Leita í fréttum mbl.is

Hýr á fundum hanastéls,

hans er lund úr skapi sels.

Bregst ei sprund í byljum éls,

Bárði kundi Daníels

Faðir minn heitinn kenndi mér þessa vísu sem hann ssaði hafa verið orta á RARIK í den. Ég held að höfundurinn hafi verið Elías Mar og yfrkisefnið var minn góði lærimeistari Bárður Daníelsson arkitekt og verkfræðingur. Hann kenndi mér aðra eftir sama mann sem var svona:

Anta jafnan etur bus.

Einnig Pega ríður sus.

Spíri því ei teygar tus

Thorla kappinn snjall cíus.

Kannast einhver við þetta, höfundinn og  Thorlacíus þennan eða eitthvað meira um tildrögin? Áreiðanlega hefur skáldið ort um fleiri samstarfsmenn þarna á RARIK en þar kynntist ég mörgum höfuðsnillingnum eins og hann Árni Jóh brúasmiður kallar þá sem fram úr skara og hefðu þessvegna getað verið yrkisefni svo lipru skáldi sem vísurnar orti.

Jahá, það er langt síðan maður hefur komið á hanastélsfund eftir að bjórið og léttvínsgutlið komst í tísku. 

 


Nú er vá fyrir dyrum!

Enn einn frammámaður ætlar bara að hætta hjá FME. Nú er það Halla Sigrún Hjartardóttir sem ætlar bara að hætta sem formaður!   Skrifar bara Bjarna Ben og segist ekki vera lengur en til áramóta sem stjórnarformaður FME! Og það á þessum erfiðu tímum?

Skyldi Bjarni ekki biðja hana um að sitja obbolítið lengur?  Framlengja viðveruna vegna erfiðra aðstæðna? Það er bara svo mikill skortur á fólki til að vera í Fjármálaeftirlitinu. Menn bara hætta þar hver eftir annan. Þó eru hundruð atvinnulausra á skrá.

Hver getur eiginlega fyllt þetta skarð? Hún má bara eiginlega ekki hætta þessi elska hún Halla Sigrún með allt þetta vit á fjármálum. 


Fréttablaðið í dag

flytur okkur boðskap beggja Samfylkingarflokkanna.

(Ofur?)Björt Ólafsdóttir spyr hvað "þau" ætli að gera í Landspítalamálinu og vanda heilbrigðisstarfseminnar. Sjálf hefur hún engar tillögur enda valdalítil.  Hinsvegar er hún alveg sannfærð um illvilja Sjálfstæðisflokksins í málinu, sem ætli að keyra allan opinberan heilbrigðisrekstur í kaf svo hann geti einkavætt starfsemina(fyrir sig og Engeyjarættina væntanlega ekki undanskilið).

Ég deili vissulega áhyggjum með slíkum ofurskilningi á vandanum sem við blasir. Ég velti fyrir mér hvort svona tvö hundruð indverskir læknar gætu ekki hugsanlega styrkt íslenskt heilbrigðiskerfi til lengri tíma litið? Eða líka mennta hálf-lækna eða paramedics. En skilvirkast er þó líklega að losna við öldrunarbyrðina til Florídu eins og ég hef áður bent á.

Á forsíðunni hlakkar blaðið yfir því að stórátök séu framundan á vinnumarkaði.  Nú verði ekkert stórt samflot í kjarabaráttunni heldur muni einstakir hópar fá fram leiðréttingar eftir þörfum hvers og eins.

Leiðari blaðsins tekur þó af öll tvímæli um að það verði hægt að treysta krónugarminum okkar til að leysast upp í verðbólgubáli þar sem ríkisstjórnin hafi ákveðið að hætta aðildarviðræðunum við ESB og komist þar með ekki að samningaborðinu við Bandaríkin um FATCAT-lögin, sem Bandaríkin hafa sett fyrir alla banka heimsbyggðarinnar að viðlögðum ströngum refsingum. Hussein forseti ætlar ekki að gera endasleppt við þá þegna sinna sem voga sér að eiga bankabók erlendis. Líklega hefur hann frétt af því að slíkt hefur verið útbreiddur glæpur á Íslandi lengi og praktísérað af kynslóðum íslenskra útrásarvíkinga. Stórveldið geti hinsvegar það sem smáríkin geta ekki nema þau séu hluti af öðru stórveldi  gagnvart þessum yfirgangi stórveldis Bandaríkjanna. Eins og útrásarvíkingar séu ekki nógu hrjáðir fyrir?

Í sjálfu sér er þetta ekkert mikið frábrugðið kaupum þýskra skattayfirvalda á stolnum upplýsingum úr erlendum bönkum.  Íslensk yfirvöld liggja nú undir feldi um það hvort þeu eigi að fara sömu leið til að nappa okkar fólk. Vandinn er sá að við getum ekki kúgað neinn né rifið "stor-kjæft" eins og þjóðskáldið orðaði það.

En alls staðar eru tækifærin til útrásar fyrir okkar menn.  Er ekki þarna komin leið fyrir okkur að þéna duglega um leið og við hjálpum bræðraþjóðum okkar í ESB ?  Selja yfirvöldum þar í löndum lista um eigendur Icesave reikninganna í Landsbankanum?   Hvaða réttlæti er líka fólgi í því ef belgíski tannlæknirinn eða breski sjoppueigandinn eigi að komast upp með að telja ekki rétt fram ef að Kanar ætla að hanka sitt fólk?

En í dag  sýna Kratar veldi sitt með Fréttablaðinu á móti Morgunblaðinu, sem þó er með þykkara móti. Þarna sannast að ritstjórnarlegt sjálfstæði ræður ríkjum á þessu útbreiddasta dagblaði landsins.  Skítt með það að efnahagsreikningur útgáfunnar  sé með þeim hætti að 2/3 hans séu viðskiptavild og óefnislegar eignir sem kallast svo. Hlutfallslegt skuldafjallið er því af þeirri stærð að eigendur þess  hljóta að vera baktryggðir hjá þeim sem aldrei klikka því annars myndu þeir trautt fá sofið. Ekki hefur að minnsta kosti heyrst talað um veðköll eins og stundum heyrast hjá minni spámönnum. Þetta  bendir auðvitað til mikils viðskiptatrausts og óbilandi trúar á hlutverk blaðsins.

Fréttablaðið  í dag er hið myndarlegasta og stútfullt af auglýsingum sem gaman er að lesa. Útgáfa þess er afrek út af fyrir sig sem við skulum lofa og prísa. 

 


Mogginn í dag

flytur margan boðskapinn.

Afrek stjórnarformanns Fjármálaeftirlitsins á viðskiptasviðinu vekja athygli mína. Ég velti fyrir mér hvort ekki aðrir viðskiptajöfrar komi ekki til greina í þau embætti á vegum íslenska ríkisins  sem krefjast sannaðrar  fjármálareynslu. Það koma mörg nöfn í hugann þó nöfn Jóns Ásgeirs, Pálma í Fons, Björgólfanna og margra fleiri  hljóti að koma snemma til álita. Reynsla þessara mann gæti orðið  gagnleg fyrir hann Humpfrey. 

Enn ein grein um ágæti þess fyrir Íslendinga að ganga í ESB birtist eftir Einar Benediktsson ambassador. Hann er raunar búinn að skrifa margar afbragðs greinar í Morgunblaðið sem allar enda samt á niðurstöðu í ætt við Cato hinn gamla, sem vildi  jafnan láta berja á Karþagó.  Fyrir mitt leyti er ég búinn að heyra þennan boðskap Einars nokkuð greinilega og veit því jafnan við hverju er að búast.  Hann má þó eiga það að hann vefur niðurstöðuna stundum fimlega inn í önnur mál sem hann fjallar um af mikilli þekkingu að því að ég best fæ séð.

Síðan skrifar sá óþreytandi Eðalkrati og Samylkingarmaður Björgvin Guðmundsson um  það hvað þjóðin skuldi okkur gamlingjunum.

Ég er ekkert viss um að þjóðin skuldi okkur ellibelgjunum eitt eða neitt. Við eigum sjálfir að reyna að losa þjóðina við okkur og létta þessum leiða kostnaði af unga fólkinu sem á nóg með sig eða allavega að reyna að draga úr honum en ekki bara að auka framlög til okkar.   Eitt sem til greina kemur að mínu mati er að íslenska ríkið útvegi íbúðablokkir á Flórídu þar sem gamlingjar geta verið lungann úr árinu og lifað á verðlagsmismuninum hér og þar. Þar er dagsfæðið lægra en hér þykir ótrúlegt og bensínið þriðjungur af okkar verði. Og brennivínið ódýrara en sykurskattaður landi.

Nú eða gera þeim kleyft að búa um borð í skemmtiferðaskipunum þar sem framfærslan er mun ódýrari en hérlendis. Mér finnst að Björgvin og Ssamfylkingin ætti að snúa sér að slíkum grunndvallar rannsóknum á kostnaði vegna öldrunar.

Svo mega mannkynsfrelsarar alveg velta því fyrir sér hvort tölur um upplagsfjölda Fréttblaðsins séu réttar og hvort það blað  móti ekki skoðanir mun fleiri en minningargreina þjakað Morgunblaðið gerir í smæð sinni?


Gjaldeyristekjur

af ferðamennsku vaxa ára frá ári þrátt fyrir áberandi óskynsemi í verðlagningu innanlands þar sem hver ryðst um annan þveran að gefa útlendingum peninga í formi afslátta.Og þjónkun við erlenda óperatora innanlands í stað þess að gera þeim lífið brogað á penan hátt.

Gjaldeyristekjur af fiskiðnaði standa  í stað. Það er mál margra að það stafi ekki af fiskleysi í sjónum heldur af því að það sé LÍÚ og bankarnir sem stjórni hvaða fiskveiðiheimildir sé veittar en ekki vísindin. Magnið sé ákveðið með tilliti til þess að kvótinn sem veðsetningarandlagi rýrni ekki per tonn með aukningu afla.  Því sé búið til stöðugt fiskleysi og því sé sífelldur skortur á þorsk-og ýsukvóta. Ekki af einhverjum skorti á fiskigengd í sjónum. Og vegna skorts á smáfiskadrápi getur stofninn ekki vaxið að því að sumir segja.  Þá er vísað til þess tíma þegar Tjallinn klæddi pokana og jafnstöðuafli var 400 þús tonn.

Svo eigi þessi þjóð að halda áfram að auk við sig gjaldeyristekjum er ljóst að ferðamennska er komin á endapunkt hvað landið sjálft og klósettin þola. Það verður því að hækka verðið frekar en að  fjölga hausunum stöðugt sem inn koma.

Sjávarútvegurinn eykur ekki við sig  með óbreyttu fiskveiðistjórnunarkerfi. Fiskeldi getur aukist mikið. Stóriðja og virkjanir eru enn möguleg. Iðnaður og hugvit getur enn vaxið. Það má bara ekki fjölga fólkinu innanlands með stjórnlausum innflutningi vinnuafls. Jafnstaða verður að ríkja í þessu öllu eigi rauntekjur að vaxa.

Það sem skiptir máli eru gjaldeyristekjur á hvern vinnandi Íslending. 

 

 


Villigötur

eru til umræðu í fortystugrein Mogga í dag . Þar segir m.a.:(bloggari stjórnar feitletrunum)

"Við Íslendingar búum ekki við umferðarteppur á borð við þær sem nágrannar okkar gera. Hins vegar er umferðarþunginn mikill á íslenskum villigötum. Það sýndi umræðan um byssueign lögreglu eftir að yfirvöld ákváðu endurnýjun þar, þegar það var sérlega hagfellt. Þá urðu þeir að vonum fyrstir út á villigöturnar sem þangað rata best. Og í þetta sinn önuðu of margir á eftir. Fullyrt var að endurnýjun á vopnunum fæli í sér breytingu á því að almennir lögreglumenn bæru ekki vopn við störf sín. Engu breytti þótt strax yrði ljóst að um vanþekkingu og misskilning væri að ræða.

 

Villigöturnar eru ekki hannaðar fyrir mikla umferð. Þær stífluðust því fljótt og komust þeir sem þangað höfðu álpast hvorki lönd né strönd. Þeir vita því ekki enn, að íslenska lögreglan hefur átt skotvopn í sínum geymslum í 80 ár. Og lengst af í mun meira magni en nú, og er þá endurnýjunin nú talin með. Eftir Gúttóslaginn var hverjum lögreglumanni úthlutað einni skammbyssu. (Ekki til að bera í daglegum störfum sínum, heldur til að geta gripið til, með sérstöku leyfi, steðjaði mikil vá að.) Um leið fékk lögreglan 5 handvélbyssur, en allt lögregluliðið var þá ekki nema 27 menn. Árið 1941 fékk lögregluliðið 25 hríðskotabyssur til viðbótar (og 100 marghleypur að auki). Þá voru lögreglumenn aðeins 60 talsins. Þessi byssueign breytti engu um það að íslenskir lögreglumenn voru jafnan óvopnaðir, ólíkt kollegum sínum á hinum Norðurlöndunum.

Mjög fá lögreglulið hafa þann háttinn á. Breska lögreglan er einnig óvopnuð í daglegum störfum sínum. Ekki þarf þó lengi að fara um miðborg Lundúna til að sjá þungvopnaða lögreglumenn nærri Downingstræti 10, í kringum bandaríska sendiráðið, sendiráð Ísraels, Sádi-Arabíu og fleiri slík. Og í fjölmörgum lögreglubifreiðum eru geymd vopn í lokuðum hirslum og þarf sérstakan háska til að þau megi nálgast og leyfi yfirmanna á lögreglustöðvum. Það er vissulega huggun hinni heimskulegu umræðu gegn að lögreglan á villigötunum verður örugglega óvopnuð áfram. Enda bíta nútímavopn ekki á heimsku, eins og þeir þingmenn þekkja sem best eru að sér í tölvuleikjunum. "

Þetta er eins og formáli fyrir grein Árna Árnasonar um sama mál sem er á sömu opnu í  blaðinu. þar fimbulfambar formaður Samfylkingarinnar um akkúrat sömu atriðin og kemst að kolrangri niðurstöðu að sjálfsögðu í þessum máli sem öðrum.

..."Grundvallarbreytingin sem nú er boðuð er að hríðskotabyssur sem norski herinn - ekki norska lögreglan - hefur hingað til notað, verði almennt aðgengilegar fyrir íslenska lögreglu. Sérstakt áhyggjuefni er ef brotamenn geta gengið að því sem vísu að í lögreglubílum séu skotvopn. Það mun hafa áhrif á viðbúnað þeirra og nálgun þeirra gagnvart brotaþolum og löggæslunni. Hvernig munu brotamenn bregðast við aðvífandi lögreglubifreið ef þeir vita að í henni eru skotvopn og lögreglumenn hefur beina heimild til að nota þau? Munu þeir þá vígbúast frekar? Beita lögregluna eða brotaþola meira ofbeldi?

 

Samhengi vopnaburðar lögreglu og afbrota hefur verið gríðarlega mikið rannsakað og rökrætt í öllum löndum. Hér á landi höfum við rökrætt hvort lögreglan eigi að hafa rafbyssur og ekki komist að niðurstöðu enn. Það er algerlega óhugsandi að grundvallarbreyting á aðgangi lögreglumanna að sjálfvirkum hervopnum í daglegum störfum sé ákveðin af fáeinum yfirmönnum í lögreglunni, án lýðræðislegrar umræðu og umboðs. Það er tími til kominn að ríkisstjórnin standi undir lágmarkskröfum sem gera verður til ábyrgra stjórnvalda."

Getur maður fengið verk í höfuðið að lesa svona samsetning?  Hver er tilgangurinn með svona skrifum?  Getur hann verið annar en rammpólitískur? Er þetta rökfræðileg greining í ljósi framan sagðs? 

Villgötur eru vandrataðar.


Hver pantaði hólkana?

sem hafa farið fyrir brjóstið á mörgum? Einn viðmælandi minn hefur haldið því ram að það hafi verið í tíð norrænu velferðarstjórnarinnar sem bestillingen foregikk. Sem auðvitað skiptir ekki minnsta máli.

Hríðskotabyssa er ekki vopn sem týpa eins og Breivik myndi velja sér af augljósum ástæðum, allt of eyðslufrek á einingu. Maður gæti ekki leyft sér að skemmta sér með svona græju eins og maður vildi kannski þar sem maður færi strax á hausinn. Fimmþúsund kall pakkinn er farinn á nokkrum sekúndum. Það er allt annað en að eiga hana í safni sínu undoir lás og slá bara til að eiga hana. Og kannski hleypa af svona endur og sinnum. Ég efast um að safnarar myndu hafa fleiri ráð en aðrir ef kalífarnir kæmu? Það er ríkið sem verður að sjá um innrásir og hryðjuverkamenn, ekki almenningur. Til þess þarf vald, skipulag, þjálfað fólk. Eins og Clint Eastwood sagði þá er það heilmikið mál að drepa mann. Taka allt sem hann á og allt sem nokkurntíman gæti eignast. Venjulegt fólk skilur þetta og hikar. Hermaðurinn er undirbúinn andlega og líkamlega. Við eigum að virða hann fyrir  að vilja berjast fyrir okkur sem getum það ekki sjálf.    

Það er hægt að fara til Ameríku og fá að taka í svona apparöt eins og hríðskotabyssur. Ofsalegt þrill en rándýrt og menn fara varla oft í þá skemmtun þegar menn hugsa hvað er hægt að fá marga bjóra fyrir smellinn.  Það er alltaf að koma upp að það sé svakalega hættulegt hvað Íslendingar eigi margar byssur af öllum gerðum. Ekki bara haglara heldur allskyns stríðstól. Hugsanlega jafnmargar byssur og Bandaríkjamenn? Canadamenn eiga álíka margar  byssur og Bandaríkjamenn án sömu vandamála.  Ég held Norðmenn eigi slatta líka.

En eru það þessi einkaeign á skotvopnum sem safnarinn gætir eins og sjáldurs auga síns, sem glæpunum valda? Valda hnífarnir afhausunum Kalífanna? Olli biflían galdrabrennum miðalda?  Veldur Kóraninn glæpum Islamistanna? Veldur brennivínið vandræðum alkóhólismans?  Veldur dópið neyslunni? Þar ekki bæði hendur og vilja til?

Ekki bara aðgengi eins og einfeldningarnir kalla það. Ef þú ert með typpi þá ertu allt að því líklegur nauðgari? Hversu langt getur vitleysan gengið?

Það eru þessar einfaldanir og alhæfingar sem gera umræðuna stundum svo leiðinlega og þröngsýna. Það var framið morð hundrað metra frá mínum svefnstað. Morðvopnið var skrúfjárn alveg eins og ég á. Á ekki að banna skrúfjárn vegna þess að það er hægt að myrða með þeim?  Þurfum við ekki að hugsa svolítið áður en við tölum?

Það skiptir engu hver pantaði hólkana ef íslenska ríkið, lögreglan og landhelgisgæslan og helst varalögreglan eða þjóðvarðliðið  þurfa að geta gripið til þeirra. 

Það skiptir ekki máli hver pantaði hólkana. Hólkarnir eru hlutlausir. Það er aðeins notkunin sem veldur deilur. Bara góðir gæjar með slíka hólka getur verndað okkur frá vondum gæjum með svoleiðis hólka og geta afstýrt því að þeir drepi okkur.  Aðeins ég get afstýrt því að ég verði fullur eftir kortér af því að ég á flösku og er með aðgengi að henni. Eða getur Alþíngi haft áhrif á ákvörðun mína að geyma hana til betri tíma með þingsályktun?


Bullið um byssurnar

sem hingað koma frá Noregi,  á auðvitað upptök sín hjá ofbeldissinnuðum hópum kommúnista og taglhnýtingum þeirra. Enda eru samtök kommúnista þau einu sem á fyrri árum stefndu óhikað að vopnaðri byltingu. Þeir vopnuðust á laun og margir gengu á herskóla í Sovétríkjunum. Ég á til dæmis riffilskot með stálkúlu sem fylgdi herriffli sem einn slíkur átti. Það er eðlilegt að slík öfl fylgist grannt með upplýsingum um vopnaeign yfirvalda þó þau muni að sjálfsögðu fífil sinn fegri.

Allt þetta tal hefur samt stórskaðað löggæsluna okkar og skaðað möguleika hennar til að fást við nýjar ógnir sem að kunna að steðja. Þetta þykir öllum miður nema þeim öflum, sem vilja grafa undan lögum og reglu sem áfanga að byltingunni og yfirtöku á þjóðfélaginu með ofbeldi. 

Það á aðvitað alls ekki að upplýsa yfir hvaða tækjum og tólum íslenska ríkið ræður ef þörf myndi krefja.  Allt þetta upphlaup hefur verið stórkaðlegt fyrir öryggishagsmuni í slenskra borgara. Þessi málefni eru ríkisleyndarmál sem hættuleg samtök óvina ríkisins varðar ekkert um.

Lekar og kjaftagangur í sorpblöðunum er orðið vandamál óvandaðrar stjórnsýslu  sem verður æ meira áberandi með hverju ári sem líður. Bullið um byssurnar 250 þarf að hætta því það er skaðlegt fyrir öryggi  þjóðfélagsins í heild.


Billjónir í bakreikning

fá Bretar frá Barrosso.  Brussel- Kónginum þykir hæfilegt að Breskir greiði tvær og hálfabilljón dollara til viðbótar til EU. Bara stærðfræðilegs eðlis milli vina segir hann.

Nigel Farage er hreinskilinn: “The EU is like a thirsty vampire feasting on UK taxpayers’ blood.”

Billjónir í aukaútsvar til EU "eftir efnum og ástæðum" eins og í sveitinni hjá okkur í gamla daga.  

 


Menntakerfið okkar er sjúkt

hvað sem hástemmdum yfirlýsingum stjórnmálamanna líður.

Það er að skila ófullnægjandi vöru með of miklum kostnaði. Ólæsir og óreiknandi nemendur koma upp úr grunnskólanum í miklum mæli. Kennarar okkar eru því  miður að skila þessari niðurstöðu þegar gengið er útfrá því að efniviðurinn hafi ekki versnað  að marki á síðustu áratugum.

Orsökin er fólgin í minnkun bekkjardeilda og afnámi vals í bekki á grundvelli námsgetu. Góður kennari getur alveg kennt 35 nemendum sem vilja og geta lært meðan hann getur ekki kennt 20 nemendum þar sem helmingurinn vill hvorki né getur lært á sama hraða og hinir betri námsmenn. Hinir betri námsmenn  fá ekki viðfang krafta sinna í skólanum og við erum því að kasta hæfileikum mannauðs á glæ. Sama er uppi á teningnum í framhaldsskólanum. Eigi að stytta hann verður að taka upp sömu skiptingu.

Menntakerfið okkar er sjúkt og verður að skera upp ef lækka á kostnað og auka skilvirkni. 


Bitið í skjaldarrendur

á ársþingi ASÍ.

Margar beittar ræður fluttar og allar eiga það sameiginlegt að krefjast óðaverðbólgu og gengisfalls ekki seinna en í vetur. Það er líklega stiginn dans í höllu Þorsteins Víglundssonar hjá SA við þessi heróp og sitja nú líklega einhverjir með sollin fés fyrir 1.des í Seðlabanka.

Helsta réttlætingin er fyrir mikilli kröfugerð eru miklar hækkanir hjá tilteknum mönnum sem hafa skammtað sér miklar hækkanir umfram alþýðu. Margir af þeim á grundvellinum"éáettaémáetta" en aðrir í skjóli umboðssvika og  almennrar bófamennsku svo og greindarskertrar blindu á samfélagslega ábyrgð.

Það eru ekki greinilega ekki þóknanlegar kjarabætur að styrkja gengið og lækka verð á bensíni og bílum og stöðva verðbólgu.  Þjóðin hefur talað um óþolinmæði sína með því að Íslendingar streyma úr landi og Pólverjar taka þeirra stöður. Pólverjar er margir víkingar til vinnu en latir að læra tungumál. Ef til vill skýring á ferðum Íslendinga og velgengni vestan hafs og austan. 

Þá er að bíða eftir næsta leik. Fyrst skal semja um kjör þeirra lægst launuðu um eitthvað nógu lítið eftir vellukkað verkfall. Síðan fyrir næsta hóp um heldur meira eftir enn betra verkfall. Svo við þar næstu um enn meira eftir enn betra verkfall. Svo hækka þeir sem reiðin beinist núna að á þingi ASÍ sig sjálfa um þrefalt það, án nokkurs verkfalls með vorinu. Það virðist nefnilega ekki vera hægt að taka þá útfyrir sviga og fórna þeim, þó þeir skipti fremur tugum en hundruðum sem ASÍ beinir nú sjónum að sem réttlætingu aðgerða. 

Auðvitað hefði verið best að semja aðeins við alla í einu fyrir opnum tjöldum í einu verkfalli. En það er ekki til siðs svo að við kunnum þetta allt utanað. Nú er hægt að spá um hagvöxtinn fram í tímann sem aldrei fyrr og gengi krónunnar að ári liðnu. Nú get ég sagði kerlingin.

Nú bítum við í skjaldarrendur og hefjum kjarabaráttuna sem aldrei fyrr.  


Ofbeldi Essbjarnar og DagsBé

við Reykjavíkurflugvöll er farið að ganga gersamlega fram af fólki.

Þetta tvíeyki sem fólkið kaus frá en fékk samt vegna þess að þeir keyptu sér einfaldlega Píratahækju með Borgarpeningum, hefur einbeittan brotavilja við það starf sitt að eyðileggja Reykjavíkurflugvöll með einum eða öðrum hætti.

Leifur Magnússon skrifar upplýsandi grein um þetta ferli í Morgunlaðið í dag. Ég hvet fólk til að kynna sér málið með því að lesa greinina. Og fyrir þá sem trúa Fréttablaðinu um að enginn lesi Moggann þá er greinin hér:(bloggari feitletrar að vild)

" Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur er nú með til umfjöllunar að heimila fasteignafélögunum Valsmönnum hf. og Hlíðarfæti ehf. að hefja strax framkvæmdir á svonefndu Hlíðarendasvæði, og þá samkvæmt skipulagi, sem hefði í för með sér lokun flugbrautar 06/24 á Reykjavíkurflugvelli. Slík samþykkt þarf síðan staðfestingu bæði borgarráðs og borgarstjórnar.

 

Við lokun flugbrautarinnar lækkar nothæfisstuðull flugvallarins, skilgreindur samkvæmt ákvæðum ICAO og Reglugerðar um flugvelli nr. 464/2007, úr 98,2% í 93,8%, og þar með niður fyrir það 95% lágmark, sem í þeim ákvæðum eru tilgreind. Árleg viðbótarlokun flugvallarins verður því 16 dagar. Á þeim dagafjölda þurfa sjúkraflugvélar Mýflugs almennt að flytja 24 stórslasaða eða fársjúka til Reykjavíkur, og að jafnaði er helmingur flugferðanna skilgreindur sem forgangsflug, þ.e. engan tíma megi missa við að koma sjúklingi í sérhæfða meðferð á Landspítala.

 

Hvernig gat það gerst að örfáir stjórnmálamenn í sveitarstjórn gætu tekið slíka afglapaákvörðun um miðstöð innanlandsflugsins? Hefur þessi hópur ekki réttar upplýsingar á sínum borðum, eða skilja þeir ekki alvöru málsins? Hafa þeir allir náð að kynna sér þær ítarlegu athugasemdir, sem borginni bárust, m.a. frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Icelandair Group og flugfélaginu Mýflugi og læknisfræðilegri þjónustu sjúkraflugs? Einnig frá samtökunum Hjartað í Vatnsmýri, sem tjáðu sig fyrir hönd þess 69.791 landsmanns, sem í sumarlok 2013 undirritaði eftirfarandi áskorun til Reykjavíkurborgar og Alþingis: »Við leggjumst gegn þeim áformum að flugvallarstarfsemi víki úr Vatnsmýri og skorum á Reykjavíkurborg og Alþingi að tryggja öllum landsmönnum óskerta flugstarfsemi í Vatnsmýri til framtíðar.«

 

Hvernig má það vera, að Alþingi og ríkisstjórn sitji hér hjá nánast máttlaus gagnvart slíku gerræði nokkurra borgarfulltrúa, sem hafa að yfirlýstu markmiði að flugvelli höfuðborgarinnar verði hið fyrsta lokað? Hluti skýringar er væntanlega sú staðreynd, að nú sitja í lykilembættum innanríkisráðherra og forstjóra Samgöngustofu tveir fyrrverandi borgarstjórar Reykjavíkur, sem báðir höfðu á sinni stefnuskrá að flugvellinum skyldi sem fyrst lokað. Það er dagljóst, að ekki er að búast við miklum vörnum fyrir flugvöllinn úr þeim tveimur stofnunum ríkisins á meðan svo hagar til.

 

Í því skjali án fyrirsagnar, sem Hanna Birna innanríkisráðherra og Jón Gnarr borgarstjóri undirrituðu ein og sér 25. okt. 2013, í kjölfar ákvörðunar fleiri aðila um skipun verkefnisstjórnar undir formennsku Rögnu Árnadóttur, er í inngangi skjalsins lögð sérstök áhersla á að um sé að ræða vinnu »í samræmi við áður undirritaða samninga«, án þess að þeir séu þar nánar tilgreindir. Í bréfi innanríkisráðuneytis til Isavia ohf., dags. 30. des. 2013, eru hins vegar tilgreindir fimm meintir »samningar« frá árunum 1999-2013. Svo vill til, að öll umrædd fimm skjöl eru með öllu gildislaus hvað varðar hugsanlega lokun flugbrautar 06/24.

 

Rétt er að minna enn á ný á eftirfarandi ákvæði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem formenn beggja flokkanna kynntu 22. maí 2013: »Reykjavíkurflugvöllur er grundvallarþáttur í samgöngum landsins. Til þess að hann geti áfram gegnt því mikilvæga þjónustuhlutverki, sem hann hefur gegnt gagnvart landinu öllu, þarf að tryggja framtíðarstaðsetningu hans í nálægð við stjórnsýslu og aðra þjónustu.«

 

Ætla formennirnir tveir að sætta sig við að þetta reynist aðeins innihaldslaust hjal? Reykjavíkurflugvöllur er ekki einkamál eins ráðherra. Um tilvist hans og framtíð þarf öll ríkisstjórnin að fjalla. Heilbrigðisráðherra fer með yfirstjórn sjúkraflugs. Er hann sáttur við þá alvarlegu skerðingu, sem það verður fyrir við lokun flugbrautar 06/24? Niðurstaða formlegs áhættumats, sem Isavia ohf. lauk við 8. apríl sl., og sendi til innanríkisráðuneytis, var sú, að lokun flugbrautar 06/24 var metin »óásættanleg« og jafnframt vakin athygli á því að nothæfisstuðull flugvallarins færi niður fyrir 95% lágmarkið. Í áhættumatinu kom einnig fram, að velferðarráðuneyti (heilbrigðisráðuneyti) er ætlað að veita sérstaka umsögn um áhrif lokunar flugbrautarinnar á sjúkraflugið. Hefur innanríkisráðuneytið upplýst velferðarráðuneytið um þennan þátt, og liggur umsögn þess um sjúkraflugið fyrir?

 

Samkvæmt skipulagslögum hvílir sú skylda á sveitarfélögum, að þau láti gera skipulag. Þeim ber síðan að senda skipulagstillögur sínar til Skipulagsstofnunar ríkisins til staðfestingar. Eftir atvikum er það síðan í höndum þeirrar stofnunar eða umhverfisráðherra sjálfs að veita slíka staðfestingu. Umhverfis- og auðlindaráðherra er æðsti yfirmaður skipulagsmála landsins. Er hann sáttur við að eftirláta forstjóra Skipulagsstofnunar að staðfesta stórgallaðar tillögur Reykjavíkurborgar að nýju aðalskipulagi og deiliskipulagi flugvallarsvæðisins? Hefur hann kynnt sér þá afstöðu, sem forstjórinn hefur haft til Reykjavíkurflugvallar, og fram kom í erindi hans á »Málþingi um flugmál«, sem Háskólinn í Reykjavík efndi til 19. janúar 2012?"

Örfáir Borgarfulltrúar er athyglisverð upplýsing.

Þarna eru nefnilega aðallega tveir menn á ferð sem misnota aðstöðu sína með keyptum málaliða. til að berja fram sín hugðarefni í andstöðu við 70 þúsund manna undiskriftalista og stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og meirihluta Alþingis. Hvernig má það vera að hægt sé að valta svona áfram eins og óstöðvandi herveldi sem mylur allt undir sér? Hvar er Jón Gunnarsson með eignarnámsfrumvarpið ?

Eru allir landsmenn, ríkisstjórn og Alþingi  varnarlausir fyrir ofbeldi  þessa kalífats Essbjarnar og DagsBé? 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.9.): 2
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 3421377

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband