var heiti á bók sem afi minn prófessor dr.Ágúst H. Bjarnason, "alþýðufræðarinn", þýddi á íslensku og út kom 1947.
Í Mbl. skrifar Skúli Jóhannsson merka grein um þá forpokun Íslendinga að velta ekki kjarnorkuverum fyrir sér. Skúli segir.
" Öll orka í okkar heimi kemur frá himni og jörð.
Stærsta verkefni samtímans er að sinna orkuþörf mannkyns án þess að auka vandamál vegna röskunar á umhverfi, sérstaklega hvað varðar loftmengun og hnattræna hlýnun.
Í dag virðist ekkert lát vera á þróun orkuvinnslu í heiminum. Í hverri viku kemur ný hundraða MW kolastöð í gagnið í SA-Asíu, þar sem mestu framfarir í efnahagsþróun eiga sér stað um þessar mundir. Þetta hefur leitt til mikilla umhverfisvandamála. Á götu í Beijing í Kína sést ekki lengur til sólar, jafnvel um hábjartan dag.
Um það bil 900 kjarnakljúfar til framleiðslu raforku eru í notkun í heiminum í dag, þar af nokkrir í nágrannalöndum Íslands. En af hverju ekki á Íslandi?
Sumar orkulindir endurnýjast með náttúrulegum hætti í tímans rás. Sem dæmi má nefna orku í vatnsföllum. Stungið hefur verið upp á jarðvarma sem endurnýjanlegri auðlind, en það er enn dispúterað og sýnist sitt hverjum. Græn orka er beislun á endurnýjanlegum orkulindum til orkuöflunar. Í umræðunni er hvort telja eigi kjarnorku til grænnar orku.
Smáskammtaaðferðir eins og sólarsellur á þökum í Afríku eru of takmarkaðar fyrir vaxandi þjóðfélög. Innviðir þjóðfélaga krefjast miklu meira eins og margsinnis hefur lýst sér í stóreflis raforkuverum sem reist hafa verið um allan heim á undanförnum árum með góðum árangri. Samanber Kárahnjúkavirkjun.
Eftir Kyoto-bókunina við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar 1997 fór heimurinn á fulla ferð að beita lögmálum markaðarins til að minnka útblástur mengandi lofttegunda og var þá aðallega átt við koltvísýring eða CO². Þarna hafa Þjóðverjar verið í fararbroddi. Upp á síðkastið hefur nokkuð dregið úr áhuga á þessum vinkli í ljósi versnandi efnahags um allan heim.
Við mynsturáætlanir á vatnsorku á undanförnum áratugum hefur verið algjört bannorð að skoða virkjun helstu náttúruauðlinda Íslands svo sem vatnsaflsvirkjun við Gullfoss eða Dettifoss svo og jarðvarmavirkjun við Geysi í Haukadal. Það má ekki einu sinni skoða þessa kosti, bara til samanburðar. »Verður þá allt brjálað.« Sama virðist vera uppi með kjarnorku fyrir Íslendinga.
Segjum nú sem svo að á endanum verði allt Ísland skilgreint sem þjóðgarður af umhverfisástæðum. Ef ráða má af gögnum, virðist allt stefna í þá átt.
Hvað mundu Íslendingar þá gera til að sinna aukinni orkuþörf þjóðfélagsins í framtíðinni? Varla kemur til greina að kaupa evrópska orku til langframa um sæstreng yfir hið úfna Atlantshaf á yfirverði, eða hvað? Kannski ætti ekki að framlengja stóriðjusamninga þegar þeir renna út?
Nærtæk lausn á þessu vandamáli er kjarnorkan. Útvega nokkrar stangir erlendis frá í lokuðu hylki, sem væru svo send til baka eftir 8-10 ár til úrgangsvinnslu. Stangirnar færu aldrei úr hylkinu. Pottþétt.
Engin vandamál hér á landi og lágmarksmengun á umhverfi. Auðvitað gætu komið upp hamfarir, sem hafa leikið 40-50 ára gamlar stöðvar illa svo sem í Three Mile Island 1979, Chernobyl 1986 og Fukushima 2011. Varúðarráðstafanir við nýtísku kjarnorkuver eru með allt öðrum hætti. Þetta er verkefni alls mannkyns og bara sjálfsagt að við tökum fullan þátt í því.
Vandamál vegna ógnunar af hryðjuverkum eða þvíumlíkt ætti að vera svipað og fyrir vatnsafls- og jarðvarmastöðvar sem eru í rekstri hér á landi um þessar mundir. Ekkert hefur ennþá komið upp í þeim dúr.
Um daginn var sýndur í sjónvarpinu þáttur um kjarnorkuúrgang í Finnlandi. Finnum hefur öðrum fremur tekist að beisla kjarnorku til að styrkja innviði þjóðfélagsins. Atriði í þættinum voru spiluð á undirhraða og með drungalegri tónlist í þeim tilgangi að fæla hugsun áhorfandans frá nýtingu kjarnorku, sem þó er lífsnauðsynleg fyrir vaxandi þjóðfélög. Svipaða þætti mætti vel gera um hvaða orkuberandi nýtingu sem er. Málið er að meta hvert verkefni á hlutlægan hátt og halda sínu striki, hvað sem á bjátar í áróðri og þvíumlíku.
Við eigum að leyfa okkur það frelsi að fá að skoða mál frá öllum sjónarhornum, hvort sem um er að ræða Gullfoss, Geysi eða kjarnorku. Það er enginn að tala um að virkja raunverulega með þeim hætti. Bara kíkja í pakkann."
Hversvegna má ekki ræða þetta hérlendis? Mér er sagt að nýjustu kjarnaofnar geti jafnvel brennt úrganginum frá gömlu ofnunum. Fróðlegt væri að heyra um kostnað á svona fimmþúsund Megawatta orkuveri til dæmis fyrir austan?. Nota Atlantshafið sem kæliturn? Vantar ekki afl fyrir Austurland? Hvar er Smári ?
Afi minn sagði þá og var að vanda framsýnn:
"En því réðst ég í að þýða þessa bók, að ég þykist sannfærður um að kjarnorkurannsóknir þessar ráði ekki einungis aldahvörfum í allri heimsskoðun manna, heldur og í lífi þeirra á þessari jörð, og virðist nú allt undir því komið, hvernig mönnum tekst að hagnýta kjarnorkuna, til góðs eða ills, á komandi tímum; því með valdi sínu á henni má segja, að mennirnir séu orðnir sinnar eigin gæfu eða ógæfu smiðir".
Fyrr eða síðar verður Kjarnorka á komandi tímum á Íslandi.