Leita í fréttum mbl.is

Krónan mun rísa úr öskustó.

Evran er ekki það gersemi sem margir halda. Ef ekki bara Gylfaginning ?  

 

Lesin inn: 29.3.2010

Ég var að lesa hugleiðingar Gunnars Rögnvaldssonar í þunglyndi mínu yfir því hvað engum blogglesanda finnst neitt athugavert við ræðu Gylfa Magnússonar ráðherra  á ársfundi Seðlabankans um það, hversu ómögulegt væri fyrir Íslendinga að hafa eigin gjaldmiðil áfram.

 

Gunnar birtir á sínum síðum línurit yfir hagsögu Írlands eftir að þeir tóku upp evruna. Ég leyfi mér að endurbirta það hér til að vekja athygli á þeim staðreyndum sem við blasa. Í stuttu máli virðist landsframleiðsla dragast miklu meira saman á Írlandi en til dæmis á Íslandi. Atvinnuleysi fer vaxandi.  

 

Maður þarf ekki að fara langt aftur í tímann til þess að muna eftir því að menn töluðu um írska undrið. Eftir umbætur í skattamálum streymdu fyrirtæki til Írlands og uppgangur landsins var öfundarefni víða um heim. Allt er þetta breytt. Írar tóku upp evruna með þeim afleiðingum að þar er nú allt í kaldakoli. Enginn hefur lausn á því hvað gera skuli. Vegna þess að það er ekki hægt að fella gengið þegar búið er að taka upp evruna. Það er ekki hægt pólitískt að gefa út tilskipun um að öll laun skuli lækka um tiltekinn  hundraðshluta en allt innflutningsverðlag skuli hækka um annan hundraðshluta. Þetta gerist í gengisfellingu hjá þjóðfélögum sem eru búin að spila rassinn út buxunum með kauphækkunum sem engin innistæða er fyrir. Þjóðfélög sem kasta sér út í kapphlaup milli kaupgjalds og verðlags. Allt samgróið sögu hinnar íslensku þjóðar.

 

Núna eru menn sem óðast að gleyma því hvað var gert í þjóðarsáttinni 1990. Þá talaði Einar Oddur svo skýrt mál fyrir þjóðinni, að örmagna fólkið skildi nauðsyn þess að reyna nýjar leiðir eftir að hinar hefðbundnu höfðu brugðust.  Einar hafði áður sannfært forystumenin verkalýðshreyfingarinnar eins og Guðmund Jaka og forystumenn vinnuveitenda um að ganga skynseminni á hönd. Jafnvel Ólafur Ragnar dró samninga við BHM til baka vegna skriðþunga þungavigtarmannanna og  vinstristjórn Steingríms Hermannssonar glúpnaði fyrir Oddinum. Nú hljómar því miður ekki rödd  Einars Odds lengur á þjóðmálasviðinu. menn koma ekki í manns stað í öllum tilvikum.  Nú halda margir menn ræður hástöfum og bjóða allsherjarlausnir án þess að gæta að grunninum sem Einar Oddur skýrði aftur og aftur fyrir mönnum þangað til að þeir sáu ljósið.

 

Sem er að tekjur verða að hrökkva fyrir gjöldum.  Einar Oddur sagði í raun ekkert annað við þjóðina. Hann hafði aðeins þennan einstaka sannfæringarkraft sem dugði til þess að fólkið trúði honum.Ég tel Einar Odd hafa verið einn af mestu mönnum síðustu aldar, slíkan ljóma finnst mér leggja frá hans störfum í Vinnuveitendasambandinu við gerð þjóðarsáttar. Nú eru váboðar framundan og kröfugerðir um kauphækkanir einstakra stétta um tugi prósenta fram komnar. Nú vantar rödd Einars Odds sárlega til þess að útskýra fyrir þjóðinni hvernig hófstilling muni færa viðkomandi meiri kjarabætur fyrr heldur en verkföll og verðbólga. Undir slíkri forystu myndi þjóðin verða árum fyrr að ná vopnum sínum heldur en nú horfir.

 

Mér finnst langur vegur frá því að Gylfi Magnússon  hafi þennan sannfæringarkraft þegar hann boðar Íslendingum upptöku evru. Hann getur heldur ekki bent á önnur lönd sem dæmi um hvernig þetta reynist. Er þá furða þó að ég efist um boðaðar Evrópuráðagerðir og finni ekki sannleikann í boðskap bandalagssinnanna?

Hvaða rök liggja til þess að línurit fyrir evruvætt Ísland muni líta öðruvísi út en línuritið um Írland hér að ofan? Svo eru líka Spánn og Grikkland.  Evrutengt Lettland hefur hrunið mest allra ríkja. Danmörk heldur sjó ennþá en hversu lengi?. Hvenær gefst Þýskaland upp á að draga evruvagninn?   

Nei, ég held að krónan sé okkar leið upp úr öldudalnum. En dalbotninn er langur og lengist eftir því sem Vinstri Grænum  í misskilningi sínum á eðli þjóðfélaga  tekst að koma í veg fyrir allar leiðir Íslendinga til hagvaxtar og atvinnu í landinu.  Þegar erlend fjárfesting streymir til landsins á ný og vinnufúsar hendur leggjast á plóginn mun íslenska krónan blómstra á ný. Við verðum hinsvegar að gæta hennar vel og leggja rækt við hana. Hún mun fljótt svara góðu atlæti og rísa úr öskustó. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Björnsson

Kína og Indland bjóða bestu Alþjóðafjárfesta heim: þar gildir ódýr stétt með stétt, þá sem vilja hámark innri arðsemi sinnar starfsemi. Meira segja Þjóðverjar gera sér grein fyrir þessu. Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir. Einu sinni trúðu Íslendingar á mátt sinn og megin, nú er sagan önnur. EU mun að öllum líkindum fjármagna allar fjárfestingar í þágu síns kvóta skipta samkeppni grunnar: umfram hráefna og orku, til dreifingar og eflingar fullvinnslu og tækniframleiðslu á öllum sjálfstæðu Seðlabanka efnahagslögunum í innri samkeppni um að auka innri evruhagnað.  Ísland fær sína hlutfallslegu skiptingu: miðað við innra gengi og nettó þjóðartekjur eða nettóhagvöxt síðustu 5 ára. 

10% vinna ekki lýðræðislegar kosningar þau má útskúfa.

Norðurlöndin til samans eru varla 8% innan EU allsherjar.

Júlíus Björnsson, 31.3.2010 kl. 17:49

2 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Það er mjög vinsælt hjá krónuaðdáðendum að finna einhverjar afmarkaðar hagtölur og kenna evrunni um.

vissulega gæti verið að gengisfall hjá Írlandi gæti hjálpað til. Með þeirri kjaraskerðingu sem því fylgir. Gott fyrir útflutningsfyrirtæki (spurning með almenning sem verða á lægri launum)

En ef við erum að tala um "evra v.s króna" þá er það dálítið hallærislegt vegna þess að valið er augljóst.

Þótt að írland er eitthvað að síga í dag þá hefur hagkerfið þarna gegnið mjög vel seinustu ár einsog þú bendir réttilega á.

þegar þú  hefur verið að keyra á 150km hraða þá finnst þér 90km hraða mjög hægur.

En ekki er Írland með gjaldeyrishöft, ags, háa stýrivexti.... fyrir utan að krónan er ónothæfur gjaldmiðill allstaðar nema á Íslandi..  svona svipað og Disney peningur.

Sleggjan og Hvellurinn, 31.3.2010 kl. 20:32

3 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Krónan getur aðeins verið sterk og vegna þessa; hér er endalaust miklu meira en nóg af vatni, hér er endalaus matvælaframleiðsla til lands og sjávar, og hér eru miklir möguleikar til orkuframleiðslu. Við höfum allt með okkur og það mun styrkja gjaldmiðil okkar.

Baldur Fjölnisson, 31.3.2010 kl. 21:02

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Baldur

Gott að heyra í Íslendingi sem sér möguleika í landinu sínu.

Halldór Jónsson, 31.3.2010 kl. 21:16

5 Smámynd: Júlíus Björnsson

Evran er sniðinn að ríkjum sem fullnýta sínar eigin náttúruauðlindir sér til hærri grunnlauna. Umfram framleiðsla fullvinnslu og tækni fer svo í varasjóði og reddingar á orku og hráefna til að skapa ennþá meiri innri virðisauka afkasta mikillar þjóðar andlega og líkamlega.

Þjóðverja vissu alltaf um yfirborði sína strax 1957.

Ekki fljótandi króna gæti gert Íslendingu sama gagn og evran Þjóðverjum ef þeir hætta þessum afætu og apa [eftir] hugsunarhætti sem er ekki menningararfleið Norð-Vestur ríkja jarðar. 

Sleifin býr ekki til grautinn og étur hann ekki heldur. HHún snýst um sjálfan sig.

Júlíus Björnsson, 31.3.2010 kl. 21:26

6 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Landsframleiðsla á mann í USD á skráðu gengi árið 2007: 65.285 USD (Landshagir 2009)

Landsframleiðsla á mann í USD á skráðu gengi árið 2009: 38.020 USD (vefur hagstofunnar)

Þetta er mismunur upp á  27.265 USD eða 41,76%.

Mér sýnist efnahagssamdráttur Írlands vera samanlagður 13,2%.

Krónan mun alltaf verða of lítil til að hún geti orðið nothæf, einfaldlega  vegna þess að Seðlabankinn mun aldrei getað varið hana vegna spákaupmennsku.  Stuðningsmenn krónunnar eru því stuðningsmenn gjaldeyrishaftanna sem, skv. skýrslu Standard & Poor's, draga úr jafnt og þétt úr fjárfestingu og skerða lífskjör í framtíðinni.

Lúðvík Júlíusson, 1.4.2010 kl. 01:46

7 Smámynd: Júlíus Björnsson

Fljótandi er hún ekki samkeppni hæf en gefur EU kost á að fjarstýra henni. 80% viðskipta aðila. 80% af fjármagni heimsins er leiðandi í Alþjóða gervi kapítalismanum.

38.020 er vegna þess að 65.285 var ekki raunverleg verðmæta aukning á almennennum neytendamarkaði. Heldur allskonar afætu þjónustutengda kostnaðarframleiðsla í yfirbyggingu Íslands ehf. 

Þjóðverjar byggja á innri fullvinnslu og tækniframleiðslu virðisauka sem endur speglast í hlutfallslega litlum fjármálgeira kostnaði.

Við erum búin að eyðileggja almenna neytendamarkað m.t.t. til hávörugæða innflutnings og þá er erfitt að losna  hávirðisaukaframleiðslu frá Íslandi.

Frjálst labor og fjármagnsflæði er hagstæðara eftir því sem Seðlabankaeiningar eru ríkari og fjölmennari.

Hinsvegar eru hráefnis og orkuflæði alls ekki frjálst í heiminum. Grunnur sem skiptir alltaf máli sérstaklega þegar samdráttur verður á alþjóðamælikvarða. EU er að reyna að fá USA til pína Kínverja að láta sig fá ómissandi háfullvirðisauka efnasambönd.

38.020 kemur okkur niður til Grikklands undir UK og Norðurlönd. Nokkuð sem aldrei hefur gerst í sögu lýðveldisins frá því við losnuðum úr vöruviðskiptabandalagi Dana.  Icesave er smámál í samburði þegar til lengra tíma er litið.

Íslenskir fjárfestar áttu ekki roð í þá þroskuðu alþjóðlegu í frjálsu peninga flæðis samkeppninni sannanlega og ótrúlegt að hægt sé að endurreisa þennan kostnað aftur á kostnað almennra Íslenskra neytenda, því ekki láta ríki EU hlunnfara sig á þessu sviði af eylendingum einfaldra útflutnings atvinnuvega.       

Krónu má nota þannig að þau Ríki sem vilja kaupa af Íslandi  verða að greiða fyrir vöruna í krónum á því verði sem Ísland skráir hana á gagnvart viðkomandi gjaldmiðli. Ef ekki er eðlilegur skortur á gæða vatni, orku og eggjahvítuefnum á alþjóðamælikvarða, þá aukast ekki rauntekjur Íslands ekki gagnvart hinum þjóðunum.

Samfylking er barnalegur sossa flokkur.

Kostnaður sem eykur virðisauka framleiðslu sem selst auðveldlega innanlands og utan er sá hluti landframleiðslunnar sem skiptir öllu máli að sé sem mestur þegar kemur að alþjóðaviðskiptum. 

Afætu vextir teljast þar ekki með. 

Júlíus Björnsson, 1.4.2010 kl. 03:14

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Góðan og blessaðan daginn!

Nú skulum við verða sammála um það svona um páskana að reyna að vera gáfulegir. Mitt innlegg í það risaverkefni er að benda á nýja lausn á þessu vandamáli allra tíma.

Og lausnin felst í því að byrja á okkur sjálfum. Það er útilokað að við fáum einhvern þann gjaldmiðil núna í vikunni sem er besti gjaldmiðill í heimi. Þess vegna eigum við að láta okkur þykja vænt um krónuna okkar því ef okkur tekst að lifa í þessu landi ákveðin í því að þetta sé besta land í heimi þá mun gjaldmiðillinn styrkjast að sama skapi.

Það er svo í öllu okkar lífi að dagar eru misjafnir, veður og aflabrögð og heilsufar.

Enginn gjaldmiðill er svo góður að hann eigi ekki slæma viðmiðun í annan gjaldmiðil. Og krónan er alltaf jafn góð og stjórnsýslan á Íslandi sem aldrei er nógu góð.

Samt vil ég heldur að heimskir fjármálamenn á Íslandi stjórni íslenskum gjaldmiðli en að við tökum upp einhvern global gjaldmiðil. Það er nefnilega svo andskoti mikið til af global hálfvitum þarna í útlöndunum.

"Það er hlákan Árni minn!" sagði hann Lárus í Hólakoti galvaskur og hlægjandi þegar búið var að hellirigna í heyið okkar á Reykjaströndinni hálfan júlímánuð.

Og hann Dúddi minn á Skörðugili sagði við mig dauðveikur af krabbameini að það væri mikil gæfa að hafa fengið að lifa svona lengi, búa í Skagafirði og sjá aldrei annað en sólskin!

Aldrei hefur nokkurt land í heimi verið sínum örvita þegnum jafn gott og þetta land okkar í dag.

Misvitrir pólitíkusar koma alltaf eins og flensan en þeir fara ævinlega einhvern tímann og svo koma aðrir álíka í staðinn. Við þessu getum við ekkert gert.

Gleðilega páska!

Árni Gunnarsson, 1.4.2010 kl. 07:54

9 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Sæll Halldór minn. Grunnur að góðum gjaldmiðli hlýtur að vera auður þess lands sem hefur þann gjaldmiðil?

Við megum ekki gleyma að peningar/gjaldmiðlar voru fundnir upp til að auðvelda vöruskipti?

Er ég eitthvað að misskilja fræðin?

Það væri svosem ekki í fyrsta skipti sem ég skil ekki og misskil fræði án raunverulegs hyggjuvits!

Ég hef hingað til reynt að standa með mínum skoðunum en ekki svika-matreiddum skoðunum. Ég hef til og með stórgrætt á að standa með mínum skoðunum sem hefur verið þungur róður gegn því sem talið er eðlilegt! Ég hef ekki grætt í peningum og eignum heldur í skilningi, þekkingu og reynslu, ásamt sjálfsvirðingu fyrir að láta ekki blekkjast af peninga-verðmæta-mútum. Þess vegna er ég rík!

Gjaldmiðill er einungis ávísun á auð hvers lands að mínu mati! Ef á að skipta um gjalmiðil á Íslandi sem er meir en líklegt að verði í framtíðinni, þá eru þessir erfiðu tímar ekki réttir til þess. Ég er ekki hagfræðimenntuð en skil þó það.

Ég hef ekki ennþá heyrt rök sem geta hrakið þessa skoðun mína með sterkari rökum, en ég á kannski eftir að heyra þau!

Batnandi fólki er best að lifa, sem kann að hlusta og skilja, og ég á  eftir að læra og skilja gróða-rökfærslu peninga-aflanna, en er ekki komin svo langt ennþá í þroska?

Ég ber virðingu fyrir reynslu og visku-brunnum eins og þér og öðru fullorðnu, reynsluríku réttlætis-hugsandi fólki.

Óska þér gleðilegra páska og alls góðs. M.b.kv. Anna

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 1.4.2010 kl. 12:46

10 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Smá athugsemd varðandi skrif Önnu hér að ofan. Finnst vanta í þessi rök hjá þér.

  • Auðvita eru peningar í raun ávísún á einhver verðmæti. En óvart þá hefur þetta verið slitið í sundur fyrir löngu. Áður var gull á bakvið gjaldmiðilinn þ.e. að hver króna eða dollar var tryggður með gulli sem ríkið átti í geymslun. En það er löngu liðið
  • Nú hefur krónan okkar hrunið um 99% gagvart danskri krónu. Hvernig má það vera ef að gjaldmiðill á endurspegla auðævi okkar.
  • Hingað til hefur það háð krónunni okkar að aðrar þjóðir hafa sjaldnast síðan hún varð til treyst sé til að nota hana mikið í viðskiptum.
  • Það er heldur ekki sama hvort verið er að tala um gjaldmiðil sem um 300 þúsund manns standa á bak við eða 500 milljónir. Eðlilega hlýtur krónan okkar sífellt að vera berskjölduð og sveiflótt. Og held að það sé það sem pirrar fleiri en mig að ekki hægt sé að gera áætlanir til lengir tíma þar sem gengi krónunar getur verið mörgum tugum lægri en áætlanir segja til um t.d. ef fiskverð lækkar, eða álverð.

Magnús Helgi Björgvinsson, 1.4.2010 kl. 20:51

11 Smámynd: Halldór Jónsson

Kæru vinir,

Hvar voruð þið 2002-2007 ? Bjugguð þið ekki við krónur? Þó að krónan hafi sveiflast gagnvrt danskri krónu er það bara spurning um fjölda krónanna beggja vegna sem skiptir máli um lífskjörin. Gjaldmiðill er relatívur gagnvart öllu öðru. Únsan af gullinu er há núna í kreppunni. En hún mun snarlækka þegar heimsviðskiptin komast aftur í gang. Á sama hátt mun skoðun manna á gjaldmiðlum breytast. Panta rei !

Halldór Jónsson, 1.4.2010 kl. 21:55

12 Smámynd: Júlíus Björnsson

Hingað til hefur það háð krónunni okkar að aðrar þjóðir hafa sjaldnast síðan hún varð til treyst sé til að nota hana mikið í viðskiptum

Áttu þá  við sín í millum?

  • Nú hefur krónan okkar hrunið um 99% gagnvart danskri krónu. Hvernig má það vera ef að gjaldmiðill á endurspegla auðævi okkar.
  • Króna flýtur um 80% gagnvart EU og endurspeglar verðmæta mat EU á fjármagni innan Íslenskrar efnahagslögsögu  bundið í náttúruauðlindum. [Ekki mannauð passlega nóg til í EU]

    Jafnvel í félagþjónustukostnaði sem alls ekki út um allan heim er gulls í gildi.

    Króna þarf ekki að vera fljótandi. Ísland þarf að efla innri virðisauka eins og þjóðverjar.

    Einbeita sér að gæðum og því sem þykir almennt flókið hjá risunum.

    Stytta námstíma og auka andlega skilvirkni á öllum sviðum.

    Íslands býr ekki við vandamál EU, hráefnis og orkuskort og tilheyrandi atvinnuleysi sem kallar á allskonar óþarfar þjónustu [rugla heildar landsframleiðslu og hagvaxtar spár] og styttingu starfsæfi, með slökun á almennum námskröfum [náms lengingu], styttingu vinnuviku, og styttri biðtíma til upptöku lífeyris. 

    Fiskverð og álverð eiga innan EU að vera sem lægst þar sem þau tilheyra kvótaskiptum samkeppnisgrunni tækni og fullvinnslu stóriðjuvera stórborga í innri samkeppni. Hornsteinn síðan 1957.

    Þannig að Regluverkssinnar geta gert sínar áætlanir án þess að pæli í því hvað ávísanirnar kallast.  

Júlíus Björnsson, 1.4.2010 kl. 22:10

13 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Við yrðum nú ekki lengi að rústa evrunni tækum við hana upp... þá yrði okkur endanlega varpað út úr samfélagi þjóðanna... okkar eina von er að halda krónunni og misnota hana áfram eins og við höfum gert. Þeir sem ekki sætta sig við það verða bara að flytja úr landi... og kannski hefði verið betra hefðu þeir gert það fyrr....!!!

Ómar Bjarki Smárason, 1.4.2010 kl. 22:50

14 Smámynd: Júlíus Björnsson

Evra er ekki Dollar. Seðlabankar Samkeppniríkjanna um aukningu innrihagnaðar fá í samræmi heimild til að setja á markað hver á sínu eigin sjálfsábyrga efnahagsvæði ákveðinn kvóta af evrum sem miðast við gengi hans [innra gengi Meðlima-Ríkis] sem reiknast á 5 ára fresti út frá þessum innri tekjum sem teljast til framlags innri tekna EU sem heildar.

Lykli [þroskaðir] Evru-Seðlabankar mega prenta Seðla og yfirdráttur að gefa út of marga er EU stjórnskipunarlaga brot.

Tak upp evru er ekki góð Íslenska  bætur væri að tala um að láta skammta sér evrum.

Samkeppni grunnur skilar ekki innri hagnaði heldur tækni og fullvinnslu framleiðsla. Krefst Mannauðs [þroskaðra heila], Þjóðverjar vita þetta einna best enda aðal höfundar regluverksins.

Best er að taka þá til fyrirmyndar í áherslum ef stefna er að vera í einangrun innan EU.

Grikkir eru ekki ein þjóðin sem virðist ekki skilja að sumir eru jafnari en aðrir. Þeir hæfustu til langframa.

Við getum aldrei rústað evrum, þökk snillingum á meginlandinu.

Júlíus Björnsson, 2.4.2010 kl. 00:46

15 Smámynd: Tryggvi Þórarinsson

Ég sá súlurit um daginn sem sýnir fall krónunnar undanfarin 100 ár en hún hefur fallið um 1.900 prósent á þessum tíma, það koma bara reglulega toppar á súluritið en hún er samt alltaf fallandi þegar horft er á meðaltalið. Ekki glæsileg mynt að treysta á.

Tryggvi Þórarinsson, 2.4.2010 kl. 15:38

16 Smámynd: Júlíus Björnsson

Menn gleyma oft að mikið fjármagnsflæði á neyslu markað getur fylgt "stétt með stétt" miklum afköstum og hækkandi verði á erlendum mörkuðum vegna gæða og aukinnar eftirspurnar. Þá hækkar allt verðalag innland jafnt án þess að erlendar skuldsetningar komi til.

Þá kemur belgingur og belgir ríkissjóðs bólga í samræmi við belgi almennings.

Hinsvegar veldur þetta hinsvegar öfund annarra samkeppni ríkja og þrýsta þau á um hagstæðari vöruskiptajöfnuð. Fyrstu 70 árin ríkti hér [gæða]verðbólga á alþjóðlegan mælikvarða. Almenningur fluttu úr torfkofum og fór í bað vikulega.

Frjáls vaxtafjármagnsflæði og labor  hentar hinum þroskaðri ríkjum sem geta séð fyrir sér sjálf á eigin spýtur.

Vöruskiptajöfnuður hinsvegar er ekki frjáls og er baktjaldamakk stjórnvalda á öllum tímum: þá er verið að tala um 80-90% heildar viðskipta ekki milliprósentin sem skiptast á  marga séreignaraðila.

Vilji Íslendinga selja tæki og fullvinnslu, minnka þjónustugeiranna og eða atvinnuleysi þá verða þeir að kaupa jafnvirði af viðskiptaríkjum sínum.

Sumt er svo sjálfgefið að gert er ráð fyrir því að ekki þurfi að kenna það í þroskuðum Háskólum.

Júlíus Björnsson, 2.4.2010 kl. 16:58

17 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Það er ekki krónunni að kenna að efnahagsstjórn var galin hér. Það er t.d. ekki henni að kenna bankarnir urðu 12 sinnum stærri en landsframleiðsla eða þá hitt að þensla var keyrð upp úr öllu valdi og skattar lækkaðir svona til að setja endsneyti á bálið. Þá er það heldur ekki krónunni að kenna að óveiddur fiskur var veðsettur í útlöndum og sum sveitarfélög skuldsett upp í rjáfur eð aþá hitt Landsvirkjun sem var stöndugt fyrirtæki var látin selja raforku á ætluðu kostnaðarverði til stærsta kaupandans. 

Halda menn að hér geti ekki komist vanhæfir menn til valda þó skipt verði um mynt?

Sigurður Þórðarson, 7.4.2010 kl. 13:01

18 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Sigurður, er þetta ekki spurning um hvort sé betri til uppbyggingar, traustur gjaldmiðill með lágri verðbólgu og lágum vöxtum eða óstöðugur gjaldmiðill með hárri verðbólgu, háum vöxtum og haldið uppi með gjaldeyrishöftum?

Gjaldeyrishöftum munu með tímanum draga úr fjárfestingu og atvinnuuppbyggingu skv. skýrslu S&P.

Þetta er ekki spurning hvernig við komumst hingað heldur hvert við viljum fara og hvernig við komumst þangað.

Lúðvík Júlíusson, 7.4.2010 kl. 13:34

19 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Takk Lúðvík 

 sumir vilja kenna krónunni um vandræðin en það vilt þú sem sagt ekki gera og spyrð hvað sé til ráða í framtíðinni. 

Gott og vel við skulum þá ekki ræða hvernig við komumst í þessa stöðu, heldur hvort og hvenær eigi að tengjast eða hreinlega taka upp aðra mynt.

Vandamál Íslands eru ekki fólgin í takmörkun á lánsfé heldur þvert á móti yfirskuldsetningu. Galdeyristekjurnar eru miklar en þær streyma jafnharðann úr landi í formi í afborganir af lánum og þessu breytum við ekki með myntbreytingu, heldur afskriftum, því mörg lánin eru ósjálfbær.  

Menn hafa jafnvel velt því fyrir sér að fórna sjávarauðlindinni  til að komast í myntsamstarf og taka upp Evru en það munu líða að minnsta kosti 15 ár þangað til Ísland uppfyllir þau skilyrði sem sett eru og mun lengur ef auðlindinni er fórnað.

Því væri áhættuminna að taka upp dollar en þá þyrfti að vera hægt að greiða út 540- 600 milljarða Jöklabréf annars er þetta tómt mál að tala um. 

Það er því sama hvert litið er frumskilyrðið er að koma Íslandi á legg, þá og þá fyrst er hægt að hugleiða hvort tengja ætti krónuna við aðra mynt eða taka upp aðra mynt.  í dag er þetta tal um Æsseif og Evru villuljós og tímasóun á tíma þegar menn ættu að ausa skútuna.

Sigurður Þórðarson, 7.4.2010 kl. 14:28

20 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Þetta er unninn leikur hjá okkur þar sem við höfum allt til að bera sem aðra vantar - vatn, matvæli, orku og náttúru sem laðar til sín túrista frá náttúrulausum vestrænum samfélögum. Við þurfum bara að tefja, halda sjó, teygja lopann þar til þessi náttúrulausu og gjaldþrota hagkerfi fara á hausinn og þá man enginn lengur eftir okkur. Með öðrum orðum við þurfum að hafa traust taumhald á leppadóti fjórskipta einflokksins sem hefur verið í erlendri eigu vestan hafs og austan á víxl í hóruræði síðustu áratuga. Það hefur alveg vantað þjóðlega hugmyndafræði í okkar þágu en mest snúist um að liggja undir erlendum hagsmunum og keyra ýmist Hummer eða Mercedes Benz Kampwagen um afturendann á þessu dóti sem hér hefur verið við völd síðustu áratugina. Amen og kúmen, gammon.

Baldur Fjölnisson, 7.4.2010 kl. 20:22

21 Smámynd: Júlíus Björnsson

Til þess að hemja raunverlega verðmæta aukningu innanlandsmarkaðar [meiri uppskeru], er yfirleitt beitt sköttum til soga fjármagnsflæðið úr umferð almennings til að venja hann ekki á tímabundna góðærisverðbólgu. Hinsvegar þar sem innlandsmarkaður er sterkur og góðæris verðbólgan er örugg næstu 30 árin er sjálfsagt að tapa smátt og smátt raunverumlegum gróða í vasa almennings.

Góðæri án verðbólgu er ekki almennt og hér var það tekið að láni. Þeir sem viðurkenna góðæri án lántöku hafa notið millifærslu frá öllum hinum. Ef gæðastaðalinn hækkar jafn hjá öllum þá hækkar allt jafnt og mælist í almennum verðhækkunum.  Ég græði og læt þig njóta þess.

Taka upp að binda gengið við dollar [jafnvel setja hann í almenna umferð á Íslandi]  segir voru kaupendum okkar að við treystum peningamálastefnu USA.

Það þýðir að okkar fámálgeirastjórnarkostnaður verður nánast enginn. Seðlabanki til dæmis ekki nema í einni skúffu.

Við þurfum því ekki að treysta á tossa í framtíðinni. Getum gert það sem  við gerum best og láta hina þroskuðu um sín mál. 

Rækta sinn eigin garð og láta aðra um sína garða. Miða stjórn landsins við Íslenska efnahagslögsögu.

Hætta að reyna að hagnast á útlendingum og Íslenskum almenningi. Er stefna til þroska. 

Ef þarf að neysluverðstryggja með lögum takmarka það þá við 3 ára bundna innlánsreikninga almennings undir segjum 30 milljónum. 

Hér er búinn að ríkja hámarks áhættu útlána vaxta einokun með lögum síðan 1982.  Ekki frjálssamkeppni.  Í skilningi þroskaðra hægri manna , en við teljum þetta meira í átt við kommúnisma.

Júlíus Björnsson, 7.4.2010 kl. 20:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 3418216

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 48
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband