað prentað evrur sjálf, það skyldu þessir spekingar muna. 

Mér finnst margir gleyma því að í evrulandi er ekki verðtrygging vegna þess að hegðun eintaklinganna innbyrðis er takmörkunum háð og hún stendur aðeins meðan friðurinn helst. Guðmundur í Rafiðnaðarsambandinu eða Eiríkur í Kennarasambandinu eru óhugsandi fyrirbæri í slíku umhverfi. Það sjá allir að það er ekki hægt að hækka laun allra í Frakklandi meðan það er ekki gert í Þýzkalndi. Það er hinsvegar búið að því og þessvegna segir Fillon forsætisráðherra að hann sé forstjóri í gjaldþrota fyrirtækinu Frakklandi sem eigi ekki eitt sou þegar kemur september hvert ár. Þannig er nú staðan þar.  Sarkozy forseti glímir við lestarstarfsmennina og endir er ekki í augsýn. Hann segir að það verði að breyta Frakklandi, kerfið gangi bara ekki lengur svona. Þetta var líka staðreynd í undanfara stjórnarbyltingarinnar 1793. Lausnin þá varð dýrkeypt fyrir alla Evrópu og ekki síður Íslendinga meðan Napóleon leysti efnahagsvandann með gífurlegum manndrápum..

Hér hafa bófaflokkar í nafni stéttabaráttunnar oftlega tekið þjóðfélagið í gíslingu og kollsteypt efnahag landsins. Þeir segjast svo ekkert skilja í eftirfylgjandi verðbólgu og svo verðtryggingunni sem er nauðvörn litla mannsins sem reynir að spara saman fremur en að eyða og spenna. Þessir flokkar æpa niður með verðryggingu lánanna en gleyma því að hún verkar á báða vegu. Hún er eini vinur sparandans.

Menn segja Bretann fá  sér lán óverðtryggt á 5 % eins og hann búi í Paradís meðan hér sé helvíti. Ég veit ekki betur að svipuð  lán séu hér fáanleg  fyrir þá sem vilja. Lán í gjaldeyri er óverðtryggt að öðru leyti á lágum vöxtum alveg eins og Bretinn fær.

Einhverntímann sá ég línurit yfir 25 ár. Af því sá ég að það var helmingi ódýrara að hafa lán í dollurum en með íslenzkri lánskjaravísitölu.  Ég hef trúað þessu síðan og aldrei séð eftir því þó að stundum komi öldugangur.  Dollar er dollar, alveg sama hvernig heimurinn sveiflar sér í kringum hann. Það eru bara fasteignasalarnir og húsbyggingabraskararnir sem eru búnir að koma fasteignaverðinu hér uppí tvöfaldan byggingakostnað studdir af aumingjaskap pólitíkusanna, sem spila með í braskinu með því að hækka lóðaverðið taumlaust.  Lóðaskortsstefnan á höfuðborgarsvæðinu, sem R-listinn leiddi í hæstu hæðir, hefur skapað þessar aðstæður. Ef allir gætu fengið lóð á kostnaðarverði myndi verðið falla. Sjálfur varð ég pólitískur flóttamaður til Kópavogs fyrir nærri hálfri öld því að Reykjavíkuríhaldið lét mig  ekki  fá lóð þrátt fyrir margar umsóknir.

Íslenskir pólitíkusar, hafa aldrei skilið það að lóðaskortur er mesti verðbólguvaldurinn sem leikið hefur lausum hala á Íslandi. Kannske hefur enginn skilið þetta nema gamli góði Villi sem ætlaði að koma upp lóðabanka fyrir almenning. Því miður gerði sexmenningaklíkan í hans eigin flokki útafvið möguleikana á að hrinda þessari grundvallarefnahagsaðgerð í framkvæmd. Víst er að lýðurinn, sem við tók stjórnartaumunum , mun ekkert gera nema samræða við sjálfan sig  eins og þeirra er háttur. 

Í Bandaríkjunum er til nóg byggingaland. Þar ríkir samkeppni en ekki klíkuskapur í kvótaúthlutunum. Á Florida kostar vandað 200 fermetra einbýlishús(núr múrsteini og spýtum9 með garði og tveggja bíla bílskúr núna um 15 milljónir íslenzkar. Samskonar hús hérna kostar meira en pí sinnum meira að byggja, allt að tvöpí sinnum meira að kaupa.

Þetta er bara GA-ga vitleysa. Gamli Sveinn sagði líka stundum ; Sumir eru  "lánsamari" en aðrir . Og líka sagði hann  : "Lán er ólán "  "Það er verðmætasköpunin og eignamyndunin sem skiptir máli."  

Unga fólkið ætti að hugsa um þau orð núna þegar hægt er að geyma spariféið á tryggan hátt, ÞÖKK SÉ VERÐTRYGGINGUNNI SEM ALLIR ERU Í HEIMSKU SINNI AÐ BÖLVA.  Hún virkar nefnilega í báðar áttir.

Gamli Sveinn sagði líka þegar vextastefnu Seðlabankans  bar á góma; "Vextir eiga að vera svo háir sem til eru fífl að borga" !   Kannske Davíð geri sér þetta ljóst  þegar hann hækkar og hækkar.? Skyldu þeir Guðmundur og Eiríkur halda að Davíð lækki ef þeir ná sínum kröfum fram ? Er virkilega einhver svo vitlaus að halda að stýrivextir muni lækka á nýja árinu ?  Af því bara ?

Seinna sagði  Einar Oddur : "Ekkert er svo þýðingarmikið á Íslandi að ekki megi fresta því." Ef mönnum væri ekki svona brátt í brók með að heimta allt strax, þá farnaðist mörgum betur. 

Það voru mikil mistök að fella niður verðbólgureikningsskil fyrirtækja. Þau lög voru þau skynsamlegustu sem við höfum nokkru sinni átt. Núna væru þau ekki að gera upp í evrum ef þau hefðu gilt áfram. Því miður eru ungu bréfaguttarnir of ungir til að muna það, hvernig verðbólgan gerði fyrirtæki gjaldþrota þó að þau borguðu alltaf myndarlegan tekjuskatt. Kratarnir tala alltaf líka um að hækka þurfi 10 % fjármagnstekjuskattinn. Þeir eru of vitlausir til að skilja það að hann er 10 % plús verðbólga, núna þá nær 20 % en 10 %. Þeir skilja heldur ekki frekar en Viðskiptaráð Íslands, að lífeyrisskuldbinding ríkisstarfsmanna er núna 230 milljarðar sem er skuld sem ríkið þarf að greiða. Hún er hinsvegar ekki bókfærð sem slík og því talar Hannes Hólmsteinn um að skuldir ríkissins hafi verið greiddar upp !

Verðtryggða íslenzka krónan er bezti gjaldmiðill í heimi. Við skulum vera stolt af henni en ekki vera að níða hana svona niður.

Íslenzka krónan lengi lifi ! Sómi Íslands, sverð og skjöldur !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll, Halldór !

Þakka þér þennan réttmæta yfirlestur. Kratarnir; reyndar, sem flestir aðrir, vilja ekkert með það hafa,  að kjör okkar flestra (hver fædd erum, eftir 1950) þarf að leiðrétta. Þ.e. að við, sem greiðum tugi þúsunda, í afborganir lána, með gildistöku hinna illræmdu Ólafslaga, á sama tíma, og þau eldri, eru að borga 3-400 kr.; ársfjórðungslega, af gömlu Húsnæðismálastjórnar lánunum hafa hvað hæst; mörg hver, um eldri borgara afslátt á þessu, sem hinu.

Þetta hefir lengi brunnið á okkur; yngri borgurum Halldór, og brennur enn. 

Tek undir með þér; eindregið, að krónuna skulum við varðveita, meðan land er byggt, þótt svo ég; persónulega, vildi taka aftur upp Ríkisdali og Skildinga, hverjir frá okkur voru teknir, árið 1873, illu heilli, en þar spilaði inn í, m.a.; Skandinavismi þeirra Norðurlanda konunga, Kristjáns IX. , sem og Karls XV., sem kunnugt er.

Með beztu kveðjum, sem fyrr / Óskar Helgi Helgason        

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 23.11.2007 kl. 22:04

2 Smámynd: haraldurhar

Sæll Halldór.

     Eg tel að þú hafir ekki gert þér ljóst að nú er árið 2007, og Ísland er með frjálst fjármagnsflæði.  Að ætla að stjórna verðbólgu með okurvöxtum, er eins og setja eitt sandpokalag á stíflu, sem vitað er að ekki mun halda, heldur valda mun meira tjóni þegar hún brestur. 

   Það er auðlestið á grein þinni að þú stendur ekki í rekstri á fyrirtæki í samkeppi, né  útflutingsiðnaði. 

    Eins og þú kannsi veist er ísl. kr. minnsti sjálfstæði gjaldmiðill í heimi, og með okur stýrivöxtum hefur hún orðinn leiksoppur erl fjárfesta, sem geta farið með hana hvert sem þeir vilja á einni morgunstund, þú er orðinn svo gamall áð þú munir eftir hverning fór fyrir Sterlingspundinu, eftir fall Beringsbankans.

   'isl. kr. er í dag orðinn gjaldmiðill þeirra sem minna mega sín, og er á góðri leið með að koma tugþúsundum fjölskyldan á husinn, auk þess sem nánast öll útflutingsfyrirtæki erum í verulegum greiðsluvanda. Það er ekki að ástæðulausu að skuldaálag á ísl. banka sé í hámarki, það eru jú þeir sem þurfa að fjármagna tapreksur fyrirtækjanna, og yfirdráttarlán heimilina.

    Röng gengisskráning ísl. kr. hefur valdið viðskiptahalla sem hefur verið í methæðum, með tilheyrandi ofurtekjum ríkissjóðs, og valdið þennslu í öllu ríkisbatteríunu. 

    Okur stýrivextir eru farnir að vinna í öfuga átt í stað þess að draga úr verðbólgu, eru þeir farnir að fóðra hana.

   Þessi stjórnun peningamála er þekkt frá Suður Ameríku, og þú veist hvering það fór þar. Viðlíka vexti og við greiðum í dag er einungis að finna í Tyrklandi og Zimbabe hjá Mugabe, kannski eigum við að mynda viðskiptatengsl við þá?

    Verðtryggingin er fyrirbæri sem var barn síns tíma, og hefur sína kosti og galla, en það er nú eins hana eins og verðtr. launa, hún eykur á misrétti.

   Gjaldmiðill okkar má mín vegna heita kr eða Evra, það sem ég vil að við tengjum skráningu gjaldmiðilsins við Evru, eða myntkörfu, og færum vexti hér á landi til samræmis við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við. 

   Eg veit að leiðrétting á gjaldmiðli okkar yrði 30 til 40%, en ég tel betra að taka höggið strax, og byggja svo okkur upp frá því.

   Dæmið sem þú tókst um verðlagningu á einbýlishúsi í Flórida, hefði nú átt að hrista svolítið upp í höfðinu á þér varðandi ofskráingu Ísl. kr.

kv. h.

haraldurhar, 24.11.2007 kl. 00:20

3 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég er að mestu sammála afar góðum pistli. Seðlabankinn er einn á móti ölum í hráskinnaleiknum við að halda aftur af verðbólgunni. Varla er sanngjarnt að kenna krónunni um það, enda myndi evra ekki leysa okkur þ.m.t opinbera aðila undan þeirri skyldu að sýna ábyrgð, eins og ágætlega kom fram í pistlinum.  Að þessu sinni eru efnahagsvandamál Íslendinga að litlu leyti fólgin í þeim félögum Guðmundi og Eiríki. Nánast öllum sérfræðinum ber saman um að vandamálin stafi af lausatökum vegna kosningafjárlaga.

Sigurður Þórðarson, 25.11.2007 kl. 02:58

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Takk fyrir þetta allir.

Óskar Helgi: Þegar ég var að byggja fysrt var lánshlutfallið tæp 30 %. Það var nú samt einhver verðtryggingarákvæði í því sem ég er nú búinn að gelyma enda 40 ár komin síðan. Þá voru engin önnur lán að fá nema hjá ættingjum og eitthvað stundum hjá efnissölum. Menn urðu að vinna sjálfir í byggingum sínum og búa í þeim hurðarlausum á steininum árum saman.

Nú fóru þeir í baunkunum að lána 100 % þó það sé nú gengið til baka. Það reynist nú flestum ofviða að borga af því.

HaraldurHar:

Maður skyldi halda að þú værir útgerðarmaður af gamla skólanum, sem alltaf pöntuðu gengisfall hjá stjórnvöldum eftir að þeir voru búnir að að ¨semja" eins og þaðvar kallað. Varðstu ekki instant-ríkur þegar dollarinn fór í hundraðítíkall fyrir par árum ? Er það búið núna ?

Jafnvel þó að þetta endurtæki sig myndi húsið í Florida ekki kosta nem 20 milljónir.

Hvað skeður ef þú færð gengisfall uppá svon tölur ?.

Eru þá allt komið í jafnvægi ? Hækkar ekki olían og allt innflutningsverðlag . Hvað verður um útistandandi skuldir hjá þér ? Hvernig gengur þér að endurnýja í rekstrinum ?

Ég var í 38 ár í rekstri og þurfti að glíma við þetta allt , oftlega uppá líf eða dauða. Þá var ég rekinn og hef verið harkari síðustu fimm árin.  Ég upplifði margt. T.d. horfði ég á eitt virtasta iðnaðarfyrirtækið greiða tekjuskatt öll sín starfsár en fara svo skyndilega á hausinn. Veizt þú af hverju ?

Það er alveg óþarfi fyrir þig að gera grin að mér og vísa í Mugabe. Miklu frekar gætir þú beðið um ráðgjafastarf hjá honum í sambandi við vexti og verðbólgu, en hún hefur víst slegið í 3000 %.

Verðbólgan er allstaðar. Ég sá á netinu af einbýlishús eftir Frank Loyd Wright

kostaði árið sem ég fæddist, 1937 , 155.000 dollara. Jafngildi 2.1 milljónar dollara núna. Það eru semsagt aðeins eftir innan við 8 sent af gamla góða dollaranum. Þannig fór 3.6 % verðbólga með dollarann. Hvaða vextir væru þá hæfilegir á dollaralánum ?

Hvað vexti vilt þú fá á þína íslenzku krónur ef ég bið þig um lán ?  Mér þætti ákaflega vænt um ef þú vildir að gera mér tilboð í svoleiðis lán, stórt eða smátt. allt eftir því hvað þú vilt lána mér mikið. Við skulum segja bæði til eins árs og svo til 40 ára af því að þá ætla ég að kaupa mér hús.

Sigurður Þórðarson, gaman að heyra í þér félagi.  Það sem ég er að segja er að lóðaskortsstefnan kyndir verðbólguna. Væru nægar lóðir á svona 4 milljónir fyrir einbýlishús, minna en milljón á blokkaríbúð sem væntanlega kostar að gera þær klárar, í boði á höfuðborgarsvæðinu, þá mættirðu velta fyrir þér hvað myndi gerast.

Myndu íbúðirnar duga  sem veð fyrir áhvílandi ? Myndu fasteignasalarnir halda áfram að keyra verðið upp fyrir 300 þúsund kallinn á fermetrann ? Hefuðu athugað hvað íbúðir kosta á Blönduósi ?

Mér finnst þú taka létt á þeim Guðmundi og Eiríki. Þeir segjast vilja bæta kjör sinna félagsmanna. Verulega, 30-50 % svona til að byrja með. Og svo er nóg af liði með alltof lágt kaup, ómannsæmandi laun. Kannske Haraldur þekki það fólk.

Hvað erum við að þrasa við þessa kalla . Afhverju hækku við ekki bara kaupið hjá öllum um 20 % með einu pennastriki eins og ÓliJóh gerði 1971 ? Manstu ekki eftir því ? Svo komu bara aðrir sem vildu fá meira fyrir sig af sanngirnissjónarmiðum, alveg eins og Guðmundur og Eiríkur tala um..

Halldór Jónsson, 25.11.2007 kl. 20:39

5 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Þetta er svo sem allveg rétt hjá þér Halldór, mennirnir eru virðast halda að þeir séu ráðnir til að fara með þessa rullu. Annars varð mikil breyting á þessu með þjóðarsáttasamningunum, við megum ekki vanmeta það.  Mér finnst samt hryllilegt til þess að hugsa hvað hið opinbera eykur umsvif sín.  Ríkið getur kannski fjármagnað þetta með því að skattleggja þensluna en hvað ef syrtir í álinn? Ætla menn þá að skera eitthvað niður?

Tryggingarálag íslensku bankanna  er það hæsta í heimi (hef ég eftir bankamanni úr Laugunum) sem stafar af því að þeir hafa engin innlán.  Þetta er brothætt og stjórnmálamennirnir sýna ekki gott fordæmi. En líklega er það okkur að kenna.

Sigurður Þórðarson, 26.11.2007 kl. 01:02

6 Smámynd: haraldurhar

Sæll Halldór.

    Það sem ég hreint ekki skil í hugsun þinni er það að ætla halda aftur af verðbólgu með okurvöxtum, með þeim afleiðingum að gjaldmiðill okkar ísl.kr. er spilapeningar á borði, fjárfesta og spekulanta í formi jöklabréfa svo maður tali ekki um carry-tradera.  Þetta hefur orsakað ofstyrkingu kr. með tilheyrandi neyslubrjálæði,

   Þú hefur kannski tekið eftir því að í einhverju blaðinu um sl. helgi, kom fram að allar stórar ferðatöskur væru uppseldar, og ég hef nýlegt dæmi um að 70 ferðatöskur þurfti að skilja eftir á brottfarastað ísl. ferðamanna nú nýlega.

   Það hafa komið um 300 milljarðar  í nýjum peningum í formi nýrrar lántöku á eldra og nýlegt íbúðarhúsnæði á sl. árum, stærsti hluti þessara fjármuna, hefur runnið til neyslu eins og bíla, sumarhúsa, og annars bríerís. Því miður hefur nær enginn fjárfesting átt sér stað í framleiðslutækjum, né öðru sem getur gefið af sér framtíðar arð.  Vitaskuld er góðgæri meðan verið er að eyða þessum peningum. 

   Það sem mér finnst þú ekki taka með í reikninginn, þegar þú talar um reynslu þína við fyrirtækjarekstur, er það hversu gerbreitt aðgengi að fjármagni er nú. 

   Eg veit ekki afhverju fyrirtækið sem hafði skilað hagnaði allan sinn starfstíma fór á hausinn.  Gæti þó haldið að það hefði misst einhverja verd sem það hafði haft í rekstarumhverfi sínu, eða þá stórtöp á útlánum sínum, er hafi leitt til lántöku á okurvöxtum.

   Eg vildi ekki lána þér í ísl. kr, en ef svo væri þá vildi ég fá einhverjar verðbætur á lánið, hér áður fyrr var flöskur af brennivíni notað oft sem viðmið.   Lán til 40 ára með 300 pukta álagi á Libor gæti vel komið til greina í myntkörfu eða í evrum.   ca 7% í dag á evru.

   Tel ekki að Mugbe, vildi ráða mig í ráðgjafastarf, þó sakar kannski ekki að reyna, veistu hvar ég sæki um?

   Varðandi launakröfur og samninga, tel ég að Guðmundur og Eiríkur sé óþarfir, því við eigum eina nefnd, sem úrskurðar um laun æðstu embættismanna, og er undir forustu Garðars Garðassonar, tel að mætti nota hana til að ákvaða öll laun í landinu, þá mynndi enginn kvarta. Þó Davíð og félagar í Seðlabankanum, létu skenkja sér launahækkum, sl. vor á þeim forsendum að launaskrið undirmanna þeirra, hefði nálgast þá í launum.   Eg spyr þá þig, finnst þér eðlilegt að Seðalbankastjórar létu stjórnina hækka sín laun í vor? og ekki síst í ljósi þess að sömu menn ákvaðrða stýrivexti í hæstu hæðum, til að slá á eftirspurn og þennslu, að mér skilst.

 Lifðu heill.  h.

haraldurhar, 28.11.2007 kl. 00:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 55
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband