Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2021

Gott yfirlit

um heimsmálin skrifar Vilhjálmur Bjarnason í Mbl.í dag.

Þar sem ekki lesa allir Mogga þrátt fyrir augljósa yfirburði hans ef menn bera saman blöð dagsins, Fréttablaðið og Morgunblaðið,  þá tek ég þessa grein upp hér í þeirri von að einhverjir fleiri lesi þetta góða yfirlit Villa Bjarna um heimsmálin:

Nýr heimur og nýr veruleiki í frjálsum heimi.

"Þeim, er þetta ritar, hefur orðið tíðrætt um hinn frjálsa heim. Um langt árabil var hinn frjálsi heimur bandalag ríkja í Norður-Ameríku og VesturEvrópu. Vissulega voru Bandaríkin ekki í bandlagi við frjáls ríki og frjálslynd ríki í Suður-Ameríku. Sama var að segja um ríki í Vestur-Evrópu þar sem lýðræði átti undir högg að sækja. Einræðisstjórnir á Spáni og í Portúgal voru skuggi á lýðræði og frelsi í VesturEvrópu. Um tíma átti lýðræði undir högg að sækja í vöggu lýðræðisins, Grikklandi. NATO sá í gegnum fingur við einræðisstjórnir í þessum löndum, með von um bjarta tíð. Evrópusambandið og undanfarar þess veittu Grikklandi aðild að sambandinu um leið og einræðisstjórn hrökklaðist frá völdum, án þess að efnahagsleg skilyrði sambandsins væru uppfyllt.

„Ljótu börnin“ og hlutlausu ríkin

Spánn og Portúgal voru skuggar á lýðræðishefð í Evrópu. Evrópusambandið vildi nálgast þessi lönd með það fyrir augum að tryggja lýðræði í löndunum án beinna afskipta. Þannig varð til sameiginlegur markaður í Evrópu. Fyrir utan Evrópusambandið starfar Fríverslunarbandalag Evrópu (EFTA). Þar voru löndin með skort á lýðræði, og lönd sem kenndu sig við hlutleysi og mikla lýðræðishefð. Þau lönd eru Sviss, Svíþjóð, Finnland og Austurríki. Um leið og Sovétríkin leystust upp, gengu þrjú „hlutlaus“ ríki í Evrópusambandið. Og síðan gjörvöll bandalagsríki Sovétríkjanna í Austur-Evrópu. Þau lönd eiga sín vandamál í þjóðernissinnuðum lýðsleikjuflokkum.

Rússland og hrávara

Eftir stendur Rússland með undarlegt stjórnarfar, land sem gefur lítið fyrir mannréttindi og lýðræðisgildi frá Vestur-Evrópu. Landið er háð útflutningi á hrávöru og reynir að vera sjálfu sér nógt í matvælaframleiðslu með innflutningsbanni á matvæli frá Íslandi. Hin nýja stétt auðmanna í landinu er háð frönskum vínum, skartgripum og tískufatnaði. Neysluvörur eru ekki framleiddar í Rússlandi. Rússnesk alþýða þarf ekki á vestrænni neysluvöru að halda.

„Hlutlausu löndin“

Svíþjóð, Finnland og Austurríki gengu í Evrópusambandið 1995 og yfirgáfu EFTA. Sviss er með gilda aðildarumsókn að Evrópusambandinu, án viðræðna, líkt og Ísland. Noregur hefur hafnað aðild að Evrópusambandinu. Ísland hafnaði hlutleysi í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar. Ekki var látið af þjóðrembingi í viðskiptaháttum. Verndarstefna kreppunnar eftir 1930 lét ekki undan síga fyrr en að hluta með Viðreisnarstjórninni upp úr 1960 og með aðild að Evrópsku efnahagssvæði (EES), sameiginlegum markaði Evrópu. Það undanhald var í áföngum og með dekstri við íslenska þjóðhyggju. Þannig þurfti viðauka við samning um aðild að EFTA, fríverslunarsamningi um iðnaðarvöru, sérstök ákvæði um útflutning á lambakjöti til Noregs, án matvælaskorts í Noregi. Það var dúsan sem landbúnaðarforystan í Sjálfstæðisflokknum þurfti til að samþykkja aðild að EFTA.

Lýðræði að lokinni styrjöld

Það var alls ekki augljóst að Evrópa að lokinni seinni heimsstyrjöld þróaðist í átt að lýðræði. Þýskalandi var skipt upp í fjögur hernámssvæði. Sambandslýðveldi var stofnað 1949, sama ár og NATO. Ismey lávarður, fyrsti aðalritari NATO, sagði varnarbandalagið stofnað „til að halda Bandaríkjunum inni, Sovétríkjunum úti og Þýskalandi niðri“. Þýskaland reis úr rústum stríðsins og varð sem betur fer ekki haldið niðri. Flest bandalagsríki Varsjárbandalagsins hafa gengið til liðs við NATO. Atlantshafsbandalagið, Evrópusambandið og Fríverslunarbandalag Evrópu (EFTA) eru bandalög lýðræðisríkja til að tryggja frelsi og frið í Evrópu. Hvorugt er sjálfsagt í álfu, sem barist hefur um aldir. Hundrað ára styrjöld, þrjátíu ára styrjöld og heimsstyrjöldum milli Þýskalands og Frakklands lauk með Élyséesáttmála Adenauer og de Gaulle 1963.

Nýr veruleiki

Fyrir utan þennan veruleika í Evrópu þróaðist nýr heimur við Kyrrahaf. Þar var til aldalöng menning en neysluvörur frá Kyrrahafssvæðinu voru sjaldgæfar. Stundum finnst mér að fyrsta kynning austrænnar iðnmenningar hafi birst Íslendingum í japönskum veiðarfærum. Japanskt nótaefni gjörbreytti nótaveiðum við strendur Íslands. Japanskir bílar gerðu bíla að almenningseign á Íslandi. En risinn svaf. Alþýðulýðveldið Kína átti sína erfiðleika með menningarbyltingu. Útlagastjórn á Taívan fór með neitunarvald Kína hjá Sameinuðu þjóðunum. Maó dó og Deng Xiaoping ræsti risann með stóru stökki. Hinn nýi leiðtogi taldi að ekki skipti máli hvernig kötturinn væri á litinn sem veiddi mýsnar. Alþýðulýðveldið tók sæti útlagastjórnarinnar, þar sem erfitt var að kjósa því kjördæmin voru hernumin.

Efnahagslegt risaveldi

Áður en hinn frjálsi heimur vissi af varð til efnahagslegt risaveldi í Kína. Bandarískt „auðvald“ er háð því að kínverskir bankar samþykki bandarísk ríkisskuldabréf sem greiðslu fyrir kínverskar vörur. Greiðsluhalli Bandaríkjanna er háður því að bandarísk ríkisskuldabréf eru almennt samþykkt sem gjaldeyrisvarasjóður ríkja. Ellefu af fjörutíu stærstu bönkum veraldar eru kínverskir. Að auki er til þjóðarsjóður. Allt eru þetta eignir í tölum af þeirri stærðargráðu, sem dauðlegt fólk hefur engan skilning á. Í Kínverska alþýðulýðveldinu er sparnaðarhneigð um 40% af tekjum. Það verður álitamál hve lengi Wall Street í New York verður fjármálamiðstöð veraldar. Sennilega munu flestar flugvélar í VesturEvrópu verða í eigu kínverskra banka innan 10 ára. Kínverskir bankar bjóða kjör, sem bankar í Vestur-Evrópu ráða ekki við.

Belti, braut og áhrif

Alþýðulýðveldið Kína byggir ekki á þeirri lýðræðishefð sem hinn frjálsi heimur þarf að búa við. Lýðræði að forngrískri fyrirmynd er ekki vandamál í Kína. Mannréttindi og þau gildi sem þeim fylgja, eins og þau sem reynt er að verja í Evrópu, eru ekki vandamál í Alþýðulýðveldinu Kína. Fyrsta maí sem almennan frídag „vinna menn af sér“ síðar í Kína. Bretland, hið sameinaða konungdæmi, reynir að viðhalda breskum mannréttindum og gildum í samskiptum við sínar gömlu nýlendur í Breska samveldinu. Þar fer með forystu Karl Bretaprins, sem að öðru leyti er atvinnulaus. Ríki hins frjálsa heims þurfa að svara mörgum spurningum í samskiptum við Alþýðulýðveldið Kína áður en þátttaka í „Belti og braut“ verður samþykkt. Verkefni sem býður upp á uppbyggingu og eignarhald á innviðum í ríkjum er ekki síður varhugavert en netárásir á innviði í frjálsum ríkjum.

Gildi, mannréttindi og kalt stríð

Vestræn gildi og mannréttindi hins frjálsa heims eru ekki frjáls gæði. Gildi og mannréttindi kunna að falla fyrir kínverskri kurteisi, eftir að hafa staðið af sér stríðsátök fasista og nasista fyrir miðja síðustu öld. Þessi gildi stóðu einnig af sér hið kalda stríð um járntjald í hugum ráðamanna í Evrópu eftir síðara stríð. Minnumst þess að járntjaldið féll ekki í styrjaldarátökum, það féll vegna gjaldþrots Sovétríkjanna og fylgiríkja þeirra."

Það er fróðlegt að lesa um það hvernig Vilhjálmur skyggnist yfir viðskiptasögu heimsins og inn í framtíðina eins og hann sér  hana. Hvað er rétt og hvað er rangt ætla ég ekki um að dæma en mér finnst stundum að Villi sé einum of hallur undir Evrópusambandið á kostnað heimsviðskipta fyrir minn smekk.

En ég tek undir með undirskriftinni:

"Höfundur var alþingismaður og verður það aftur."

Ég held að almennt þekkingar-og vitsmunastig á Alþingi muni ekki lækka með endurkomu Vilhjálms Bjarnasonar þangað inn.Þó áskil ég mér allan rétt ef Villi vill ganga í ESB með Loga og Þorgerði Katrínu.Þá verður mér að mæta.


Stjórnarskrá um aukaatriði

en ekki aðalatriði er til umræðu á Alþingi sem stendur.

Það er hvergi vikið einu orði um það hvort landsmenn eigi allir að hafa jafnan atkvæðisrétt. Þess í stað er verið að ræða aukaatriði eins og þessi:

"Að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands endurspegli sem best sameiginleg grunngildi þjóðarinnar og renni traustum stoðum undir lýðræðislegt réttarríki þar sem vernd mannréttinda er tryggð.

 

Lagt er til að ákvæði um umhverfisvernd og þjóðareign á auðlindum bætist við mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Þá er lagt til að íslensk tunga og íslenskt táknmál fái sess í stjórnarskrá landsins.
 
Að auki er lögð til endurskoðun á II. kafla stjórnarskrárinnar um forseta og framkvæmdarvald.
 
Ákvæðið um umhverfisvernd fjallar annars vegar um íslenska náttúru og vernd hennar; nánar tiltekið um gildi náttúrunnar, ábyrgð á vernd hennar og meginsjónarmið og áherslur náttúruverndar. Hins vegar lýtur það að gæðum og réttindum sem almenningur skal njóta.
 
Ákvæðið um náttúruauðlindir fjallar bæði almennt um auðlindir í náttúru Íslands þar sem lögð er áhersla á sjálfbæra nýtingu til hagsbóta fyrir landsmenn en sjónum er einnig beint að auðlindum sem eru á forræði ríkisins.
 
Tillögur frumvarpsins um breytingar á II. kafla stjórnarskrárinnar eiga það sammerkt að uppfæra ýmis ákvæði og skýra betur án mikilla efnisbreytinga.
 
Þannig er lagt til að þingræðisreglan verði fest í stjórnarskrá og kveðið nánar á um þingrof, heimildir starfsstjórna og forystuhlutverk forsætisráðherra.
 
Þá er einnig að finna ýmis nýmæli eins og varðandi forsetakjör, lengd kjörtímabils forseta (sex ár í stað fjögurra) og hámarksfjölda þeirra, ábyrgð forseta og ráðherra og forræði Alþingis á samkomutíma sínum."
 
Alger aukaatriði hjá því grundvallaratriði hvort þegnar landsins eigi að hafa jafnt vægi í kjöri til Alþingis. Hvort á Íslandi skuli ríkja lýðræði þar sem allir landsmenn sitji við sama borð.
 
Nú er staðan raunverulega sú að Kópavogur, Garðabær, Mosfellsbær og Hafnarfjörður hafa engan atkvæðisrétt og eiga því ekki neina fulltrúa á Alþingi til jafns við aðra landsmenn sem kjósa til Alþingis.  Slíkt er misvægi atkvæða í lýðveldinu Íslandi.
 
Hver nennir að eyða tíma sínum í að hlusta á þessar umræður um keisarans skegg þegar grunngildi mannréttinda eins og atkvæðisrétturinn er borið fyrir borð?
 
 
 
Af hverju er betra að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands snúist frekar um aukaatriði en aðalatriði?

Trumpophobian rís hátt

og hrífur Björn Bjarnason með sér. Hann skrifar:

"Málsvörn Trumps í molum

Efasemdarmenn um að Trump hafi sigað skríl á þinghúsið ættu að kynna sér það sem lagt er fyrir öldungadeildarþingmenn áður en þeir greiða atkvæði um ákæruna.

Þegar fréttaþulur BBC World sjónvarpsstöðvarinnar kynnti beina útsendingu frá öldungadeild Bandaríkjaþings þar sem fulltrúadeildarþingmenn demókrata fluttu málið gegn Donald Trump, fyrrv. forseta, miðvikudaginn 10. febrúar sagði hann að vegna efnis í myndskeiðum, sem kynnu að verða sýnd, yrði um 20 sekúndna seinkun á sendingu BBC svo að vara mætti áhorfendur við ógnvænlegum myndum. Þær voru teknar innan dyra í þinghúsinu í Washington þegar skríllinn sem Trump sigaði á þingmenn fóru þar um „rænandi og ruplandi“.

Efasemdarmenn um að Trump hafi sigað skríl á þinghúsið ættu að kynna sér það sem lagt er fyrir öldungadeildarþingmenn áður en þeir greiða atkvæði um ákæruna. Trump verður ekki sakfelldur nema 17 öldungadeildarþingmenn repúblíkana greiði atkvæði með demókrötum í deildinni. Með því að flytja málið á þann veg sem gert er og með þeim sönnunargögnum sem fyrir liggja verður ömurlegra fyrir repúblikana að styðja Trump en hafna honum – þó er líklegt að þeir sakfelli hann ekki.

3OD3VXWCIZAC5B4CWSCT3K4KDABruce Castor, verjandi Trumps, flytur ræðu í öldungadeild Bandaríkjaþings.

Vörn Donalds Trumps er í molum megi marka stórundarlega framgöngu Bruce Castors, aðalverjanda hans. Skömmu fyrir málflutninginn í öldungadeildinni sagði lögfræðingalið Trumps sig frá því að verja hann. Skýrendur segja að forsetanum fyrrverandi haldist illa á virtum lögfræðingum því að hann krefjist þess að þeir viðurkenni aldrei, ekki einu sinni í sekúndubrot, að Trump hafi tapað kosningunum 3. nóvember. Þetta flæki þó þá meginröksemdafærslu að stjórnarskráin heimili ekki að fulltrúadeildin ákæri óbreyttan borgara, eins og Trump.

Lagaprófessorinn Alan Dershowitz tók þátt í að verja Donald Trump þegar hann sætti ákæru fulltrúadeildar þingsins fyrir ári. Nú sat hann í beinni útsendingu mánudaginn 8. febrúar hjá fréttastöðinni Newsmax þegar Bruce Castor futti upphafsræðu sína. Newsmax leggur Trump lið en stjórnanda útsendingarinnar var svo misboðið vegna ræðu Castors að hann lokaði á hann og spurði Dershowitz: „Hvert er hann að fara með þessu?“ Prófessorinn hristi höfuðið og sagði: „Það eru engin rök. Ég hef enga hugmynd um hvað hann er að gera.“ Síðan gerði hann grín að smjaðri Castors í garð öldungadeildarþingmannanna.

The Wall Street Journal verður ekki sakað um að ganga erinda demókrata og blaðið studdi Trump í forsetakosningunum. Í dag (11. febrúar) segir í leiðara þess:

„Hvað sem öðru líður er ekki unnt að verja framgöngu Trumps 6. janúar og í aðdragandanum. Fullyrt er að Mitch McConnell [þingflokksformaður repúblikana] segi við flokksmenn sína að ákvörðunin um að sakfella eða sýkna ráðist af sannfæringu og það er við hæfi. Eftir að kjörmennirnir komust að niðurstöðu sinni 14. desember hefði Trump getað viðurkennt ósigur og hreykt sér af afrekum sínum.

Nú verður þetta ofbeldi að eilífu blettur á arfleifð hans ásamt því að hafa svikið stuðningsmenn sína með því að neita að segja þeim sannleikann. Hver sem niðurstaðan verður í ákærumálinu ættu repúblikanar að minnast svikanna ákveði Trump að bjóða sig fram að nýju árið 2024.“

 

Eru menn að reyna að stýra fortíðinni eða eru þeir að reyna að tryggja að Trump geti ekki boðið sig fram aftur?

Trumpophobian rís hátt um þessar mundir.


Egóflipparar?

eru vinstri menn ekki þeirrar gerðar upp til hópa?

Þeir láta kjósa sig til þings út á hverskyns yfirskin um einhvern samfélagslegan  tilgang með framboði sínu. En raunverulega ástæðan sé hinsvegar von um kauphækkun og bitlinga?

Páll Vilhjálmsson bloggkóngur hefur þessa skilgreiningu uppi:

"Vinstri grænir voru einnota fyrir Rósu Björk og Andrés Inga. Rósa Björk gekk í Samfylkinguna og Andrés Ingi tekur sér heimilisfestu í Pírötum, Róbert Marshall sat á þingi fyrir Samfylkingu og Bjarta framtíð en vill núna á þing sem vinstri grænn.

Þetta eru aðeins nýjustu dæmin um flokkaflakk vinstrimanna. 

Tvær ályktanir má draga. Í fyrsta lagi að vinstriflokkarnir eru hverjir öðrum líkir. Í öðru lagi að persónulegur metnaður margra vinstrimanna er öllu félagslegu starfi yfirsterkari.

Ekki það að vinstrimenn séu einir um hégómleg viðhorf til stjórnmála. En þeir standa núna vel til höggs."

Ætlar þetta fólk ef til vill að halda því fram í alvöru við okkur kjósendur að það sé í pólitík með einhverja stórkostlega framtíðarsýn fyrir þjóðina að baki?

Eða eru þetta bara venjulegir Egóflipparar?

 


Frábær flokkur

frelsis og framfara.

Viðreisn stillir upp í fimm kjördæmum fólki með eina skoðun og eina sannfæringu. Ekkert sem þarf að ræða við kjósendur.

Sú eina skoðun er rétt að afsala skuli Íslandi fullveldi sínu í hendur tollabandalagi 26 ríkja Evrópusambandsins og upptöku Evru. Skítt með afganginn af heiminum og frjáls viðskipti við hundrað annarra ríkja hans. Rétt eftir að Bretar fengu nóg af Ursulu von der Leyen og frjálsri hugsun í Brusselbæ.

Benedikt og Þorgerður Katrín vita allt sem vita þarf um frelsið í fákeppninni. Þau vita allt sem vita þarf í stjórnmálum. Engar aðra skoðanir koma til greina.

Þess vegna stillir Viðreisn upp fimmfalt til að tryggja að rétt skoðun sé allsstaðar í hávegum höfð.

Kjósendur þurfa ekki að velkjast í vafa um visdóm forystunnar í hinum frábæra flokki Viðreisn hvað sem hann nú er  að reisa við? 


Er þetta í lagi?

fyrst að ljúga sig inn á kjósendur VG eins og Andrés Ingi gerir og svo þessi Rósa Björk? Síðan segja við þetta sama fólk á kínverskan hátt: Farið þið til fjandans, okkar viðskiptum er lokið, við snuðuðum ykkur því að þið eruð bara fífl sem áttuð þetta skilið?

Hugsa sér að bjóða einlægum kommúnistum upp  á það að Andrés er bara allt í einu Pírati með Helga Hrafni, Þórhildi Sunnu margvíttu, Malbikaranum  og Leista-Birni Leví? Svei attan. 

Og er  Rósa Björk farin í ESB með Loga. Svei attan aftur.

Eitt sinn var kveðið á Alþingi:

"Dauft er fyrir Doktor Jón

að drattast þings um stigi

og geta engum unnið tjón

með undirferli og lygi."

Mér finnst þessi vísa eiga ágætlega við um þessi skötuhjú úr kommaflokknum hennar Kötu, sem varla vill eiga þau að nánum vinum hér eftir.

 

 


Hvar verða vinnustaðirnir?

ef það eitt þurfi til að stoppa bílaumferð til og frá Miðborg Reykjavíkur að byggja blokkir á flugvellinum.

Vinna þá allir í bönkunum í Kvosinni og Stjórnarráðunum? Eru atvinnusvæðin þar?

Þessar kenningar hafa löngum vakið athygli manna sem sjá allt illt við að byggja annarsstaðar en í nágrenni Kvosarinnar.Meira að segja Borgarlínan virðist ekki leysa þessi hugarfóstur um bíllausan lífstíl.Nema Dagur B. auðvitað sem er búinn að tryggja sér næg bílastæði.

Örn Gunnarson arkitekt hefur lengi skrifað um þessar hugmyndir sínar um Vatnsmýrarbyggð í stað flugvallarins þar.Nú verða til þúsundir núllbíla á svæðinu sem hætta að menga af því að fólk getur gengið í vinnuna að manni skilst.

En hvar verða allir þessir vinnustaðir?


Bylur í Bieltvedt

í blaði dagsins.

Þar fárast hann yfir hvað Sjálfstæðisflokkurinn sé lélegur að vilja ekki ganga í ESB og kasta krónunni. Vonandi fari allir úr honum og gangi í Miðflokkinn.

Hver var nauðsyn þessara skrifa?

Að láta okkur vita að hann hafi loks flutt til Íslands frá Þýskalandi eftir 10 ára dvöl þar?

Bara til að finna sinn gamla flokk Sjálfstæðisflokkinn með ónýtu krónuna "sviplausan, stefnulítinn, steinrunninn og afdankaðan". En sem betur fer sé Miðflokkurinn tilbúinn að taka við honum og Friðjóni en ekki Brynjari? Ég vissi nú ekki fyrr að Miðflokkurinn vilji ganga í ESB og taka upp Evru?

Hann minnist ekki á það að hér ríkir gjaldeyrisfrelsi og menn geta notað hvað mynt sem þeir kjósa í lántökur eða sparnað.

Af hverju er maðurinn að skrifa svona hugleiðingu? Hverjum er hann að skemmta eða hjálpa og hverju hyggst hann ná fram pólitískt?

Það var stundum sagt að bylji hæst í tómum tunnum. Það bylur sannarlega boldangsmikið í Bieltvedt.


Er bakkgír á Borgarlínunni?

Í leiðara Morgunblaðsins er vitnað í umferðarsérfræðinginn Árna Mathiesen dýralækni sem fær sérstakt hrós fyrir hreinskilni.

"Stjórnarformaður félagsins Betri samgangna ohf., Árni Mathiesen, sem heldur utan um borgarlínuverkefnið, segir að þeir sem að verkefninu standa verði dæmdir af þremur atriðum: „Í fyrsta lagi að tímasetningar standist. Í öðru lagi að kostnaðaráætlun standist og í þriðja lagi að markmið um samgönguhegðun náist. Og þetta síðasta er lykilatriði í verkefninu í heild.“ Allt er þetta rétt og óvenjuleg hreinskilni að leggja spilin á borðið með þessum hætti því að oftar en ekki vilja menn ákveða eftir á hvaða mælistikur á að leggja á verk þeirra.

Þessar mælistikur eru ekki aðeins nothæfar til að meta borgarlínuna að einhverjum tíma liðnum, verði anað áfram í það verkefni, þær eru einnig gagnlegar til að meta það sem gert hefur verið í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu síðasta áratuginn eða svo.

Borgarlínan á að auka mjög notkun almenningssamgangna, úr 4% af heildarferðum í 12% ferða. Líkurnar á að þetta takist hlýtur að verða að skoða í samhengi við það að fyrir um áratug var ákveðið, í samstarfi þáverandi vinstri meirihluta í borginni og vinstri stjórnarinnar í landsmálum, að slá á frest brýnum framkvæmdum í samgöngumálum á svæðinu en setja í staðinn einn milljarð til viðbótar árlega í að efla almenningssamgöngur, það er að segja strætisvagnana. Þessi árlegi viðbótarmilljarður hefur engum árangri skilað. Hlutfall þeirra sem velja strætó er það sama og var en ætlunin var að milljarður árlega yrði til þess að hækka þetta hlutfall umtalsvert. Í staðinn hafa tafir á framkvæmdum valdið umferðarteppum sem fara síversnandi. Það sem gert hefur verið hingað til hefur því ekki staðist þá mælistiku sem að ofan er nefnd og flokkast undir augljós mistök.

Þessi árlegi milljarður bætist við það fé sem fyrir var sett í rekstur strætó, en farþegatekjurnar stóðu árið 2019 undir um þriðjungi kostnaðar, sem nam sjö milljörðum króna það ár. Af fréttum að dæma má ætla að afkoman hafi verið enn verri í fyrra. Þar kenna stjórnendur Strætó kórónuveirufaraldrinum um og hefur hann eflaust haft talsverð áhrif. Annað sem einnig hafði áhrif og mun að líkindum hafa vaxandi áhrif eru rafknúnu hlaupahjólin sem sprottið hafa upp eins og gorkúlur í borgarlandinu síðastliðið ár. Sá nýi samgöngumáti mun án efa draga verulega úr notkun almenningssamgangna til framtíðar. Áætlanir borgarlínunnar, að því marki sem þær liggja fyrir, taka ekki tillit til þessa enda er þar um að ræða stórkarlalega, þunglamalega og gamaldags hugmynd í stað þess að horft sé á nýja tækni og raunhæfar lausnir.

En vandinn við borgarlínuna er líka sá að útfærð rekstraráætlun hennar liggur ekki fyrir og heildaráætlun um fjárfestingar og rekstur almenningssamgöngukerfisins í samanburði við aðrar lausnir hefur ekki verið gerð. Fyrir liggur til dæmis að áfram þarf að reka strætisvagnakerfi og fram hefur komið að rekstrarkostnaður Strætó kunni að aukast um tvo milljarða króna á ári vegna borgarlínunnar.

Heildarmynd borgarlínuhugmyndarinnar og samanburður við aðra kosti liggur alls ekki fyrir. Þá liggur ekki fyrir hvað gerist ef borgarlínan skilar engum eða litlum árangri í því að fjölga þeim sem nota almenningssamgöngur. Þá er augljóst að umferðartafir verða enn verri en nú er þar sem búið verður að þrengja enn meira að langvinsælasta ferðamátanum, fjölskyldubílnum. Víða verður búið að taka aðra akreinina af þeim 75% sem nota þann ferðamáta til að bæta við borgarlínubraut sem mögulega mun ekki skila neinni aukningu í notkun. Og það er að minnsta kosti ljóst að notkun almenningssamgangna þarf að aukast gríðarlega til að vega upp á móti þeirri þrengingu sem verður á götum fyrir fjölskyldubíla.

Um leið og hægt er að taka undir að borgarlínuverkefnið, ásamt þeim sem fyrir því hafa barist og að því standa, verði metið út frá þeim þremur mælistikum sem stjórnarformaður Betri samgangna nefnir er ljóst að það verður til lítils ef þetta risaverkefni fer illa. Það mun ekki leysa samgönguvandann eftir fimm eða tíu ár að geta bent á að tafir hafi orðið, að kostnaður hafi verið meiri eða að færri hafi notað borgarlínuvagnana en stefnt hafi verið að. Þeir sem árið 2030 sitja fastir í fjölskyldubílum sínum og munu þar að auki þurfa að greiða ný veggjöld ofan á hækkað útsvar eru engu bættari með að geta bent á sökudólga. Það er gott að hafa skynsamlegar mælistikur, en þær geta aldrei réttlætt að ráðist verði í vanhugsaðar og óraunsæjar risaframkvæmdir."

Ef sú forsenda sem Árni Mathiesen veltir fyrir sér í byrjun gengur ekki upp, er þá ekki rétt að hugsa hvað taki við?

Borgarlínan og allur kostnaðurinn er þá kominn fram.Verður Dagur B. Eggertsson afturkræfur? Hvernig á að leysa vanda allra bílastæðalausu íbúðanna sem þá verður búið að byggja. Kaupa bara bílastæði eins og Dagur B.?

Verður stofnkostnaðurinn tekinn til baka með því að setja Borgarlínuna  í bakkgírinn? 


Goðsögnin um ESB

er umfjöllun Gunnars Rögnvaldssonar um hvílk slys þetta tollabandalag hefur fært yfir aðildarþjóðir sínar undir forystu hinnar handónýtu Úrsúlu von der Merkel.

Gunnar segir í dag:

"

Ekki þýðir annað en að birta hér á útlensku um það málefni sem hver fjölmiðill með virðingu fyrir sjálfum sér ætti að birta hér heima en gerir ekki, nema Morgunblaðið. Og hér er alveg sérstök ástæða til að benda á lokaðan ríkisfjölmiðilinn DDRÚV. En hann hefur á hinum síðustu árum loksins fundið gluggatjöldin sem Halldór Laxness sagði að væri það eina sem Sovétríkjunum vantaði, því ekkert um ástandið í Vesturlöndum-nær sleppur út úr DDRÚV. Sérstaklega ekki um ESB-gjaldþrotasambandið. Aðeins þær fréttir sem passa við stefnuskrá DDRÚV sleppa út

Nú segir Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar ESB að sambandið sé framar Afríku í bólusetningum við kínversku Wuhanveirunni. Er þetta ekki stórkostlegt. Meginlandsfyrirbærið ESB er að breytast í eins konar Norður-Afríku

En þá ber að geta þess að sá/sú stjóri/ína er sérstakur útsendari Angelu Merkels, sem aðstoðarritstjóri breska Telegraph segir að sé ofmetnasti stjórnmálamaður sinnar kynslóðar á meginlandi Evrópu. Hvorki meira né minna. Allt sem hún kemur nálægt leggur hún í rúst

Merkel og forseti Frakklands hafa nú breyst í eins konar bólusetningar-afneitara sökum þess hversu vel nýfengið fullveldi og sjálfstæði Bretlands virkar fyrir það þegar að lífsmikilvægum málum eins að verja þjóðina í og gegn heimsfaraldri kemur. Þar æða Oxford/Spitfire um Stóra-Bretland og hafa nú þegar bólusett 17 prósent þjóðarinnar á meðan, sem sagt, Evrópusambandið miðar sig við Afríku

Ekki gleyma að minnast hér á þriðja flokks orkupakka Evrópusambandsins Gunnar, því nú er svo kalt í veðri í turni ESBhrópsins að Svíar mega helst ekki ryksuga heima hjá sér vegna ESB-hugmyndafræðilegs orkuskorts og pappírsverksmiðjur landsins neyðast til að loka niður, því þá er rafmagnið svo dýrt. Hjarðónæmi meðal forystu Sjálfstæðisflokksins gegn kjósendum hans hefur hins vegar verið náð. Það er þó eitthvað

Og hugsa sér. Nú er ástandið á Ítalíu svo "rosalega gott", eina ferðina enn, að ókjörinn Mario Draghi fyrrum ECB-seðlabankastjóri er að setjast þar við stjórnartaumana, einungis vegna þess að hann þekkir fólk um borð í seðlabanka evrunnar. Kjósendur koma hvergi nærri. Hvert skyldi nú aftur ítalska skútan vera á leiðinni? Tvær aðrar samsteypuríkisstjórnir riða nú til falls á meginlandi Evrópu: í Hollandi og Austurríki

Það besta sem gerst gæti fyrir Ísland er að viðurkenna að við Íslendingar eins og Bretland, getum ekki búið við meginland Evrópu því við erum ekki í Evrópu, og að við leggjum því aftur aðaláherslur okkar í utanríkisviðskiptum á Stóra-Bretland og Norður-Ameríku og nágranna þess í norðri, því ein og sér eru Bandaríkin stærri, öruggari og mun betri og þróaðri viðskiptamarkaður en allt meginland Evrópu. Á því meginlandi er nefnilega flest viðstöðulaust á leið til nýrrar heljar

Segja þarf EES-samningum upp og forða Íslandi út af lögsögu Evrópusambandsins áður en hún dregur okkur lengra niður í meginlandssvað hins þriðja farrýmis hagkerfa. En þar hefur Þýskaland nú náð því nýja en samt gamla þróunarstigi á ný, að það myndi endurframleiða næstum hvað sem er til aftöku á hverju sem er hvar sem er, græddi það túkall á því. Þar býr gömul púðurtunna sig undir nýjar hæðir, einu sinni enn

Bara þetta árið munu hundruð þúsunda manna missa lífið á meginlandi Evrópu vegna pólitískar hugmyndafræði elíta þess um ESB. Sovétríkin voru líka þannig. Þannig hugmyndir kosta nefnilega mannslíf, því þær eru drápsmaskínur"

Gunnar kveður fast að orði eins og venjulega. Sumum kanna að finnast að of fast sé kveðið.

En má ekki Gunnar hafa skoðanir á sínum stjórnmálaflokki Sjálfstæðisflokknum?

Allavega veitir ekki af að andæfa fullveldisframsalsflokkunum báðum, Samfylkingu og Viðreisn sem hræra sína steypu um ESB goðsögnina og Evrudásemdina sem því miður allt of margir kjósendur  virðast trúa.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 10
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 63
  • Frá upphafi: 3418388

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 59
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband