Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2012

Burt Rutan

er sá maður sem ég hef orðið fyrir hvað mestum áhrifum af að sjá og heyra. Bara við það að hlusta á hann tala við tilfallandi fólk á rampinum úti í Oskosh. Ég hafði vit á að þegja og hlustaði þess betur. Hann stóð þarna með kábojhatt við flugvél sína Defiant og skeggræddi við nokkurn hóp landsmanna sína sem stóðu í kring um hann. Hann var svo skýr, svo blátt áfram og alþýðlegur að maður gleymdi stað og stund. Það eru mörg ár síðan og síðan hafa komið frá honum ótrúlegustu smíðisgripir sem hafa gjörbylt mörgu í smíði flugvéla og geimferða.

Hann dró sig í hlé frá Scaled Composites snemma á þessu ári. Hann ætlar að sinna öðrum hugðarefnum sínum. M.a. að smíða sér vatnaflugvél til eigin nota. Og hún verður ekki venjuleg ásýndum frekar en geimfarið hans sem nú er búið að reynslufljúga og aflaði honum 10 milljón dollara verðlauna frá Paul Allen. Með því verður hægt að kaupa farseðla út í geim innan tíðar.

Annað áhugamál Burts er hnattræna hlýnunin. Hann er búinn að sökkva sér ofan í málið og menn geta kynnt sér á www.burtrutan.com. Hann segist meira að segja hafa lagt á sig að lesa bók Al Gore, sem hann ekki hefur mörg orð um eftir það.

Í stuttu máli beitir hann aðferðum á loftslagsmælingar sem hann hefur notað allt lífið til að rýna í flóknar rannsóknaniðurstöður sem hann varð að gera til að láta furðuhluti sína fljúga. Þessi maður veit hvað hann er að tala um þegar kemur að því að rýna tölur og spyrja spurninga.

Niðurstöður hans eru sláandi fyrir þá sem varla sofa vegna hlýnunar jarðar af mannavöldum. Það er að hlýna já já. En það er allt eðlileg hegðun jarðar og sólar sem öll hefur farið fram áður í sögunni. Maðurinn á minnstan þátt í þessu þó hugsanlega einhver séu. Framlag hans mælist sem dropi á ári í vatnstunnu. Stóratburðir eins og árekstrar við smástirni breyta næstu árum á jörðinni og áhrif á lífríkið hafa orðið svakaleg í sögunni eins og þegar risaeðlurnar dóu út. Þegar það var CO2 miklu hærra en nú og hlýrri og jörðin græn póla á milli. Slíkur atbuirður er hætta sem er raunveruleg en ólíkleg.

En það er mikil hætta fyrir mannkynið í því fólgin að falsa rannsóknaniðurstöður til að hagræða sannleikanum. Það hefur verið gert í "loftslagfræðunum". Það var gert þegar áróðurinn og bannið gegn DDT kostaði milljónir mannslífa.

Ég vil hvetja fólk til að heimsækja Burt á síðuna hans. Þetta er svo óvenjulegur maður að það er þess virði að kynnast honum fyrir hvern sem er.


Þorsteinn Pálsson

spáir í framhald stjórnmála landsins af Kögunarhóli sínum í Fréttablaðinu á laugardaginn.

Mér finnst hann að vanda skrifa allmikið útfrá hugsjón sinni um inngöngu í ESB og upptöku evru sem kannski er ekkert óeðlilegt fyrir baráttumann og einlægan Evrópusinna.

Grípum niður í Fréttablaðinu:

"Í þessu samhengi er ástæða til að nefna tvö mál: Annars vegar er meðferð stjórnarskrármálsins. Hins vegar er mótun stefnu í peningamálum og órjúfanleg tengsl þess máls við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og spurninguna um Evrópusambandsaðild. Óhjákvæmilegt er að horfa á þessi viðfangsefni í samhengi þegar að því kemur að ákveða hvernig haldið skuli á málum...."

Þarna útilokar Þorsteinn þann möguleika að við getum rekið peningamálastefnu eins og við rákum fyrir hrun. Sterk króna virðist leiða til ófæru að hans mati og á þá væntanlega við ástandið sem leiddi til hrunsins.

En er það svo?

Voru þær aðstæður sem leiddu til hrunsins ekki skortur á stjórnun í meðferð jöklafjármagnsins? Má ekki rekja vandann í dag til þess að Seðlabankinn brást og lét bankana taka áhættur með erlendu peningana?

Ekki er fyrirsjáanlegt að aðstæður sem ríktu fyrir hrun komi aftur hér á landi fyrr en eftir talsvert langan tíma. Það mun hugsanlega taka tvö næstu kjörtímabil að komast út úr núverandi vanda. Eftir það eigum við eftir að byggja upp traust umheimsins aftur og líka að ná sáttum við okkur sjálf.

Inn á við á þjóðin erfitt með að horfa upp á það að gömlu víkingarnir ætli að sleppa meira og minna með feng sinn.Land-og atgerfisflótti verður áfram vandamál og það er langur vegur til betri tíma hvernig sem næstu kosningar fara. Sættir eru langt undan hjá þjóðinni innbyrðis.

Þorsteinn gerir sér réttilega grein fyrir núverandi stöðu EES samningsins:

"...Allt bendir svo til að við þurfum að setja strangari varúðarreglur um frjálst flæði fjármagns en önnur Evrópulönd. Það kallar á undanþágur frá samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þá gæti það orðið þrautin þyngri að halda viðskiptafrelsinu óskertu til frambúðar á öðrum sviðum samningsins. Óbreytt samningsstaða við Evrópu er því ekki kostur lengur...."

Við getum auðvitað ekki uppfyllt samninginn frekar en við höfum gert frá hruni og eigum hugsanlega enn eftir að brjóta hann enn freklegar en orðið er.

Síðan segir Þorsteinn:

"...Engum vafa er undirorpið að mikill meirihluti fólks vill eitt af þrennu í stöðunni: 1) Halda í krónuna og byggja á Evrópska efnahagssvæðinu með endurnýjuðum samningi. 2) Taka upp evru og ganga í Evrópusambandið. 3) Hafa báðar leiðir opnar enn um sinn. Hugmyndin um að ganga út af Evrópska efnahagssvæðinu á fáa formælendur. Mismunandi sjónarmið um lausn á peningamálunum kalla því á stjórnarskrárbreytingu...."

Einhverskonar mynd af möguleika 3) er væntanlega það sem framtíð okkar felur í sér.

Þorsteinn Pálsson rígheldur í hugsjónir sínar um möguleika 2). Hann gerir sér samt ljóst að sá tími er ekki núna. Hann hefur hinsvegar áhyggjur af því hvernig eigi að ná þjóðinni til fylgis við nauðsynlegt fullveldisframsal.

Hann bindur enn vonir við að sitjandi Alþingi nái að afgreiða stjórnarskrármálið áður lýkur nösum nú á næstu vikum eftir skoðanakönnunina 20 október.

Þorsteinn segir enn:

".... Er nokkur vandi á höndum? Liggja ekki fyrir hugmyndir að nýrri stjórnarskrá þar sem ráð er fyrir því gert að deila megi fullveldisréttinum í alþjóðasamvinnu? Það er rétt. En málið er flóknara.

Á það er að líta að í fyrsta skipti í sögu stjórnarskrárbreytinga hefur ekki verið leitað eftir víðtækri samstöðu á Alþingi um vinnulag og efnistök. Fyrir vikið standa fyrir dyrum miklar þrætur þegar efnisumræður hefjast loksins. Þar að auki er málið komið í tímaþröng.

Hvort sem menn eru hlynntir þeirri heildarbreytingu sem um er rætt eða ekki má öllum vera ljóst að teflt er á tæpasta vað með afgreiðslu á svo stóru máli fyrir þinglok. Jafnvel þó að það takist bendir flest til að það verði samþykkt með naumum meirihluta.

Stjórnarskrárbreytingar þarf að leggja fram á nýju þingi til endurstaðfestingar. Það er gert til þess að kjósendur geti tekið í taumana ef þeim sýnist svo. Verði þeir sem væntanlega greiða atkvæði gegn stjórnarskrárfrumvarpinu í meirihluta að kosningum loknum verður að líta svo á að kjósendur hafi stöðvað málið. Auðvitað er ekki unnt að fullyrða að svo fari. Hitt væri barnalegt að viðurkenna ekki að í öllu falli eru líkurnar á því jafn miklar.

Gerist það er búið að loka báðum aðalleiðunum í peningamálum fyrir allt næsta kjörtímabil. Vilja menn taka þá áhættu með því að heimta annað hvort allt eða ekkert í stjórnarskrármálinu? Eða: Vilja menn sýna list hins mögulega og semja um framgang þeirra breytinga sem brýnastar eru? Af svörunum má ráða hvaða alvara býr að baki afstöðu einstakra flokka til þeirra miklu mála sem eru í uppnámi af þessum sökum."

Þorsteinn heldur fast í þann möguleika að Sjálfstæðisflokkurinn verði að semja um Evrópumálin eftir kosningar.

Hann heldur áfram:

"Í tillögum stjórnlagaráðs segir að kjósendur eigi að greiða atkvæði um samning sem Alþingi hefur samþykkt um framsal á fullveldisrétti í alþjóðasamstarfi. Hins vegar er engin krafa gerð um lágmarks þátttöku eða stuðning. Einfaldur meirihluti í þjóðaratkvæði á að ráða úrslitum án tillits til þátttöku.Ýmis rök mæla hins vegar með því að eitthvert lágmarks hlutfall allra atkvæðisbærra manna styðji ákvörðun Alþingis. Það þýðir að í raun yrði gerð krafa um aukinn meirihluta eftir því sem þátttaka í kosningunni er minni. Hugsunin er sú að gera eigi ríkari kröfur um ákvarðanir sem lúta að skipan fullveldisréttarins en almenn löggjafarmál.

Vilji menn leita eftir samstöðu um þetta brýna stjórnarskrárákvæði er óvitlaust að hugleiða þennan kost. Ekki er ólíklegt að þeir sem hikandi eru við að opna slíkar stjórnarskrárheimildir væru fúsari til samkomulags ef vilji væri til slíkra breytinga. Þetta eina álitaefni sýnir hversu brýnt er að brjóta stjórnarskrárumræðuna betur til mergjar."

Þorsteinn er greinilega hlynntur því að Alþingi geti endanlega afgreitt inngöngu í Evrópusambandið frekar en að þjóðaratkvæðagreiðsla þurfi að koma til.

Hann hefur áður og enn í dag á Sprengisandi áréttað þá skoðun sína að ekki megi hætta aðildarviðræðum við ESB vegna þess hversu slíkt tefur Íslendinga á leið sinni í ESB, þeirri leið sem þeir verði að fara þar sem þeir geti ekki staðið á eigin fótum.

Það er eins og hann muni ekki áratugina nærri tvo fram að hruninu og fordæmi þann tíma sem leiddi til þess að þjóðin fór svo bratt upp að hún datt út um þakgluggann. Það er eins og ekkert hafi gerst fyrir þennan atburð sem sanni neitt um getu þjóðarinnar hvað þá að hún búi yfir meira afli en nokkru sinni Evrópusambandið.

Það er dapurlegt að verða vitni að slíkri vantrú hjá þeim leiðtoga sem maður fyrrum fylgdi.

Ég er raunar enn þeirrar skoðunar að Þorsteinn Pálsson sé sá maður sem Samfylkingin ætti að velja sem formann sinn nú þegar formannstóllinn er laus.

Samfylkingin yrði þá stórum fýsilegri samstarfsflokkur en hún er í dag. Þorsteinn Pálsson er sá sem getur fyllt upp tómarúmið í flokknum eftir brotthvarf Jóhönnu Sigurðardóttur.


Snjóhengjan

sem vofir yfir okkur er eitt mesta vandamálið af mörgum sem við Íslendingum blasa. Það er sama hvaða ríkisstjórn tekur við, vandamálið hverfur ekki.

1200 milljarðar af peningum geta hugsanlega viljað fara sem hraðast úr landi ef þeir fengju.Sagt er að mikið af þessu fé sé bundið í stuttum skuldabréfum ríkisins. Hitt eru innistæður í bönkunum sem hefðu því betur farið á hausinn á sínum tíma.

Sum þessara ríkisbréfa eru að komast á gjalddaga þannig að þrýstingur vex á að fá ferðaleyfi. Sagt er að eigendur þessa séu í mörgum tilvikum erlendir vogunarsjóðir sem hafi keypt þau á hrakvirði, kannski 5-10%.

Hvað getum við gert? Vill einhver lána okkur tíu milljarða dollara til 50 ára á 1 % vöxtum? Hundrað milljónir dollar í vexti á ári, 2 í afborgun gera 40 milljarða á ári.Þá getum við borgað þetta út. Huang Nubo kannski?

Gefum gengið frjálst. Dollarinn hækkar um helming eða þrisvar sinnum. Sparifé okkar rýrnar um sama. Lífskjör almenning sökkva í bili og fáir munu kaupa LandKrúser það árið. Þolir þjóðfélagið það? Getum við hreinsað skuldina út með slíkri óðaverðbólgu eins og Junkararnir gerðu á sínum tíma í Þýskalandi?

Fremjum rán. Borgum bara þeim sem geta sýnt fram á á hvað þeir keyptu bréfin. Það fái þeir borgað og ekki annað. Leggjum á "útgönguskatt" ("upptökuskatt") Lilja Mós hefur talað um þá leið. Það verða þá líklega margir fúlir úti í land og þjóð.

Eða búa við gjaldeyrishöft í minnsta kosti áratug í viðbót.Verðbólgan étur allar innistæður upp á þeim tíma. Þetta jafnar sig á þeim lengri tíma.

Svo getum við dásamað framsýnina sem fólst í gerð EES samningsins og svo framvegis. Öllum þeim yndislegu paragröffum sem við höfum hólkað ofan í okkur og flækt okkar tilverustig svo um munar. Nú brjótum við samninginn á hverjum degi og enginn segir neitt. Heldur einhver að við við getum gengið í ESB við þær aðstæður? Eða fáum við upphæðina sem vaxtalausan yfirdrátt hjá Evrópusambandinu daginn sem við göngum inn?

Hvernig væri að við færum að ræða um framtíðina í alvöru? Ekki bara um stjórnarskrármál og Landspítalabyggingar. Snjóhengjan er alvörumál.


Viðskiptafréttir

berast á hverjum degi. Misfyrirferðarmiklar eins og gengur.

Ein kemur úr Keflavík. Þar byggði Hjalti Guðmundsson smiður sökkla fyrir hjúkrunarheimili. Svo er boðin út yfirbyggingin og þá býður Hjalti 345 milljónir en ÍAV 338 milljónir.

Munurinn á þessum tveimur bjóðendum er sá að sá fyrri hefur víst borgað sínar skuldir og ekki fengið neitt afskrifað. En ÍAV ? Sumir hafa heyrt fréttir af þeirra bankaviðskiptum.

Svo kemur Kalli Werners heim með hundruð milljóna í gjaldeyri. Vá mar, sá er að redda landinu! Seljum honum krónur með 20 % afslætti. Auðvitað tengist þetta ekkert bótasjóðum Sjóvár sem fóru í ferðalag til Hong Kong á sínum tíma og Steingrímur borgaði með 14 milljarðar framlagi frá okkur. Nei nei, Kalli er bara að redda okkur um gjaldeyri.

Og Bakkavarabræður. Annar undir ákæru fyrir stórfelld fjársvik. Þeir eru líka að koma heim með gjaldeyri til að kaupa Bakkavör til baka sem einhver banki var búinn að sölsa undir sig vegna óskyldra mála.

Allt þetta skiptir fréttstofu RUV ekki máli því þeir eru að reikna út rekstarkostnað við Fjársýslubókhaldið sem Gunnar Hall segir okkur að sé alveg í lagi.

1200 milljarðar bíða eftir að komast úr landi í formi erlends gjaldeyris svo sem Styrmir Guðmundsson segir í grein í Mogga. Helmingurinn af því keyptur á hrakvirði af vogunarsjóðunum sem þáðu bankana fríkeypis af Steingrími J. Hitt sviku einkabankarnir út úr belgískum tannlæknum sem voru hugsanlega ekki alveg hreinir í skattstofunum heima hjá sér.

Hvenær skyldum við eiga 1200 milljarða í erlendum gjaldeyri til að borga þessa gæja út? Gera menn sér grein fyrir því? Væru gömlu bankarnir þrír ekki betur komnir í gjaldþrot og aflúsun eins og sumir kölluðu það í Den? Þurfum við ekki að gera eitthvað drastískt í þessu? Þó að einhverjir verði fúlir.

"Miðvikudagur og lífið gengur sinn gang...." Viðskiptafréttir !


Nálægðarsamfélagið

í pólitíkinni á Íslandi er sérstakt. Við þekkjum ráðamennina marga persónulega. Fólk heilsast á götu eins og aldavinir. Jafnframt er er engu gleymt. Gömul fyllerí og framhjáhöld gleymast aldrei. Náunginn er stimplaður ævilangt.Pískrað á bak við hann.

Það er víst þessvegna að það er basl hjá Gulla þetta með trúverðuleikann í pólitíkinni. Hann var of duglegur við að safna fé. Fé frá útrásarvíkingum sem öllu réðu í Den en er eitrað og er aðeins notað í illum tilgangi. Sem er skaði því strákurinn er svo fjandi góður, duglegur(munið ráðherradóminn) og sjarmerandi að það er vont ef að kraftar hans verða eyðilagðir og tapast þjóðinni þegar stöðugt er verið að harpa á þessu atriði en ekki spurt hvað Gulli vilji gera í dag? Er þá ómögulegt fyrir Gulla að byrja aftur. Á hann að vera brennimerktur um alla eilífð? Og Sjálfstæðisflokkurinn líka af því að Gulli safnaði líka fyrir flokkinn? Er ómögulegt fyrir Illuga að losna við sjóð 9? Ómögulegt fyrir Þorgerði að losna við kúlulánin? Bjarna við Vafninginn? Óla Björn við slaginn á Austurvelli? Björn Val við gamalt fallít. Ásbjörn við arðinn? Þráinn við listamannalaunin? Árna við áfallið? Og svo framvegis.

Það getur vel verið að niðurrifsöflunum takist að eyðileggja þetta fólk allt saman. Uppreisn æru virðist ekki vera til á Íslandi í nálægðarsamfélaginu. Við getum þá ragað út allt fólk sem einhverntíman hefur gert eitthvað annað en vera hvítasunnufólk. .En hvað fáum við þá í staðinn? Steingrím snjalla, heilaga Jóhönnu, Magnús Orra,Líney Rafneyju, Guðmund Steingríms,Lilju Mós, Guðbjart Hannesson, Elínu Hirst, eða hvaða óskrifuð blöð sem eru.

Þetta er eins og íslenskt gjaldþrot. Það er engin leið upp aftur á Íslandi. Þú ert brennimerktur til æviloka og eltur út yfir gröf og dauða af skattyfirvöldum. Þú sleppur aldrei, kennitalan er ónýt. Þú átt þér ekki viðreisnarvon. Það er ekkert hreint borð til fyrir þig. Það er best fyrir þig að hverfa og flytja til útlanda.

Það er ókosturinn við nálægðarsamfélagið. En það gefur líka tækifæri sem fólk á að nýta til að vera hreinskilið og hætta að þykjast vera yfir náungann hafið og breyskleika hans.Reyna að vera umburðarlynd og leita að hinu jákvæða í nálægðinni.


Kjaftstopp

er maður eftir tíðindin úr SKÝRR.

Þar er fyrirtæki sem tekur þátt í opinberu útboði og býður Oracle Business Suite sem er er valið á móti SAP frá Nýherja. Nýherji kærir ákvörðunina og eru honum úrskurðaðar bætur. Lausn SKÝRR virkar ekki. Fyrirtækið er síðan á tímakaupi við að klastra við kerfið meðan vitað er að SAP hefði virkað eins og það var boðið. Í TÍU ÁR OG ÁFRAM!

Klastrið er ekki bara stutt redding heldur auðsuppspretta SkÝRR að eilífu-AMEN! Enn þann dag í dag á fullu. Eitt eða fleiri kaupverð á hverju ári til að klastra. Og svo til að klastra við skemmdir eftir það þegar stórfyrirtækið sem á ORACLE er stöðugt að finna upp svokallaðar uppfærslur til að láta menn borga meira. Venjulega virkar ekkert úr nýja kerfinu í gamla kerfinu þegar þessi fyrirtæki eru að selja uppfærslur þannig að allir verða að kaupa sér uppfærslurnar. Þannig raka þeir stóru saman fé með því að kúga fólk í uppfærslur sem þó eru stundum beinar afturfarir. Fyrir fólk sem veit bara pínulítið um tölvubransann er þetta bla bla og ga ga. Auðtrúa sálir eru hafðar að fíflum af þeim sem betur vita.

Í tilfelli Alþingis er auðvita treyst á að þingmenn séu nægilega tölvuvitlausir til að skilja ekkert í hvað er verið að gera. Svo bara springur blaðran hjá þeim þegar fjárausturinn er orðinn nógu svakalegur þannig að honum verður ekki leynt lengur. Að hundrað milljónir séu nefnilega orðnar að mörgum milljörðum á áratug. Allt vegna umdeildrar ákvarðanatöku í byrjun aldarinnar sem hefur í ljósi sögunar líklega verið röng. Og úrvinnslan enn furðulegri. Af hverju þetta? Af hverju hitt? Rannsóknanefndir, RANNSÓKNIR. Allt leysist ef við skipum nógar rannsóknanefndir. Eða hvað?

Er ríkið að færa bókhald sem menn geta treyst eða er það ekki hægt nema 140 manns frá SKÝRR séu stöðugt í vinnu við kerfisviðgerðir?

Hannn afi minn og fleiri færðu bókhaldskladda hjá Landssímanum framyfir miðja öldina síðustu. Allt virkaði þó þeir hefðu bara samlagningarvélar og stöku margföldunarvél og svo blýjanta og bækur. Nú er ekkert hægt nema Frosti Bergsson komi með Opin Kerfi til að leggja saman. Tali tölvumál sem engin nefnd sem Alþingi getur skipað innanhúss skilur. Skattgreiðandinn skilur hinsvegar bara að það er hann sem borgar. En hann getur ekkert sagt því honum kemur þetta ekkert við. Hann bara kýs fólk sem hann treystir en er svo auðvitað langt frá því að vera traustsins vert.

Af hverju eru engir settir nú í gæsluvarðhald eins og til dæmis í Hafskips-málinu? Er bara engin hætta að menn séu að spilla sakargögnum í óðaönn? Þurrka út sönnunargögnin? Eyða út af diskum? Auðvitað engin hætta á slíku, því menn skilja ekki hvað er að gerast. Þetta er svo flókið og tæknilegt að það er ekki einu sinni hægt að gera skýrslu um málið. Og einu túlkarnir vinna hjá SKÝRR.

Hafa menn nokkru sinni heyrt um annan eins verksamning? Er enginn kjaftstopp?


Vikukaup verkamanns

hefur Steinunn Guðbjartsdóttir frá Króki á par klukkutímum í skilanefnd Glitnis. Á einni viku hefur hún Jóhönnukaup. Með smáyfirvinnu Seðlabankakaup.

Og svo þykist Steingrímur vera hneykslaður. Er hann ekki ábyrgur fyrir ráðslaginu öllu með þrotabú bankanna? Búinn að vinna óbætanlegt tjón á íslenskum skuldaheimilum með því að koma þeim í forsjá erlendra vogunarsjóða.Verður Steingrímur ekki að svara til saka fyrir sínar athafnir á bankasviðinu? Listinn virðist stöðugt lengjast.

Hvaða yfirburðaþekkingu er þessi Steinunn að selja? Er hún einhver doktor juris? Er lögfræðiráðgjöf hennar þessa virði? Er ekki fyrir eitt tímakaup hennar hægt að ráða hálfa tylft nýtútskrifaðra lögfræðinga? Er hún einhver fjögramaki?

Hvað kostaði sá yfirburða gambítur hennar að stefna Jóni Ásgeiri fyrir rétt í New York í stað íslensks réttar? Var ekki hlegið að stefnunni um gjörvallan lögfræðingaheim Bandaríkjanna? Hvað kostuðu hótelin í New York og allt það sem því fylgdi? Hvaða skaða urðu sakborningarnir fyrir? Þó Jón Ásgeir og hans nótar séu eins og þeir nú eru, þá hljóta þeir að eiga einhver rétt á sanngjarnri málsmeðferð?

Er þetta bara allt í lagi að einn ótíndur lögfræðingur hafi vikukaup verkamanns á einni klukkustund ? Verður að setja slitastjórnir á slitastjórnirnar?


Börn verða fyrir ósköpum í Sýrlandi

er aðalfrétt RÚV í morgun. Börn verða fyrir pyndingum, foreldrarnir myrtir fyrir augunum á þeim, þau eru skotin.

Það sýnir kærleika og göfuglyndi þeirra sem í Sýrlandi búa. Er ekki Assad sjálfur læknir sem hefur svarið Hippokratesareiðinn?. Er það hann sem stendur fyrir þessu? Hvað stendur í Kóraninum um kærleikann og miskunnsemina?

Er þessi frétt til undirbúnings því að við Íslendingar verðum að sækja þessi börn upp að 18 ára aldri eins og sagði í fréttinni til Sýrlands? Veita þeim hæli? Taka vel á móti sýrlenskum hælisleitendum? Barnahermönnum? Eigum við að fara að bombardéra í Sýrlandi eins og við gerðum beinlínis í Lybíu? Gaddafy munaði nú aldeilis um það. Er ekki allt í keyinu þar núna?

Hvernig var með þetta borgarastríð í Bandaríkjunum fyrir einni og hálfri öld síðan? Hver leyfði það? Hvað eigum við að gera í Sómalíu? Er ekki hægt að finna flóttamenn þar?

Hverjir fremja grimmdarverkin í múslímaheiminum? Þeir góðu, vondu eða ljótu? Ekki teikna samt skrípamyndir af þeim því þá gætu þeir reiðst og lemmað okkur.

Börn verða alltaf fyrir ósköpum í styrjöldum því þau eru varnarlaus.


Íraki fer úr landi

sendur í morgun til Noregs þaðan sem hann kom hingað sem hælisleitandi. Skelfing og ósköp segir lögfræðingurinn og höfðar mál. Maðurinn segir dauðann geta beðið sín í Írak. Það er allt í einu okkar mál að leysa úr fortíðaarvanda  hans.

Svo orti Moskvuskáldið Halldór Kiljan í orðastað Bjarts í Sumarhúsum:


Spurt hef ég tíu milljón manns
séu myrtir í gamni utanlands.
Sannlega mega þeir súpa hel
ég syrgi þá ekki, fari þeir vel.

Afturámóti var annað stríð
undir grjótkletti forðum tíð,
það var allt útaf einni jurt
sem óx í skjóli og var slitin burt.

Því hvað er auður afl og hús ef engin jurt vex í þinni krús ?

Hversu megum við böl heimsins bæta Íslendingar? Getum við setið upi með afleiðingar af gjörðum manna í fjárlægum löndum? Mönnum sem taka upp vopn í baráttu við landsmenn sína og verða undir? Mönnum sem eru svo óheppnir að fæðast í múslímaríkjum og þeirri fátækt sem því fylgir? Mönnum sem þrá betri kjör en þeir búa við?

Hér margt í ólestri sem lengi má telja. Samanborið við það versta í heiminum er það sjálfsagt ekki merkilegt. Spurning hvort við eigum nokkurn rétt umfram aðra til að búa hérna? Sumir halda því þó fram.

Eigum við að taka upp lottó með íslenskan ríkisborgararétt  eins  og Bandaríkjamenn? Þú getur kannski keypt miða á Betson og komist til Íslands ef engin jurt vex í þinni krús þar sem þú fæddist?

Eiga hér allir vísa landvist sem hrjáðir eru og hraktir? Einn prófessor okkar og stórkrati var ekki í vafa og vildi milljón manns frá Afríku  á Suðurland strax. Það er sjónarmið út af fyrir sig.

Hver á að ráða því hvort einn Íraki fer eða kemur? Hvursu margir eru Írakar og hvursu margir eru Íslendingar ? Maður gæti heyrt fyrir sér rödd Halldórs Kiljans spyrja þessarar spurningar úr því að maður má sjálfur ekki spyrja slíkra spurninga. Það eru víst einhverjir aðrir sem sitja uppi með hin réttu svör.

 


Gjaldeyrishöftin áfram

um langan aldur var boðskapur Árna Þórs og Lilju Mós á Sprengisandi í gær. Snjóhengjan þúsund milljarðar í erlendum innistæðum eða svo gerir það að verkum.

Gegn þessu er ríkisstjórn okkar og marxistinn í Seðlabankanum  gersamlega ráðalaus. Það verður vonum seinna að hvorutveggja verði mokað út af nýju þingi þegar það kemur saman.

Afleiðingin af því að endurreisa gömlu  bankana úr öskunni liggur á borðinu með höftunum. En það þýðir ekki að stýra fortíðinni heldur leita nýrra leiða annrra en þeirra sem þetta vinstra ráðleysislið norrænnar velferðar er búið að  reyna á okkur í fjögur ár.  Annars verða hér gjaldeyrishöft áfram svo  lengi sem ég lifi þó ég verði allra karla elstur.


Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 3420141

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband