Leita í fréttum mbl.is

Af tæknilegum ástæðum !

Þegar Sovétmenn byrjuðu að setja upp skammdrægar eldflaugar á Kúbu árið 1962 varð John F. Kennedy að taka einhverja stærstu ákvörðun, sem nokkur maður hefur tekið. Að segja við Kruschev:  Hingað og ekki lengra. Bandaríkin eru tilbúin að leggja á sig hvaða harðræði sem er, færa hvaða fórn sem er,  ef þið ekki farið burt með árásarflaugar ykkar frá Kúbu.

 

Ég var staddur í Þýzkalandi þennan dag 22.október 1962,  þegar heimurinn allur stóð á öndinni. Annaðhvort létu Sovétmenn undan eða kjarnorkustríð myndi  hefjast. Fólk var sem lamað. Enginn vissi hvað framundan væri. Heimsendir gat verið í nánd.

 

Hvað þarf til að lýðræðisþjóð sýni slíka  hroðalega einbeitingu?  Hvað er í veði ?

 

Brennuvargarnir eru fluttir inn í húsið og Bidermann telur betra að láta undan svo lengi sem það gengur.  En hversu lengi gengur það ?  Hvenær er nóg komið ?

 

Bandaríkin áttu um það að velja að verða undir Sovétmönnum , verða að hlýða þeirra boðum og bönnum  á heimsvísu undir ógn um tortímingu frá Kúbu, sem þeir myndu ekki geta svarað. Gætu ekki varið þegna sína. Gætu þar með ekki varið þjóðfélagið í landi sínu. Herforingjarnir kröfðust heimildar til skyndiatlögu. Kennedy vildi setja á hafnbann fyrst og reyna nauðasamninga.

 

Bandaríkjamenn ákváðu að semja ekki við brennuvargana um áframhald vistarinnar í húsi Bidermanns.  Það féll í hlut Johns F.Kennedy að færa fram þau skilaboð fram við Sovétmenn. Sjálfsagt hafa verið margir Bandaríkjamenn sem voru ekki á sama máli og ríkisstjórnin þennan dag. En svona varð þetta.

 

Einhverntíman er nóg komið og menn verða að vera reiðubúnir að færa allar fórnir, þola allar hörmungar til þess að geta lifað í sátt við sjálfa sig og framtíð þjóðarinnar. Það er sjálfsagt enginn, sem vill þurfa að taka svo stórar ákvarðanir sem voru teknar  í Kúbudeilunni. En samningar voru gerðir, Kúbuflaugarnar voru fluttar á brott og flaugarnr í Tyrklandi fóru líka svo lítið bar á.

 

Það vill sjálfsagt enginn þurfa að taka ákvarðanir sem skipta sköpum fyrir alla manns framtíð og afkomenda í marga ættliði. En þeir tíma kunna að koma að ekki verður undan litið. Ekki verður lengur litið til stundarhags og þæginda. Menn hafa frá mismiklu að hverfa í veraldlegum gæðum úr þessum heimi. An arfur þjóðar er allra sameign án tillits til efnahags. Honum getur enginn einn maður ráðstafað sér í hag eða hugsjóna sinna. Ekki heldur minnihlutahópar.

 Þessvegna spyr ég mig hvort lýðræðiskerfi Íslands sé með þeim hætti, að það geti tekist á við hlutverk sitt ? Mér er til efs að svo sé. Tæknilega tel ég að kerfið sé í sjálfu sér of sundurþykkt.    

Mín skoðun er orðin sú, að við þurfum við að breyta stjórnkerfi okkar og stjórnarskrá með  bandaríska fyrirmynd í huga. Forseti okkar og þjóðhöfðingi verði æðsti embættismaður landsins, kjörinn af meirihluta landsmanna að franskri fyrirmynd. Hann myndi ríkisstjórnina og fái víðtæk völd sem varða þjóðaröryggi og frelsi þjóðarinnar.

 

Þannig held ég að Íslendingum muni betur farnast en raun ber vitni, þegar litið er yfir sögu lýðveldisins. 

Í öllum aðsteðjandi vanda þurfum við á þeirri staðfestu að halda, sem okkur tekst svo báglega ekki að finna við núverandi aðstæður.

 

Af tæknilegum ástæðum !   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Flaugunum á Kúbu var komið þar fyrir sem andsvari við bandar. flaugum í Tyrklandi og Rússarnir losnuðu sem sagt við þá ógn í sínum bakgarði þegar þeir bökkuðu með sínar flaugar frá Kúbu.

Baldur Fjölnisson, 11.8.2009 kl. 15:23

2 Smámynd: Björn Birgisson

Halldór, fínn pistill hjá þér eins og stundum áður. Ertu nokkuð með Ólaf Ragnar Grímsson inni í myndinni þegar forsetinn fær öll þessi auknu völd?

Björn Birgisson, 11.8.2009 kl. 19:11

3 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Halldór. þú ert skýr og úrræðagóður að vanda. Ef hugsað er til framtíðar er þetta gott innlegg, nema ég sé ekki að Bandaríkisk fyrirmynd væri akkúrat það rétta! En veit það samt ekki frekar en margt annað (viðra bara mínar misvitru skoðanir).

Ég las bloggfærslu ekki alls fyrir löngu þar sem lagt var til að nýtt og þverpólitískt fréttablað með þig sem ritstjóra hefði göngu sína, ef ég man rétt, en endilega leiðréttið mig ef ég man þetta rangt! Ég sé að þú ert stórhuga viskunnar boðberi, og þennan stóra hug þarf að virkja!

Ég mæli eindregið með að þú takir þessa áskorun alvarlega. þú ert með mikið safn af visku sem við þurfum öll á að halda, að að ég held. þú ert mátulega sanngjarn og réttsýnn með eðlilega gagnrýni til stuðnings réttlæti. Á bara því miður ekki aura til að starta blaðaútgáfu þó í smáu formi vær. En skoðanirnar á blogginu eru ókeypis og það er ég þakklát fyrir .

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 11.8.2009 kl. 20:23

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hefði orðið kjarnorkustríð hefði allur heimurinn lent í því en ekki bara Bandaríkin og Sovétríkin. Stórveldi eru hrein plága fyrir jarðarbúa. Og með leyfi, er hægt að fórna lífi mannkynsins fyrir eitthvað sem heitir ''lýðræði''? Ef hefði orðið kjarnorkustríð, hreint gjöreyðingarstríð því máttur vopnanna var þá þegar það mikill ef þau hefðu verið notuð til hins ýtrasta, hefði nokkur lifað í sátt við sjálfa sig eða framtíð einhverrar þjóðar?

Sigurður Þór Guðjónsson, 11.8.2009 kl. 21:20

5 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Anna nær að lýsa þér skrambi vel, Halldór.... "mátulega sanngjarn og réttsýnn"....

Ómar Bjarki Smárason, 12.8.2009 kl. 11:50

6 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Sæll Halldór.

Hingað og ekki lengra!, segir þú. Vel, skynsamlega og djarfmannlega mælt. 

Ef ég skil gátu þina og samlíkingu hér að ofan rétt þá ertu með þessu að segja að þú sért andvígur að samþykkja svokallaðan Icesave-samning sem nú liggur fyrir Alþingi til synjunar eða samþykktar. Rökiin eru þau að þetta sé gjörsamlega óásættanlegt fyrir íslenska þjóð og íslenskt efnahagslíf. Nú verði einfaldlega að hætta að skoða ógeðslega maðkana á fúnum trjástofnum og koma frekar út úr villunni í skóginum og horfa á skóginn allan. Þar með ætti að renna upp ljós fyrir alþingismönnum og þjóðinni allri, sé hópurinn ekki alveg veruleikafirrtur; Með því að skoða og sjá málið í réttu ljósi ætti að vera augljóst hvaða ákvörðun þarf að taka, alveg eins og John F. Kennedy Bandaríkjaforseti gerði er hann ákvað að setja hafnbann á kjarnorkueldflaugaskipalest Sovétríkjanna í Kúbudeilunni forðum, í stað þess að samþykkja kúgandi nærveru þeirra fyrir þjóð sína. -

Ef túlka ber þennan pistil þinn svona, þá er ég sammála!
Vísa ég Þar með ennfremur til ábendinga minna um nokkur grundvallaratriði í pistli mínum um auðlindir Íslands og spurninguna um val á lífsstíl. Ég reifa ekki í smáatriðum hvað ég á þar við, en mér sýnist þú vera inni á svipuðum hugmyndum um að þjóðin getur þurft að horfast í augu við grundvallarbreytingu á lífskjörum sínum og þar af leiddum lífsstíl verði Icesave-málið samþykkt.
Í því sambandi er einmitt vert að gera sér einnig grein fyrir því hvernig lífskjörin yrðu ef þessi nauðungarsamningur yrði felldur og reynt yrði að kúga Ísland af núverandi viðskiptaþjóðum okkar. Ég held að það yrðu síst verri kjör, nema síður sé, vegna þess hve miklum auðlindum Ísland býr yfir. Verðmæti þeirra fer hraðvaxandi í hlutfalli við skort á samsvarandi auðlindum annars staðar í heiminum. Ísland verður ekki kúgað, það er of auðugt til þess að svo verði! Sumir, þeir sem telja sanngjarnt að Íslendingar borgi meira en þeim ber vegna Icesavemálsins, halda að Íslendingar þurfi að betla til annarra þjóða, en í raun og veru munu aðrar þjóðir koma betlandi til Íslands.

Kristinn Snævar Jónsson, 12.8.2009 kl. 13:11

7 Smámynd: Halldór Jónsson

Björn, Ég geri ráð fyrir að forsetinn telji sig af öðrum mönnum, all sjálfsagður að bjóða sig fram í slíkt embætti. Það má vera að þú og fleiri kjósið hann þá enda er ekki vitað um mótframboð á þessari stundu, ef svo yrði.

Ómar og Anna, ég held að blaðaútgáfa kosti meiri fjármuni en á lausu liggja. Þið sjáið að Mogginn berst í bökkum þó að hann telji sjálfan sig frjálsan og óháðan og hafi allar sínar hundraðára mergjarpípur að standa á. Það er óskhyggja að halda að einhver detti inní svona útgáfu í samkeppni við Baugsveldið.

Kristinn Snævar,

mér finnst þú hugsa margt sem mér líkar ekki illa, ég held að þig skorti ekki skilning á samtímanum.

Takk fyrir að lesa og skrifa. 

Halldór Jónsson, 12.8.2009 kl. 19:21

8 Smámynd: Elle_

Að mínum dómi er okkar lýðveldi og forseti miklu slakara lýðveldi en það sem þú lýsir og er bara ekki alvöru lýðveldi, heldur öllu flokka-stýrt og miðstýrt.   Ég hef sagt það fyrr að ég vildi forseta með vald og vil heldur lýðveldi eins og í USA.    Það er líka alveg merkilegt hvað hlutir ganga alltaf hægt og illa í landinu og hlutir þagaðir í hel.  

Elle_, 12.8.2009 kl. 19:57

9 Smámynd: Björn Birgisson

Halldór, það eru nákvæmlega jafnmiklar líkur á að ég styðji ÓRG til nokkurs hlutar - og að þú gerir það!

Björn Birgisson, 12.8.2009 kl. 22:31

10 Smámynd: Halldór Jónsson

Töfræðilega er þeta rétt Björn, báðir atkvæði í einu safni

Halldór Jónsson, 13.8.2009 kl. 08:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband