er þess eðlis að gott er að fleiri en áskrifendur Morgunblaðsins berji það augum. Þar er farið að fjalla um heitt mál samtímans sem hefur veerið einskonar einkamál spekinga af vinstrikanti stjórnmálanna. Hér kemur bréfið og rétt að hafa getraun um það hver skrifar þetta.(Bloggari feitletrar að vild):
"Borgarstjórnarkosningarnar í vor þóttu dauflegar og áhugi íbúa höfuðborgarinnar fyrir þeim dræmur með eindæmum. Það er því ekki að undra þótt þær séu ekki heldur eftirminnilegar. Það er þá helst að á endapunkti fjögurra ára stjórnar Besta flokksins og Samfylkingarinnar var látið eins og höfuðborgin væri orðin holdgervingur rasískrar umræðu í veröldinni.
Og ekki var hún stór, þúfan sem var sögð velta því hlassi. Þeir sem helst þykjast eiga að ráða því hvað megi ræða um í íslensku þjóðfélagi náðu ekki upp í nef sér út af umræðunabba sem þeir sjálfir gerðu að Stóru bólu tvær síðustu vikurnar fyrir kosningar.
Fréttastofa Ríkisútvarpsins, sem jafnan á samleið með hinum uppbelgdu álitsgjöfum, undirstrikaði, sem var óþarft, að hún er enn fjarri því að valda verkefni sínu og sýna lágmarks stillingu. Hún fór fram úr sér við að fá fordæmingu á rasískri umræðu sem hún taldi að hefði heltekið borgarmálaumræðu, sem var þó engin fyrir.
Og auðvitað fór svo að einhverjir létu þennan erindrekstur »fréttastofu« teyma sig í illa grundaðar fordæmingar.
Framsóknarflokkurinn í Reykjavík hafði lent í miklum ógöngum með framboðsmál sín og mældist varla með nokkurt fylgi. Það var von að hann reyndi að fá smá athygli á lokametrunum. Hann veðjaði á að flugvallarmálið, sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði bæði svikið og vanrækt, gæti hjálpað sér.
En það gekk ekki upp, þar sem Framsóknarflokkurinn í ríkisstjórn hafði tekið þátt í að svíkja þetta eina af fáum vafningslausum loforðum í stjórnarsáttmála með undirskriftum undir plögg með Degi B. Eggertssyni og samgönguráðherra. Hafði sérstökum trúnaðarmanni Jóhönnustjórnarinnar verið fengið flugvallarmálið í hendur af hálfu ríkisstjórnar sem treystir helst ekki fólki úr eigin röðum.
Þá reyndi Framsókn að taka upp meinta andstöðu við lóðaúthlutun undir mosku í Reykjavík, þótt lítið hefði verið um það rætt áður. Það er svo sem ekki í fyrsta sinn sem lóðir undir tilbeiðsluhús trúfélaga eru gerð að þrætueplum í borginni. »Um Hallgrímskirkjubyggingu er býsna lítill friður, biskup segir upp með hana, Pétur segir niður...« Í þessa áttina söng Ómar Ragnarsson fyrir mörgum áratugum.
Vanstilltir vinstrimenn með »ríka réttlætiskennd«, eins og þeir lýsa stundum sjálfum sér, höfðu ekki annað að gera þá stundina er moskumálið var viðrað en að ganga af göflunum svo þeir gerðu það. Þeir bjuggu til rasíska umræðu af ógeðfelldu tagi, þar sem engin var fyrir. Ríkisútvarpið, sem sýnir jafnan á spilin sín, asnaðist af afli með í þennan ys og þys út af engu. Tryggðu þessu viðbrögð Framsóknarflokknum tvo borgarfulltrúa í borgarstjórn. Rykdustun af moskumálinu hefði aldrei dugað til slíks árangurs án hjálpar hinna sannfærðu hrópenda rétttrúnaðarkirkjunnar.
Það getur enginn gert mál úr því þótt sveitarfélag úthluti lóð til viðurkennds trúfélags, sem getur sýnt fram á að hafa þörf fyrir að byggja sérstakt hús fyrir sig. En til að bregðast við slíkum óskum þarf sveitarfélagið að hafa lóð á skipulögðu svæði, þar sem gert er ráð fyrir slíku húsi, eða þar sem breyta má deiliskipulagi (eða annarri skipulagslegri forskrift) til að bregðast megi jákvætt við slíkri beiðni. Borgarbúar, og þá sérstaklega væntanlegir nágrannar, eiga að hafa góðan tíma til að bregðast við áformum borgaryfirvalda. Þeir mega fjalla um staðsetningu, útlit, aðkomu, stærð og gerð, bifreiðastæði og aðra praktíska hluti. Þeir mega líka láta óljósari atriði eins og smekk ráða afstöðu sinni (eins og var sennilega inntak deilna um Hallgrímskirkju).
Þeir geta sannarlega haft skoðun á því hvort úthluta skuli lóð til viðkomandi án endurgjalds. Þeir geta einnig látið hljóð og truflandi hávaða frá væntanlegri starfsemi í eða nærri íbúðahverfum ráða andstöðu sinni eða annarri afstöðu. (Menn hafa mótmælt klukknaslætti í turni Hallgrímskirkju þótt þar sé aðeins hringt á hefðbundnum vökutíma.) Íbúar í Norðurmýri mótmæltu á sínum tíma kröftuglega sirkusstarfsemi sem stóð í fáeinar vikur á sumri á Klambratúni austanverðu. Engum útbelgdum oflátungi datt þá í hug rasismi af því tilefni (þótt sígaunar væru sagðir í sirkusnum) og enn síður vegna Hallgrímskirkju, enda vissu slíkir menn þá varla hvað orðið rasismi þýðir. Komi í ljós að einhverjir mótmæli lóðarúthlutun vegna andstöðu þeirra við trúarskoðanir þess hóps sem í hlut á mættu borgaryfirvöld ekki að lögum láta mótmæli þeirrar gerðar hafa áhrif á ákvarðanir sínar nema sýnt væri fram á að um ólögmæta starfsemi væri að ræða. Slík mótmæli myndu því engu breyta.
Þetta litla mál sem blásið var svona upp er auðvitað þegar úr sögunni. En fjaðrafokið í kringum það leiðir hugann að öðru.
Á örfáum árum hefur orðið stórkostleg breyting á Vesturlöndum vegna þess hve stórir hópar innflytjenda hafa komið þangað. Sú heimska að reyna að banna umræður um eina mosku veldur engum varanlegum skaða. En það gæti verið umhugsunarefni að fyrrnefnd breyting á vestrænum þjóðfélögum hefur orðið án þess að nokkur umræða færi fram áður en sú þróun hófst eða á meðan á henni stóð.
Óttinn við ásakanir um kynþáttafordóma, næsta bæ við nasisma, tryggði hið algjöra umræðuleysi. Fyrrum tiltölulega einsleit þjóðfélög, svo sem norrænu þjóðirnar, eru orðin allt önnur en þau voru. Yfirvöld viðkomandi landa ýttu undir að þannig færi án nokkurs viðtals við sitt fólk. Þjóðir sem vegna einsleitni höfðu búið við sömu eða svipaðar hefðir og siðvenjur öldum saman stóðu skyndilega og óspurðar frammi fyrir allt öðrum aðstæðum.
Nú fer því fjarri að hafið sé yfir vafa að þjóðum sé endilega hollast að vera einsleitar og þétttengdar um venju, siði, trúarafstöðu, mataræði eða hvað annað sem menn vilja tína til. Fjölmargt bendir beinlínis til annarrar niðurstöðu. Nýtt blóð, aðrir og ekki síðri eðliskostir, heilbrigð blöndun og fjölbreyttari viðhorf geta sannarlega verið eftirsóknarverðir og bætandi kostir. Þær þjóðir eru til og ekki fáar sem líta á sig í senn sem eina þjóð og sem innflytjendaþjóðir. Þangað hefur fólk flutt í leit að nýjum tækifærum og betri lífsskilyrðum og verið boðið velkomið.
Stundum hefur komufólkið verið aðþrengt vegna lélegra landkosta í sínu gamla heimalandi en einnig margir af stjórnmálalegum eða trúarlegum ástæðum. Bandaríkin, Kanada og Ástralía eru nærtæk dæmi. Þessi lönd áttu það að vísu sameiginlegt að landflæmi voru þar mikil og stjórnvöldum var kappsmál að fjölga þar fólki svo að nýta mætti landkosti (og því miður um leið ganga á rétt »frumstæðs fólks« sem fyrir var, sem er önnur saga) og tryggja öryggi og varnir.
Þessi lönd byggðu beinlínis á innflytjendastefnu og fylgdu henni fast eftir. Þau sóttust eftir innflytjendum. Þau sendu jafnvel »agenta« til annarra álfa til að hvetja fólk til að koma og kölluðu sumir gylliboð. Úr innflytjendaáhuganum hefur þó dregið í flestum þessara landa nú, eins og umræðan í Bandaríkjunum sýnir, enda aðstæðurnar orðnar aðrar.
Staðan t.d. á Norðurlöndum var allt önnur. Þar skall á óvænt alda innflytjenda sem ekki hafði verið kallað sérstaklega eftir. Flest bendir til að í byrjun hafi menn verið jákvæðir gagnvart þessari þróun. Sumir halda því fram að meðan hlutfall innflytjenda og sýnileiki þeirra sé innan tiltekinna marka sé þeim vel tekið en spurningar vakni síðar. Ísland hafði fyrstu þúsund ár sögu sinnar sýnt að þar náðist vart að brauðfæða fleiri en 70 þúsund manneskjur. Þess vegna flutti stór hópur fólks til Kanada á síðasta fjórðungi 19. aldar, þegar harðindi voru. Þetta hefur breyst og síðustu árin hefur tekist að byggja upp velferðarkerfi á undra stuttum tíma sem er í fremstu röð í heiminum og þess vegna eftirsótt.
Í Svíþjóð, Noregi og Danmörku hafa mjög stórir hópar innflytjenda með framandi siði sest að á örfáum áratugum. Óöldin á Balkanskaganum þrýsti á skjóta opnun fyrir hrjáða þaðan og síðan önnur atvik og loks almenn vanþróun víða um heim. Skyndilega er þannig komið að þjóðfélögin hafa tekið miklum breytingum.
Allt hefur þetta gerst án þess að opin og öfgalaus umræða hafi farið fram um þá framvindu og þýðingu hennar. Sömu sögu er að segja á meginlandi Evrópu. Menn muldra um það sín á milli hvor hópurinn eigi að laga sig fremur að háttum hinna, sá sem kemur eða hinn sem fyrir er. Aðrir muldra á móti að farsælast sé að fjölmenningarþjóðfélagið fái að njóta sín. Það má vel vera rétt. Ekki er þó öllum ljóst hvað í slíku felst né hvaða kröfur sú stjórnskipulega forskrift gerir til þeirra sem fyrir eru.
Umræðuskorturinn (þöggunin) getur gengið um nokkra hríð. En hætt er við að upp úr sjóði síðar og að stjórn umræðunnar færist þá til þeirra sem vanstilltastir eru á öllum köntum hennar. Og verst verður það ef hún brýst út í ofsa, þegar menn taka að gera sér grein fyrir því að það sé í raun orðið of seint að bregðast við. Þá þykjast margir illa sviknir. Og þá eiga lýðskrumararnir leikinn.
Ekki þarf að efast um að rétttrúnaðarmennirnir sem misstu sig út af litla moskumálinu eru vel meinandi. Enn minni vafi er á að þeir eru einlæglega sannfærðir um að þeir búi yfir ríkari réttlætiskennd en »hinir«. Þess vegna bannfæra þeir umræðu sem telst ekki vera innan þeirra marka sem þeir sjálfir ákveða. Óþarfi er að nefna til sögunnar hugtakið sem forðum var notað yfir slíka menn.
Einatt gefa menn sér alls konar firru sem enginn fótur er fyrir. Þeir sem orði að farsælla hefði verið að meta í tíma hversu mikinn fjölda nýrra innflytjenda þjóð réði við í senn, svo vel færi, hljóti að vera á móti útlendingum, jafnvel útlendingahatarar. Þeir sömu séu jafnvel á móti ættleiðingum barna frá útlöndum, sem iðulega hafa verið óþarfar hömlur á. Þeir hrópa ókvæðisorð vilji einhver að sæmilega ljóst sé hvort flóttamenn sem hingað sækja séu raunverulega flóttamenn. Ef ekki má ræða það er auðvitað best að fella þá skilgreiningu niður og hafa alla innflytjendur undir sama hatti. Hættan er sú að þegar bann æðstu klerka rétttrúnaðarkirkjunnar gegn opinberri umræðu loksins springur geri umræðan, sem áður var svo þörf, meira ógagn en gagn og öfgarnar yfirtaki hana.
Ragnhildur Kolka segir í eftirtektarverðri grein í síðasta hefti Þjóðmála:
»Nú er svo komið að innflytjendavandamál eru að vaxa flestum vestrænum þjóðum yfir höfuð.«
Þetta vita flestir sem fylgjast með. En það er samt merkilegt að þetta sé sagt upphátt og það í íslensku tímariti. Eru allir rétttrúnaðmenn í sumarleyfi? Af hverju hrópar enginn þeirra »ómerkilega rasistakerling,«, sem þeim þykir boðleg röksemd, nema þegar þeir eru staðnir að verki."
Þetta Reykjavíkurbréf sýnir að umræðan um innflytjendamál er að færast af gapuxastiginu yfir á vitræn plön. Það fer að koma að því að þau megi ræða án þess að sjálfskipuðu vinstri álitsgjafarnir sem hafa stjórnað allri umræðu til þessa, fái að öskra alla aðra niður.
Innflytjendamálin eru að vaxa íslenskum yfirvöldum yfir höfuð eins og Reykjavíkurbréfið hefur eftir frú Ragnhildi Kolka.