er hið raunverulega vandamál sem við er að fást. Hlýnun af mannavöldum, útblástur gróðurhúsalofttegunda, plastmengun í höfunum, stríðshætta og hryðjuverk, trúarbragðadeilur, útrýming villtra dýra, eyðing skóga, umhverfisslys og gríðarleg aukning í vinnslu jarðefnaeldsneytis . Allt eru þetta afleiðingar af hinu raunverulega vandamáli sem er offjölgun mannkyns.
Einhverra hluta vegna sperri ég eyrun og hvessi sjónir þegar ég sé mynd í blaði af Þorsteini Sæmundssyni stjörnufræðingi. Hann ritar stutta grein í Morgunblaðið í dag sem vert er að taka eftir:
"Að undanförnu hafa birst myndir í blöðum og sjónvarpi af kröfugöngum barna, bæði hérlendis og erlendis. Börnin krefjast þess að hinir fullorðnu geri átak í umhverfismálum því að framtíð unga fólksins sé í veði.
Óskin er almenns eðlis fremur en að tilteknar aðgerðir séu nefndar. Þessu framtaki barnanna hefur yfirleitt verið vel tekið, þótt örlað hafi á þeirri skoðun að börnin líti á þetta sem tækifæri til að losna við nokkrar stundir af skólasetu. Ástæðulaust er að taka undir þær grunsemdir.
Á hinn bóginn mætti benda börnunum á, að þau geti sjálf sett sér markmið. Þau gætu til dæmis farið að fordæmi sænsku stúlkunnar Gretu Thunberg, sem var upphafsmaður þessara aðgerða. Greta hafnaði því að vera viðstödd ráðstefnu í Reykjavík um sjálfbæran lífsstíl því að hún vildi ekki ferðast með flugvél vegna mengunarinnar sem af því hlytist.
Hér á landi tala menn um að draga úr akstri mengandi bifreiða. Ef hugur fylgdi máli myndi fólk draga stórlega úr flugferðum og jafnvel setja háa skatta á flugfargjöld, því að flugið er margfalt meiri mengunarvaldur en annar ferðamáti. En slíkt verður seint gert fólk vill ekki neita sér um það frelsi sem ódýrt flug veitir, að ekki sé minnst á tekjurnar af ferðamönnum.
Er líklegt að þetta viðhorf breytist þegar börnin sem nú mótmæla verða fullorðin? Þær aðgerðir í umhverfismálum sem menn hafa rætt um í alvöru eru góðra gjalda verðar. Þær munu þó ekki ná tilgangi sínum ef ekki er tekist á við rót vandans sem við er að glíma, en það er fólksfjölgunin í heiminum.
Mannfjöldi á jörðinni er nú sagður 7,7 milljarðar og hefur þrefaldast á síðustu 70 árum. Það þarf engan speking til að sjá að í óefni stefnir. Eina þjóðin sem reynt hefur að stemma stigu við fólksfjöldanum er Kínverjar sem gáfu út tilskipun þess efnis árið 1980 að fjölskyldur mættu aðeins eiga eitt barn.
En jafnvel í því mikla stjórnvaldsríki sem Kína er reyndist þetta illframkvæmanlegt og hafði reyndar þær ófyrirséðu afleiðingar að drengjum fjölgaði mjög umfram stúlkur.
Frá árinu 2015 hefur hjónum í Kína verið heimilt að eiga tvö börn. Er því spáð að öllum hömlunum á barneignum verði senn aflétt því að stjórnvöld hafi þungar áhyggjur af fjárhagslegum afleiðingum þess að ungu starfandi fólki fækki hlutfallslega meðan öldruðum fjölgi.
Kona nokkur í Þýskalandi, Verena Brunschweiger, menntaskólakennari á fertugsaldri, hefur vakið talsverða athygli og nokkurn úlfaþyt með bók sem hún gaf út nýlega þar sem hún hvetur fólk til að draga úr barneignum og segist sjálf ætla að neita sér um að eiga barn. Bendir hún á tölur sem sýni að slík stefna yrði miklu áhrifameiri en að draga úr flugferðum eða selja bílinn.
Ólíklegt verður að þó teljast að Verena fái miklu breytt. Meðfædd hvöt fólks til barneigna er sterkari en svo að fortölur sem þessar hafi veruleg áhrif.
Ef ekki tekst að stöðva fjölgun mannkyns og snúa þróuninni við, missa allar aðrar aðgerðir í umhverfismálum marks. Þá verða menn að sætta sig við orðinn hlut og búa sig sem best undir það sem koma skal: breytt veðurfar, bráðnun jökla, hækkandi sjávarstöðu, sívaxandi flóttamannastraum, þverrandi auðlindir og alls kyns mengun sem óhjákvæmilega leiðir af fjölgun fólks.
Menn ættu ekki að láta blekkjast af þeirri tálsýn að sársaukalitlar aðgerðir muni leysa þann stórfellda vanda sem við okkur blasir. Vonlítil barátta Eftir Þorstein Sæmundsson » Ef ekki tekst að stöðva fjölgun mannkyns missa allar aðrar aðgerðir í umhverfismálum marks."
Ég venjulega fletti Fréttablaðinu þegar ég er búinn að lesa Morgunblaðið. Stöku sinnum hnýt ég um eitthvað áhugavert. Í dag var slíkur dagur þegar ég sá að í leiðaranum er fjallað um bókina sem ég las fyrr margt löngu; Raddir Vorsins Þagna eftir Rachel Carson.
Þar fjallar Kjartan Hreinn Njálsson um mál sem snertir grein Þorsteins með beinum hætti.
Hann segir:
"Á haustmánuðum árið 1962 gaf bandaríska vísinda- og náttúruverndarkonan Rachel Carson út stórvirkið Silent Spring, eða Raddir vorsins þagna.
Þetta einstaka og innblásna verk var afrakstur þrotlausra og ítarlegra rannsókna Carson á breiðvirkum skordýraeitrum, hörmulegum áhrifum þeirra á vistkerfi og blekkingarleik efnaframleiðenda um skaðlega eiginleika þeirra.
Titill bókarinnar er vísun í þann dapra heim sem blasir við með áframhaldandi eyðingu og útrýmingu vistkerfa og dýrategunda. Heim þar sem vorfuglarnir og söngur þeirra er á brott; heim þar sem vistkerfin eru fátækari.
Raddir vorsins þagna var neisti sem tendraði hugsjónabál á seinni hluta síðustu aldar, þar sem sjónum var beint að þeirri staðreynd að náttúran er berskjölduð fyrir áhrifum og gjörðum mannanna.
Tilurð bókarinnar, efnistök og áhrif ættu að gera Raddir vorsins þagna að skyldulesningu í öllum skólum. Núna þegar 57 ár eru frá útgáfu bókarinnar höfum við fengið fullkomið fylgirit hennar.
Milliríkjanefnd um leiðir til að viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika og vistkerfum (IPBES) birti í gær samantekt á niðurstöðum umfangsmestu úttektar sem gerð hefur verið á áhrifum mannsins á náttúru Jarðar. Á öllum landsvæðum plánetunnar frá regnskógum Suður-Afríku og hitabeltisgresjum Afríku til sífrerasvæða norðurhvelsins og akra Suðuraustur-Asíu ógna gjörðir mannanna líffræðilegum fjölbreytileika.
Nefndin telur að ein milljón tegunda dýra og plantna sé í hættu á að deyja út. Stöndugleiki vistkerfa sem við reiðum okkur á er að hrörna hraðar en nokkru sinni fyrr, sagði Sir Robert Watson, formaður IPBES, í fréttatilkynningu.
Um allan heim erum við að eyða sjálfum grunni hagkerfa okkar, lífsviðurværis okkar, fæðuöryggi okkar, heilsu okkar og lífsgæðum. Vopnin sem maðurinn beitir í þessu stríði sínu gegn náttúrunni eru land- og sjávarnýting, landbúnaður og hvers kyns notkun lífvera, auk losunar gróðurhúsalofttegunda og mengunar.
En hvatirnar sem knýja okkur til að beita vopninu eru knúnar áfram af neyslu, græðgi og yfirlæti gagnvart því ríkulega lífi sem þrífst á þessari litlu plánetu. Þetta eru kenndir sem fela í sér það hörmulega, og mjög svo mannlega, viðhorf að við séum ofar náttúrunni sett.
Þessar hvatir eru nákvæmlega þær sömu og Rachel Carson skrifaði um í Raddir vorsins þagna árið 1962.
Ekkert hefur breyst, nema það að við erum nú að tala um hrun hnattrænna vistkerfa, en ekki staðbundinna.
Rétt eins og sláandi niðurstöður milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar hafa kallað á tafarlausar aðgerðir til að stemma stigu við losun gróðurhúsalofttegunda og breytingum á veðrakerfum plánetunnar, þá krefjast niðurstöður IPBES þess að eitthvað sé gert.
Til þess þurfum við ábyrgar og djarfar ákvarðanir af hálfu þeirra sem við höfum kosið til að vernda hagsmuni okkar. Kjörnir fulltrúar bera ábyrgð, rétt og eins og almenningur. Það er okkar ábyrgð það er okkar byrði að taka þessar erfiðu en nauðsynlegu ákvarðanir og fylgja þeim eftir"
Raddir vorsins þagna vegna þess að mannkyninu hefur fjölgað stjórnlaust. Mannfjöldinn hefur þrefaldast á 70 árum í 7.7 milljarða sem brenna, menga og eyða öllu sem fyrir verður. Og mest af þeim sem síst eiga erindið í þennan heim vegna fátæktar og fárra úrkosta vegna hennar.
Vísindin sem nauðsynleg eru til að skapa betri heim eiga erfitt uppdráttar vegna hins sama. Væri mannkynið aftur orðið 2.5 milljarðar væri jörðin snöggt um byggilegri og betri. Hvernig náum við því til baka?
Náttúran mun líklega sjá til þess með sínum ráðum að stöðva fjölgunina ef mannkynið gerir það ekki sjálft.
Offjölgun mannkyns mun taka enda.