Leita í fréttum mbl.is

Við erum að drepast !

Við erum hreinlega að drepast Íslendingar. Atvinnuleysið  vex  óðfluga. Bráðum mæla 14000 manns göturnar.  Jafnvel Mogginn er að fara á hausinn og eftir það stendur Baugur að allri prentmiðlun í landinu. Baugur, Baugur allstaðar. Okurbúllur, einokun og ríkisbankar. Gjaldeyrisskortur, gjaldeyrisleysi, nefndir ráð.  Allir tala um samdrátt, sparnað og annað rugl, sem á ekki við við þessar aðstæður. Við verðum að örva atvinnustigið eða drepast niður. 

Þetta þjóðfélag er eiginlega komið til fjandans allt saman. Það þýðir ekkert að bera á móti því. Hagstjórnarmódelið okkar núna er árgerð 1956. Það er bara SÍS sem vantar á markaðinn.  Og mér finnst núna því miður  eiginlega ekkert ljós í myrkrinu sjáanlegt,  þar sem ekkert heyrist nema talið um samdrátt  ríkis og sveitarfélaga, uppsagnir og algert úrræðaleysi.    

Hvern andskotann ætlum við að gera ?  Öskra í Háskólabíó hjá leikstjóranum og á Austurvelli með Herði Torfa ? Henda eggjum í Alþingishúsið ?  Mér finnst bara ekkert nema snakk um Evrópubandalagið og einhverja evru vera í gangi.  Langhundar frá Jóni Baldvin um heimsku Sjálfstæðisflokksins gagnvart Evrópubandalagsumsókn valda mér aðeins klígju. Það er bullað og bullað um aðgerðir þar sem  það liggur samt fyrir að allt það ferli  tekur mörg ár.    Það gagnar þeim sem þá verða á lífi  eins og séra Jens á Setbergi lýsti einkennum neftóbaksleysisins þegar sást til kaupstaðarfarans uppi á bæjarhólnum.  

Ég veit ekki hvernig ég ætti  sem  Sjálfstæðismaður að ganga út úr Laugardalshöll af landsfundi Sjálfstæðismanna nú í janúar með þá samþykkt , jafnvel naums meirihluta fundarins á bakinu,  að hefja aðildarviðræður við ESB með krötunum og Framsókn ? Líklega best að fara ekki þangað til að sleppa við slíka þolraun.  Ekki get ég verið í  flokki sem stendur ekki undir eigin nafni hvað þá annað. Ég verð þá víst að verða flokksleysingi í fyrsta sinn á ævinni,   því aldrei mun ég kjósa einhverja kratagosa hvað þá kellinguna hans Flosa eins og þar stendur. Hvað þá  þá Þorvald Gylfason, þann arga Ebeson,  Skallagrím og  Jón Baldvin, -nei það er engin von.    Ég sé mig ekki sætta mig við að fara í ESB og afsala auðlindum lands og sjávar til erlends valds.  Mér fannst Ole Rehn tala alveg nógu skýrt fyrir mig. Ég finn ekki neinn  Evrópumann  inni í mér þrátt fyrir langa veru í Þýzkalandi.   Ég er bara Íslendingur með fleiri taugar vestur um haf en austur.  

Það sem okkur vantar núna er sterkur gjaldmiðill sem gengur um heima alla. Dollarinn er stærstur.  Auðvitað verður það erfitt miðað við verkfallasöguna okkar. En við komumst ekki útúr þessum i kreppuvítahring gengisfellinga, verðbólgu og himinhárra stýrivaxta  öðruvísi.  Ég held að við munum hreinlega drepast útaf ef við gerum þetta ekki á næsta ári.Við verðum að reyna á þetta með dollarann sem fyrsta kost.  Aðrar leiðir eru ekki í boði. ESB er lokað og evran er ekki í boði hvað sem kratarnir segja. Dollar er stærri en NOK.  Við stefnum hinsvegar beint í það núna að  lifa  við átthagafjötra til lengri tíma vegna krónunnar,  eins og lögin voru gerð  í gær.

Auðvitað væri gott að losna við jöklabréfin og útlendu kröfurnar fyrst  með ónýtri krónu. Fresta uppgjörinu á Icesave og skipta í dollara áður en skrifað er uppá 800. 000 króna víxil á hvern lifandi Íslending , nema með einhverjum kjörum sem þjóðin getur með raunhæfum hætti borgað af tekjum framtíðarinnar, sem eru annað en skatttekjur ársins 2009.  

Skyldi vera  eitthvað  búið að tala við Kanann um upptöku dollars eða ekki ?   Er þetta allt læst í skipulagt upplýsingaleysi og leynimakk ?  Veit einhver hvort það er rétt að Kanar og Kanadamenn vilji okkur ekki í NAFTA ? Hvað þýðir það og hversvegna ? Ef það er vegna EES þá er tími til að endurskoða það allt.  Enda sýnist vera búið að afnema fjórfrelsið í landinu á borði en ekki  orði, hvað sem þessum EES samningi líður.

Hvenær er næsta virkjun og stóriðja möguleg ?  Af hverju er undirbúningurinn svona skammt kominn ?  Ætlum við að friða þorskinn og síldina við þessar aðstæður  og horfa á útflytjendur ráðstafa gjaldeyrinum framhjá landinu í von um gengisfellingu ?  Meiri kvóta strax til smáplássanna í kringum landið þar sem fáir róa á hverju skipi.   

Mér finnst staðan svo alvarleg að það þýði ekki að halda áfram að blaðra almennt  um ríkidæmi þjóðarinnar,   mannauðinn og mannkostina  . Fasteignir étur maður ekki  við  sulti.  Og mannauðurinn bara fer úr landi og eftir verða bara þeir aumustu þó mannkostamenn séu kannske taldir,  eins og gamalmennin okkar, öryrkjar og minnihlutahópar.   

Er það þetta sem við bíðum núna eftir Íslendingar ? Bíðum við hungurdauðans eða ætlum við að berjast ?

Þó að við sjáum ekki okkar  Roosewelt núna, þá vantar okkur  New Deal ! Stefna Hoovers gengur ekki við þessar aðstæður.   Lífeyrissjóðirnir okkar verða að kaupa ríkistryggð skuldabréf sveitarfélaga og ríkissjóðs. Þetta eru stríðsskuldabréf þjóðar í umsátri.  Það er stríð.

 Peningar verða að renna til mannfrekra framkvæmda í byggingariðnaði til að koma fólkinu af götunum. Ekki eyða í  vélavinnu,  jarðgangnagerð eða vegagerð.  Það er þjóðarvá fyrir dyrum ef við getum ekki startað efnahagsvélinni með eftirspurn eftir iðnaðarmönnum og verkamönnum.   Við erum annars bara að drepast sem þjóð .   Það mega allir reyna að sjá sem vilja sjá.

Það er enginn huggun í því að aðrir séu að drepast í löndunum í kringum okkur. Við verðum að bjarga okkar þjóð fyrst. Svo hinum.

 Reynum að duga frekar en að drepast !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brattur

Það vantar ekki SÍS á markaðinn.

Baugur = SÍS

Brattur, 29.11.2008 kl. 01:02

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Kröftug grein hjá þér, Halldór. Þú ert landsins maður og fullveldis okkar. Fyrir alla muni skrópaðu ekki á landsfundinn. Við verðum að leggja þar okkar hönd á plóginn, jafnvel þótt það verði okkar síðasta verk í heimi hér.

Og undir þetta (m.a.) tek ég í máli þínu:  

  • Meiri kvóta strax til smáplássanna í kringum landið þar sem fáir róa á hverju skipi.

Gefum smábátaveiðarnar frjálsar næstu árin. Önglaveiðar drepa aldrei neinn fiskistofn, svo mikið er víst. Og samþykkið þetta, stórútgerðamenn, áður en ráðin verða tekin af ykkur, því að mér sýnist þetta allt geta horft í þá áttina, eftir að ríkisbankarnir nýju tóku undir sig mestallar veðskuldir ykkar vegna skipa og kvóta. Og niður með þá ólukkans Hafrannsóknastofnun – eða byltum þar skipulaginu með mönnum sem opnari eru fyrir fleiri rannsóknaraðferðum en þeirra takmarkaða togararalli og fáu öðru af viti.

Með kærri kveðju til þín, Halldór, 

Jón Valur Jensson, 29.11.2008 kl. 01:06

3 Smámynd: Júlíus Björnsson

Það er langt síðan maður hefur heyrt eitthvað af viti. Allt vaðandi í mannleysum. Þetta er eins og talað úr mínu hjarta og minna forfeðra þótt þeir hafi blandast Evrópumönnum síðust 200 árin. Menn eiga ekki að láta sólina blinda sig. Það er vestur stefnan til hægri. Roðin er í austri. Enda finnst mér að þingið eigi að brjóta odd af oflæti sínu og ljá Geira vald að skipa reynslumeira og sterkara fólk í yfirstöður framkvæmda í ljósi þeirrar hildargöngu sem við blasir. Þó þurfi at leita út fyrir þingið. Það er algert vanmat að hegða sér eins og þetta reddist af sjálfum sér. Og ungliðarnir þurfa aldrei meir en nú að heyra í kjarnamönnum af þinni kynslóð. Þeirra sem hafa reynsluna af kreppum og stríði. Kosningar eru veikleika merki og af lögum er nú nóg að taka það er bara að framfylgja þeim sem fyrir eru. Sér í lagi á þessum tímum á að ávirða menn sem í sífellu eru að rakka niður stofnanir ríkisins. Ekki er það til að vekja traust hjá frændum mínum í Evrópu megin. Menn verða að hugsa áður en þeir tala. Vakna úr sjálfsafneitunni og horfast í augu við staðreyndir. Þjóðin er á barmi gjaldþrots að auðlindunum undanskyldum, sem ber að verja ef við eigum að eiga framtíð fyrir okkur sem fyrirmyndarþjóð. Saman stöndum vér og sundraðir föllum vér. Það gaman hitt þó heldur að sjá ársuppgjörinn í vor.

Júlíus Björnsson, 29.11.2008 kl. 01:20

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Hafið þakkir allir saman. Satt að segja var ég með móral fyrir að vera með svona kjaft. En mér fannst ég mega til í gærkvöldi að tala einu sinni umbúðalaust um hvað mér finnst raunverulega vera að gerast.

Vandamálin fara því miður ekki þó maður láti sem maður sjái þau ekki.

Halldór Jónsson, 29.11.2008 kl. 13:54

5 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Halldór.

Þetta er mjög góð grein hjá þér. Ég er sammála þér í þessu öllu nema að sjálfsögðu afstöðunnar til Evrópu. Ég vil þangað inn af eftirfarandi ástæðum:

a)   Ég vil fá þann aga sem fylgir aðild að Myntbandalaginu. Með því neyðum við stjórnvöld hér heima að uppfylla á hverjum tíma Maastricht skilyrðin. Þennan aga óttast íslensk stjórnvöld. Þau geta þá t.d. ekki lagt fram þessi hefðbundnu "bull" fjárlög á kosningaárum til að kaupa sér velvild í komandi kosningum.

b)    Ég vil taka upp evru og fá þar með nothæfan gjaldeyrir sem mun koma í veg fyrir þessar miklu endalausu gengisfellingar og hrun sem hafa einkennt hafa efnahagslífið frá 1944. Ég vil að fólk og fyrirtæki geti gert áætlanir um kaup og rekstur sem ekki renna endalaust í vaskinn vegna gengisfellinga og efnahagsóstöðugleika.

c)   Það er okkar skylda að koma í veg fyrir það að það hrun sem nú á sér stað og það tjón sem hefur orðið og er að verða af völdum þess geti aldrei aftur átt sér stað. Ég sé bara eina leið til þess. Það er öguð efnahagsstjórn undir Maastricht skilyrðunum, þ.e, innganga í Myntbandalagið og upptaka evru. 

d)   Ég er tilbúinn að greiða það gjald sem þarf til og þar með afsala hluta af okkar fullveldi til að má hér þeim efnahagslega stöðugleika sem við höfum lengi þurft á að halda.

e)    Fullveldisafsal okkar við inngöngu í ESB og Myntbandalagið er vissulega nokkuð en við væru þar í hópi þjóða eins og Frakka og Ítala. Það dettur engum í hug að halda því fram að þessar þjóðir líti svo á að þeir séu ekki fullvalda sjálfstæðar þjóðir þó þær taka þátt í þessu efnahagsbandalagið, er það?

f)   Þá set ég stór spurningamerki við fullyrðingu þína um að við missum frá okkur auðlindirnar. Þú ert væntanlega ekki að meina orku eða olíuauðlindir, eignarhald okkar er skýrt þar. Okkar helstu nytjastofnar, þorskurinn ýsan o.s.frv. eru staðbundnir stofnar. Margoft hefur komið fram að hefð okkar á að nytja þessa staðbundnu stofna verður með óbreyttum hætti. Engum öðrum þjóðum verður úthlutað kótum úr þessum stofnum. Um flökkustofna eins og síld þarf að semja með sama hætti og áður. Það sem þarf hinsvegar að gæta að er að eignarhaldið á kótanum. Hann verður sannarlega að vera sameign þjóðarinnar þannig að íslenskum kvótaeigendum verði ekki gefin heimild til að selja kvótann til erlendra aðila. Það ætti að vera einföld aðgerð með því að breyta kvótanum úr því að vera "eignarkvóti" yfir í að þetta yrði "leigukvóti". Útfærslan á þessu er eina spurningin í mínum huga. Hvað varðar það að endalega ákvörðun um hvað má veiða mikið af hverri tegund skuli tekin í Brussel en ekki af íslenska sjárvarútvegsráðherranum þá mun ég fagna þeirri breytingu. Reynslan sínir að undanfarin ár hefur Brussel alfarið farið eftir ráðleggingum "Hafró" á hverjum stað við ákvörðun kvóta. Með öðrum orðum fagleg ráðgjöf stjórnar þar alfarið ferð. Þar með stoppar það bull sem hér hefur liðist átatugum saman að sjávarútvegsráðherrar eru að kaupa sér velvild hjá útgerðarmönnum með því að úthluta meira en Hafró ráðleggur.

Það er eðlilegt að mönnum sýnist sitt hvað um aðild og ESB og upptöku evru. Ég skil það vel. Ég var ekki alltaf þessarar skoðunar. Ég sé því miður ekki aðrar leið út úr þessum eilífu og miklu sveiflum sem hola þetta samfélaga að innan með reglulegu millibili.

Hitt er síðan grafalvarlegt mál eins og þú bendir á að menn ætla sér ekkert að gera til að efla hér atvinnulífið. Menn virðast vera búnir að taka ákvörðun um að gera ekki neitt. Það er hreint út sagt skelfilegt.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 29.11.2008 kl. 15:32

6 Smámynd: Júlíus Björnsson

Dollar strax: Stærsta markaðsvæðið, mesta valið, minnsta áhættan, mesta frelsið. Þá mun enginn innlendur aðili geta framkvæmt millifærslur með því að fella gengið. Auðlindir skapa peninga sem eru uppspetta vals og valds.

Hvað eigum við að sækja til ESB? Hvað græðum við á því í efnahagslegu tilliti?   Niður jöfnum m.t.t. þjóðartekna?

Júlíus Björnsson, 29.11.2008 kl. 18:26

7 Smámynd: Halldór Jónsson

Hafðu þökk fyrir þitt skrif Friðrik. Þú vilt í ESB. En eftir því sem mér skilst er sú lækning á sjúkdómnum sem þú lýsir bara ekki í boði fyrr en eftir mörg ár. Dollarinn er bara hérna. Við þurfum ekki að kveljast útí framtíðina.

Ég er auðvitað sammála því að nóg sé komið af kvótaeign á grundvelli veiðihefðar. Þessu kerfi verður að breyta. Önglar eyðileggja ekki fiskimiðin en trollin gera það.

En finnst þér ekki of miklu til hætt að leggja okkar mið undir sjálfdæmi ESB ?

Halldór Jónsson, 29.11.2008 kl. 18:57

8 Smámynd: Halldór Jónsson

Takk fyrir Júlíus,

Þig skil ég vel.

Við höfum allt annan efnahagsfasa en ESB löndin. Okkar möguleikar eru margfaldir í auðlindanýtingu við þá. Við verðum bara að geta gengið í takt. Það höfum við aldrei kunnað. En við verðum að brjótast út úr Masada herkvínni eða falla ella fyrir eigin hendi.

Halldór Jónsson, 29.11.2008 kl. 19:01

9 Smámynd: Júlíus Björnsson

Hvað færði ESB okkur? T.d að verðmæsta vegbréf sem til var, það íslenska er orðið verðlaust.  Ég man það þegar enginn íslendingur var á skrá hjá Interpol. Tollurum um allam heim nægði að við vorum Íslensk. Álitin ein heiðarlegasta þjóð í heimi. 

þá sá ég fyrir mér að við getum markaðsett þessa ímynd og selt túristum aðgang að landinu. Valið úr þá arðbærustu og heiðarlegustu.  

Allir vita hvað ESB-samningurinn hefur fært okkur. Löggæslukostnað innanlands sem við teljum okkur ekki hafa efni á að borga, með réttu.

Sem betur fer fylgjundum þess fækkandi samanber minni þáttöku í meintum mótmælafundum.

Mér finnst til fyrirmyndar að bera ábyrgð en ábyrgðarleysi miður. En að vega að stofnunum ríksins eða forsvörum þeirra vítavært athæfi. Og er þá sama hver á í hlut á opinberum vettfangi. Slíkur er undurróður ESB-meistaranna. Við getum ekki öll orðið "bureau-kratar" í ESB. Enda flest ekki með eðli til slíks. En að spila með örvinglun eða fávisku fólks er skítlegt ekki meira sagt.

Friðsöm mótmæli sem hefðu að markmiði að vekja þá til verka sem hafa hingað til ekki geta skilið niðurstöður IMF, finnst mér þörf.

"Stétt með stétt" mun víst hafa verið sett út af sakramenntinu af því að Hitler nokkur  hafði beitt því í miður góðum tilgangi. "Markaður með markaði" er hliðstætt en nokkuð stirt.

Hitler stjórnar mér ekki. Svo ég segi "Stétt með stétt"

Júlíus Björnsson, 29.11.2008 kl. 21:01

10 Smámynd: Halldór Jónsson

Tek undir með þér Júlíus. Í jálfstæðisstefnunni frá 1929 standa þessi orð; Stétt með stétt.

 Hvort fólk veltir dýpri merkingu þessarar stefnu fyrir sér lengur veit ég ekki svo gerla. Hún segir í fáum orðum að allir hafi sömu hagsmuni og þrá til betra  lífs.

Hjá þeirri  kynslóð hinna menntuðu fjármálabófa sem við höfum kynnst síðustu ár virðist  ruddaskapurinn einn hafa verið í fyrirrúmi.  Þeir tröðkuðu á öllu sem þeir gátu fyrir sitt eigið betra líf og stundarhag. Nú sitjum við uppi með reikninginn.  Það verður að líta eftir því að eins frelsi komi ekki niður á frelsi þess næsta. 

Þessi  útgáfa er ekki inntakið þeirri  sjálfstæðisstefnu sem ég lærði og til dæmis þeir Jón Þorláksson og Ólafur Thors trúðu á.  

Sjálfstæðisflokkurinn hét svo vegna þess að hann að hann ætlaði að standa vörð um sjálfstæði þjóðarinnar. Eitthvað sem ég á bágt með að sjá fara saman við inngöngu í ESB.

Íslenzkt vegabréf er verðmætasta vegabréf í heimi. Okkur ber að gæta að þjóðerninu og fara vel með. Milljónir vilja heldur vera hér heldur en heima hjá sér. Við getum ekki leyst allra vanda.

Halldór Jónsson, 29.11.2008 kl. 22:56

11 identicon

Heill og sæll; Halldór, líka sem aðrir skrifarar og lesendur !

Þakka þér; kröftuga tölu, sem oftlega áður. Jú; mikið rétt, Jón Baldvin Hannibalsson segir ekki mikið, frá þætti hans sjáls, sem hönnun, að því ófremdarástandi, sem ríkt hefir hér, eins og með EES samningnum, ásamt fjölda annrra amlóða skuldbindinga, sunnan frá Brussel.

Með baráttukveðjum, úr Árnesþingi, sem fyrr /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 29.11.2008 kl. 23:02

12 Smámynd: Katrín

það er ekki komið að tómum kofanum hjá þér frekar en fyrri daginn.  En ekki taka göngin né varnagarðinn af mér og mínum...þeim framkvæmdum var frestað í góðærinu sem reyndar náði nú aldrei svo langt vestur...kreppan er ekki nýkomin hingað svo kannski tórum við eiythvað  lengur en malarbúinn    Já tökum svo önglana úr rassi kvótasinna og sleppum þeim í sjóinn þar sem alvöru fiska er að finna

kveðjur í Kópavoginn

Katrín, 1.12.2008 kl. 23:54

13 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Hér talar sannur Íslendingur af viti og þrótti

Ég fyllist af bjartsýni

Þökk Fyrir Halldór

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 2.12.2008 kl. 00:52

14 Smámynd: Júlíus Björnsson

Bretar  í ESB ráða yfir 10% af sínum fornu miðum. Hvað lengi kæmumst við með að halda meir en 5%.  ESB er ekki góðgerðastofun heldur fjárfesting, þeirra þjóða sem hafa þar töglin og haldirnar, til langframa. Ég skil ekki hvað sumir geta verið ginkeyptir.  ESB fórnar til að uppskera eins og aðrir. Ég bít ekki á öngulinn þó maðkurinn sé feitur. Ég fer ekki inn í búrið þó ég finn lykt af osti.  Mér líkar betur að veiða. Dollar skapar aga sem mér líkar og það er nóg. Við getum haft áhrif í ESB segja sumir. Við höfum nóg að gera hér heima við að afla tekna.  Guð hjálpar þeim sem hjálpar sér sjálfur.

Júlíus Björnsson, 2.12.2008 kl. 02:38

15 Smámynd: Halldór Jónsson

Takk fyrir Katrín

Já það vantar víða garð og göng í þetta góða land. En ekki fannst mér vanta Héðinsfjarðargöng vegna kvótakerfsisins sérstaklega.

En mér er alvara með það að bæta við óframseljanlegum smábátakvóta um allt land. Ég vil frekar drepa fiskinn en fólkið.

Bestu kveðjur til þín kæra vinkona. 

Halldór Jónsson, 3.12.2008 kl. 14:26

16 Smámynd: Halldór Jónsson

Takk fyrir hlýð orð Gunnar Ásgeir. É

g vildi að einhverjir tækju undir með kröfur um að reyna að starta vélinni. Gefa út ríkistryggð skuldabréf sveitarfélaga til að þau fari sem fyrst í mannfrekar framkvæmdir. Ríkið þarf líka að dytta að ýmsum fasteignum sínum.

Halldór Jónsson, 3.12.2008 kl. 14:29

17 Smámynd: Júlíus Björnsson

Ég sé fyrir mér land þar sem allar veiðar smábáta næst landi eru frjálsar. Kvóta veiðitímabilanna á uppboðsleigu hverju sinni. Skiptingu landhelginar með til tilliti til forréttinda byggðanna. Ríkið og sveitarfélög eigi uppboðsmarkaði vítt og breytt um landið. Gjaldtaka til handa ríki og sveitarfélögum innheimtist á mörkuðum og sé miðað við hundraðhluta af heildar þyngd afla en ekki verðmæti. Svipað ætti líka að gera í landbúnaði. Lánastarfsemi í höndum Banka. Verð á vöru miðast við [framreiðslu] verð í húsi seljanda. Kaupandi greiði alltaf fyrir sinn flutning og fjármagnskostnað [þeir sem þess þurfa]. Það kallast réttlátur afsláttur á heilbrigðum markaði. Þetta ýtir skuldafíklunum út af borðinum og rennir stoðum um arðbærara þjóðfélag til handa öllum. Nema kannski að undanskildum nokkrum Beauro-krötum. Engin rekur betur en sá sem á sjálfur og hefur til þess meðfædda hæfileika. Sumt verður ekki í askanna látið. Markaður í þágu fjöldans eykur valið það er frelsið í ramma laganna og þeirra siða sem vestræn menning byggir á. Og allur hinn almenni heimur sækir í eins og dæmin sanna.

Júlíus Björnsson, 3.12.2008 kl. 15:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 3420142

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband