Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013

Skrípamyndir

birtast í blöðunum af sakborningum í alvarlegum glæpamálum. Þar sitja kauðar í úlpum með hetturnar yfir hausnum þannig að myndirnar segja ekkei neitt. Svona álíka og tekin væri mynd af Múslímakonu með dætur sínar og allar í búrkum. Einn stór svartur plastpoki og tveir minni við hlið hans.

Af hverju eru glæpamenn ekki leiddir fyrir dómarana í handjárnum og ekki með grímur? Er ekki bannað að ganga grímuklæddur á almannafæri? Það var einu sinni bannað.

 Aðstandendur blaða geta alveg látið lesendur í friði með svona skrípamyndir sem segja ekki neitt. 

 


"Oscar Lafontaine

 sem var fjármálaráðherra Þýzkalands, þegar evran var tekin upp en yfirgaf síðar jafnaðarmannaflokkinn SPD, hvetur til þess í grein á vefsíðu flokks síns, Vinstri flokksins, að horfið verði frá evrunni. Hann segir að vonir um að evran mundi knýja fram skynsamlega efnahagspólitík hafi ekki rætzt og sagði að sú aðferð að þvinga Spán, Portúgal og Grikkland til „innri“ gengislækkunar væri „katastrófa“.

Lafontaine segir að efnahagsástandið versni frá mánuði til mánaðar og atvinnuleysi sé komið á það stig að lýðræðið sé í hættu. Hann segir Þjóðverja ekki enn hafa áttað sig á því að Suður-Evrópa og þar með Frakkar mundi verða knúin til að berjast gegn þýzkum yfirráðum fyrr eða síðar.

Daily Telegraph bendir á, að Pierre Moscovici, fjármálaráðherra jafnaðarmanna í Frakklandi hafi í gær sagt að tími aðhaldsstefnunnar væri liðinn og að stefna Frakka hefði orðið ofan á, sem blaðir segir að muni leiða til enn versnandi samskipta Frakka og Þjóðverja. Tilefni orða franska fjármálaráðherrans var að Brussel hefði fallizt á tveggja ára lengri tíma fyrir Frakka til að ná settum markmiðum í fjárlagahalla."

Þegar maður hugsar til einsmálsflokksins okkar hérna, Samfylkingarinnar, og yfirstrumpa hennar Össurar og Árna Páls sem gargaði hæst  í umræðuþáttunum fyrir kosningar, þá getur maður séð að heimskunni einni eru engin takmörk sett. Heimskinginn lærir yfirleitt aldrei neitt nema hann skynji vandarhögg á sjálfs rassi. 

Það vandamál að hjálpa íslenskum evruspekingum að hverfa frá villu síns vegar er ekki  á færi venjulegs fólks. En þróun mála í Evrópu ætlar að leysa málið af sjálfu sér rétt eins og Heimstyrjöldin gerði það að verkum að Þjóðernissinnaflokkurin íslenski hvarf og hér er enginn kommúnisti eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur.

 


Raunverulegt dæmi

um hvernig komið er fyrir mörgu fólki kemur frá Noregi og Ingvari Erni Ingólfssyni.

Langaði aðeins að deila með ykkur smá sögu og athuga hvort að einhver hefur ráð fyrir mig.

En sagan er svona. 2006 keypti ég mér hús á Akranesi fyrir 16,8 miljónir. Lánin voru hjá KB banka (Arion banka) og voru þau á þeim tíma 14,2 miljónir. Síðan 2006-2008 (sept) borgaði ég allt af lánunum plúss 50.000 auka á hverjum mánuði eftir það borgaði ég bara mánaðargreiðslunar þangað til í febrúar 2012 en þá hætti ég alveg að borga. Áður hafði ég borgað einnig borgað einu sinni aukalega 600.000 inn og svo einu sinni upp eitt smálánið sem ég tók yfir uppá 480.000 og einu sinni farið í gegnum 110% leiðina 2010.

En þar sem ég hætti að borga kom að því að íbúðin var boðinn upp núna í febrúar og seld á 13,5 miljónir en lánin stóðu í 22 miljón þá, semsagt ég skulda 8,5 miljón.

En ég er búsettur Noregi núna og hafði fengið þau ráð og heyrt frá öðrum að þetta myndi ekki hafa nein áhrif hérna úti en núna hef ég fengið rukkun frá norsku innheimtuyrirtæki fyrir hönd Arionbanka uppá 371.000 norskar og þar af eru 110.000 norskar vextir, þetta eru árslaun venjulegs verkamanns í Noregi og ég á að borga fyrir 15. júní takk fyrir.

Hefur einhver gott ráð hvernig ég get endað þessa vitleysu núna, þarf ég að láta gera mig gjaldþrota á Íslandi eða er eitthvað annað hægt að gera?

 


Bankatilfinningar

mínar sem hluthafa í gömlu bönkunum eru þess eðlis að ég lít þá ekki réttu auga og forðast þá.

Manni var bara sagt einn góðan veðurdag, þú ert búinn að tapa öllu sem áður var þitt stolt. Landsbankinn, Íslandsbanki, Kaupþing, Straumur, allt farið á hausinn. Hluthafi :Farðu til fjandans. Nýju bankarnir munu innheimta hlutafjárskuldir þínar ef einhverjar eru. Það sem þú hefðir hugsanlega viljað draga til skuldajöfnunar frá fyrri viðskiptum, það geturðu reynt að sækja í þrotabúin og slitastjórnina. En þetta borgar þú í topp!

Maður keypti hlutafé á sínum tíma í Iðnaðarbankanum til að styðja við litla einkabankann á móti ríkisbönkunum. Svo varð  Iðnaðarbankinn allt í einu orðinn að Íslandsbanka og svo kominn undir stjórn Bjarna Ármannssonar sem hafði dottið inn í það í krafti þess að Iðnlánasjóði og Fiskveiðasjóði var stolið frá þeim  sem höfðu byggt þessa sjóði upp og voru allt í einu orðnir að stofnfé  í Framkvæmdabanka Atvinnulífsins. Sem varð eftir innlögn í Íslandsbanka þar með orðinn fjárfestingabanki undir forsæti bankastráks. Hver svo fór að græða rosalega fyrir sjálfan sig meðal annars um leið og hann fór að moka peningum í Bónusfeðgana og Hagkaupastrákana og boltinn fór að rúlla.

Við þessir gömlu  litlu hluthafar urðum fljótt undir blökkunum sem þessir paurar mynduðu í kring um sig. Allt í einu réðu bara stórar blakkir öllu í bönkunum. Stjórnmálamennirnir kölluðu þetta kjölfestufjárfesta og þóti það fínt. Forsetinn Ólafur Ragnar hafði aldrei séð dýrðlegri menn og þeir tóku hann með í þotunum sínum svo hann gæti hyllt þá sem útrásarvíkinga Íslands. Þeir gerðu svo grín að Seðlabankanum sem hækkaði stöðugt stýrivexti sem leiddu af sér meira innflæði krónubréfa sem þeir lánuðu út á lágum gengistryggðum vöxtum. Ég get enn hlegið þegar ég hugsa til baka.

Þetta var sem sagt orðið úr gömlu bönkunum mínum.  Sama góða fólkið í afgreiðslunum brosti til manns, það vantaði ekki og maður hugsaði ekki dýpra en keypti bara meira hlutafé. En það sem við ekki sáum var að undir yfirborðinu var þetta orðið að peningavél vefara  keisarans sem fóru eins og eldur í sinu um þjóðfélagið og lögðu allt undir sig og sína vini  sem hönd á festi. Keyptar voru skrautfjaðrir til að nota í þessa vefjarhetti keisarans í öllum bönkunum. Þessir fósar lögðu undir sig öll helstu fyrirtæki landsmanna og virtust leggja þau jafnharðan í rúst, hreinsa þau út af öllu fémætu og renna þeim svo út og suður svo venjulegt fólk hafði enga  yfirsýn. Örfáir tugir manna réðu orðið öllu í fjármálakerfi landsins.

En nettóið var svo bara stórtap þegar upp var staðið 2008. Því þessi nýju séní virtust hafa flest annað til brunns að bera en viðskiptavit og helst enginn rekstur gekk sem þeir komu nálægt og fjárfestingar þeirra í útlöndum mest froða og leiksýningar.

Svo kom mestur sannleikurinn í ljós í hruninu.  Allt var ein blekking og búið var að stela öllu steini léttara. Skeinisbréf útgefin af þjófunum sjálfum voru komin í stað tryggðra viðskiptaskjala í fjárfestingasjóðum bankanna. Allar tryggingar voru hjóm og Pótemkíntjöld. Skattfrjálsum Bótasjóðum tryggingafélaga var stolið átölulaust.  Allt reyndist þá vera ein lygi og blekking frá upphafi til enda. Jafnvel Forsetinn þagnaði um stund. Bankinn Glitnir fór fyrstur á hausinn og við hluthafarnir fengum að vita að við ættum ekki sent í nýja bankanum sem nú skyldi endurreistur og heita  Íslandsbanki á ný.  Sem var allt í einu eigandi að öllu því sem við skulduðum  en  var allt annað óviðkomandi. Nýjar skrautfjaðrir voru leigðar og enginn spurði hvert gömlu hugsjónir þeirra hefðu farið.

Nú eru allir gömlu bankarnir  nýjir bankar sem  eru útlend skrímsli eftir gjafagerninga Homo Thistilfirðensis sem enginn veit hver á þó sama góða starfsfólkið brosi þar enn til manns.  O tempora ,o mores.

Íslandsbanki, Landsbanki og Arion auglýsa mikið um alla þjónustulund sína. En ég sem gamall hluthafi get ekki litið þá réttu auga sem skiptir svo sem engu máli. En ég er eiginlega hissa á því að þessum bönkum detti ekki í hug hvaða áhrif það hefur á tilfinningar gamlalla hluthafa að sparka svona í sína gömlu vini, hluthafa  og bakbein,  sem við litlu kallarnir vorum einu sinni. En sem nú hafa tapað öllu sínu og erum forsmáðir og fyrirlitnir.

Í þeirra sporum hefði mér dottið í hug að reyna  að bæta þeim gömlu tjónið að einhverju leyti með nýju hlutafé á vægu verði í nýju bönkunum.  Ná bankatilfinningum fólksins til baka. En líklega finnst  nýjum herrum ekki taka því að vera að spá í þetta gamla lið sem er bráðum dautt hvort sem er.

Nýju bankarnir eru sagðir í eigu Vogunarsjóða, Hrægammasjóða, íslenskra skattsvikara eða hverskyns glæpamanna og reyna að sjúga hvern eyri út úr öllum sem voru í viðskiptum við gömlu bankana fyrir hrunið . Þeir skulu borga til síðasta blóðdropa þó heimilin eigi að fá New Deal í anda Roosewelts. Þó áttu gömlu hluthafarnir líka heimili sem fengu þjáningarnar einar  í sinn hlut.

Ég vil að lokum benda fólki á MP-banka sem er allavega ekki mikið tengdur gömlum myrkraöflunum. Þetta er lítill en þjónustulundaður banki sem ætti að hafa alla burði til að verða banki fólksins ef hann forðast slysin. Ég vona að hann muni ná til almennings með tíð og tíma og að meindýrunum sem eyðilögðu þjóðfélagið 2008 verði haldið þar utandyra. Megi viðskiptavinir MP-banka hafa góðar bankatilfiningar um alla framtíð og megi stjórnendur hans þróa þá bankahefð sem hér hefur aldrei þrifist í friði fyrir barnungum sjálfskipuðum séníum á sérgróða sjömílnaskóm sem hafa traðkað yfir allt og alla allt of lengi.  

Rétt bankatilfinning næst ekki nema með ræktun hugfars og hefða og helst bankamanni fram af bankamanni eins og gerist víða um hinn siðmenntaða heim. 


Ísland fyrir Íslendinga

er það sem ég fékk í hugann eftir að hlusta á Ögmund ráðherra í morgun. Hann  takmarkar rétt fólks til landakaupa á Íslandi við búsetu  en ekki ríkisfang til viðbótar  með reglugerð sem hann var að undirrita.

Ég vil fagna þessu framtaki Ögmundar.  Það er ekki víst  að krafa um ríkisborgararétt væri betri. Það er alveg nógu einfalt að verða ríkisborgari hérlendis. Huang Nubo gæti alveg orðið ríkisborgari á skömmum tíma ef hann einsetti sér það. Rauða Kína getur alveg sent einhvern erindreka hingað til að kaupa Grímsstaði þegar viðkomandi er orðinn ríkisborgari ef þeir gætu og þyrfti sá enga lögmæta ástæðu til kaupanna. Gætu þessvegna verið búnir að því.

Ögmundur lét þess getið í leiðinni að Sigmundur Davíð ætti að mynda stjórn til  vinstri með sér. Satt er að þeir vilja báðir hafa Ísland fyrir Íslendinga og vilja ekki í ESB. 


Vísitöluleiðin

sem ég hef verið að reyna að tala fyrir byggist á niðurfærslu verðlags í skjóli gjaldeyrishaftanna.

Greiðsluvísitalan var 93 við hrunið. Hún er núna held ég 123 stig. Dollarinn kostar núna 117  samkvæmt skráningu Seðlabankans. Nýkominn niður úr yfir 120.

Mín leið gengur útá það, að ráðherra gefi út tilskipun um að greiðsluvísitalan skuli verða 93. Seðlabankinn  ákveður að dollarinn skuli kosta 93 kr. og vera fastur til almennings og vöruinnflutnings næstu 1-2 ár að uppfylltrum skilyrðum um þjóðarsátt.

 Öll verðtryggð lán taka endurreikning miðað við hina nýju vísitölu. Eigendur skuldabréfanna eiga færri krónur hjá skuldurum. En verðmeiri krónur um leið. Eigendur verðtryggðra bóka eiga færri krónur en betri.  Allt innflutningsverðlag verður lækkað sem þessu nemur og því fylgt fast eftir.

Skuldaleiðréttingin er þar með afstaðin. Þeir sem eru búnir að missa eignir sínar fá bætur úr ríkissjóði. Þeir sem hafa greitt erlend lán á meira en nýja genginu fá endurreikning. Lyklafrumvarp verður gerður valkostur fyrir þá sem eru búnir að fá nóg.

Útgerðin fær lækkun á veiðigjaldinu í bætur fyrir lægra gengi.Snjóhengjan og meðferð hennar er óbreytt. Einnig uppgjör bankanna gömlu.

Jafnframt er gerð þjóðarsátt að engar launahækkanir verða gerðar til jafnlengdar. Allir launþegar vita hvað innistæðulausar taxtahækkanir þýða. 80 % taxtahækkanir skiluðu 8 % kaupmáttaraukningu. Hugsanlega má ná fram einhverri kauplækkun til að greiða fyrir þessu.

Kvótaukning verður notuð til að greiða fyrir því að þetta takist. Til dæmis yrði síldin veidd í stað þess að farast í Kolgrafarfirði næsta ár.

Gjaldeyrishöft kunna að verða hert um stundarsakir meðan áhrifin eru að koma fram. Síðan mun verða mögulegt að slaka á þeim aftur. Krónan hefur stigið í verði gagnvart evru. Í stað þess að formæla gjaldeyrishöftunum bara  þá nýtum við þau í þágu þjóðarinnar. Álit Íslands hefur vaxið um heima alla.

Hvað er annað í boði? Hvernig lítur næsta framtíð út?

Verðtryggð lán verða lækkuð með með einhverjum hætti. Verkföll opinberra starfsmanna munu dynja yfir í haust. Aðrar stéttir munu fylgja í kjölfarið. Samið verður um taxtahækkanir sem reynast vinnuveitendum ofviða. Þrýstingur á gengi krónunnar vex og samverkun margra þátta,verðlækkanir og kvótaleysi  leiðir til gengisfellingar. Atvinnulífið leggur ekki í fjárfestingar vegna ótryggs útlitsins. Verðbólgan nær líklega tveggja stafa tölu á næsta ári.

Þetta er leið sem enginn tapar á. Mun minni fjármuni þarf að ná í til millifærslanna. Þjóðin mun fá endurnýjaða bjartsýni og trú á sjálfa sig.

Er einhver sem getur fullyrt að þessi leið sé ekki fær? 

Vísitöluleiðin finnst mér einfaldasta sem hægt er að fara í hinni erfiðu stöðu sem við búum við. Ég held að hún sé sú leið sem skilar mestum árangri fyrir land og þjóð.

 


Kjarnorka á komandi tímum

var heiti á bók sem afi minn prófessor dr.Ágúst H. Bjarnason, "alþýðufræðarinn",  þýddi á íslensku og út kom 1947.

Í Mbl. skrifar Skúli Jóhannsson merka grein um þá forpokun Íslendinga  að velta ekki kjarnorkuverum fyrir sér. Skúli segir.

" Öll orka í okkar heimi kemur frá himni og jörð.

 

Stærsta verkefni samtímans er að sinna orkuþörf mannkyns án þess að auka vandamál vegna röskunar á umhverfi, sérstaklega hvað varðar loftmengun og hnattræna hlýnun.

 

Í dag virðist ekkert lát vera á þróun orkuvinnslu í heiminum. Í hverri viku kemur ný hundraða MW kolastöð í gagnið í SA-Asíu, þar sem mestu framfarir í efnahagsþróun eiga sér stað um þessar mundir. Þetta hefur leitt til mikilla umhverfisvandamála. Á götu í Beijing í Kína sést ekki lengur til sólar, jafnvel um hábjartan dag.

 

Um það bil 900 kjarnakljúfar til framleiðslu raforku eru í notkun í heiminum í dag, þar af nokkrir í nágrannalöndum Íslands. En af hverju ekki á Íslandi?

 

Sumar orkulindir endurnýjast með náttúrulegum hætti í tímans rás. Sem dæmi má nefna orku í vatnsföllum. Stungið hefur verið upp á jarðvarma sem endurnýjanlegri auðlind, en það er enn dispúterað og sýnist sitt hverjum. Græn orka er beislun á endurnýjanlegum orkulindum til orkuöflunar. Í umræðunni er hvort telja eigi kjarnorku til grænnar orku.

 

Smáskammtaaðferðir eins og sólarsellur á þökum í Afríku eru of takmarkaðar fyrir vaxandi þjóðfélög. Innviðir þjóðfélaga krefjast miklu meira eins og margsinnis hefur lýst sér í stóreflis raforkuverum sem reist hafa verið um allan heim á undanförnum árum með góðum árangri. Samanber Kárahnjúkavirkjun.

 

Eftir Kyoto-bókunina við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar 1997 fór heimurinn á fulla ferð að beita lögmálum markaðarins til að minnka útblástur mengandi lofttegunda og var þá aðallega átt við koltvísýring eða CO². Þarna hafa Þjóðverjar verið í fararbroddi. Upp á síðkastið hefur nokkuð dregið úr áhuga á þessum vinkli í ljósi versnandi efnahags um allan heim.

 

Við mynsturáætlanir á vatnsorku á undanförnum áratugum hefur verið algjört bannorð að skoða virkjun helstu náttúruauðlinda Íslands svo sem vatnsaflsvirkjun við Gullfoss eða Dettifoss svo og jarðvarmavirkjun við Geysi í Haukadal. Það má ekki einu sinni skoða þessa kosti, bara til samanburðar. »Verður þá allt brjálað.« Sama virðist vera uppi með kjarnorku fyrir Íslendinga.

 

Segjum nú sem svo að á endanum verði allt Ísland skilgreint sem þjóðgarður af umhverfisástæðum. Ef ráða má af gögnum, virðist allt stefna í þá átt.

 

Hvað mundu Íslendingar þá gera til að sinna aukinni orkuþörf þjóðfélagsins í framtíðinni? Varla kemur til greina að kaupa evrópska orku til langframa um sæstreng yfir hið úfna Atlantshaf á yfirverði, eða hvað? Kannski ætti ekki að framlengja stóriðjusamninga þegar þeir renna út?

 

Nærtæk lausn á þessu vandamáli er kjarnorkan. Útvega nokkrar stangir erlendis frá í lokuðu hylki, sem væru svo send til baka eftir 8-10 ár til úrgangsvinnslu. Stangirnar færu aldrei úr hylkinu. Pottþétt.

 

Engin vandamál hér á landi og lágmarksmengun á umhverfi. Auðvitað gætu komið upp hamfarir, sem hafa leikið 40-50 ára gamlar stöðvar illa svo sem í Three Mile Island 1979, Chernobyl 1986 og Fukushima 2011. Varúðarráðstafanir við nýtísku kjarnorkuver eru með allt öðrum hætti. Þetta er verkefni alls mannkyns og bara sjálfsagt að við tökum fullan þátt í því.

 

Vandamál vegna ógnunar af hryðjuverkum eða þvíumlíkt ætti að vera svipað og fyrir vatnsafls- og jarðvarmastöðvar sem eru í rekstri hér á landi um þessar mundir. Ekkert hefur ennþá komið upp í þeim dúr.

 

Um daginn var sýndur í sjónvarpinu þáttur um kjarnorkuúrgang í Finnlandi. Finnum hefur öðrum fremur tekist að beisla kjarnorku til að styrkja innviði þjóðfélagsins. Atriði í þættinum voru spiluð á undirhraða og með drungalegri tónlist í þeim tilgangi að fæla hugsun áhorfandans frá nýtingu kjarnorku, sem þó er lífsnauðsynleg fyrir vaxandi þjóðfélög. Svipaða þætti mætti vel gera um hvaða orkuberandi nýtingu sem er. Málið er að meta hvert verkefni á hlutlægan hátt og halda sínu striki, hvað sem á bjátar í áróðri og þvíumlíku.

 

Við eigum að leyfa okkur það frelsi að fá að skoða mál frá öllum sjónarhornum, hvort sem um er að ræða Gullfoss, Geysi eða kjarnorku. Það er enginn að tala um að virkja raunverulega með þeim hætti. Bara kíkja í pakkann."

Hversvegna má ekki ræða þetta hérlendis? Mér er sagt að nýjustu kjarnaofnar geti jafnvel brennt úrganginum frá gömlu ofnunum. Fróðlegt væri að heyra um kostnað á svona fimmþúsund Megawatta orkuveri til dæmis fyrir austan?. Nota Atlantshafið sem kæliturn? Vantar ekki afl fyrir Austurland? Hvar er Smári ?

Afi minn sagði þá og var að vanda framsýnn: 

"En því réðst ég í að þýða þessa bók, að ég þykist sannfærður um að kjarnorkurannsóknir þessar ráði ekki einungis aldahvörfum í allri heimsskoðun manna, heldur og í lífi þeirra á þessari jörð, og virðist nú allt undir því komið, hvernig mönnum tekst að hagnýta kjarnorkuna, til góðs eða ills, á komandi tímum; því með valdi sínu á henni má segja, að mennirnir séu orðnir sinnar eigin gæfu eða ógæfu smiðir". 

Fyrr eða síðar verður  Kjarnorka á komandi tímum á Íslandi.

 


Hvernig getur

Höskuldur Ólafsson verið mikilsmetinn bankastjóri Arion banka spyr maður sig eftir að lesa grein Róberts Guðfinnssonar í Mbl. í dag.Hann segir:

" Hinn 23. apríl 2010 var tilkynnt að Höskuldur H. Ólafsson hafi verið ráðinn bankastjóri Arion banka. Það hefur ekki verið auðvelt fyrir stjórn bankans sem aðeins hafði setið í 35 daga að velja einn af 40 umsækjendum af varamannabekknum.

 

Fyrir marga okkar sem fylgjumst með íslensku viðskiptalífi hefur reynslan síðustu þrjú ár sýnt að heppnin var ekki með stjórn bankans. Skjöldur Höskuldar var ekki eins hreinn og haldið var og stjórnunarhættir ekki ásættanlegir. Fyrr í mánuðnum sektaði Samkeppniseftirlitið kredidkortafyrirtækið Valitor um 500 milljónir fyrir ítrekað brot á samkeppnislögum. Um ásetningsbrot var að ræða. Á þeim tíma sem brotin voru framin var Valitor undir stjórn Höskuldar H. Ólafssonar...."

 

Ég hef áður gert tengsli Höskuldar við glæpaverk VALITORS= VISA að umtalsefni hér á blogginu. Ekki nokkur maður hafði áhuga á því.  500 milljóna sekt er bara borguð af okkur hinum ánauðugu VISA-korthöfum með bros á vör. Fyrirtækið framdi glæpinn. Það er sekt.  Ekki þessi Höskuldur.

Hversvegna fór Maddoff í 350 ára fangelsi í Bandaríkjunum?. Var maðurinn ekki með fyrirtæki sem framdi glæpina? Hvað var verið að vesenast í kallinum? Það er ekki á þá logið Kanana að þeir eru um margt óllíkir okkur.

Hvernig getur Höskuldur H.Ólafsson ekki sjálfur tengst gerðum VALITORS=VISA?  Hvað skyldu Kanar segja um svona mál?

 


Vopnin brýnd

fyrir kjarasamningana skv. fréttum.
 
"Sólin skein á göngumenn í kröfugöngum í gær. Fjölmenni gekk fylktu liði niður Laugaveginn í göngu verkalýðsfélaganna að útifundi sem haldinn var á Ingólfstorgi. Ekki voru mikið færri í Grænu göngunni sem fylgdi í kjölfarið, en göngumenn í henni beygðu inn Pósthússtrætið og inn á Austurvöll þar sem haldinn var útifundur.

 

Sú tvískipting er kannski ástæðan fyrir því að þótt gangan virtist vera óvenju fjölmenn í ár var ekki hið sama að segja um fundinn á Ingólfstorgi. Samanlagður fjöldi fundanna tveggja bendir þó til þess að fjöldi Íslendinga sé enn reiðubúinn að mæta á útifundi kröfum sínum til stuðnings.

 

Yfirskrift dagsins, af hálfu fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna, var "Kaupmáttur, atvinna, vel

ferð". Ræðumenn á fundinum voru Ólafía Björk Rafnsdóttir, formaður VR, og Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna.

 

Snorri varaði við því að komandi kjaraviðræður gætu orðið erfiðar, en samningar verða lausir fyrir áramót.

 

"Komandi kjaraviðræður þurfa ekki að verða erfiðar en það er því miður allt útlit fyrir það á þessari stundu að þær gætu orðið það og þegar hafa heyrst af því fréttir að einstaka stéttir búi sig jafnvel undir verkfallsátök."

 

Græna gangan var haldin í fyrsta skipti, en með henni átti að hvetja nýkjörið Alþingi til góðra verka í umhverfismálum og minna um leið á að þingið hefði ekki umboð til að framfylgja virkjanastefnu á kostnað náttúrunnar."

Einhver hjáróma rödd heyrðist tala um þjóðarsátt. Auðvitað er  gersamlega fáránlegt að ætlast til annars en að opinberir starfsmenn fyrst af öllum með sína verðtryggðu lífeyrissjóði, fá nauðsynlegar kjaraleiðréttingar áður en það fæst rætt.

Það er víst búði að hækka taxtana um 80 % frá 2009 og kaupmáttur hækkað um heil 8 %. Fram þjáðir verkamenn og fáninn rauði...

Það þarf að brýna vopn svo bíti. 

 


Það er er aldeilis stand á Goddastöðum

og gróðurhusaáhrifin allt að drepa á Íslandi samkvæmt Fréttablaðinu:

"Fulltrúar Bændasamtakanna (BÍ) funduðu með embættismönnum í atvinnuvegaráðuneytinu á mánudag til að ræða horfur á Norður- og Austurlandi vegna yfirvofandi hættu á kali í túnum og heyskorti. Gerð verður allsherjar könnun á stöðu bænda eftir veturinn. Bóndi í Fljótum segir veturinn standast samanburð við það versta sem menn þekki til.

 

Sindri Sigurgeirsson, formaður BÍ, segir að viðvarandi kuldatíð hafi orðið til þess að menn settust niður. "Það er hins vegar ekki okkar trú að um yfirvofandi neyðarástand sé að ræða. En við viljum vera tilbúin. Niðurstaðan er að hafa samband við búnaðarsamböndin landið um kring því við viljum vita í hvaða sveitum mesti snjórinn er, hvar mesta kalhættan er og hvernig heyforða bænda er háttað. Einnig viljum við vita hvort til eru fræ ef mikið þarf að rækta upp. Ef vorar illa, sem ekki virðist útilokað, viljum við einfaldlega vita þetta í tíma."

 

Þeir sem funduðu voru Bændasamtökin, atvinnuvegaráðuneytið, Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins og Bjargráðasjóður, sem bætir bændum fjárhagslegan skaða vegna kals eins og segir í verklagsreglum sjóðsins.

 

Jóhannes H. Ríkharðsson, bóndi á Brúnastöðum í Fljótum, segir stöðuna langt frá því góða. Allt sé á kafi í snjó og sem í janúar yfir að líta. "Þetta er eins og maður fær veturinn verstan, ég verð að viðurkenna það. Skaflarnir hérna heima við hús eru um sex metrar á dýpt og kominn maí."

 

Jóhannes er með 800 fjár en búnaðarhættir nútímans gera ekki ráð fyrir öðru en að beita vélum allan veturinn. Það er hins vegar ekki hlaupið að slíku þegar allt er á kafi vikur og mánuði á enda, segir Jóhannes. "Ég er orðinn tæpur á fóðri enda uppskerubrestur í fyrrasumar vegna þurrka. Maður hefði kannski sloppið ef fé hefði ekki verið komið í hús í byrjun nóvember á fulla gjöf."

 

Það er huggun harmi gegn, segir Jóhannes, að hann óttast ekki kal í túnum hjá sér. Það segir hann hins vegar ekki eiga við um alla bændur í sveitinni.

 

Sauðburður er hafinn á Brúnastöðum og vandamál með hýsingu er yfirvofandi þar sem og á mörg um bæjum, enda erfitt að hleypa fé úr húsi vegna snjóþyngsla."

Ég sé ekki annað en helstu sérfræðingar Íslendinga í loftslagsmálum, þeir Höski og Svatli og svo náttúrlega Al Gore verði að fara að senda okkur línur til að fylgja í losun koltvísirings og að selja okkar kvóta til þeirra sem geta notaða hann, því hann virkar greinilega ekkert hjá okkur.

 Svo verður að fá hann Gústa frænda, www.agbjarn.blog.is, til að hætta að útbreiða ranghugmyndir um að það sé engin hnattræn hlýnun að eiga sér stað. Auðvitað eru gróðurhúsaáhrifin að þjaka Íslendinga hér eftir sem hingað til og nauðsynlegt að gera ráðstafanir og Kyotobókanir í fullu samráði líka við Árna Finnsson.

Auðvitað hlýtur  að vera að hlýna þó það sé kalt fyrir norðan og eitthvert stand sé á Goddastöðum. 

 

 


« Fyrri síða

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 3419714

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband