Leita í fréttum mbl.is

Verðtryggingin

og allar ræðurnar um hennar aðskiljanlegu vondu náttúrur lætur mig stundum fá yfir höfðuðið.

Ég man hinsvegar nú orðið nokkuð langt aftur. Ég man að það var árið 1965 og ég var búinn að vera að vinna sæmilega vinnu eins og gekk og gerðist eftir nám ein tvö ár og flytja tvisvar á milli leigukjallara í Reykjavík. Þá sá ég auglýst fokhelda hæð í húsi sem maður ætlaði að byggja í Kópavogi. Brjálað verð, á sjöundahundruðþúsunda. Hvar átti maður að fá það?

Byggjandinn ætlaði að bíða eftir húsnæðisláninu. Hitt samkomulag. Um hvað segi ég núna. Maður var bara nánast eins og kirkjurotta sem sá ekki langt inn í framtíðina frekar en núna. Byggjandinn reyndist svo vera valmennið Stóri-Björn sem ég og flestir könnuðumst við frá fyrri tíð. Hann hjálpaði mér svo á margan hátt og gerði minn veg beinni en annars hefði orðið og við bjuggum báðir með fjölskyldum okkar í húsinu um langan aldur þangað til það sprakk utanaf minni.

Ég fékk lánað húsnæðislán svo 1966 þegar húsið var fokhelt. Samsvaraði hálfri "fokheldu", eða líklega 1/3 -1/4 af íbúðarverði til 20 ára óverðtryggt.Skammturinn var 340.000 í tvennu lagi með hálfsárs millibili held ég. Íbúðin mátti mest vera ca. 110 m2 íbúð skv. reglum Húsnæðismálastofnunar Ríkisins.

Endanlega flutti ég svo inn fyrir náð tengdapabba og með mikilli vinnu skyldmenna og vina fyrir einar 900.000 þúsundir minnir mig, mjög ódýrt var sagt. Þetta voru ganlar krónur NB. Önnur lán voru ekki í boði á markaði. Þetta tilsvarar líklega húsnæðisláni(eða styrk sem unga fólkið myndi kalla því það segir að ég og mín kynslóð hafi aldrei borgað neitt) sem nemur 7-10 milljónum í dag af svona íbúð í stað þeirra 20 sem nú eru lánaðar verðtryggðar. Ég fékk lán hjá ömmu Sigríði og pabba, vask í Þorláksson & Norðmann, drasleldhúsinnrétting hjá einhverjum innflytjanda, eldavél hjá Smith og Norland og ofn hjá Rafha osfrv.(gengur enn!) Kannski eitthvað á víxli hjá Jóhanni Hafstein, sem einn bankastjóra lánaði ungu fólki í þá daga á víxli ef þú þekktir einhvern sem vildi skrifa uppá.

Engin önnur lán voru í boði. Íbúðin ,myndi kosta núna í byggingu líklega 40 milljónir eða 4 milljarða í þessum gömlu krónum. Sem getur vakið menn til umhugsunar um árangurinn af ábyrgri kjarabaráttu ASÍ allan þennan tíma, viskunni í að strika út tvö núll. Fjögurþúsundprósent kauphækkun og allir eru óánægðir með laun sín. Íslensk efnahagsmál og stjórnmálasagan þá líka eru bara revía og farsi því að bófaflokkar leika hér lausum halda og kalla sig stéttarfélög. En stunda bara mannrán, gíslatöku og fjárkúgun ef grannt er skoðað.

Svo var víst sett einhver smáverðtrygging á húsnæðislánið seinna. En þetta er langt að baki svo ég man þetta ekki lengur. Þetta var basl og maður átti oft varla að éta þó maður fengi sér stundum flösku um helgar eða legði í. Maður var ungur, átti börn og var ástfanginn, átti gamlan bílskrjóð og gerði við hann á götunni. Svei mér ég veit varla hvernig þetta baslaðist allt. Fólk flutti almennt inn í hurðarlaust á steininn beran. Bara SÍS og frægðarmenn fengu lán í bönkunum, ekki venjulegt fólk. Fáir voru ríkir og öngvir eins og útrásarvíkingar á einkaþotum. En þá voru stundum böll um helgar og dans sem nú er mest aflagt nema í sveitinni.

Menn sátu í kös á biðstofum bankastjóranna í þá daga og fengu oftar nei því öngvir peningar vorur til. Dásamlegt basl og áhyggjur sem eru núna auðvitað gulli laugaðar þegar ævin er svo gott á enda.

Svo kom verðtryggingin og allt í einu gátu allir fengið 70-80 % lán og svo seinna í vitleysunni 110 % Og menn þurftu ekki lengur að kaupa steypuna fyrirfram eins og menn vildu ólmir gera heldur gátu alltíeinu sparað á banka. En nú eru allir málsmetandi menn á móti verðtryggingu og þá því að fólk geti átt peningana sína í banka óhulta frá verðbólgunni. Helst það ekki í hendur?

Einn mikill andstæðingur verðtryggingar segir að peningarnir eigi bara að koma úr baunkunum. En til þess að banki geti lánað út, þarf hann smá innlögn af peningum sem hann getur svo margfaldað. Nema svo mikið sé til af erlendum peningum að þú getir fengið lán í þeirri mynt. Sem varð svo ólöglegt. Svo höfum við Seðlabanka til að skrúfa upp verðlagið með stýrivöxtum. Horft til baka finnst manni heldur lítið til koma hagvísinda þeirra stjórnmálamanna sem maður gapti uppí þá. Einar Oddur og Guðmundur Jaki standa þó uppúr flatneskjunni í mínum huga. Þeim tókst það sem hinum tókst ekki, að innleiða vott af skynsemi í þjóðlífið þó það sé nú löngu gleymt.

Eftir mína fyrstu byggingatíma komu svo lífeyrissjóðirnir okkar til sögunnar. Þeir lána ekki út nema vísitölutryggt, sem allir hljóta að sjá að er ekki hægt öðruvísi. Íslensk króna eða Evra, alveg sama hvort því verðbólgan er meira en 5 % í Evrulöndunum.

En með lífeyrissjóðina sjá menn líklega núna, eftir töpin, spillinguna og vitleysuna að það var tóm vitleysa frá upphafi að stofna þá nokkurntíman með þessum hætti, óteknum skattpeningum ríkisins að stórum hluta og iðsgjöldum. Allir hefðu betur bara borgað inn til ríkisins fasta upphæð og fá síðan próventu í ellinni.Hafa svo kannski haft leyfi til að draga annað eins frá skatti í frjálsa ráðstöfun. Annað áttu menn að sjá um sjálfir og spara sér afskipti bjálfa, skálka og stjórnmálamanna í þeirri röð. En nú er ekki til sá þjóðmálaskúmur sem ekki er uppfullur af tillögum hvað eigi að kaupa með þessum peningum öllum sem eru í sjóðunum.

Svo hvað er framundan? Verðtrygging eða ekki verðtrygging? Ég held að verðtryggingin sé nauðsynleg og fráleitt að binda verðtryggðan sparnað til þriggja ára eins og nú er gert. Sparisjóðsbók á að geta verið verðtryggð og bera lága vexti eða óverðtryggð og bera hærri vexti. Seðlabankinn á ekki að skipta sér af vöxtum það sannar sagan að hefur reynst bara vitleysa. "Vextir eiga að vera svo háir sem til eru fífl að borga." sagði gamli Sveinn og hafði rétt fyrir sér í því sem flestu öðru.

Það er frelsið sem skiptir öllu og frjálshyggjan sem það byggist á. Að þjóðin losni undan oki kommúnismanum sem hún býr við núna og "Davíðstímarnir" komi aftur, þar sem allir gátu átt þá mynt sem þeir vildu sjálfir. Þurftu ekki þetta kratakjaftæði um upptöku Evru og svo framvegis. Við myndum áreiðanlega fara ögn varlegar í sakirnar og gæta okkar betur í næstu umferð.

En verðtrygging inneigna og skulda er nauðsynleg. Ábyrg hegðun gerir verðtrygginguna áhrifalausa með öllu. Bavíanaháttur stéttarfélaga og samtaka atvinnurekenda hækkar hinsvegar höfuðstól skulda vegna verðbólguframleiðslu þessara aðila.

Okkur vantar tilfinnanlega skynsemi eins og gamli Sveinn sagði. Þá er verðtryggingin ekkert vandamál.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er hárrétt hjá þér Halldór, ef synsem ríkti í stjórnu efnahagsmála væri verðtryggingin ekkert vandamál, en þá væri heldur engin þörf á henni!

Það er fleira sem þessi pistill þinn segir. T.d. að ef verðtrygging lána hefði verið komin til árið 1965, hefður þú væntanlega ekki farið í þá framkvæmd að kaupa rándýrt húsnæði í byggingu. Það er sá veruleiki sem ungt fólk í dag býr við. Þeir sem freistast verða að fá reglulegar launahækanir langt umfram það sem eðlilegt getur talist, til þess eins að geta staðið við skuldbindingu sína.

Gunnar Heiðarsson, 23.11.2011 kl. 15:46

2 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Frábær pistill hjá þér, sem á erindi til allra í dag. Takk fyrir Halldór.

Þráinn Jökull Elísson, 23.11.2011 kl. 16:41

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Takk fyrir báðir.

Ég staðnæmist við orð Gunnars. Já, þetta hefði hugsanlega horft öðruvísi við í dag. ég hefði orðið að vita hvernig ég greiddi mánaðarlega af lánum uppá 200.000 kall á mánuði. Kaupið var ekki eins hátt þá. Kamnnnski hefði Stóri Björn aldrei getað keypt lóðina við þær aðstæður né við þorað að fara af stað. Eða bara getað. Vextir eru farnir að éta miklu meira en þeir gerðu.

Þráinn, þetta var allt öðruvísi þá en núna.Þá skipti öllu máli að spara allt því það var enginn aur til hvorki til láns né í vasanum. Nú kaupa menn bara tilbúið sem aðrir hafa byggt fyrir svaka gróða eins og menn sjá á uppgangi byggingafyrirtækjanna, Ég þakka fyrir hlý orð í minn garð.

Halldór Jónsson, 23.11.2011 kl. 17:12

4 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir þessa upprifjun sem er máluð nokkuð dekkri litum en raunveruleikinn var. Það var erfitt að fá lán það er alveg rétt Halldór á þínum sokkabandsárum. En gleymdu því ekki að þá vorum við fátæk þjóð og lifðum ekki um efni fram.

Þess vegna var fólk í balsi við það að koma sér upp lífeyrinum sínum og vinna fyrir framtíðina. En við komumst í gegn um það miklu betur en börnin okkar og barnabörn gera ef svo heldur fram sem horfir. Við þurftum aldrei að horfa niður í hyldýpið og geta enga björg okkur veitt eins og stöðugt stækkandi hópur gerir í dag.

Svo er alltaf spurning um orsök og afleiðingu. Ef það er ekki verðtryggingin sem er vandamálið heldur verðbólgan af hverju stjórna menn þá ekki verðbólgunni og sé það gert þá er verðtrygging óþörf.

Síðan eru þeir sem segja og ég er einn í þeirra hópi að verðtryggingi sé verðbólguhvetjandi. Alveg eins og vindsveipirnir sem magnast við ákveðin skilyrði.

Á tímum kyrrstöðu, verðrýrnunar og stöðnunarverðbólgu er verðtrygging hljóðlátur þjófur sem étur eignir þínar dag og nótt alltaf. Nagar og nagar.

Jón Magnússon, 23.11.2011 kl. 17:23

5 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Þessi binditími á verðtryggðum innlánum er alveg afleitur, hvaða gamla fólk sem á einhverjar krónur vill binda aurana sína í þrjú ár, og geta ekki notað þá þegar það þarf þess með. Það jafnvel deyr frá þessum aurum. Gamalt fólk geymir peningana sína annað hvort heima eða í bankahólfum þar sem til þeyrra næst, en þar missa þeir auðvitað verðgildi sitt og verða engum að gagni. þetta eru auðvitað bara bull lög!!!!

Eyjólfur G Svavarsson, 23.11.2011 kl. 17:38

6 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Sæll Halldór Jónsson, Þar sem við erum næstum jafnaldrar úr Austurbæ Reykjavíkur, þambarar af Laugavegi 11( hvunndags, kaffi, súkkulaði með rjóma eða te) um helgar drykkir af vafasömum uppruna svo sem Gambri, Landi og Spritus Fortis (margar teg.)?!

Þar sem við erum báðir aldir upp við neyzlu ólöglegra drykkja í æsku, hallast ekki á í sögu okkar um öflunar húsnæðis í hið fyrsta sinn ?! Jú ! Það er einn munur.  Þú byggðir frá grunni, ég keypti gamalt og byggði við og endurbætti eftir föngum, en það var bita munur en ekki fjár. Reynslusaga okkar er því nauðalík. Ég vil að lokum þakka þér fyrir góðagrein, kæri bloggvinur, Halldór Jónsson.

Með góðri kveðju úr Fjallabyggð, KPG. 

Kristján P. Gudmundsson, 23.11.2011 kl. 17:46

7 Smámynd: Halldór Jónsson

Jón vinur minn

Ekki segja þetta að ég máli í dekkri litum. Ég átti það betra en margir því ég átti góða að. En hyldýpið sá ég oft á þessum árum þegar maður var viðstaddur uppboðin heima hjá fólki sem ekki gat borgað steypuna sína frekar en annað. Það voru mörg hyldýpin þá eins og nú.

Fólk sem keypti hús og bíla 2007 og höfuðstólar þess stökkbreyttust 2008, það stendur og horfir í hyldýpið. Þessvegna lofa ég þig fyrir tillögurnar um að flytja lánin aftur til þess tíma. Það myndi breyta miklu. Bankabófarnir vilja auðvitað ekki heyra þetta. En þetta verður að berja í gegn og setja heldur viðlagagjald á vaskinn eins og í gosinu ef það þarf.

Sammála Eyjólfur, þetta er það sem ég var að reyna að segja.

Og Kristján apótekari og gamli vinur af Laugavegi 11 og heimsins hála gleri. Þetta var svona hjá okkar kynslóð. En það tók enda vegna þess að verðbólgan hjálpaði okkur við að stela eignu gamla fólksins sem við brenndum spariféið fyrir. En við óðum ekki í lúxus og Porche-bílum heldur drukkum landa og vorum ekki í siglingum og sólarlandaferðum, þessvegna stálum við minna en víkingarnir. En við vorum heldur ekki höfundar verðbólgunnar sem unnum verkamannavinnu og gátum aldrei lagt neitt fyrir

En þú ert sem fyrr þögull um það sem að sparnaðnum lýtur. Hvaðan á útlánaféið að koma ef engin er sparnaður?

Halldór Jónsson, 23.11.2011 kl. 18:07

8 Smámynd: Halldór Jónsson

Það er Jón sem á síðustu málsgreinina, hún klúðraðist niður

Halldór Jónsson, 23.11.2011 kl. 18:09

9 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Mikið getur þú verið skemmtilegur og fræðandi.

En er það ekki eins og Jón Magnússon og Eyjólfur segja, að verðtryggingin væri óþörf ef aðhald og skynsemi væri ráðandi í efnahagslífinu.

Vandinn er upprunninn hjá svo mörgum. Allt launafólk er í stríði um hærri laun sem svo magna verðbólguna og koll af kolli.

Lítill friður ríkir yfir slíku þjóðlífi. 

Ég sé að þú hefur augu á þessu öllu saman og mikil skynsemi fylgir þínum skrifum, sérstaklega þegar þú kemst á flug eins og nú!

Hefðirðu ekki verið betri sem skáld og hugsuður, en að berjast í verkfræðinni? - Kannski ertu svona mikill rithöfundur vegna verkfræðinnar og þess lærdóms sem henni fylgdi - þannig að allt hangir á sömu spýtunni.

Ég endurtek þakkir fyrir atorku þína og skriftargleði.

Sigurður Alfreð Herlufsen, 23.11.2011 kl. 23:34

10 Smámynd: Jón Atli Kristjánsson

Sæll félagi Halldór.  Góð lýsing á lífinu á þessum árum og gaman að þú rifjar þetta upp. Hópur ungra manna var að byggja, við hjálpuðumst að lánuðum sementspoka, vorum að byggja eitthvað upp og þrátt fyrir basl minnist maður þessara tíma með gleði í hjarta. Um lærdóminn má skrifa langt mál þar sem skoðanir ykkar Jóns eru pólar í þessari umræðu. Mér fannst Jóni M mælast vel á Landsfundinum og átti greinilega sterkan hljómgrunn. Ég ætla í dag að halda mig við rómantík þessa gamla tíma og þú nefndir ástina, þetta eru góðar minningar.

Jón Atli Kristjánsson, 23.11.2011 kl. 23:51

11 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Sæll Halldór,hvort ég man þessa bygginga tíma,ég tók að mér sláttinn. Gaman að sjá ykkur hér minnast þessa tíma,stæltir með sigg í lófum,í hreiðurgerð. Jú, þetta er eitthvað til að minnast og sakna.

Helga Kristjánsdóttir, 24.11.2011 kl. 02:39

12 Smámynd: Halldór Jónsson

Herlufsen

Ég veit það eitt að ég er mjög minniháttar verkfræðingur miðað við marga sem ég þekki og ég lít upp til. Ég lít líka upp til mér betri skríbenta. Ætli ég sé bara ekki að skrifa þetta í leiðindum vegna verkefnaleysis í verkfræðinni. Og kannski er maður uppfullur af einhverri geðvonsku og öfund í garð þeirra sem móta samtíðina. Maður er bara áhrifalaus áhorfandi.

Félagi Jón Atli

Já Jón hafði lög að mæla þegar hann gerir einu ´sanngjörnu tillöguna að vertryggingin verði núna flutt til október 2008 þegar lánin stökkbreyttust. En allir kerfiskurfar landsins eru á móti, ASÍ, Lífeyrsisjóðafurstarnir, Samtök Atvinnulífsins, Ríkisstjórnin.

Já það var allt í lagi að lifa í basli þegar maður var ungur. Það er leiðinlegra núna.

Og Helga vinkona,

"En aftur horfin ellin grá,

lLiðinn dag laugar í gulli þá."

Halldór Jónsson, 24.11.2011 kl. 16:52

13 Smámynd: Júlíus Björnsson

http://juliusbearsson.blog.is/blog/juliusbearsson/entry/1206790/

Hér Íslensk verðtrygging borin saman við þá Alþjóðlegu: Allir bankar erlendis verða að skila raunvirði eiginfjár á hverjum tíma með lögum erlendis frá upphafi.  Það merkir í mínum eyrum sem verðtrygging. Eigenkaptal er mismunur á inn og útstreymi reiðfjár , eða á banka máli á greiðslu innlánas  og útlána.

Alkar hljóta að fundið um þörf að skilgreina þetta eignar jafnvægi hér sérstaklega. Íslendingar vegna Hersetu USA fengu að kynnst almennum neytenda lánunum langt á undan almennum neytendum í EU : sem ennþá þá enga raunvexti umfram verðbætur á sín innlegg.

Júlíus Björnsson, 24.11.2011 kl. 22:47

14 Smámynd: Júlíus Björnsson

Í EU 1966 þá Nægið 50% af dagvinnu kaupi einnar fyrirvinnu frá giftingu til pension , vegna húsnæðis: 50 % fóru svo í nneyslu og sparnað/eyslu. 30-45  ára veðskuld með max og er ennþá 2,0% raunvaxtavarsjóðsvöxtum undir inflation.  Hér gilti um 80% fokhelt, eða yfirleitt tvær fyrirvinnur fyrstu 5 árin að skila um 20 ára 50% dagvinnu EU.

Leyndarmálið hér er að 8,0% raunvaxta krafa var gerð á facktora hér um aldamótin 1900 og upp úr og embættismenn, og þegar blasti við að átt að fara fjármagna almenning með hærri tekjurnar um 1956 þá sögðu ábyrgir menn að 2,0% múrinn yrði aldrei rofin hér heldur og Ísland myndi aldrei geta staðið undir Börs eins og Kaupmannahöfn. 

1986 þá var þess 8,5% raunvextir á fyrstu verðtryggðu húsbréfunum. lækkaðir eftir 1994 í 6,5% og lækkað þegar nýtt lánsform var tekið upp með íbúðalánsjóði [Balloon ] 1998 nafnvaxtarlega séð í 4,5%. Kaupþing reið á vaðið. Arion býður nú fyrst ARM veðskuldalán fyrir annars flokks USA neytendur. Ísland er fara á hausin vegna þess að hér kann engin að setja upp Balance sheet sem er hægt að draga rök réttar ályktanir af. Hagvöxtur segir Seðlabanki þegar skorðið er niður í starfsmanna fjölda fjármálageirans: skattskila tóls Stjórnsýslunnar. Jafna tækifæri og nýta fjármagn til að tryggja að sölutekjur á heimamarkaði, ekki geyma=spara] í höndunum á Skattamann  og gervi fjármálgeira.  VR. ætlar að skerða lífeyris réttindi , Hinsvegar sýnir reiðufjársjóðsteymi að af öllum 100 ein. sem koma inn í skyldi iðgjöld þá fara 40 ein. út aftur eins og hér væri þýskt grunn kerfi. 60 ein. fara í að borgar tapið af sjóðauppsöfnun. Sérfræðingar hér telja að þeir geti skilað raunvöxtum á Vesturlöndum næstu 30 ár. Erlendir lífeyrisjóðir þakka fyrir að geta verðtryggt í 5 ár.

Fjölda vinnustunda á ári til vsk. framleiðslu, þarf ekki að gera með barnseignum , eða innflutning á erlendum ríkisborgurum. Lengja má starfsæfi í báða enda hér, flýta útskrift , lengja tíma til töku grunn pension, banna eftirvinnu og krefjast skilvirkni og meira afkasta á móti hærra útborguðu kaupi.  Skilgreina hvað lámark megi greiða fyrir unna klukkustund óháð aldri, eða kyni. Gefa enga afslátt af vinnuafli þá fer allt úr böndunum. Fór fyrir vinnu ekki starfsaldur.  Ef bankar bjóða 2,0% raunvaxta afslátt fyrir CIP USA verðtyggingu til allra sem sparað inn á raunvaxtalausa en CIP USA verðtryggðreikninga í fimm ár fyrir 20 % af staðgreiðsluverði fasteignar til búsetu í 30 ár, þá verðu sparnaður almennings eðlilegur hér. Ef ríkið hætti að hækka landframleiðslu OER gengið um ímynduðum hækkunum á óseldum eignum síðasta árs þá kemst laga á fjármálin hér. Market prise merkir staðgreiðsluverð á uppgjörsdegi í enfahagsbókhaldi við uppboð á staðnum. Til að tryggja rekstrahæfi vsk. fyrirtækja. Það er eðlilegt að þegar um þjóðartekjur er að ræða: raunvirði heildar vöruveltu sölu, að gera grein fyrir hve mikið er komið inn vegna nýbygginga kostnaðar eða fasteignsölu, hitt vöru og þjónustu velturnar: retail very important kallast reiðufjár ígildi.   Equity. Vöruveltu bálkar A til H er harmoníseraðir í EU að stórum hluta: grunnurinn fyrir keppina innan borganna.

Júlíus Björnsson, 25.11.2011 kl. 00:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband