Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2015

Stúdentsprófsstyttingin

hefur lengi lagst illa í mig.

Ég hef ekki viljað skilja það, hvernig núna er hægt að fullyrða að við sem urðum stúdentar 1957, höfum bara verið að slúgsa? Samsvarandi að ekkert verið að læra í 5. bekk. Og hægt hefði verið að læra meira í hinum bekkjunum.

Hvað hefði maður sagt þegar maður var búinn að klára 1957 skítsæmilega, að maður væri orðinn of gamall og maður hefði átt að vera búinn að læra þetta fyrir ári síðan? Hefði maður skilið þann sem hefði sagt þetta? Eða þá að skólinn væri of dýr miðað við að kenna svona lítið eins og við kynnum?

Dr. Reynir Eyjólfsson veltir þessu fyrir sér í Morgunblaðinu  í dag: 

....". Það er mín reynsla, að öflug undirstöðumenntun skiptir öllu máli til þess að hægt sé að ná umtalsverðum árangri í nýsköpun á stuttum tíma.

Því miður hafa kröfur til stúdentsprófs hér á landi hríðfallið frá því er ég var í skóla. Nýútskrifaðir lyfjafræðingar frá Háskóla Íslands kunna yfirleitt bara hrafl í ensku, eru varla talandi á dönsku, lítt læsir á þýzku og kunna ekkert í frönsku né latínu..........

Mér er tjáð, að þessi stórkostlega gengisfelling á stúdentsprófinu hafi verið gerð að fyrirmynd frá BNA, og þá er það gjarnan látið fylgja með, að BNA-menn séu fremstir á öllum sviðum. Þess er auð- vitað látið ógetið, að meginintellektían í há- skólum BNA kemur frá stúdentum frá erlendum menntaskólum, ekki sízt í Asíu, þar sem gerðar eru himinhærri kröfur en krossaprófa frá skólum í BNA.

Ég mun ekki fjölyrða um þetta frekar hér, en bendi á metsölubók N.N. Taleb: The Black Swan, Random House, 2010, máli mínu til frekari stuðnings. Með hliðsjón af þessu lízt mér afleitlega á áform um að stytta nám til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú, sem er yfirlýst markmið núverandi menntaráðsmanns.

Meginröksemdirnar eru að hans mati tvær: Annars vegar „of hár aldur“ íslenzkra stúdenta (20 ár; ég varð stúdent 22 ára!) og svo „sparnaður“ upp á 3-4 milljarða kr. á ári.

Starfsgeta byggð á öflugri menntun verður ekki metin til fjár; sem viðmið má benda á, að velta Actavis er nú um 3.000 milljarðar króna á ári, eða um þúsund sinnum meiri en meintur „sparnaður“ ráðsmannsins.

Stytting náms til stúdentsprófs getur að- eins þýtt eitt: þ.e. enn frekari gengisfellingu á menntun stúdenta. Ég er ekki einn um það að hafa þungar áhyggjur af þessu máli.

Rektor MR, elzta og bezta menntaskóla landsins, hefur ítrekað reynt að fá undanþáguheimild frá menntaráðsmanni til fjögurra ára námsbrautar til stúdentsprófs en ráðsmaður hefur ekki látið svo lítið að svara þessum umleitunum. Hvort hér er um að ræða valdhroka eða fávísi veit ég ekki. Hitt er næsta víst, að ef svo fer fram sem horfir mun ráðsmaður ekki kemba hærurnar á stóli sínum eftir næstu alþingiskosningar."

Mér þykir vænt um þegar svo lærður maður sem dr. Reynir tekur undir þær hugleiðingar sem ég hef verið að rækta með mér. Mér finnast öll rök hníga að því að styttingin sé einungis gerð með lítilmótleg aurasjónarmið í huga. Á sama tíma var skrúfað fyrir Hraðbraut sem tók að sér að kenna pensúmið á skemmri tíma, án afsláttar. Það voru menn með mér sem gátu farið hraðar en ég vegna þroska eða greindar. Og víst er að ég var árinu of ungur ef nokkuð var þegar ég varð stúdent 19 ára gamall tralli. Mér fór að ganga allt námið betur þegar ég eltist.

Ég er algerlega sammála dr. Reyni um stúdentsprófið og finnast þessar tillögur móðgun við mína góðu kennara og rektora í MR. Mér finnst leiðinlegt að horfa upp á Illuga Gunnarsson skaða sig pólitískt og flokkinn minn líka á þessum tillöguflutningi um stúdentsprófsstyttinguna.


Biðskýlin flottust í Kópavogi

sem þjóta upp á Vatnsendavegi. Smekklega hlaðnir stoðveggir úr sprengjugrjóti myndaumgjörð um  skál sem er hellulögð í botninn. Innan í skálinni miðsvæðis er svo biðskýlið sjálft úr glerinu eftir dönsku hönnuninni. Sérlega smekklegt og gaman að horfa á svona vel gerða hluti.

Það var á gullöld uppbyggingarinnar í Kópavogi sem dr.Gunnar I.Birgisson oddviti Sjálfstæðisflokksins sem þá var í stjórn með Sigurði Geirdal frá Framsókn fór að láta nota sprengjugrjót úr grunnum til að hlaða veggi og kanta. Nú er allt Gunnars-grjótið nýtt í hleðslur sem áður var bara jarðað í fyllingum undir gróðurmold eins og sjá má á Geirsnefinu í Reykjavík.

Strætóskýlin í Reykjavík norpa á götunum án svona umbúnaðar. Það eiga þau þó sameiginlegt með skýlunum í Kópavogi að maður sér varla mann í kring um þau. Einkabíllinn er samgöngutæki nútímans en hvorki hjólhestar eða tveir jafnfljótir.

Þessvegna þarf bensínokrinu og vörugjöldunum á bílana að linna ef stjórnmálamenn vildu raunverulega gera meira fyrir þá verst settu í samfélaginu. Því einmitt það fólk getur ekki eytt tíma sínum í biðskýlum strætóanna heldur er í sífelldu kapphlaupi við tímann um lífsbjargirnar sínar. 


Samfylkingin gegn þjóðinni

í boðuðu allsherjarverkfalli um næstu mánaðarmót.

Ef maður talar við fólk þá er það yfirleitt á einu máli um að það kæri sig ekki um þessi verkföll. Maður hittir engan sem þráir verkföll. Fólkið setur traust sitt á að samið verði áður en til vandræða kemur.

Það eru því Samfylkingarkommarnir  í forystu verkalýðshreyfingarinnar sem stefna öllu í þessi verkföll. Fjöldi þessa liðs  er teljandi á fingrum sér. Gylfi Arnbjörnson,Páll Halldórsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Ólafía Rafnsdóttir, Aðalsteinn á Húsavík, Vilhjálmur á Akranesi, Björn Snæbjörnsson og einhverjir aðrir í Flóanum. Engu tauti er enn hægt að koma við þetta lið. Það þarf meira að koma til.

Þetta fólk dregur nú óvígan her 70 þúsund manna að höfði samfélagsins til að setja á þrýsting eftir því sem  þeirra leigðu almannatenglar ráðleggja. Við hin, þetta fólk sem þeir miða á, aldraðir, öryrkjar, börn og ferðaiðnaður, þessi 250 þúsund sem eru afgangs af þjóðinni þegar 70 þúsundin eru frá, eigum að þola þær píslir sem þessu fólki þóknast að leggja á okkur. Þeir sem veikir eru mega drepast Drottni sínum meðan þessi Elíta sólar sig í dýrð verkfallsins. Þeir ætla að úthluta náðarbrauðum sjálfir eftir sínu höfði. Mildilegast fær þessi hjartalyfið sitt svo hann drepist ekki osfrv. 

Af hverju sjá vinnuveitendur sér ekki hag í því að hafa eitthvað með tímasetninguna fyrir orrustuna að gera? Af hverju vilja þeir ekki ráða neinu um orrustuvöllinn? Af hverju velta þeir ekki fyrir sér að núna er mun betri tími til átaka heldur en í júní?  Af hverju er ekki tekin ákvörðun um allsherjar verksviptingu þar til samist hefur? 

Og hér verður ekki um neitt vitrænt samið án lagasetningar. Það er morgunljóst að kröfusúpa kommanna er þess eðlis að hún setur þjóðfélagið á hliðina umsvifalaust. Enda er það líklega hinn stóri tilgangur þeirra að ríkisstjórnin gefist upp.

Framangreint lið er svo kolruglað í einbeittri skemmdarverkafýsn sinni, að það ætlar sér að vera lengi enn í sviðsljósinu ef það heldur að með því geti það náð pólitískum markmiðum sínum um að fella ríkisstjórnina og pína almenning þangað til að leigubyssunum, eða almannatenglunum, finnst nóg komið til að setja upp samningabrosið.

Sé það stefnumiðið er allt annað tal þeirra hjóm eitt sem liggur liggur þeim í léttu rúmi. 

Loksins þegar allt virtist vera að snúast til betri vegar í íslensku þjóðfélagi, verðbólgan horfin, vextirnir lækkaðir,lánaleiðréttingar gefnar, atvinnuleysið horfið, kaupmáttur vaxandi, kemur þessi verkfallahersing eins og Kölski úr dýinu við særingar Leirulækjar-Fúsa í þá daga. Allir skíthræddir og skjálfandi við hótanir þessa liðs.

Í mínum huga er það Samfylkingin sem er að fara með hernað gegn þjóðinni. í fyrra skiptið var það Iceasave, I, ll og lll. Nú eru það leifarnar af heilbrigði krónunnar okkar og andstöðunni við ESB sem skal í þjóðina í boði þessa Jafnaðarmannaflokks Íslands við ýlið í púkablístrum Vinstri Grænna.  

 

 


Veiðigjöld eða skattlagning

á sjávarútveg er heilög rolla hjá stórum hluta þjóðarinnar.

Afkoma sjávarútvegs, veiða og vinnslu má skoða á vef hagstofunnar. Útkoman er þessi:

13 Sjávarútvegur          alls             2013 

1. Tekjur alls á skilaverði                           271.400,0

1.1 Útflutningstekjur/Skilaverðmæti útflutnings       269.440,0

1.2. Seldur afli - Selt hráefni-

1.3. Aðrar tekjur                                       1.959,0

2. Aðföng alls                                        112.413,0

2.1. Hráefni                                            6.003,0

2.2 Rafmagn                                             4.460,0

2.3 Olíur                                              17.154,0

2.4 Tryggingar                                          1.931,0

2.5 Umbúðir                                            10.979,0

2.6 Flutningskostnaður                                  7.890,0

2.7 Viðhald                                            15.343,0

2.8 Veiðarfæri                                          3.936,0

3. Vinnsluvirði                                       158.987,0

4. Laun og tengd gjöld                                 86.412,0

5.Skattar á framleiðslu                                   557,0

6.Verg hlutdeild fjármagns (EBITDA)                    72.018,0

EBITDA sem hlutfall af tekjum,    %     27,0

7.Afskriftir                                           12.826,0

8.Rekstrarafgangur                                     59.192,0

9.Vextir og gengismunur                    -            1.572,0

10.Hreinn hagnaður (EBT)                               60.764,0

Hreinn hagnaður sem hlutfall af tekjum, % 22,4

12. Hagnaður (13.=6.-11.)                              48.950,4

Hagnaður sem hlutfall af tekjum,     % 18,0

 

Sjálfsagt er nóg af vinstraliðinu sem segir að þetta sé allt saman svik og lygi og öllu hinu besta  undanstolið.

Svo eru aðrir sem segja að það sé reginmunur á því að láta borga veiðigjöld óháð afkomu.  Tekjuskattur mæli bara hagnað en veiðigjald er aðstöðugjald sem leggst á útgjaldaliði og tap jafnt sem gróða.  

Steingrímur lagði auðvitað á aðstöðugjald til viðbótar venjulegum tekjuskatti sem hann svo stórhækkaði líka.Hann sýndi fyllstu trúmennsku við eigin sannfæringu um illa náttúru auðvaldsins.

Vinstriflokkarnir sem mynduðu síðustu stjórn eru í eðli sínu skattaillþýði sem trúa hinni sígildu kratísku efnahagsformúlu að ríkið skuli eitt skattleggja og eyða en ekki láta aðra gera það.

Mörgum fannst stjórnin ganga allt of langt í sérstakri skattheimtu á sjávarútveginn. Þó að kommarnir bentu á gjafakvótann góða, sem alltaf klýfur þjóðina, þá voru fleiri hinir snotrari menn á því að verið væri að stúta gullgæsinni fremur en að plokka hana. Fyrsta verk nýju stjórnarinnar var lika að lækka þessar álögur aftur.Áhrif þess ættu að sjást í afkomutölum 2014. En Steingrímur hefur verið með böggum hildar yfir þessu tekjutapi ríkissjóðs sem honum finnst sú ráðstöfun vera. 

Það var sjávarútvegurinn sem dró okkur þurrabúðarfólkið upp úr feninu 2008 ásamt með gengisfalli eigin myntar sem heitir íslensk króna. Þjóðin var með 30 % hagstæðan viðskiptajöfnuð við útlönd í hruninu og við Íslendingar öðluðumst strax traust annarra en okkar sjálfra þar sem við enn stöndum sem niðurlútir kotkarlar og biðjum ESB auðmjúkir um náðarbrauð í stað þess að steyta hnefann framan í vogunarsjóði sem aðra rukkara skuggabaldra.

Ekki efa ég að vilji allra vinstri flokkanna, nema kannski Pírata, sem enginn veit neitt hvað vilja nema ókeypis niðurhal, stendur til þess að stórhækka álögur á atvinnurekstur, sjávarútveg sem annan. Auðlindarenta er hugtak sem þeir nota gjarnan. En grannt skoðað er það sem skiptir máli er að auðlindir séu notaðar af skynsemi og myndi sem mestar tekjur og stærstan skattstofn.

Það skiptir engu megin náli hvort skattlagningin heitir veiðigjöld eða tekjuskattur ef hún er einföld, heiðarleg og sanngjörn. En síðasta hugtakið skilja vinstri menn aldrei og hin tvö fyrri ekki nema til hálfs.

 


Kröfu um uppboðskerfi

við úthlutun veiðiheimilda í makríl er nú að finna á www.thjodareign.is.

Listi aðstandenda undirskriftanna er að vísu ekki sérlega breiður heldur fremur vinstri sinnaður. Sem spillir líklega fyrir þátttöku í þessu annars ágæta framtaki. 

Þarna er farið fram á að Forseti Íslands sjái til þess að makrílkvóta verði ekki úthlutað endurgjaldslaust til margra ára til núverandi kvótaeigenda.

En það felst kannski sitthvað fleira í þessu framtaki sem við úr gömlu flokknum verður að velta fyrir okkur.

Getur verið að hluti fylgistaps Sjálfstæðisflokksins yfir til Pírata stafi af of staðfastri varðstöðu flokksins gegn flestum breytingum á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi?

Getur verið að fiskveiðistjórnunarkerfið standi ekki lengur undir breidd þeirra væntinga sem flokkurinn hefur boðað til þessa? Getur verið að kjósendur samþykki ekki lengur að fiskveiðistjórnarkerfið megi ekki bæta? 

Getur verið að komið sé að vatnaskilum í íslenskum stjórnmálum vegna hinna umdeildu fiskveiðstjórnunarmála? Meirihluti þjóðarinnar vilji ekki lengur ráðstafa afnotum af auðlindum þjóðarinnar án þess að hámarksafgjald komi fyrir?

Getur verið að kerfisbreytingar í þá átt þurfi ekki að leiða til óviðundi niðurstaðna? 

Getur ekki verið nauðsynlegt að meiri sátt náist meðal kjósenda einhvern tímann um þetta langdregna deilumál eftir nær hálfrar aldar deilur? 

 

 

 

 

 

 


Leigubyssurnar

úr röðum almannatengla setja svikalaust mark sitt á þjóðamálaumræðuna þessi kvöld.

Allar fréttir byrja á því hvernig læknar(hinir áður samviskulausu eiðrofar Hippokratesar) lýsa þeim ósköpum sem dauðveikir sjúklingar líða vegna lyfjaskorts.  Ekkert af því sem Drottni sárvantar til líkna þeim þjáðu er hægt að láta í té vegna fjárskorts eða verkfalla, sem eru öðrum að kenna. Auðvaldið illa þrumir yfir vötnunum og stráir óhamingju yfir mannheima. Meinvillin sem í myrkrunum liggur?

Sviðsettar píslir eins og þegar kalífarnir dreifa myndum af hausaskurðum vekja kjósendur til umhugsunar að þeirra fulltrúar eru ekki að gera neitt til að stoppa þennan hrylling.  Á bak við þetta situr almannatengillinn eins og leigður byssubófi í gömlum vestra og pírir augun á þjáningar leikendanna. Hans eina hugsjón er pyngjan. Algerlega hlutlaus eins og hinn besti leigumorðingi.

Í vestranum "For a few dollars more" lýsti Clint Eastwood því ágætlega hvernig kaldrifjaðir atvinnumenn nýta sér ógæfu annarra sjálfum sér til framdráttar.  Aðallega með því að telja fólki trú um að það sjálft sé svo takmarkað af visku og vexti að það geti ekki klárað sig af einu né neinu. Snákaolíu sölumenn úr þesusm röðum selja heimskingjum forseta sem búið er að karakterrenna í gegnum þeytivindu lyga og rangupplýsinga sem skilja fortíðina eftir í ösku en bjóða framtíðinni dús. Það er eins og fólkið vilji láta ljúga sig fullt með hverju sem er, bara ef sannleikurinn frestast með afréttaranum. 

Hvað er sannleikur spurði Pílatus. Nútímamaður spyr sömu spurningar og á í mun meiri vanda en Pílatus. "Guð minn Guð ég hrópa, gegnum myrkrið svarta ....varð fyrir séra Matthíasi þegar hann efaðist um allt löngu fyrir tíma internetsins.

Getur ekki Sjálfstæðismaður spurt sig þess sama í dag þegar Píratar hafa tekið sæti Sjálfstæðisflokksins með þjóðinni? Hvar eru mínar fornu lendur hugsjóna  um eign fyrir alla, stétt með stétt, gjör rétt þol ei órétt? Hvar er trúin á víðsýna og þjóðlega umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum? Hvert á að hrópa, hvar er myrkrið svarta. Eru málamiðlanir það eina sem okkur er andlega boðið?

Er þetta allt blekking,  hönnuð til að að breyta skoðun hins hvikula kjósanda eitt augnablik svo hægt sé að hirða upp fáeina dollara til viðbótar?

Eru leigubyssurnar það sem þarf í þjóðfélagsumræðuna eða vantar eitthvað annað? 

 


Á Sprengisandi

 fer mikinn hjá Sigurjóni Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðingur sem var mikill ráðgjafi velferðarríkistjórnarinnar sem hér ríkti í þeim tilgangi að koma Íslandi í ESB og undir ok Iceasave. Tveir ráðherrar úr þeirri ríkisstjórn voru dæmdir fyrir lögbrot en þótti ekki tiltökumál vegna þess hvernig tekið er öðruvísi á málefnum vinstri manna en hægri og svo hugsanlega almenns vesaldóms landsmanna á þeim tíma. Í valdatíð þeirrar ríkisstjórnar var félagsvísindasvið Háskólans meira og minna undirlagt og á launum við að verja þá stjórn sem hraktist eins og rekald í vindi. Þar á meðal var með talinn þessi Baldur sem nú telur sig allt best vita hverjir eigi að verða vinir Íslands þegar hann hefur afskrifað Bandaríkin, hvaðan sem honum kemur sú viska. Íslendingar eigi því að halla sér að Kínverjum sem séu hjartahreinir og fölskvalausir í að hjálpa okkur.,

 Baldur þessi er ekki af baki dottinn með það að Íslendingum sé hollast að ganga í ESB þar sem okkar viðskipti séu og þeim sá hollast að sækja sér bandamenn þangað því að Bandaríkjamenn séu ekki til staðar lengur fyrir okkur..

 Eftir að hlusta á sönginn í þessum Baldri þá fer ég að spyrja sjálfan mig að því hvort helsta vandamál Íslendinga geti verið og mikill manfjöldi?. Hið framleiðandi hagkerfi svo einhæft sem það er, hafi bara ekkert að gera við þúsundir af “háskólamenntuðu” fólki sem við hömumst við að finna einhverja staði í félagskerfi sem við höfum í raun engin ráð á?

 Er ekki allt of mikið af fólki að fást við alls kyns tilbúin störf, oft tilbúnum af því sjálfu, sem leiðir af allt of fjölmennum Félagsvísindadeildum við háskólana og ofvöxt í allskyns sérsviðum vegna afbrigðilegra. Flest þeirra starfa sem þaðan koma leiða til útgjalda en ekki neinnar framleiðsluaukningar eins og vinna í beitningaskúrum til dæmis. Og hana takmarkar deiluefnið stóra kvótakerfið og Hafró sem heldur framleiðni niðri í sjávaraútveginum um helming í það minnsta af ýmsum ástæðum. Af hverju eigum við að trúa því eftir að hafa talið nákvæmlega alla sporðana upp úr sjónum í hálfa öld að framleiðni hafsins hafi minnkað um allan helming síðan þá? Ég farinn að velta því fyrir mér að þau vatnaskil séu að verða í stjórnmálum að kvóta-og úthlutanaflokkar sæki ekki aukið fylgi hjá þjóðinni lengur heldur muni markaðsöflunum vaxa fiskur um hrygg. Makríllinn verði það sker þar sem kvótahugsunin muni brotna á sem endimörkum mælskulistarinnar um að sérréttindi hinna fáu séu markaðsfrelsi hinna mörgu.

 Síðan koma þau Þorsteinn Víglundsson og Ólafía Rafnsdóttir í þáttinn.

 

Ólafía Rafnsdóttir segir að stjórnvöld, launþegar og atvinnurekendur beri saman ábyrgð á stöðugleikanum. Þorsteinn segir aðfararsamninginn í des 2013 hafa leitt til stöðugleikans sem hér hefur ríkt með innan við 1% verðbólgu, lækkaða vexti. Hann hafi síðan ekki verið efndur að því að sagt er. Ólafíu finnst nóg komið af því að launþegar axli þá ábyrgð einir að nú ætli verkalýðshreyfingin að fara út af sporinu að því að SA segi . Ólafía segir félagsmennina knýja fram kröfurnar en ekki forystuna, það sé kraumandi reiði í fólki.. 5% eru með lægri laun en 300þúsund áætlar Þorsteinn . Það væri lítið mál að bregðast við því. En kröfugerðin vilji hliðra öllu kerfinu upp úr. Er ekki verið að nota fólkið á lægstu laununum sem baráttutæki ? Ólafía segir að 30 % í matvöruverslun séu á lægri launum en þetta.

 

Þessi laun duga ekki fyrir nauðþurftum segir Ólafía. F'olk sem bæði vinni úti fái kannski 500 þúsund. 150 þúsund húsaleiga, svo skattar og þar fram eftir götunum. Þetta gengur ekki lengur segir Ólafía.

Þorsteinn segir vera verið að nota lágu launin sem tæki. Starfsgreinasambandið vilji 50% hækkun á öllu, byrja á meðallaununum þar sem séu 470 þús sem færu upp um 50%

 Það þyrfti samræmda lausn við lægstu launin. Það þurfa að koma fram leiðir til að hækka dagvinnu í lágmarkslaun, hækka hlutfall dagvinnu í átta að norrænum launakerfum. Vinnumarkaðurinn er ekki að samræma kröfur sínar sem vantar sárlega. Fólkið vill ekki lengur þessar áherslur á lægstu laun. Ólafía segir að ræddir hafi verið ýmsir fletir. Þeir sem vilja hækka lágmarkslaun komi illa við aðra .Fáir kauptaxtar VR koma líka illa út í samanburði við aðra. Aðfararsamningur var góður samningur en tókst ekki og fólkið er ekki sátt eftir hann. Þess vegna er erfitt að nálgast þetta á almennum grundvelli. En afdrif þess samnings voru að langmestu leyti vegna brigða ríkisstjórnarinnar.

 

Á Norðurlöndum fer stöðugt samráð milli launþega og atvinnurekenda. Samráð er þar um stefnur í efnahagsmálum. Þorsteinn segir að SA hafi ráðlagt þetta. Þríhliða samstarf hefur alltaf virkað vel hjá Íslendingum þegar krísur hafa riðið yfir. Tilraunir til þjóðarsáttar hafa verið svikin af stjórnvöldum.

 

Okkur Íslendingum hefur hinsvegar tekist að reisa okkur upp frá hruni og ná fram ótrúlegri kaupmáttaraukningu eða 20 % . Við höfum náð náð verðbólgunni niður í algert lágmark og líka vöxtunum. Vöxtur landsframleiðslu er komin upp á svipað og var fyrir hrun., Margt er orðið miklu betra segir Þorsteinn. Til dæmis er jöfnuður launa miklu meira nú. Við höfum náð að endurheimta almennan kaupmátt. En prófið sem við venjulega föllum á í hvert sinn er eins og varð 2004 er að gerast aftur.

 

Ólafía segir að reiðin kraumi í fólkinu og það er ekki tilbúið að breyta afstöðu sinni. Þríhliða viðræður þurfa að vera stöðugar til að virka. Það að koma með tilboð 2013 í desember í aðfarasamningnum upp á 400 milljóna gjaldskrárlækkun stjórnvalda en taka svo 6 mánuði í að efna það var ekki gott.

 

Nú er kippt fótunum undan fólkinu og því hent á gaddinn, samflotið er allt frá segir Sigurjón .

Í Vestmannaeyjum gera menn samninga og á Húsavik. Það er orðum aukið segir Þorsteinn og það er orðum aukið að innan SA séu lítil fyrirtæki að semja. Hafa þau verið nafngreind spyr hann? Þekkjum enga úr SA sem svo er ástatt um.

 

Við í SA semjum um lágmarkskjör. Menn mega borga meira. Flestir greiða meira. Við höfum 2000 aðildarfyrirtæki. Hvernig sjá menn fyrir sér að semja sérstaklega við hvert þeirra? Hvernig sérsamninga sjá menn fyrir sér? Traust er eitthvað sem maður ávinnur sér.

 

Það er skaði ef heildarsamningagerð leggst af. Bjarni Benediktsson taldi verkfallsvopnið misnotað. Læknaverkfall var markaðssett verkfall segir Ólöf. Það var leikið atriði að þjóðarsátt væri um það að læknar fengju hækkunum fram alla aðra. Það var ekki rétt spurt og fólkið var blekkt. Stjórnvöld voru svo beygð með blekkingum um að hinar stéttirnar myndu ekki koma á eftir. Þetta voru verk almannatenglanna.

 

SA notar almannatengla líka segir Þorsteinn en meira til að fara yfir túlkun en stefnumótunarleiðbeiningar. Læknadeilan var sviðsett verkfall þar sem píslir sjúklingar var sett í forgrunn og samúðin þar með dregin fram. Stórfrétt ef einhver læknir sagði upp og flutti.

 

Læknar hafa samt ekki haldið í launhækkanir hjúkrunarfræðinga til lengri tíma litið . Nú ætla hjúkrunarfæðingar hinsvegar að keyra kröfurnar áfram á læknaprósentum segir Þorsteinn. Verkbannsvopnið telur Þorsteinn ekki vera valkost fyrir atvinnurekendur til lengdar þar sem eir myndu fara á hausinn. Verkahýðisfélagið getur því í raun knúið hvaða vitleysu sem er í gegn þegar staðið er að lokum frammi fyrir því að annaðhvort skrifa undir eða fara á hausinn. Hér voru knúnar fram 40 % taxtahækkanir  á hverju ári í heilan áratug með þeim árangri að kaupmáttur jókst um 1 % samanlagt.

 

Hér þar samsetta lausn segir ÞV. Úrbætur í húsnæðismálum, breytt vaxtakerfi, breytt skattkerfi. En allt er þetta háð því að samningarnir setji ekki þjóðfélagið út af sporinu. Ætlar verkalýðsforystan að knýja fram taxtakröfurnar en missa af raunverulegum möguleikunum

um kjarabætur..

 

Ólafía segist vissulega óttast lagasetningu þó að Bjarni Benediktsson hafi fyrir viku sagt á Sprengisandi að slíkt sé ekki á dagskrá..Ólafía vill mótmæla því sem Þorsteinn segir að verkalýðsfélögin geti í raun knúið hvaða vitleysu sem er fram. Við viljum ekki vera í þessari stöðu núna sem við erum í. Við höfum verið sett í hana af öðrum. Þorsteinn bendir á að áttundi og níundi áratugurinn séu dæmi um vitleysur sem er knúnar voru fram með verkföllum . Verkalýðshreyfingin vit öll hvað getur gerst og ef það gerist þá veit hún það líka að það er erfiðara að stöðva verðbólgu sem er komin af stað heldur en að koma henni á stað segir Þorsteinn að lokum.

 

Ólafi Rafnsdóttir vakti sérstaka athygli mína fyrir hversu skipulögð hún er í málflutningi og hversu vel hún setur sitt mál fram. Hún hefur áður komið fram með skynsamlegar hugmyndir um lausnir þeirra erfiðu mála sem nú eru uppi. Mér finnst ég sjá ótvíræða leiðtogahæfileika í þessari konu og verður fróðlegt að fylgjast með hennar framgangi.

Þorsteinn Víglundsson stendur sig líka ágæta vel í hlutverki vonda kallsins og hefur marga kosti til að bera í rökvísi og málefnalegum málflutningi. Þau gefa manni von um að hægt verði að afstýra þeirra þjóðarvá sem við blasir ef hinir ósnotrustu fá mestu að ráða. Það er þó hart til þess að hugsa ef reynslan, sagan og skynsemin eigi ekki að fá að komast að til að fá ekki gömlu vitleysuna af stað.

Það er mála sannast, að aukist eftirspurn eftir vinnukrafti þá hækkar kaup. Noregsfarirnar voru og eru himnasending. Það er bara raunalegt hvað Íslendingar eru latir við að læra skandínavisku og er þar úreltri dönskukennslunni í skólunum og íslenskuninni á Andrésblöðunum um að kenna. Þess vegna er aukinn einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni ekki bara æskileg heldur þjóðarnauðsyn. Kannski á að setja þá hæst launuðu afturfyrir í biðröðum spítalanna og segja þeim þar með að fara bara annað. Spítalarnir og samhjálpin séu fyrir þá sem minna mega sín en ekki fyrir aldraða og efnað fólk.

 

Hugsanlega er fyrirkomulag þessara kjarasamninga orðið algert skrípi.Það vantar nýja vinnulöggjöf ekki seinna en strax. Mörg hundruð félög eru nú með sérþarfir og flest með stöðvunarvöld í einhverri mynd.. Þetta er skipulagslega ófært mál að fást við.  Eins og að ætla sér að byggja spilaborg á Sprengisandi með það fyrir augum að hún standi lengi.

 

 


Pöntuð niðurstaða

í mikilli skýrslu ráðins rannsóknaraðila er því miður eitthvað sem maður hefur orðið var við á langri ævi innan um stjórnmálamenn. Þeir standa frammi fyrir því að þurfa að framkvæma sína stefnu en kveinka sér yfir því að hún kemur óþyrmilega við  marga og jafnvel stuðningsmenn eigin flokks.Þeir reyna þá gjarnan að dulklæða aðgerðina og leigja sér vefara og spunameistara.

Þá er sérfræðingurinn kallaður til að skrifa skýrslu um málið sem leiðir til þeirrar niðustöðu sem stefnt var að. Viltu jobbið? Viltu peninginn? Þá veistu væntanlega hvað ég vil sjá?

Í skjóli þessa kerfis spretta upp stórir tískubrunnar sem sitja nánast fyrir öllum verkefnum hjá opinberri stjórnsýslu því venjulega tekst að láta þetta líta vel út. Stjórnmálamaðurinn skýtur sér svo á bak við skýrsluna sem skjöld til að framkvæma sinn vilja sem er pólitísk stefna frekar en rökhyggja endilega. Ekkert honum að kenna persónulega að gera þetta eða hitt heldur byggt á mati sérfræðinga.

Það er verkfræðingastéttinni ekki til frægðar þegar beinlínis kemur ljós að menn handvelja forsendur og sleppa óþægilegum vísbendingum sem myndu leiða til annarrar niðurstöðu fyrir annan pyngjumeistara. Og það er eins og slíkar staðreyndir hafi engin áhrif á  næstu verkefni, því það virðast mikið til  vera sömu viskubrunnarnir sem leitað er til hvenær sem stjórnmálamaðurinn þarf einhvers við. Og hann þarf Já-menn í kringum sig svo að aðrar raddir þagni.

Það þarf kjark til þess í kunningjaþjóðfélaginu að fara gegn leigðum viskubrunni þó að hann hafi verið staðinn að verki að framleiða pantaða niðurstöðu.


Í Rusli

er Reykjavíkurborg ef lýsing Morgunblaðsins er rétt.

Í Leiðara stendur:

"Reykjavík er í rusli. Ruslið er úti um allt. Pappír og plastpokar mynda heldur ömurlegt skraut í runnum og trjám eða fjúka um í rokinu. Á götum, stéttum og stígum er sandur og möl eftir baráttuna við klaka og snjó vetrarins. Þegar blæs er svifrykið slíkt að fer yfir heilsuverndarmörk.

 

Sandurinn er nauðsynlegur til að hjálpa fólki að fóta sig í hálkunni, en þegar enginn er snjórinn og hálkan verður hann sóðalegur. Á meðan snjór er yfir öllu sést ruslið ekki, en þegar hann er horfinn blasir sóðaskapurinn við. Það sást berlega á myndskeiði sem birt var á mbl.is í vikunni

 

Merki vanrækslu eru mörg í borginni um þessar mundir. Göturnar eru eins og gatasigti. Í þeim eru litlar holur og stórar, grunnar og djúpar og sums staðar svo margar að færustu bílstjórar geta ekki sveigt hjá þeim öllum. Haft er fyrir satt að holurnar í götum borgarinnar séu fleiri en í Holuhrauni.

 

Þegar borgaryfirvöldum virðist sama um ástand borgarinnar er hætt við því að borgarbúum fari líka að standa á sama. Hætt er við því að þeir, sem alltaf hafa fyrir augunum rusl á víð og dreif, fyllist doða fyrir umhverfi sínu og sóðaskapurinn verði ávísun á meiri sóðaskap.

 

Það er ef til vill ekki jafn áríðandi að hreinsa borgina og að ryðja snjó til að koma í veg fyrir að umferð lamist. Það er engu að síður mikilvægt, ekki síst nú þegar kapp er lagt á að laða að ferðamenn sem aldrei fyrr. Sú Reykjavík, sem blasir við þeim, er heldur niðurdrepandi.

 

Það skiptir máli hvernig borgin lítur út, hvort við blasa hreinar götur og torg eða allt er á kafi í rusli og borgin virðist vera að drabbast niður."

Var þetta svona í tíð Birgis Ísleifs, Geirs Hallgrímssonar, Davíðs Oddssonar ? Ég minnist þess ekki.

Hvarvetna eru myndir af Degi Bergþórusyni með skófluna á loft að taka stungur fyrir nýjum framkvæmdum. Ef grannt er skoðað eru þetta mest allt stórframkvæmdir sem borgarbúar munu ekki nýta fyrr en löngu eftir að kjörtímabili Dags lýkur, ýmist á hönnunarstigi eða væntanlegar þaðan.

Dagur veifar skóflunni óspart og vísar veginn til framtíðarinnar sem er hvergi að sjá stað núna. Borgarsjóð vantar á leiðinni í tíu milljarða upp á að tekjur dugi fyrir útgjöldunum í A-hluta. Hann er einfaldlega réttur af með því að sækja það sem á vantar í B-hlutann þar sem sjóðir orkuveitunnar eru. Þannig fá íbúar  Kópavogs, Garðabæjar og  Hafnarfjarðar að taka þátt í að borga hallarekstur kraterísins í Reykjavík sem veifar skóflunni sem aldrei fyrr  með útgjaldadraumum til margra ára framtíðar.

 

Spurning er hvort kjósendur sætta sig við svona Pótemkíntjöld til fjarlægrar framtíðar tíma meðan allt annað er í rusli? 


Krateríið

er enn á ferðinni í innflutningi lífeldsneytis til að blanda í bensínið. Verðið á eldsneyti einstæðra mæðra, aldraðra og öryrkja svo nefndir séu uppáhaldshópar lýðskrumaranna, hækkar um hundruð milljóna vegna ákvæða sem ESB þvingar upp á okkur og enginn fer eftir nema asnarnir við. Allir aðrir hafa það eins og þeim passar.

Sigríður Andersen gerði þetta að umtali á Alþingi að því að Moggi skýrir frá. 

Hún vakti athygli á því á Alþingi hve " illa er farið með vegafé þrátt fyrir viðhaldsleysi vega. 

Hún benti á að háir skattar eru lagðir á eldsneyti bíla, en að árið 2010 hafi verið lögfest undanþága frá gjöldum á eldsneyti á borð við lífolíur. 

Ennfremur að »árið 2013 voru menn svo skyldaðir til að blanda hefðbundið eldsneyti með slíkum lífolíum. Þau íblöndunarefni sem hingað til hafa verið flutt inn eru tvöfalt dýrari en hefðbundið eldsneyti. Það liggur því fyrir að þessi skattaívilnun hefur nær öll runnið úr landi til erlendra framleiðenda á lífolíu.

Nú liggur fyrir að ríkið verður af mörg hundruð milljónum króna á ári vegna þessarar skattaívilnunar. Vegaféð rennur viðstöðulaust úr landinu, mörg hundruð milljónir. Það samsvarar í raun öllu því fé sem Reykjavíkurborg eyðir árlega í viðhald gatna. Um leið kemur minna fé til vegaframkvæmda. Það er beinlínis verið að nota vegapeninga til að niðurgreiða innflutning á jurtaolíu. Tekjur sem ríkið hafði áður af eldsneytisgjöldum renna núna úr landi í niðurgreiðslu til innkaupa á dýru eldsneyti.

Það er ótrúlegt ef ríkið telur það rétta forgangsröðun sem þarna er lýst. Sigríður hefur lagt fram frumvarp til að »stöðva þetta stjórnlausa flæði fjármagns úr landinu,« eins og hún orðaði það. 

Þingið hlýtur að finna tíma til að setja frumvarpið í atkvæðagreiðslu."

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Sigríður talar um þetta. Eru einhver viðbrögð frá þessu þinglið okkar? Ekki einu sinni nýju stjörnurnar Píratar láta sig þetta einhverju skipta. Öllum öðrum er sléttsama því þeir gera akkúrat ekki neitt í þessu.

Til hvers fór ég á kjörstað að kjósa til að kjósa þessa sjálfstæðismenn í Kraganum? 

Krötum er yfirleitt alls varnað þegar kemur að almennri skynsemi. Það hefur verið vandamál þjóðarinnar áratugum saman. Það er hinsvegar hart þegar allt Alþingi er orðið allsherjar kraterí. 

 

 

 


« Fyrri síða

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 3419714

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband