Leita í fréttum mbl.is

Allt snýst

í henni verslu sögðu menn í gamla daga.

Eftirtalin orð lýsa nokkuð vel hvernig viðhorf manna var til verðbólgunnar í gamla daga:

“Flestir munu sammála um, að stjórnun peningamála skiptir mjög verulegu máli í sambandi við þróun verðbólgu. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að lengst af um áratuga skeið hafa íslendingar búið við neikvæða vexti. Á síðustu áratugum er aðeins árið 1967 undanskilið.Þetta hefur þýtt, að sparifjáreigendur hafa tapað stórkostlegum fjármunum,og almennt hefur þetta einnig þýtt að viljinn til þess að spara hefur verið mjög slævður. Þetta hefur jafnframt þýtt, að auðveldasti vegurinn til þess að verða efnaður hefur verið að skulda fjármagn. Aðgangur að lánastofnunum ræður í raun meiru um það, hvort fólk og fyrirtæki kemst vel af, heldur en útkoma í kjarasamningum eða góður eða slæmur rekstur fyrirtækja.
Staða sparifjáreigenda er sérstaklega hrikaleg sem afleiðing af þessu ástandi. Um síðustu áramót mun láta nærri, að sparifjáreigendur hafi átt á reikningum íbönkum, sparisjóðum og innlánsdeildum tæplega eitt hundrað milljarða króna. Láta mun nærri að verðrýrnun þessara fjármuna nemi um tuttugu milljörðum króna. Með öðrum orðum, þá brunnu nær tuttugu milljarðar af fjármunum sparifjáreigenda á verðbólgubálinu á siðasta ári. Þetta er auðvitað gegndarlaust óréttlæti og vinnur þar að auki gegn sparsemi og ráðdeild í samfélaginu..... að hið neikvæða vaxtakerfi hafi breytt þeim stofnunum, sem eiga að vera til þess að lána fjármagn, úr því að vera útlánastofnanir og í það að vera hafta- og skömmtunarstofnanir, sem þar að auki starfa nær alfarið fyrir luktum dyrum og lúta enn fremur pólitísku valdi að mjög verulegu leyti. Þetta kerfi leiðir óhjákvæmilega til misnotkunar, óhagkvæmrar fjárfestingar og hvers konar misréttis........að ógerlegt sé að sigrast á óðaverðbólgu nema takast megi að sannfæra almenning um, að hann hagnist ekki, heldur tapi, á þessu ástandi. Þetta hefur verið afar erfitt, ekki síst á allra síðustu árum, þegar hraði verðbólgunnar hefur keyrt um þverbak. Það hefur leitt til þess, að allir þeir,sem eiga þess einhvern kost að komast yfir lánsfjármagn, telja sig hagnast á þessu ástandi, jafnvel þó í smáu sé. Þessu verður ekki breytt, jafnvægi verður ekki komið á í peningamálum, og almenningsálitið verður ekki endanlega sannfært um skaðsemi verðbólgu og dýrtíðar, nema raunvaxtastefnu verði komið á í áföngum.”

Skynsmlega talað við þær aðstæður sem þá ríktu í þjóðfélaginu.

Svo líður tíminn og góðæri kemur í kjölfar verðtryggingar inn og útlána. Lífeyrissjóðir landsmanna eflast og skyndilega veriðu framboð á lánsfjármagni þar sem áður var auðnin tóm. Allskyns bréfasölur og pappírstígrísdýr rísa upp, það koma húsbréf á markaðinn sem hægt er að selja. Það er allt í eínu hægt að byggja og fá 70 %,80 % ,90% og hundrað prósent lán þar sem ekkert var áður Og menn byggja og byggja.
Svo kemur kreppa og vinnan dregst saman, Þá fara skynsamir sjórnmálamenn að róa á önnur mið.

“….Það mæla bæði efnahagsleg rök og sanngirni með því að verðtrygging á lánum til heimilanna verði alfarið bönnuð á næstu misserum. …….þó stjórnvöld hafi þegar ákveðið að banna verðtryggingu á sparifé landsmanna frá 1. janúar árið 2000 stendur ekki til að banna verðtryggingu útlána umfram það sem þegar hefur verið ákveðið á skammtímalánum. Það mæla bæði efnahagsleg rök og sanngirni með því að verðtrygging á lánum til heimilanna verði alfarið bönnuð á næstu misserum….. Er nema von að það skilji ekki ástæðurnar, eins og þegar kartöflur hækkuðu tímabundið í sumar, þá leiddi vísitalan og verðtrygging til þess að skuldir heimilanna jukust um 500 milljónir króna. Hækkun á grænmeti á einu ári, sem mörg heimili hafa ekki efni á að kaupa vegna ofurtolla og verndarstefnu ríkisstjórnarinnar, juku engu að síður skuldir heimilanna um 1300 milljónir króna. Skuldir heimila í árslok verða 350 milljarðar króna og hafa aukist á þessu ári um 25 milljarða króna. 90% af lánunum eru verðtryggð, en einungis 10% óverðtryggð. Við viljum ekki endurtaka leikinn frá 1983 að kippa úr sambandi verðtryggingu launa en ekki lána. Ríkisstjórnin kemst ekki hjá því að svara af hverju Ísland, sem býr við svipað efnahagsumhverfi og þjóðir sem við berum okkur saman við, hafi eitt landa verðtryggingu á lá “

Það eru margir núorðið sem muna ekki eins vel og við sem eldri erum hvernig ástandið var á okkar ungu en spennandi dögum þegar allt var nýtt og ferskt og við trúðum á framtíðina hvernig sem valt. Hér geisaði stjórnlaus óðaverðbólga og sparifé manna brann upp ef því var ekki eytt samstundis.

Það voru tekin upp verðbólgureikningsskil fyrirtækja, þar sem verðbólguhagnaður var leiðréttur og hegnt fyrir skuldasöfnun. Illu heilli hefur þetta verið aflagt. En í gamla daga var alþekkt að fyrirtæki urðu gjaldþrota eftir samfelldar tekjuskattsgreiðslur í áratugi. Timbursali fór úr því að eiga milljón fet í að skulda milljón fet og græddi alltaf pappírslega. Verðbólgan fór í lagerana og þeir breyttust úr eignum í skuldir.

Margt hugsandi fólk lét sig þetta varða á þessum tíma, eins og sjá má á tilvitnaða textanum hér að ofan. Svo var brotið blað með Ólafslögum þegar verðtrygging var loksins innleidd sem neyðarráðstöfun til að koma böndum á sparifjárbrunan. Sem þessi sami Ólafur innleiddi að miklu leyti með valdatöku sinni 1971, þegar hann hækkaði kaupið í landinu með pennastriki um 10 % og stytti vinnuvikuna um 10%. Þá byrjaði bálið sem landsmenn börðust við að slökkva tveimur áratugum síðar.

En í Ólafslögum sagði m.a.;

-------------------------------------------------

32. gr.
Við 13. gr. laga nr. 10 29. mars 1961 um Seðlabanka Íslands skal bæta eftirfarandi:
ÁkvæiSi til bráðabirgða.
Vaxtaákvarðanir á árunum 1979 og 1980 skulu við það miðaðar, að fyrir árslok.1980 verði í áföngum komið á verðtryggingu sparifjár og inn- og útlána, sbr. VII.kafla þessara laga um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Meginreglan verði sú,að höfuðstóll skuldar breytist með verðlagsþróun en jafnframt verði nafnvextir lækkaðir. Afborganir og vextir reiknist af verðhættum höfuðstól. Verðtrygging verði reiknuð í hlutfalli við verðbreytingar. Samhliða verðtryggingu verði lánstími almennt lengdur og skal setja um þetta efni almennar reglur, þar á meðal um heimildir til skuldabréfaskipta af þessu tilefni.
VII. KAFLI
Um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.
33. gr.
Stefna skal að því að verðtryggja sparifé landsmanna og almannasjóða. Í því skyni er heimilt, eins og nánar greinir i þessum kafla, að mynda sparifjárreikninga og stofna til lánsviðskipta í íslenskum krónum eða öðrum verðmæli með ákvæðum þess efnis, að greiðslur, þar með taldir vextir, skuli breytast í hlutfalli við verðvísitölu eða gengi erlends gjaldeyris, sbr. 38. gr.
6
34. gr.
Ákvæði þessa kafla gilda um skriflegar skuldbindingar, þar sem skuldari lofar að að greiða peninga, hvort sem um er að ræða lánað fé, endurgjald eða eftirstöðvar endurgjalds fyrir verðmæti, sem hafa verið seld eða afhent.

---------------------

Þetta gekk svo eftir. En enn eimdi eftir af trú verkalýðsfélaga á tugaprósenta taxtahækkanir sem vörn gegn verðbólgunni. En það fór að renna upp fyrir mönnum að verðbólgan var versti óvinur allra. Þeir Einar Oddur og Guðmundur Jaki náðu svo smám saman samkomulagi um að stöðva kapphlaupið sem varð að veruleika í þjóðarsáttinni. Þá ríkti kreppa þó nokkur ár og lítið var um peninga og vinnu en smátt og smátt sáu allir að tímarnir bötnuðu, gengið hækkaði, verðlag lækkaði í stað þess að hækka stöðugt og launin entust betur.

Enginn bað um að taka upp Evruna þó að þá hefðum við getað það raunverulega vegna stöðugleikans sem þá var. Svo hófst mesta uppgangsskeið í sögu þjóðarinnar og Íslenskir útrásarvíkingar flugu á einkaþotum með Forsetann um allar trissur. Hraðferðin upp var svo mikil að hún datt út um þakgluggann 2008 og allt fór í rusl við brotlendingu á bakgarði helvítis og skuldanna.

Þá kennir hvor öðrum um, verðtryggingunni er bölvað í sand og ösku því menn sem keyptu hús og lífsstíl á 100 % lánum þola ekki tvöföldun á skuldum skiljanlega þegar krónan dúndraði niður og er haldið þar í höftum. Ef ekki væru krónubréfin þá væri gengið löngu búið að jafna sig.

En við núverandi aðstæður koma auðvitað kröfurnar um að fá óverðtryggð lán. Lífeyrissjóðirnir eiga að lán út óverðtryggt til langs tíma án þess að menn hugsi um lífeyririnn. Hringekjan er farin af stað. Allir búnir að gelyma hvernig þetta var hér áður fyrr fyrir verðtrygginguna og hversvegna hún var sett á með samþykki þjóðarinnar.

Þjóðmálaskúmar eru á komnir á fulla ferð og tala fagurt um nýja tíma með ódýru óverðtryggðu fjármagni, burt með vondu verðtrygginguna. Enginn hugsar um hverjir eig að leggja til sparnaðinn.Það er enginn að spara hvort sem er nema lífeyrissjóðirnir. Vondu fjármagnseigendurnir eru víst allir flúnir með aurana sína til Tortólu og Sviss þaðan sem þeir teygja nú fálmara sína til að höndla nýju bankana okkar, vinnufærir menn farnir til Noregs og eftir sitjum við aumingjarnir og atvinnuleysingjarnir í brakinu og bíðum eftir einhverju öðru í grennd við Húsavík og Bakka.

Það er eins og lífið snúist stöugt í hringi hjá Íslendingum. Það sem var grænt í gær hefur gránað í dag eins og Haraldur frá Kambi lýsti því þegar ölið var af könnunni. Og með þessu snúumst vð öll meira og minna, getum aldrei nema gusast áfram, ýmist í ökkla eða eyra,Millar í dag en maðkar á morgun eins og síldargróssér á gamala Siglufirði. Og stjórnmálamennirnir enduróma okkur sjálf og þykjast allt vita hvað sé best fyrir okkur.

Textarnir að framan í gæslöppunum eru ágætlega skrifaðir með mikilli sannfæringu, sá fyrri 1979 og sá seinni eitthvað tveimur áratugum síðar. Að vísu af sama stjórnmálamanninum, sem hefur bara endurskoðað afstöðu sína oggulítið í tímanna rás. Einhverjir hafa kannski gaman af því að geta sér til um höfundinn.

Þ


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Það sem svíður hjá heimilum landsins er kannski ekki vísitalan per se heldur hvað stendur að baki henni. Hún er óréttlát. Það gengur ekki að þegar Jóhannu dettur í hug að setja á kolefnaskatt þá eignist bankinn sjálfkrafa stærri hluta í eigninni þinni nú eða bara þegar kókosolía hækkar út í heimi. Vísitalan er skekkt og enginn græðir. Þeir sem spara eru ekki að fá fyrir sinn snúð heldur nema því hann spari með þvi að kaupa skuldir. Hvað með sparnaðinn í fasteigninni? Hvað gerist þegar bankinn eignast stærri hluta hvert sinn sem einhver mígur vitlaust annað en að hlutur fasteignaeigandans minnkar. Hvað með verðtryggingu á hans krónm? Vísitölutengd lán eins og þau eru sett fram núna eru í laun erlend lán þar sem ekki aðeins kemur fram allar breytingar á gengi heldur líka geðþótta ákvarðanir ríkisstjórnar og aðila sem selja vörur úti í heimi.

Kannski ætti vísitalan að tryggja að bankinn haldi verðgildi sínu í eigninni þegar um fasteignir er að ræða? Þannig að vísitala fasteignalána miðist við markaðsverð húsnæðis.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 21.10.2011 kl. 06:13

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Adda,

Það er rétt að það má laga til vísitöluna, hún er næm fyrir skyndiaðgerðum stjórnmálamanna sem er ef til vill ósanngjarnt. Mér finnst menn hafa of lítið spáð í akkúrat þetta.

Halldór Jónsson, 21.10.2011 kl. 08:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 8
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 66
  • Frá upphafi: 3418285

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 66
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband