Leita í fréttum mbl.is

Jafn atkvæðisréttur er allt sem þarf

 

Ég hlustaði á umræðuþátt á Útvarpi Sögu í gær. Þar var mikil gleði yfir því að einhver skátahöfðingi sem ég man ekki nafnið á hefði tekið að að sér að stýra undirbúningi þjóðfundar og svo stjórnlagaþings sem ætti að vinna úr þeim línum sem þjóðfundurinn myndi leggja varðandi stjórnarskrá Íslands. Þjóðfundurinn yrði valinn með einhverskonar slembiúrtaki úr þjóðskrá en á stjórnlagaþingið yrðu menn kosnir eftir einhverri formúlu sem ég náði ekki hver væri.

Síðan á að leggja það sem stjórnlagaþingið framleiðir eftir línunum sem þjóðfundurinn lagði (sic!)fyrir Alþingi. Þetta sama Alþingi, sem vegna lýðræðishalla síns, hefur sýnt sig að vera gersamlega óhæft í því að fjalla um stjórnarskrármál. Þetta sama Alþingi, óskammfeilið yfir því að bregðast skyldum sínum,  hefur í fyrsta lagi stýrt þessum málum í þetta furðulega form sem skátinn virtist sannfærður um að myndi gerbreyta stjórnarháttum landsins. Og svo í öðru lagi ætlar það að samþykkja eða fella tillögurnar eftir sama geðþótta og það hefur í dag. Geðþótta sem byggir á því að ég sem íbúi í Kraganum hef svona fjórðung úr atkvæði á við Vestfirðing.

Finnst mönnum þetta virkilega vera stjórnviska? Sjá menn ekki að það er verið að brenna upp milljörðum fyrir fjárvana þjóðinni í svona blekkingarleik? Það á að leggja til að lagfæra Alþingi með lýðræðishalla með þessum ráðstöfunum öllum til þess að láta þetta sama Alþingi halda áfram að gera sem það gerir. Hver lætur völd með góðu sem hann hefur ranglega fengið?

Hver samþykkti þetta allt ? Hvaðan kemur þessi skátahöfðingi? Ekki vorum við almennir Sjálfstæðismenn spurðir álits af þingmönnum okkar þegar allt þetta var sett á af Alþingi. Af hverju á ég að trúa á þessa stjórnarbyltingu, sem mér sýnist svo vera til viðbótar runnin undan rifjum vinstriaflanna sem ætla að breyta stjórnarskrá lýðveldisins Íslands sér í hag. Og ég held áreiðanlega að það verði ekki mér í hag. Mér finnst þetta allt lykta allt af búsáhöldum,  leikstjórum,rithöfundum, lúðurþeyturum,  Háskólabíósfundum og Indjánadansi í kringum eldana á Austurvelli.

Mér finnst ekkert annað þurfa til þessa verks, ef mönnum er alvara með að setja þjóðinni nýja stjórnarskrá,  en að sérstakt Alþingi sem kosið yrði til eins stjórnlagaverkefnis þar sem þingmannafjöldi yrði eftir jöfnum atkvæðisrétti. Þetta Alþingi væri þjóðfundur sem myndi setja landinu stjórnarskrá og ekkert annað. Gamla lýðræðisskerta Alþingið gæti starfað við hliðina á þessu meðan á starfi hins stæði. Síðan yrði kosið eftir nýjum stjórnlögum hins sérstaka Alþingis.

En að fara að smala saman allskyns liði eftir einhverju slembiúrtaki, þar sem auðveldlega getur raðast inn misyndisfólk og minna greint og fela því að gera bindandi tillögur sem eitthvað apparat á svo að að færa í búning til þess að leyfa Alþingi að fella paragröffin, finnst mér ekki vera mikið skylt verksviti.

Hversvegna veljast menn til forystu ? Ég hef haldið að það væri  vegna þess að aðrir vilja fela þeim forsjá mála. Þeir bjóða sig fram og fólkið metur hæfileika þeirra.  Fulltrúalýðræði verður að koma til þess að stjórna ríkjum. Múgstefna hefur sýnt sig að vera skrílræði sem engu fær áorkað. Menn skoði  söguna áður en þeir fara að endurtaka hana. 

Mér finnast þessi áform um þjóðfund og ráðgefandi stjórnlagaþing  vera illa ígrunduð og mjög ólíklegt að til heilla verði. Flumbrugangur sem engu muni skila nema fjártjóni hjá fátækri þjóð sem ekki getur staðið undir velferð sinni. Þetta fé verður ekki notað til annars.

Ég held að það Það vanti aðeins jafnan atkvæðisrétt í lýðræðisríkinu Íslandi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 60
  • Frá upphafi: 3418279

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 60
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband