Leita í fréttum mbl.is

Vaxandi fylgi með upptöku dollars !

Ég verð var við það, að gífurlega vaxandi þungi er í umræðu manna á meðal fyrir því að breyta um mynt og taka upp Bandaríkjadollara, sem mynt á Íslandi. Ekki Evru sem er háð duttlungum Bruxelles-bandalagsins með sínar 27 ósamstíga þjóðir. Engin niðurstaða fæst þaðan fyrr en eftir mörg ár. Við förum heldur aldrei inn þangað sem samstíga þjóð.  Svo ákveðin erum við í því að láta ekki auðlindalögsöguna frá okkur,  hvað sem evrópuspekingarnir hafa hátt . Ole Rehn talaði alveg nógu skýrt fyrir mig. 

Af hverju skiptum við ekki yfir í Bandaríkjadal núna t.d. 15.des. n.k.  Á ca. 95 kr. fyrir hvern dollara, sem ég hef heyrt  talið raunhæft viðmiðunargengi fyrir útflutningsatvinnuvegina.  Öll lán og innistæður breytast í dollara á því gengi.  Útlánsvextir verða Libor plús einhverjir punktar sem Seðlabanki ákveður en ekki viðskiptabankarnir. Innlánsvextir kannske bara verðtryggingarvextir. Kannske verða vextir hugsanlega  5-8 %  á langtímalánum.  Yfirdráttarlán fyrirtækja verða auðvitað dýrari eftir áhættu viðskiptabankanna.  En samráð þeirra verði hindrað með tiltækum ráðum.  

Við verðum samt líklega að greiða eitthvað vaxtaálag vegna langtímalána til að vernda lífeyrissjóðina og íbúðalánasjóð því að dollarinn er verðbólgumynt eins og aðrar.

 Annars er þetta einfalt til að byrja með. Langtum ódýrara fyrir þjóðina, sem þarf ekki öll þessi stóru lán, Og getum líka sagt eitthvað við Gordon Brown sem okkur langar til að segja vegna Icesave. 

Hættan fyrir okkur er fólgin í skæruliðahópunum sem ætla að beygja þjóðfélagið undir sig með ofebeldisaðgerðum í formi gíslatöku og uppsagna. Þar reynir á samvinnu samtaka vinnumarkaðarins.  Við verðum að semja þjóðarsátt til lengri tíma við svona  tímamót djarfra ákvarðana.

Við verðum líka að semja við Seðlabanka Bandaríkjanna um einhverja þrautavörn fyrir Seðlabankann. Skyldu þeir ekki  vilja örugglega gera eitthvað til að útbreiða dollarasvæðið á móti evrusvæðinu ? . Er ekki rétt að kanna þegnskap hins nýja forseta Obama ? 

Kostirnir verða þeir,  að þjóðin er sameinuð í því að eiga sjálf yfirráð yfir auðlindunum, fiskimiðunum, orkunni, náttúrunni, olíunni. 

Kostirnir eru líka þeir , að verðbólguholskeflan,  sem við sitjum núna í kvíðahnipri yfir að muni hellast yfir okkur á næstunni við krónufleytinguna, kemur bara ekki. Vextirnir lækka og viðskiptin örvast og atvinnuleysið lætur undan síga.

Drífum okkur upp og reynum að fara að virkja og koma erlendri fjárfestingu inn í þetta Gósenland til þessarra vinnufúsu handa. Hættum að liggja í hnút og sækja öskursamkomur hjá leikstjórunum á laugardögum. Okkur vantar aukavinnu, alltaf meiri aukavinnu !  Leyfum líka eldra fólki að vinna að vild án skerðinga. Við þurfum allra hendur á loft sem geta.

Tökum svo upp  vegabréfaskyldu  og raunhæft eftirlit með því hverjir koma til landsins og fara.   Lokum  Fríhöfninni,  sem er óþörf með öllu og höfum þar venjulegar búðir. Útlendingar sem fara úr landi geta fengið TaxFree, ekki Íslendingar sem eiga ekkert tilkall til þess. 

Af hverju ekki ? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll frændi. Þetta líkar mér. Nú verðum við að hefjast handa og fara að gera eitthvað. Nýta okkar auðlindir. Þær eru það afl sem við eigum til að koma þjóðarskútunni af strandstað.

Hvað sem mönnum kann að finnast um stóriðjur, þá yrði álverið í Helguvík, ef að framkvæmdum verður á næstu mánuðum, sá olíudropi sem við þurfum á vél þjóðarskútunnar til að ná henni frá strandstaðnum. Það getur skipt sköpum ef hægt er að finna vinnu fyrir 3000 manns við þessar framkvæmdir á næstu mánuðum.  Auðvitað munu enn fleiri njóta þess óbeint þegar peningarnir fara að streyma um æðar efnahagskerfisins. Þannig fáum við vonandi nauðsynlegt fjármagn til að virkja frumkvöðla til nýsköpunar, fjármagn til að styðja við menntakerfið, heilbrigðiskerfið, menningu og listir. Ekki veitir af.

Brettum upp ermar með bros á vör. Losum þjóðarskútuna af strandstað! Nóg er til af vinnufúsum höndum. Aðalatriðið er að hefjast handa, jafnvel þó hægt gangi í fyrstu. Framhaldið kemur síðan af sjálfu sér...

Gjaldmiðillinn er svo annað mál. Auðvitað verðum við að kanna alla möguleika. Samt gerist ekkert. Hvers vegna sitja alþingismenn með hendur í skauti meðan ríkisstjórnin er önnum kafin við að slökkva elda. Þingsalurinn minnir á kennslustofu í barnaskóla þar sem kennarinn hefur brugðið sér frá. Ekkert frumkvæði. Bara nöldur.

Ágúst H Bjarnason, 27.11.2008 kl. 08:59

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Takk fyrir þetta frændi sæll. Við hugsum á svipuðum nótum um nauðsyn olíudropans. Það er satt að mikið er nöldrað við Austurvöll. En ég hef heyrt að það sé líka hugsað á bak við tjöldin, ma. um framtíð gjaldmiðilsins,verðbólgunnar og hvaðeina.

Halldór Jónsson, 27.11.2008 kl. 13:23

3 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Nú vil ég að við göngum í ESB og tökum upp evru. Það ferli tekur tíma og kosningar um aðild að ESB verða miklar átakakosningar. Það er bara þannig, þetta er mikið hitamál fyrir marga. Ef þjóðin samþykkir í þjóðaratkvæðagreiðslu að ganga inn í ESB þá förum við inn í fordyrið hjá Myntbandalaginu. Við fáum ekki að taka upp evru nema að uppfylltum Maastricht skilyrðunum. Það mun taka okkur nokkur ár að uppfylla þau skilyrði. Sjá hér: 

Maastricht skilyrðin:

Verðbólga sé ekki meira en 1½% meiri en í þeim þremur Evrópusambandslöndum sem hafa minnsta verðbólgu.

Að í eitt ár séu meðalnafnvextir á langtímabréfum að hámarki 2% hærri en í þeim þremur löndum Evrópusambandsins sem hafa lægsta verðbólgu,

Að viðkomandi land hafi verið í gengissamstarfi Evrópu ERM í að minnsta kosti tvö ár án gengisfellingar og innan vikmarka.

Að fjárlagahalli sé ekki meiri en 3% af VLF.

Heildarskuldir hins opinbera mega ekki vera meiri en 60% af VLF 

Þetta ferli að taka upp evru mun sjálfsagt taka okkur 2 til 6 ár frá og með deginum í dag. Á meðan við erum í þessu ferli eða ef þjóðin hafnar í þjóðaratkvæðagreiðslu ESB þá sitjum við áfram uppi með ónýtan gjaldmiðil. Það gengur ekki upp, það setur að mér hroll. Þá býður okkur annað hrun krónunnar eftir 4 til 6 ár, það er ástandið sem verið hefur hér frá 1944 heldur áfram. Tvö til sex ár er allt of langur tími með ónýtan gjaldmiðil. Auk þess náum við hugsanlega aldrei að uppfylla þessi Maastricht skilyrði ef við notum krónuna áfram. 

Ok, Halldór ég tek undir með þér, tökum upp dollar sem fyrst.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 28.11.2008 kl. 17:44

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Þakka þér fyrir  kollegi Friðrik. Þetta er röksemdafærsla sem ég held að margir geti tekið undir.

Ég veit ekki hvernig ég á sem forstokkaður Sjálfstæðismaður að ganga út úr Laugardalshöll af landsfundi Sjálfstæðismanna nú í janúar með þá samþykkt  naums meirihluta fundarins á bakinu að hefja aðildarviðræður við ESB með krötunum og Framsókn. Ekki get ég verið í  flokki sem stendur þá ekki undir eigin nafni hvað þá annað.

Ég mun aldrei sætta mig við að fara í ESB og afsala auðlindum lands og sjávar til erlends valds.

Það sem okkur vantar strax er sterkur gjaldmiðill sem gengur um heima alla.

Auðvitað verður það erfitt miðað við verkfallasöguna okkar. En við komumst ekki útúr þessum i kreppuvítahring gengisfellinga, verðbólgu og himinhárra stýrivaxta  öðruvísi.  Ég held að við munum hreinlega drepast útaf ef við gerum þetta ekki á næsta ári.

Við verðum að reyna á þetta með dollarann. Aðrar leiðir eru ekki í boði. ESB er lokað og evran er ekki í boði hvað sem kratarnir segja.

Leggja áherslu á að losna við jöklabréfin og útlendu kröfurnar fyrst  með ónýtri krónu. Fresta uppgjörinu Icesave og skipta í dollara áður en skrifað er uppá 800. 000 króna víxil á hvern lifandi Íslending nema með einhverjum kjörum sem þjóðin getur með raunhæfum hætti borgað af tekjum framtíðarinnar, sem eru annað en skatttekjur ársins 2009.   

Veit einhver hvort það er rétt að Kanar og Kanadamenn vilji okkur ekki í NAFTA ? Hvað þýðir það og hversvegna ? 

Mér finnst staðan svo alvarleg að það þýði ekki að halda áfram að tala um ríkidæmi þjóðarinnar og mannauðinn. Hið fyrra gagnast ekki í sulti og mannauðurinn bara fer úr landi og eftir verða gamalmenni eins og ég.

Halldór Jónsson, 28.11.2008 kl. 20:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 3419710

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband