Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Lifi íslenzka krónan !

Hér er margt skrafað um ömurlegheitin í íslenzka krónusamfélaginu. Kratafylkingin telur allra meina bót að ganga í Evrópubandalagið og taka upp evruna sem gjaldmiðil. Þá geti fólk fengið sér lán eins og þeir í útlöndum án þess að hafa verðtryggingu á láninu, sem sér um að maður borgar mörgum sinni hærri tölur til baka en maður lagði upp með. Vegna þess að við höfum hækkað reikningana sem við skrifum hvort á annað meira en við máttum. Afleiðingin verður verðbólga sem einhverjir þekkja og vilja helst fá eftur sem fyrst. 

Mér finnst margir gleyma því, að með því að taka upp evruna eru menn komnir í evruland þar sem kaupið er til muna lægra en hér. Og til að hækka það á kostnað annara stétta munu ekki duga hefðbundnar terroristaaðgerðir, eins og loka skólunum eða sjúkrahúsunum, flugsamgöngum eða vöruflutningum. Það verður ekki hægt að hafa aðra kjarasamninga en þar gerast. Þeir sem halda að þeir geti haldið áfram að hegða sér eins og þeim sýnist lifa í einhverju Shjangríla eða Gotham City hjá Batman.Við munum ekki getað prentað evrur sjálf, það skyldu þessir spekingar muna. 

Mér finnst margir gleyma því að í evrulandi er ekki verðtrygging vegna þess að hegðun eintaklinganna innbyrðis er takmörkunum háð og hún stendur aðeins meðan friðurinn helst. Guðmundur í Rafiðnaðarsambandinu eða Eiríkur í Kennarasambandinu eru óhugsandi fyrirbæri í slíku umhverfi. Það sjá allir að það er ekki hægt að hækka laun allra í Frakklandi meðan það er ekki gert í Þýzkalndi. Það er hinsvegar búið að því og þessvegna segir Fillon forsætisráðherra að hann sé forstjóri í gjaldþrota fyrirtækinu Frakklandi sem eigi ekki eitt sou þegar kemur september hvert ár. Þannig er nú staðan þar.  Sarkozy forseti glímir við lestarstarfsmennina og endir er ekki í augsýn. Hann segir að það verði að breyta Frakklandi, kerfið gangi bara ekki lengur svona. Þetta var líka staðreynd í undanfara stjórnarbyltingarinnar 1793. Lausnin þá varð dýrkeypt fyrir alla Evrópu og ekki síður Íslendinga meðan Napóleon leysti efnahagsvandann með gífurlegum manndrápum..

Hér hafa bófaflokkar í nafni stéttabaráttunnar oftlega tekið þjóðfélagið í gíslingu og kollsteypt efnahag landsins. Þeir segjast svo ekkert skilja í eftirfylgjandi verðbólgu og svo verðtryggingunni sem er nauðvörn litla mannsins sem reynir að spara saman fremur en að eyða og spenna. Þessir flokkar æpa niður með verðryggingu lánanna en gleyma því að hún verkar á báða vegu. Hún er eini vinur sparandans.

Menn segja Bretann fá  sér lán óverðtryggt á 5 % eins og hann búi í Paradís meðan hér sé helvíti. Ég veit ekki betur að svipuð  lán séu hér fáanleg  fyrir þá sem vilja. Lán í gjaldeyri er óverðtryggt að öðru leyti á lágum vöxtum alveg eins og Bretinn fær.

Einhverntímann sá ég línurit yfir 25 ár. Af því sá ég að það var helmingi ódýrara að hafa lán í dollurum en með íslenzkri lánskjaravísitölu.  Ég hef trúað þessu síðan og aldrei séð eftir því þó að stundum komi öldugangur.  Dollar er dollar, alveg sama hvernig heimurinn sveiflar sér í kringum hann. Það eru bara fasteignasalarnir og húsbyggingabraskararnir sem eru búnir að koma fasteignaverðinu hér uppí tvöfaldan byggingakostnað studdir af aumingjaskap pólitíkusanna, sem spila með í braskinu með því að hækka lóðaverðið taumlaust.  Lóðaskortsstefnan á höfuðborgarsvæðinu, sem R-listinn leiddi í hæstu hæðir, hefur skapað þessar aðstæður. Ef allir gætu fengið lóð á kostnaðarverði myndi verðið falla. Sjálfur varð ég pólitískur flóttamaður til Kópavogs fyrir nærri hálfri öld því að Reykjavíkuríhaldið lét mig  ekki  fá lóð þrátt fyrir margar umsóknir.

Íslenskir pólitíkusar, hafa aldrei skilið það að lóðaskortur er mesti verðbólguvaldurinn sem leikið hefur lausum hala á Íslandi. Kannske hefur enginn skilið þetta nema gamli góði Villi sem ætlaði að koma upp lóðabanka fyrir almenning. Því miður gerði sexmenningaklíkan í hans eigin flokki útafvið möguleikana á að hrinda þessari grundvallarefnahagsaðgerð í framkvæmd. Víst er að lýðurinn, sem við tók stjórnartaumunum , mun ekkert gera nema samræða við sjálfan sig  eins og þeirra er háttur. 

Í Bandaríkjunum er til nóg byggingaland. Þar ríkir samkeppni en ekki klíkuskapur í kvótaúthlutunum. Á Florida kostar vandað 200 fermetra einbýlishús(núr múrsteini og spýtum9 með garði og tveggja bíla bílskúr núna um 15 milljónir íslenzkar. Samskonar hús hérna kostar meira en pí sinnum meira að byggja, allt að tvöpí sinnum meira að kaupa.

Þetta er bara GA-ga vitleysa. Gamli Sveinn sagði líka stundum ; Sumir eru  "lánsamari" en aðrir . Og líka sagði hann  : "Lán er ólán "  "Það er verðmætasköpunin og eignamyndunin sem skiptir máli."  

Unga fólkið ætti að hugsa um þau orð núna þegar hægt er að geyma spariféið á tryggan hátt, ÞÖKK SÉ VERÐTRYGGINGUNNI SEM ALLIR ERU Í HEIMSKU SINNI AÐ BÖLVA.  Hún virkar nefnilega í báðar áttir.

Gamli Sveinn sagði líka þegar vextastefnu Seðlabankans  bar á góma; "Vextir eiga að vera svo háir sem til eru fífl að borga" !   Kannske Davíð geri sér þetta ljóst  þegar hann hækkar og hækkar.? Skyldu þeir Guðmundur og Eiríkur halda að Davíð lækki ef þeir ná sínum kröfum fram ? Er virkilega einhver svo vitlaus að halda að stýrivextir muni lækka á nýja árinu ?  Af því bara ?

Seinna sagði  Einar Oddur : "Ekkert er svo þýðingarmikið á Íslandi að ekki megi fresta því." Ef mönnum væri ekki svona brátt í brók með að heimta allt strax, þá farnaðist mörgum betur. 

Það voru mikil mistök að fella niður verðbólgureikningsskil fyrirtækja. Þau lög voru þau skynsamlegustu sem við höfum nokkru sinni átt. Núna væru þau ekki að gera upp í evrum ef þau hefðu gilt áfram. Því miður eru ungu bréfaguttarnir of ungir til að muna það, hvernig verðbólgan gerði fyrirtæki gjaldþrota þó að þau borguðu alltaf myndarlegan tekjuskatt. Kratarnir tala alltaf líka um að hækka þurfi 10 % fjármagnstekjuskattinn. Þeir eru of vitlausir til að skilja það að hann er 10 % plús verðbólga, núna þá nær 20 % en 10 %. Þeir skilja heldur ekki frekar en Viðskiptaráð Íslands, að lífeyrisskuldbinding ríkisstarfsmanna er núna 230 milljarðar sem er skuld sem ríkið þarf að greiða. Hún er hinsvegar ekki bókfærð sem slík og því talar Hannes Hólmsteinn um að skuldir ríkissins hafi verið greiddar upp !

Verðtryggða íslenzka krónan er bezti gjaldmiðill í heimi. Við skulum vera stolt af henni en ekki vera að níða hana svona niður.

Íslenzka krónan lengi lifi ! Sómi Íslands, sverð og skjöldur !


Heimskan sigrar yfirleitt

 

Nú á að fara að rífa "Andraskýlið " (sá sem byggði það var Andri heitinn Heiðberg ,frumkvöðull í þyrluflugi) því að Háskólinn í Reykjavík er að fara að byggja þarna ofan í brautinni N-S.

Þetta er rothöggið á flugvöllinn. Það er útilokað að þetta tvennt þrífist saman.Annaðhvort verða nemendurnir svo uppteknir við að horfa á flugvélarnar , að þeir fá athyglisbrest og falla á prófunum eða þeir skjóta sér bak við hávaðaáreiti og mengun  við námið þegar þeir falla.

R-lisinn hóf þennan dans um að eyðileggja flugvöllinn með þessari fáránlegu lóðaúthlutun til HR.  Íhaldið með gamla góða Villa í broddi fylkingar innsiglaði þetta í stað þess að rifta þessu.

Villi sagði fyrir kosningarnar að völlurinn yrði kyrr ef ekki finndist gott flugvallarstæði í Borgarlandinu. Margir trúðu honum og kusu ekki frjálslynda flokkinn þessvegna. ég hugsa að einhverjir iðrist beiosklega.

Ég er persónulega steinhættur að syrgja fall íhaldsmeirihlutans í Reykjavík.  Hann var ómögulegur í málefnum flugvallarins hvort sem var, hrár og soðinn í senn,  og ekkert að marka hann.

 Þeir sem við tóku eru varla verri nema þeir séu betri að því leyti, að  þeir geta akkúrat ekkert gert meðan Margrét Sverris heldur þeim í gíslingu.  En hún er eini vallarvinurinn í borgarpólitíkinni sem vitað er um og má treysta.

En þetta er vonlaust með Reykjavíkurflugvöll til lengri tíma litið. Heimskan hefur jafnan sigur í mannheimi og því fer sem fer.  Hvort foringinn hét   Kleón sútari  eða eitthvað nýtízkulegra skiptir ekki máli.

Svo hversvegna ekki bara loka vellinum strax. ?  Patterson flugvöllur bíður okkar . Þar er nóg pláss til að byggja öll þotuflugskýli og einkaflugskýli,  sem og önnur nauðsynleg mannvirki. Þarna er einn bezti flugvöllur landsins. Það er lítið mál að gera hann flkughæfan og minna mál en allt annað sem misvitlausir menn hafa nefnt og jafnvel skrifað langar skýrslur um.

Hypjum okkur bara burt með flugið og skiljum allt miðbæjaríhaldið. sveitakommaliðið og  framsóknargengið  og alla ráðleysingjana í borgarstjórn Reykjavíkur eftir í miðbæjarfnyknum. Verði þeim bara að góðu.  

Það er framtíðin sem skiptir máli fyrir flugið.  Hún verður greinilega ekki í Reykjavík úr þessu.  


Kolefnisjöfnun Reykjavíkurflugvallar ?

Svandís Skúladóttir lýsir eindregnum stuðningi við að taka Vatnsmýrina undir blandaða byggð í Silfri Egils í dag.. Það sé verkfræðilegt viðfangsefni hvar flugvöllur eigi að vera. Vatnsmýrarbyggðin sé umhverfismál.

Þétting byggðar á óbyggðu svæði því sem er undir Reykjavíkurflugvelli  er þá orðið umhverfismál segir Svandís. Verður ekki fjölgun bíla óhjákvæmileg á svæðinu ?  Þó að þetta eigi að skapa einhver búsetuskilyrði án einkabílsins fyrir hjólandi og gangandi í draumi Svandísar.   Hver fjölskylda á minnst einn bíl. Fara þeir ekki út á Hringbrautina út að keyra ?  Margar ferðir á dag ? 

Hvað verður um hið samfellda græna svæði sem er undir Reykjavíkurflugvelli í dag í sambýli við Öskjuhlíðarskóg og gróðurinn í Fossvogskirkjugarði ? Hvernig mun kolefnisjafnan líta út fyrir svæðið þegar blokkirnar í blönduðu byggðinni hafa risið ?

Eru þessar draumsýnir Svandísar raunhæfar og sjálfum sér samkvæmar ? Er þétt byggð í Vatnsmýri umhverfisvænni en sú mann-og bílafæð sem nú er á þessu stóra græna svæði ? Hvert fer kyrrðin á síðkvöldum ? Hvert fara endur og gæsir ?   

Ég veit að flugvélarnar fara suðureftir ef þær fara úr Vatnsmýri. Það er enginn annar kostur í stöðunni. Allt annað er því miður óraunhæf óskhyggja.

Og þá er alveg eins gott að drífa í þessu, þetta hálflíf er ekkert líf fyrir flugvöll með tilgang og hlutverk.

Ég mana ykkur vallarféndur að ráðast til atlögu. Látum reyna á það hvað Margrét Sverrisdóttir er staðföst í sannfæringunni. Leyfið okkur að sjá Gísla Martein og Hönnu Birnu í pilsfaldinum  hjá Svandísi  Svavarsdóttur. Heyrum hvað gamli góðir Villi segir við það tækifæri.

Eru þetta stjórnmálamemm sem þora eða bara spjallarar ? Samræðusstjórnmálamenn ?


Eignarnám á Reykjavíkurflugvelli !

1946 , þegar Íslendingar tóku við Reykjavíkurflugvelli voru helstu forystumenn flugmála á Íslandi spurðir eftirfarandi spurninga :

 
  1. Er það álit yðar að fært myndi vera að nota Keflavíkurflugvöll sem aðalflugvöll Reykjavíkur fyrir innnalandsflug og Atlantzhafsflugs ? Eða teljið þér að stækka beri Reykjavíkurflugvöllinn svo hann verði nothæfur sem aðalflugvöllur einnig fyrir Atantshafsflugvélar ?                                                                                                                                                                                                
  2. Álítið þér, að leggja eigi niður Reykjavíkurflugvöllinn sem slíkan eða hann rekinn í núverandi stærð fyrir innanlandsflug eingöngu ?
  3. Teljið þér fært að reka innanlandsflug með Keflavíkurflugvöllinn einan sem bækistöð hér við Reykjavík ?
  4. Er það gerlegt að yðar áliti með tilliti til kostnaðar og staðsetningu að byggja nýjan flugvöll í nágrenni  Reykjavíkur fyrir innanlandsflugið ?
  5. Eruð þér þeira skoðunar að Reykjavíkurborg stafi hætta af Reykjavíkurflugvelli ?
  

Þá voru svörin flest þau ,að besti kosturinn væri að hafa Reykjavíkurflugvöll á sínum stað.

 

Síðan hafa stjórnmálamenn í Reykjavík verið að bisa við að svara þessum sextíuára gömlu grundvallarspurningum á einhvern annan hátt. Og með hjálp allskyns mannvitsbrekkna utan úr bæ, sem vita allt betur en næsti maður.Allt án niðurstöðu .

 

Það er nefnilega enginn kostur nema annaðhvort að hafa völlinn kyrran eða fara til Keflavíkur. En þangað eru nú allt aðrar samgönguaðstæður en  voru 1946 með tilkomu bílahraðbrautar. Kostir sem menn veltu fyrir sér þá, eins og til dæmis flugvöllur á Álftanesi, eru einfaldlega ekki lengur inni í myndinni . 

 

 Höfuðborgin getur núna flutt margt af starfsemi sinni til Reykjanesbæjar án mikilla vandkvæða. Þar getur til dæmis Hátæknisjúkrahúsið þeirra Davíðs og Alfreðs risið, lansbyggðarráðuneytin geta flutt þangað og annað eftir því.

 

Samt er endalaust klifað á þessum grundvallarspurningum frá 1946, gjarnan  í pólitískum áróðurstilgangi. En engin fæst niðurstaðan frekar en þá. Ef til vill vegna þess,  að innst inni er enginn svo vitlaus að trúa því, að höfuðborg geti verið án flugvallar ? 

 

Afleiðingin er hinsvegar sú versta fyrir allt og alla. Flugvellinum er haldið í spennitreyju aðgerðaleysis og kyrrstöðu. Ekkert má byggja eða bæta, hvorki farþegaafgreiðslu innanlandsflugsins í 1200 fermetrum fyrir 400.000 farþega meðan aðeins 500.000 farþegar fara í gegnum Keflavíkurflugvöll á 22.000 fermetrum ! Né heldur má nokkurt flugskýli reisa á vellinum , ekki einu sinni til bráðabirgða , fyrir tuga milljarða flugflota viðskiptalífsins, sem vex ár frá ári, hvað þá fyrir grasrótarflugið .

 

 Það er aðeins skipulega sótt að flugvallarsvæðinu í gegnum skipulagsyfirvöld, með úthlutanir á landi flugvallarsvæðisins til allskyns starfsemi og gæluverkefna, sem á þangað ekkert erindi, svo sem . Háskólabygginga, íbúðarblokka, bílastöðva  og svo framvegis.

 

Við þessu er ekki nema eitt svar. Alþingi verður að taka af skarið og láta fara fram eignarnám á öllu flugvallarsvæðinu, sem er ekki þegar í þess eigu. Það er ekki hægt að láta þetta fólk, sem veltir sér ár eftir ár uppúr vegtyllunum í Borgarstjórn Reykjavíkur, með viðblasandi árangri, fara fram með þessum hætti gegn hagsmunum þjóðarinnar.

  

Ef ráðherrrana og Alþingismenn skortir pólitískan kjark þá er aðeins eitt eftir. Láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um líf eða dauða Reykjavíkurflugvallar í næstu sveitarstjórnarkosningum eða Alþingiskosningum um allt land.

 

Framtíð Reykjavíkurflugvallar er slík grundvallarspurning, að það er aðeins þjóðin öll sem getur best svarað henni með beinum hætti án þess japl og jamls og fuðurs, sem hefur einkennt umræðuna frá 1946. Reykjavíkurflugvöllur er þjóðareign en ekki pólitísk skiptimynt í sveitarstjórn.


PÍ-lögmálið mitt.

Í raun og veru,  þá er það skemmtilegt hvernig Jóhannesi í Bónus hefur tekist að búa til þá mynd af sér í þjóðarsálinni, að hann sé velgjörðamaður almennings , einskonar bangsaafi allra landsmanna, ekkert nema gæðin og gjafmildin. Og víst er þetta vænsti kall sem hefur byggt upp ótrúlegt viðskiptaveldi um víða veröld, sem enginn fær séð yfir, hvorki samkeppnis-né skattyfirvöld. Ég tek ofan fyrir slíkum manni.

 

Ég hef hinsvegar lengi velt fyrir mér starfsháttum Bónusar. Ekki held ég að allt sé sem sýnist og fólk trúir.

 

Verzlunin rekur einkalögreglu á merktum bílum. Þeir ryðjast inní fyrirtæki annarra og skanna verð í hillum án leyfis né samráðs við eigendur. Allt undir þeim formerkjum, að þeir séu sífellt að gæta þess að aðrir selji ekki ódýrara en þeir. Og allir trúa þessu af því Jói er svo góður. Hann á líka fjölmiðlaveldi, sem sér um ímyndina ef eitthvað ber uppá og gefur stórt úr pokasjóði sínum, sem neytendur þó borga.

 

En svo eru aðrir sem segja, að lögreglan hans gegni því hlutverki að gæta þess að allir selji dýrar en það verð sem Bónus er búinn að setja hjá sér sem hæfilegt gangverð Þeir setja svo  Hagkaups- og 10-11- verðin þar fyrir ofan.  Lögreglusveitirnar gæti þess,  að birgjar selji engum ódýrara og fyrirtækið er sagt beita refsiaðgerðum gegn þeim, sem dansa útúr línunni. Þannig haldi Bónuslögreglan í raun uppi vöruverði í landinu með því að ákvarða lágmarksverðið. Þannig sé  Bónus ábyrgur að stórum hluta fyrir því háa vöruverði, sem allir sjá að ríkir í landinu miðað við útlönd. Afganginn sjái íslenzka ríkið um með landbúnaðinum og ofurtollastefnu sinni.

 

Eins og ég kynntist  samkeppnisbransanum,  þá fengu  menn yfirleitt ekki að vita hvað keppinauturinn bauð. Það leyndarmál varðveitti kúnninn, sem svaraði með því að versla annarsstaðar byðu menn ekki nógu lágt. Og verðið auðvitað lækkaði og lækkaði þannig að allir smákallar dóu.

 

Í Bandaríkjunum var ég umsvifalaust handtekinn þegar ég tók mynd af vöruhillu í þeirri góðu búð Albertsson´s. Þeir vildu vita frá hverjum ég væri . Ég þurfti að basla við að skýra út að myndin væri aðeins til minningar um búðina góðu  þegar ég kæmi heim til Íslands, þar sem engin verzlun hefði viðlíka verð. Þeir sögðu mér skilmerkilega,  að skipulagðar verðnjósnir samkeppnisaðila væru alls ekki liðnar í Bandaríkjunum.

 

Hér tíðkast verðskönnun Bósnusar  fyrir opnum tjöldum. Og fólk trúir því í blindni,  að þetta sé í þess eigin þágu. Fyrst núna er einhver að vakna upp við vondan draum.

 

Sumir telja að þessi starfsemi Bónusar sé ekkert annað en samkeppnishindrandi njósnastarfsemi  af fyrstu gráðu og brot á friðhelgi eignarréttarins.    Ef þeim væri raunverulega alvara með að selja vöru á lægra verði en samkeppnisaðilinn, þá yrðu þeir að finna út sjálfir hverju þeir treysta sér til.  Kúnninn yrði að finna út úr því hvort þetta væri það verð sem hann vildi taka.  Þá fyrst yrði mark takandi á verðkönnunum ASÍ,  sem mér finnast  núna aðeins sprenghlægilegar, þegar aðvaranir eru sendar til verzlana Bónusar fyrirfram ! ( Veit nokkur hvað varð af Neytendasamtökunum ?).

 

Víða er  hægt nú þegar  að breyta öllum hillumerkingum og kassaverðunum í Bónus  í einu frá skrifstofunni og verður bráðum svo allsstaðar. Í dag trúa fáir því, að einhver samkeppni ríki á neytendamarkaði, þegar Baugsófreskjan er orðin svo yfirþyrmandi voldug og allsráðandi í samfélaginu. Líklega gera fæstir sér grein fyrir raunveruleikanum í því máli.  Mörgum finnst hún sé  löngu orðin að Stórabróður þjóðfélagsins að hætti Orwells.  

  Mörgum finnst því nauðsyn bera til að stöðva framferði Bónus-lögreglunnar og viðskiptaþvingandi starfshætti fyrirtækisins. Það væri  allavega eitt skref í átt til þess að koma aftur á virkri samkeppni á neytendamarkaði. En hana eyðilagði Samkeppnisstofnun þegar hún leyfði samruna Hagkaups og Bónusar.  

Aðeins tilkoma ValMart  eða svipaðs fyrirtækis til Íslands myndi tryggja neytendum alþjóðlegt verð. Ríkisvaldið ætti að reyna að laða ValMart til landsins með almannahagsmuni fyrir augum. Sama þyrfti líka að eiga sér stað á bankamarkaði, þar sem samráðið og samsærið gegn almenningi ernú  hvað grellast, ef tölur Þorvaldar Gylfasonar um vaxtamuninn hérlendis og erlendis eru réttar.  

 

En á meðan að ekkert skeður er pí-lögmálið mitt allsráðandi á landinu.

  

En það hljóðar svo :

 

Allt er PÍ-sinnum dýrara á Íslandi en í öðrum löndum,  Punktur !

 

 

.


Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 3420141

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband