Öll fyrirheit sem gefin voru við háeffun og lagabreytingar á Alþingi eru svikin á borði stjórnarflokkanna.
Þar kann auðvitað svo að vera að menntamálaráðherra hafi verið beygður við ríkisstjórnarborðið. Ég vil auðvitað trúa því að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hafi viljað standa við gefin loforð. Hitt þarf engum að koma á óvart að skerðingar og niðurskurður blasir nú við í rekstri Ríkisútvarpsins og uppsagnir starfsfólks eru hafnar.
Sjálfstæðisflokkurinn er enn í einkavæðingarbuxum og vill selja allt gróðavænlegt út úr RÚV, svo sem Rás 2. Því er Sjálfstæðisflokknum mikilvægt að stofnunin sé í vörn, verði veikari í samkeppninni við hina risana á fjölmiðlamarkaðnum. Sjálfstæðisflokkurinn kann að veikja fórnarlambið til að auðvelda aðferðafræðina við söluáformin. Vel búnir auðmenn sparibúast til að eignast gripinn eða hirða það besta úr dánarbúinu.
Með því að standa ekki við fjárframlög þar sem áskriftagjöld fylgja ekki verðlagsþróun. Næsta skrefið verður svo að skerða auglýsingaféð. Þá er tækifærið komið upp í hendurnar á ríkisstjórninni. Best að losa ríkið frá útvarpsrekstri. Ef allt gengur upp gerist þetta á kjörtímabilinu.
Útvarpsstjórinn Páll Magnússon á aðeins einn leik, að skerða þjónustuna og draga seglin saman, hlýða yfirboðara sínum, ella taka pokann sinn eins og gerðu ónýtir skipstjórar í hans heimabæ, Vestmannaeyjum. Páll mun því skera og skera til að standa vaktina við stýrið. Hvar var svo byrjað að skera við háborðin í Háaleitinu? Auðvitað skyldi strax minnka fréttirnar frá Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum. Áður hafði útvarpsstjóri slátrað svæðisútvarpi Sunnlendinga. Þrjú og hálft starf á landsbyggðinni eru fyrir borð í þessari lotu. Síðan verða auðvitað blessaðir gjafamennirnir kallaðir að háborði útvarpsins þar sem þeir gefa fyrir einum og einum þætti. Þetta er gert til að búa þjóðina undir breytingarnar. Að hún bergi þann beiska kaleik að ríkisútvarpið verði selt. Það þýðir ekkert að ræða um lýðræðis- og menningarhlutverk hjá RÚV í blárri spennutreyju með brennimerki á brjósti og bossa þar sem á er letrað; söluvarningur. Þjóðin verður fljótt leið og pirruð á dagskrársnauðu ríkissjónvarpi og færri og færri munu taka málstað RÚV.
Vegferðin er að hefjast, góðir landsmenn. Þessar fyrstu skerðingar eru hótun við Alþingi og þjóðina og hótun við útvarpsstjóra sem stendur frammi fyrir því að draga saman eða gera stofnunina gjaldþrota á næstu 4-5 árum. Kannski fer Pál þá að dreyma um einkaframtakið á ný þegar hann þjáist í blóðhafti ríkisstjórnarflokkanna.
Því alltaf er líklegra að glaður og reifur samverkamaður verði ráðinn skipstjóri þegar vistaskiptin eru afstaðin eða salan á RÚV. Það má nefnilega alltaf fá sér annað skip og annað föruneyti.
Nú skyldi einhver ætla að brjóstin á þingmönnum Samfylkingarinnar tútnuðu af reiði. Því er ekki þannig farið því foringinn Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ræður á þeim bæ. Fjölmiðillinn sem hún sór hollustu við, vill ríkið umfram allt útaf fjölmiðlamarkaði.
Hafi einhver haldið að fjölmiðlafárið væri úr sögunni þá er síðari hálfleikur að hefjast sem snýr að því að rýma markaðinn svo tröllin eigi fjöllin á fjölmiðlamarkaði, jafnt sjónvarpsstöðvar og útvarpsrásir. "