Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012

Ónýtt lífeyrissjóðakerfi

landsmanna er líklega mesta ógæfa Íslendinga og launþega frá upphafi.

Í stað þess að skattleggja inngreiðslur að fullu þegar greitt er í lífeyrissjóðinn er einhverjum handvöldum þorgeirum, finnbogum og víglundum falið að braska með peninga ríkisins. Ef þeir tapa svo sem þúsund milljörðum þá hafa þeir snuðað ríki og bæi um nærri helminginn. Hvað er það í mörg fjárlagagöt?

Og þetta heldur áfram. Af hverjum þúsund milljörðum í launaveltu taka þessir aðilar sjens á að tapa álíka upphæð. Nú hefur auðvitað margt tekist í varðveislu þessarra sjóða sem eru nú orðnir það digrir að kommúnistarnir eru farnir að leita leiða til að komast yfir þá í frelsunaráráttu og forsjárhyggju sovétsins.

Að öllu skoðuðu hallast ég að því að ég hefði heldur viljað eiga mínar ævigreiðslur í lífeyrissjóð á séreignarreikningi í Seðlabankanum og verið laus við skerðingarnar sem ég hef mátt þola vgena útlánatapa sjóðsins míns. Mér gæti auðveldlega reiknast til að minn lífeyrir væri helmingi hærri í dag ef svo hefði verið.

Hættum að láta þetta lið sem enginn hefur kosið vera að gambla með peninga sem þeir eiga ekki. Tökum skattinn af þeim strax í þessu ónýta lífeyrissjóðakerfi og minnkum áhættuna.


Loksins maður með viti!

til að tala okkur út úr heljartaki kommúnistanna í ríkisstjórn og Seðlabanka, þessa lýðs sem ætlar að festa Íslendinga í kreppunni. Robert Wessmann segir svo:

..."að er hins vegar til önnur leið út úr þessum vanda. Sú leið myndi auka hagvöxt á Íslandi og fjölga atvinnutækifærum. Þessa leið mætti kalla „íslensku leiðina”, en með því að velja þá leið, þurfum við hvorki að reiða okkur á inngöngu í Evrópusambandið né taka upp erlendan gjaldmiðil. Ísland getur metið kosti og galla þess að ganga í Evrópusambandið í framhaldinu, óháð núverandi gjaldeyrisvanda landsins og þannig tekið upplýsta ákvörðun á eigin forsendum, án þess að vera stillt upp við vegg í efnahagslegu tilliti.

....Lausnin felst í því að ríkissjóður gefur út út langtíma skuldabréf í evrum eða bandaríkjadal til lengri tíma, t.d. til 20 til 30 ára á lágum vöxtum. Þessir vextir gætu verið fastir vextir, ef til vill 2,0% árlegir vextir. Til samanburðar fór ríkissjóður nýverið í skuldabréfaútgáfu í Bandaríkjunum þar sem vextir voru 6% á skuldabréfum til 10 ára. ( Innskot Þar er Már í Seðlabankanum að greiða með láninu milljarða í vöxtum þar sem það leggur peningana inn á 0,5 % erlendis)

Þeim sem eiga krónur á Íslandi væri gefinn kostur á að skipta á krónum og þessum bréfum með 40% afslætti. Þeir sem hinsvegar nýta sér ekki slíkt skiptitilboð verða fastir með krónueign sína á Íslandi þangað til búið er að greiða upp þessi skuldabréf. Á sama tíma myndi ríkið þrengja, og í reynd takmarka, alla þá fjárfestingakosti sem þessum krónueigendum stæðu til boða, sem skapar frekari vilja til að kaupa þessi erlendu skuldabréf ríkisins."

Róbert segir að miðað við þessar forsendur myndu erlendar skuldir ríkisins hækka um 600 milljarða. Hinsvegar megi reikna með að hægt sé að minnka gjaldeyrisvaraforða Seðlabanka Íslands um svipaða upphæð. Samhliða eignist ríkið um 1.000 milljarða í íslenskum krónum. Skuldastaða ríkissjóðs lækki því sem nemur 400 milljörðum íslenskra króna. Ríkið gæti því mögulega komið til móts við skuldsett heimili, en mjög hefur verið kallað eftir raunhæfum aðgerðum í þeim efnum. Áætlað er að að flöt 20% lækkun verðtryggðra lána hjá Íbúðalanasjóði myndi kosta ríkissjóð um 120 milljarða, svo dæmi sé tekið.

"Við slíkar aðgerðir mun allt efnahagsumhverfið á Íslandi breytast verulega. Ríkið myndi lækka gjaldeyrisforðann og greiða niður að hluta innlendra skulda. Á móti reiknast vextir af nýju erlendu skuldabréfi. Mjög gróflega áætlað gæti því ríkið sparað um 50 milljarða íslenskra króna á ári með þessum aðgerðum, einungis í vaxtagjöldum. Til samanburðar má geta að verðmæti þorskaflans uppúr sjó eru um 50 milljarðar íslenskra króna á ári. Er þá fjölmargt annað ótalið sem reikna mætti til ávinnings í beinhörðum peningum," segir Róbert ennfremur.

Ég er að vísu mjög ósammála því að reyna að svíða eigendur krónubréfanna með nokkru móti. Við eigum þvert á móti að sýna þeim fyllst vinsemd, bjóða þeim háa vexti til langs tíma bara af því að við getum ekki annað i augnablikinu sem við biðjum þá vinsamlega að skilja. Við þurfum á trausti umheimsins að halda og náum því ekki með því að bölva og sparka eins og naut í flagi eins og Jóhanna og Steingrímur.

Ef við sýnum þeim vinsemd þá verða þeir góðir við okkur. Maður nær nefnilega ekki ástum kvenna með því að byrja á því að lemja þær og hrekja. Það verða Íslendingar einhverntíman að skilja og fara að hegða sér eins og siðaðir menn sem beita ekki bara gjaldeyrishöftum og sértækri skattlagningu eins og núverandi stjórnarfífl okkar.

Allavega talar þarna loksins maður með viti í stað kommúnistabullsins sem flæðir frá ríkisstjórn og Seðlabanka. En þar verður að skipta um áhöfn hið fyrsta til að endurreisnin geti hafist.


Nýjar kennitölur!

í stað þessara sem við höfum.

Kennitölur eru óvinur okkar eldri. Ef við segjum kennitöluna einhversstaðar þá mætum við höfnun og andúð. Ef við sækjum um vinnu þá setja viðmælendur upp vorkunnarsvip og viðtalið er tilgangslaust. Kennitalan er eitruð eftir sextugt. Þjóðfélagið allt hatar gamlingja. Stjórnmálamenn, stjórnendur, allir með tölu þó þeir ljúgi öðru um blákosningar.

Ef konur á óræðum aldri eru þvingaðar til að segja upp kennitölu sína í heyranda hljóði er það niðurlægjandi fyrir þær. Hvaða kona vill láta eitthvað skælbrosandi skítapakk sem ekki kemur það neitt við flissa yfir aldri sínum? Það væri alveg nóg að gefa upp sama númer og væri á ökuskírteini eða Vísakorti til að sanna hver persónan er. En engum kemur fæðingarárið ra.....við nema viðkomandi sem þarf ekkert að gefa það upp vegna eins né neins. Það eru bara persónuréttindi sem eiga að varða við lög um persónuvernd hvort viðkomandi er skyldur til að að gefa upplýsingar um aldur sinn eða fæðingardag. Hvað þá að blöðin séu að gramsa í aldri fólks og segja hver á afmæli í dag. Svei þessu öllu saman!

Núverandi kennitala sem tilkynnir um afmælisdag og fæðingarár er óþolandi. Hún er áreiðanlega brot á persónufrelsi, brot á mannréttindasáttmála Sameinuðu Þjóðanna, Kristnirétti og brot á Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands. Það engin ástæða til þess að hún sé notuð í núverandi mynd. Það má dulkóða hana á ótal vegu eða hún á ekki að innihalda neinar persónuupplýsingar sem geta skaðað viðkomandi persónu. einfalt seríunúmer gerir sama gagn eins og passanúmerin til dæmis A 19562 eða svoleiðis.

Ég skora á Femínista að ganga til liðs við mig og við stofnum hreyfingu til að fá þessu hnekkt. Við getum kært þetta til Brüssel, SÞ eða til páfans í Róm. Burt með hina íslensku þrælatattóveringu sem hin íslenska kennitala er.

Nýjar kennitölur á línuna!


Passið tunguna

ekki segja að Þóra Arnórsóttir hafi verið í framboði fyrir Alþýðuflokkinn og alls ekki nefna neitt annað en hvað hún sé sæt og hvernig hún og maðurinn hennar muni taka sig vel út á Bessastöðum. Bæði glæsileg og á góðum aldri. Henni sé treystandi til að vera ekki með óþægindi við rétta ríkisstjórn útaf utanríkismálum.

Já passið tunguna.


Afnám málskotsréttar

hafa þeir Jakob Björnsson og Styrmir Gunnarsson gert að umræðuefni.

Í stað málskotsréttar stingur Jakob upp á :

"Hitt er svo allt annað mál að Alþingi hefði gott af meira aðhaldi kjósenda. Hugsa mætti sér að eftir eitt ár eða meira frá alþingiskosningum gætu 60% eða svo kosningabærra manna afturkallað umboð Alþingis og krafist nýrra kosninga. Slíkt ákvæði gæti verið alþingis-mönnum hollt aðhald. Hlutfallið 60% er það hátt að spjátrungar eða sérvitringar gætu ekki knúið fram kosningar"

Þessir menn skauta samt báðir framhjá þeirri staðreynd að Alþingi er ekki þverskurður af þjóðinni. Atkvæðisréttur manna er búsetu-og flatarmálsbundinn og því engan veginn lýðræðislegur. Jakob virðist hinsvegar hugsa sér jafnan atkvæðisrétt manna til að krefjast kosninga sem er óneitanlega spor í áttina. En forsetakjör er eina kjörið sem fer fram á landsvísu með jöfnum atkvæðisrétti og er að því leyti gallað að kjósa ekki milli tveggja efstu manna í seinni umferð.

Og það virðist óhjákvæmilegt að hafa einhvern öryggisventil á þingræðinu, hvort sem menn hafa það í gegnum forseta eða svona undirskriftir um nýjar kosningar. Og ekki myndi þessi ríkisstjórn hafa kembt gráu hærurnar svo lengi ef þessi leið hefði verið opin. Icesave sýndi glögglega hvernig dómgreind hinna kjörinna fulltrúa getur gersamlega brugðist í síðustu Icesave afgreiðslunni þegar þjóðin væri nú þegar búin að greiða hundrað milljarða eða svo í vexti samkvæmt þeim "ísköldu" samningum.

Afnám málskotsréttar hlýtur að tengjast kjördæmamálinu. Spurning er hvað Hreyfingin ætlar að gera í því í skiptum fyrir að framlengja píslir þjóðarinnar fram eftir árinu.


Fæst enginn þjóðþekktur?

sjálfstæðismaður til að ganga fram fyrir skjöldu og lýsa stuðningi við Ólaf Ragnar? Svo spyr Björn Bjarnason á sínum vef.

Það skiptir víst litlu máli að við óþekktu peðin séum að segja eitthvað um forsetakosningarnar. Það er rétt hjá Birni að það vamtar einhvern þekktan Sjálfstæðismann til þess að lýsa yfir stuðningi við Ólaf svo það liggi nú fyrir hvað flokkurinn vill. En það er auðvitað býsna þunnt hljóðið hjá flokksmönnum þó að mesta fylgið við Ólaf komi frá Sjálfstæðismönnum sem virðast ætla að hafa sjálfstæða skoðun á forsetaefnunum ef marka má Capacent. Enda líklega fjarri þeim að að fara að kjósa með Samfylkingunni forseta sem ætlar að hafa jafnan sömu skoðun á utanriksimálum og forsætisráðherrann hverju sinni.

Mér fannst Ólafur sjálfur tala líka merkilega ef ekki bara grunsamlega vel um Davíð í þættinum. Hann er kannski að vona að eðlið hafi breyst eitthvað í kallinum í áranna rás. Hann hefur kannski ekki lagt í að biðla til Björns svo komnnu máli.

Það er hugsanlegt að einhverjum Sjálfstæðismanninum reynist erfitt að kjósa Ólaf vegna fortíðar hans. Enda sagði maðurinn að menn skyldu muna það þó við séum vondir þá eru aðrir verri, þjóðþekktir eða ekki.


Ólafur Ragnar

fór á kostum í Sprengisandi hjá Sigurjóni nú rétt áðan.

Hann vísaði þar ákveðið til baka að hann ætlaði að sitja bara hluta úr kjörtímabilinu sem ég hafði ekki skilið að væri skilyrt. En gott og vel. Nú setur hann þau skilyrði fyrir afsögn að ólíklegt má telja að þau skapist.

Hann minnti líka á að Adenauer var til muna eldri en hann þegar hann var kjörinn kanslari í fyrsta sinn. Þar með kvað hann uppúr með skoðanir sem ganga þvert gegn þær hefðir og reglur í samfélaginu okkar, að enginn gamlingi skuli nokkurstaðar fá vinnu. Enginn má gegna opinberri stöðu eftir sjötugt nema greinilega embætti Forseta lýðveldisins. Og allir ráðningastjórar hunsa fólk eftir aldri. Ég hef velt fyrir mér hvort þessar reglur brjóti ekki í bága við jafnrétti í stjórnarskránni okkar eða í þeim mannréttindasamþykktum sem við erum aðilar að?

En Ólafur býður sig sem sagt fram til fjögurra ára. Athyglisvert var að heyra hvernig RÚV lét eiginmann Þóru misnota aðstöðu sína til að birta slæma frétt fyrir Ólaf. Ég náði ekki dagsetningunni eða heyrði þessa frétt og væri fróðlegt að fá hana spilaða fyrir sig þó hún sé núna þögguð.

Vinur minn einn setti sig í stellingar fyrir framan mig og gerði andlitið sorgmætt og slapandi af alvöru drottinsvikabrigslum við Sjálfstæðisflokkinn: Þú ætlar þó ekki að kjósa Hann Ólaf Ragnar? Ég sagðist að ég hefði strengt pólitískt heit við seinni Iceasave afgreiðsluna. Nú ætlaði ég að standa mig í staðfestu. Til viðbótar kæmi ég ekki auga á neinn betri frambjóðanda hvað þá svona hjón til að gegna embættinu. Vinurinn sópaði saman andlitinu og færði í samt lag og málinu var lokið. En hann er áreiðanlega ekki einn á ferð í sinni afstöðu.

Því er mikilvægt að menn horfi á orð og athafnir Ólafs Ragnars í embætti. Það er vandfundinn sá maður sem menn geta fullyrt að hefði gert þetta eitthvað betur. Og embættið er valdamikið sem skiptir miklu að handhafi skilji. Yfirlýsing Þóru um að hún ætli jafnan að gjöra vilja forsætisráðherra í utanríkismálum gengur ekki í mig með ESB vofandi yfir okkur. Og fríðleikinn hjá einhverjum sætum stelpum skiptir mig engu máli í þessu sambandi enda nokkuð gamall orðinn.

Þessvegna styð ég Ólaf Ragnar og stend við það. Allir með Ólafi og Dorrit!


Framboðsmál framtíðarinnar

var umræðuefni eins vinar míns í gær. Hann er sjálfur með djúpa reynslu af pólitísku starfi og því maður sem veit oft hvað hann syngur.

Þar kom talinu að við ræddum framtíð ýmsra þingmanna sem nú fara með himinskautum í sjálfsánægju sinni. Eftir venju mun þetta fólk raða sér aftur á næstu framboðslista sem nú liggja ekki mjög langt inni í framtíðinni.

Ég spurði vin min hvort hann myndi hugsa sér til hreyfings verandi með margt í meðbyr. Ég vildi styðja hann með ráðum og dáð. Hann var ekki svo viss um að hugur sin stæði til þess hafandi alla sína reynslu að baki. En hann sagði að sitt mat væri það að fólkið kallaði nú á breytingar. Það yrði sitjandi þingmönnum ekki eins léttvígt að sækja sín þingsæti og oft áður.

Hann sagði að bloggið hefði breytt talsverðu í umræðunni og margir væru núna þekktir að skoðunum sínum sem áður hefðu staðið í skugganum. Og svo féll sprengjan. Hvað með þig sjálfan segir hann. Þú kemur til mín og kvartar yfir verkefnaleysi, vilt vinna þó þú sért orðinn bráðum 75 ára gamall. Þú segist ekki nenna að spila golf í tilgangsleysi. Þú vilt fást við eitthvað. Er ekki þarna góð og vel borguð innivinna fyrir þig ?

Ertu eitthvað galinn sagði ég. Mínir líkar eru útlagar í þjóðfélaginu.Það er öllum andskotans sama um okkur gamlingjana nema rétt um kosningar þegar allir lofa öllu fögru en þurfa aldrei að efna vegna þess að svo margir af okkur eru dauðir þegar næst er kosið. Enginn vill heyra gamlingja né sjá.

Unga fólkið álítur trúlega að þessi aldursflokkur eigi að sitja inni á elliheimili með smekk og hvítklæddar verur að bleyta kringlur til að stinga uppí tannlausa gómana og tala kattamál við það. Samtök eldra fólks eða Samtök eldri Sjálfstæðismanna virðast ekki geta ekki beitt sér í pólitík og eru því að mér sýnist einskis nýtur klúbbur til að slá ryki í augu þessa aldurshóps. Hefur engin baráttumál önnur en að þóknast forystunni. Gamlingjar eiga ekkert erindi inná þing. Enda dytti mér ekki í hug að fara á þing sem fulltrúi gamlingja eingöngu, heldur sem baráttujaxl fyrir atvinnumálum, virkjunum og stóriðju. Mér hafa alltaf leiðst félagsmál í samanburði við framkvæmdirnar.Allt þetta segi ég og þykist nú hafa sagt talsvert.

Hugsaðu málið sagði vinur minn. Hvað var Adenauer gamall þegar hann var og hét? Ronald Reagan? Eru útlendingar eitthvað öðruvísi gamlir en Íslendingar? sagði vinur minn. Í Ameríku vinna gamlingjar ef þeir fá vinnu og enginn tekur til þess. Þar er bannað að mismuna fólki með tilliti til aldurs,kynferðis og litarháttar.Þú ert hress og vilt vinna. Þú getur lifað lengi enn eða drepist á morgun eins og hver annar miklu yngri. Og margir vita hvaða skoðanir þú hefur. Þú þarft ekkert annað en benda á bloggið þitt til að fólk viti hvernig þú lítur á málin. Og þú getur ekki þóttst vera neitt annað en þar kemur fram. Þú getur engu logið um sjálfan þig. Og þú veist líka vel af langri reynslu að stjórnmál eru samvinna en ekki sólóspil, erfiður og leiðinlegur leðjuslagur.Þú gerir þér engar grillur um riddara á hvítum hesti sem komi og frelsi alla lýðu.

Satt segir þú að einhverju leyti sagði ég. Ég hefði nú líklega heldur gjarnan hafa verkefni við mitt hæfi í verkfræði og þrívíddarteikningum, matsstörfum, dómkvaðningum, þýðingum eða hverju sem væri. En það er bara ekkert að gera í þessu þjóðfélagi fyrir svona kalla eins og mig sagði ég. Noregur vill mig heldur ekki vegna kennitölunnar, annrs væri ég líklega farinn. Og maður sér ekki að neitt sé að breytast hér á skerinu?

Og hvað þá?, sagði hann. Verðurðu þá ekki að reyna að breyta einhverju sjálfur? Eru einhverjir aðrir að vinna fyrir þig?

Það er ekki það skemmtilegsta sem maður horfir á að horfa á þingmenn rölta í pontu að veita andsvör og tala yfir hálftómum sal segi ég þá. Pétri Blöndal leiðist til dæmis orðið svo mikið að hann hótar að hætta. Enda hefur hann alltaf liðið fyrir það að vera skýrari en hinir sem þjást oft af menntunarrýrari minnimáttarkennd. Sjáðu svo þetta aumingjans lið margt sem þarna er. Er það furða þó Margrét líki því við Bavíana? Er þetta eitthvað eftirsóknarvert? Þú hikar sjálfur segi ég rogginn.

Svo segi ég hugsi : En í alvöru: Verður eftirspurn eftir nýju fólki með nýjar áherslur? Eða kjósum við bara blindandi af gömlum vana? Gefum ekkert fyrir hvernig þeir greiddu atkvæði í Icesave? Sorrý Stína, gerum þetta ekki aftur. Við kunnum þetta.

To be or not to be, segir vinur minn. Á maður bara að láta mata sig áfram? Eða á maður að setja peningana sína þar sem kjafturinn er eins og Kaninn segir þegar kemur að framboðsmálum framtíðarinnar?

Við kvöddumst með virktum og héldum til móts við framtíðina.


Einn gegn öllum

hinum sjö er ráðherra allra atvinnuvega landsins við ríkistjórnarborðið ef unnið verður eftir skemmdarverki stjórnarliðsins á Stjórnarráði Íslands sem þeir börðu í gegn 28 á móti 21.

Friðrik Pálsson vakti réttilega athygli á þessari staðreynd í útvarpsþætti Aðeins einn ráðherra er fulltrúi allra þeirra atvinnuvega sem tekjurnar skapa á móti sjö eyðslumálaráðherrum. Þar á meðal eins fánýtisráðuneytis eins og Umhverfisráðuneytis, sem Forsætisráðuneytið hefði eins getað haft í skúffu hjá sér ef tilgangurinn hefði verið að spara í rekstrinum. En í núverandi mynd hefur þetta ráðuneyti aðeins stórskaðað land og lýð.

Við þetta borð er aðeins Steingrímur J. Sigfússon sem á að tala máli tekjuöflunarmálaflokka sjávarútvegs, landbúnaðar, iðnaðar og stóriðju, orkunýtingar á móti útgjaldaráðuneytunum þar sem hver blindinginn öðrum meiri sitja á fleti fyrir.

Þetta er eftir öðru af þeirri ógæfu sem stjórn þessa fólks er að leiða yfir land og þjóð. Það nálgast sem betur fer sá dagur sem öllu þessu verður mokað út á öskuhaug lyðveldissögunnar. En tjónið verður ærið til þess dags þar sem tapað tækifæri kemur aldrei aftur. Einn gegn öllum hefur aldrei gengið upp.


Snjóhengjan

sem ráðamenn nota sem skálkaskjól fyrir gjaldeyrishöftunum samanstendur af peningum sem þeir segja að eigendur vilji skipta umsvifalaust í evrur aftur til baka og fara úr landi og koma aldrei aftur á þetta glæpasker.

Við tölum líka þannig, að við ætlum að sérskatta þessa hálfvita sem komu með þessa peninga af frjálsum vilja sínum, gera peningana þeirra upptæka þannig að þeir skaðist sem allra mest þegar þeir fara ef við leyfum þeim einhverntímann að fara.

Hversvegna komu peningarnir hingað? Þeir komu eins og fjár er háttur til að að fara á beit á grænum hávaxtagrösum Seðlabanka Íslands sem hækkaði stýrivextina látlaust meðan bankarnir lánuðu þessa peninga út í íslenskum krónum á lágum vöxtum með gengisviðmiðun. Sem svo reyndist ólöglegt. Eftirleikurinn stendur sem hæst þar sem bankarnir gefa ekkert fyrir dóma Hæstaréttar.

Hvað þarf til þess að snjóhengjan verði kyrr? Jú, það þarf að klappa henni og kjassa og bjóða henni háa vexti til þess að hún vilji bara vera kyrr. Við verðum hugsanlega að niðurgreiða vextina tímabundið sem þjóð, nema við getum bara gefið þeim Ipad með í kaupauka eins og Davíð eða þessháttar smurning. Alla vega þurfum við að sýna þessu fé eitthvað annað en hnefann steyttan ef við viljum að það verði um kyrrt.

Sá sem ætlar að smala fé hleypur ekki öskrandi framan að því. Maður nær hesti með því að gera sig blíðan og "köggla" hann eða gefa honum brauð. Þú ferð aldrei framan að góðhestinum sagði Hákon frændi. Kínverjinn fer alltaf á ská að viðfangsefninu eins og Nubo gerir. Fé er sama og annað fé og svarar eins. það leitar í skjól undan veðrum, það bregst vel við blíðuhótum en flýr fantaskap.

Þetta hafa íslenskir stjórnmálamenn aldrei skilið. Í þeirra augum er aðferðin til að ná ástum bara árás og nauðgun. Þair hafa aldrei skilið annað og skilja ekki enn. Steingrímur J Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir eru holdgerfingar hins sígilda íslenska afturhaldsstjórnmálamanns. Frunta- og fantaskapur er það eina mál sem þessi skötuhjú kunna í pólitík. Höft og bönn er það eina sem þeim hugkvæmist í hvað máli sem er.

Þessir heimalningar eða "afturhaldskommatittir" geta aldrei leyst vandamál á fjarmálamarkaði. Við verðum að koma þeim burt ef við ætlum ekkki að verða undir snjóhengjunni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 7
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 70
  • Frá upphafi: 3418431

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 65
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband