Leita í fréttum mbl.is

Er þetta hægt?

að hafa svona afstöðu til málefna þjóðarinnar eins og fram kemur í athugasemd sem mér var send:

"Þið sem kusuð Enn Einn formanninn settuð "heiðvirða" sjálfstæðismenn í þvílíkan vanda að þeir eru í dag nánast landlausir í pólitík og geta með engu móti, samvisku sinnar vegna, kosið flokkinn sinn í næstu kosningum. Því þó Flokkurinn vinni kannski stórsigur í næstu kosningum væri glapræði að fela honum stjórnartaumana nema skipt verði út í forystunni. Ætli það sé ekki laust sendiherraembætti einhvers staðar, t.d. í Sviss, þannig að hægt sé að bjarga málunum? Þar er jú eitt af óskabörnum þjóðarinnar komið með aðsetur og fleiri úr flokksforustinni á leið þangað, þannig að félagssapurinn yrði góður....."

Þarna skrifar hálærður maður um það hvernig hann veltir fyrir sér stjórnmálum. Hjá honum skipta einstakir menn greinilega öllu máli. Ekki málefnin. Ekki hvað hann geti gert fyrir þjóðina sjálfur í kosningum.

Honum mislíkar við formann Sjálfstæðisflokksins með þessum hætti að hann er tilbúinn að veita vinstri stjórn hlutleysi eða bara fylgi sitt bara af því að þessi maður eða fleiri í forystu flokksins fer í taugarnar á honum.

Ég tek það fram að ég held að skrifarinn hafi aldrei starfað í flokknum, aldrei á Landsfund komið. Né heldur starfað innan annarra flokka heldur. Hann er í alla staði grandvar alþjóðlegur vísindamaður. En svona hugsar hann í stjórnmálum sem eru þó umgjörðin utan um hans eigin lífsafkomu á innlendum vettvangi. Ég segi fyrir mig að ég er sorgmæddur yfir þessu skrifi þessa vinar míns sem mér þykir reglulega vænt um og ber fyrir brjósti.

Svona yfirlýsingar eru ekkert einsdæmi. Maður fær svona gusur yfir sig á förnum vegi. Þó að manni ofbjóði þroskaleysið sem þetta annars greinda og dagfarsprúða fólk lætur í ljósi, þá er þetta pólitísk staðreynd. Og þetta eru kjósendur sem hafa afl og vigt.

Áróðurinn hefur skotið rótum í sálum þessa fólks og illgresi vondra hugsana vex því meira sem menn smjatta á yfirsjónum náungans í stað þess að hugsa hvernig eigi að vinna sjálfstæðisstefnunni framgang. En hún liggur fyrir og enginn flokksmaður, þingmaður, formaður né aðrir getur farið gegn henni. Það er eins og þetta fólk viti þetta ekki. Þekki ekki einu sinni flokkinn né stefnuna. Það þyrfti þetta fólk að athuga en það lokar augum og eyrum í svona uppblásnu sjálfsáliti sínu. Við erum svo miklu betri að við getum ekki kosið fimmtíuþúsund manna flokk vegna þess að okkur líkar ekki við þennan eða hinn sem er í flokknum. Ekki hvernig það getur lagt þjóð sinni lið með því að leggjast á árar með öðrum þó þeir séu ekki eins göfugir og það sjálft.

Það er Sjálfstæðisstefnan, þessar einföldu setningar sem hefur ekki verið breytt síðan 1929, sem er grunnurinn að okkar starfi. Það er á grundvelli hennar sem Sjálfstæðisflokkurinn er yfirleitt stærsti flokkur þjóðarinnar í gegn um þykkt og þunnt. Það er sorglegt ef menn geta ekki greint hismið frá kjarnanum. Allir geta tekið þátt í flokksstarfinu og stutt þennan og kosið á móti þessum og hinum, menn geta strikað út, boðið sig fram á móti hverjum sem er. Það sem hinsvegar ekki hver sem er sem getur staðið álengdar, hent grjóti og gert hróp að öðrum sem eru að reyna að þoka málum fram. Og grannt skoðað líka fyrir þessa götustráka sem og pólitíska andstæðinga. Við erum jú ein þjóð og Íslendingar þó við tökumst grimmilega á um leiðir.

Hvernig geta menn leyft sér svona hugleiðingar þegar framtíð þjóðarinar í efnalegu tilliti er í veði. Eiga allir að vera glæpamenn sem eru ekki óskrifuð blöð í pólitík? Er ekkert annað tækifæri gefið? Eru Bjarni Benediktsson, Illugi Gunnarsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson,Kristján Þór Júlíusson Ásbjörn Óttarsson, Ragnar Önundarson,Árni Johnsen, Vilhjálmur Bjarnason, Trygggvi Þór Herbertsson,Einar K. Guðfinssson eitthvað fólk sem er óhæft til stjórnmálastarfa af því að það hefur einhvern tímann legið undir skothríð andstæðinganna fyrir einhverjar sakir, hvort sem þær eiga við eitthvað að styðjast eða ekki? Er kjósandi, sem jafnvel hefur verið flæktur í verri mál sjálfur ekki jafnóhæfur til að kjósa? Hvar á svona vitleysa að enda?

Erum við ekki öll Íslendingar? Njótum við ekki lýðréttinda? Erum við ekki öll saklaus þar til sekt hefur verið sönnuð? Er ekkert fyrirgefið? Gjaldþrot? Erfiðleikar? Aldrei? Á Gróa á Leiti að vera æðsti dómari í málum upplýsts fólks?

Er þetta hægt?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónatan Karlsson

Sæll Halldór.

Svarið við þessari íþyngjandi spurningu sem raskar ró þinni svo mjög er einfaldlega: Já.

Það er fallegt og göfugmannlegt að fyrirgefa og gefa fólki tækifæri á að bæta sig eftir að það hefur misstigið sig í lífssins ólgusjó, en hér er ekki verið að tala um störf á togara eða í frystihúsi, heldur æðstu og ábyrgðarfyllstu stöður þjóðarinnar og eins og margir, ef ekki flestir vita, þá er fólk annað hvort traustverðugt, eða það er það einfaldlega ekki og það kemur kerlingar kvölinni henni Gróu á Leiti hreint ekkert við.

Jónatan Karlsson, 4.11.2012 kl. 22:24

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Þekkirðu einhvern fullorðinn Jónatan sem algerlega flekklaus?

Halldór Jónsson, 4.11.2012 kl. 22:32

3 Smámynd: Jónatan Karlsson

Ja, það er nú hægt að raka sig, þó maður skeri ekki af sér hausinn!

Jónatan Karlsson, 4.11.2012 kl. 22:41

4 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Þú ættir að lesa pistla Styrmis Gunnarssonar betur Halldór. Ég er sammála honum í því að Flokkurinn þarf að fara aðra leið en Svíar eftir stríð og gera upp fortíðina. Og ég heyri hvað aðrir mætir sjálfstæðismenn segja einnig og það vill nú svo til að ég sat í varastjórninni í Nes og Mela í nokkur ár og tók nokkurn þátt í einum Landsfundi! En það er rétt hjá þér að hluta til með starfið, því ég "starfaði lítið" enda mikið fjarverandi.....

Annars snýst málið um pólitískan trúverðugleika, því allt er þetta hið mætasta fólk og þá ekki formaðurinn síður en aðrir. En Flokkurinn þarf að hreinsa til í sínum ranni og slíta sig frá "þröngri hagsmunapólitík" eigi hann að fá brautargengi á ný. Meðan flokksmenn ekki skilja það og lifa í einskonar "pólitískum trúarbragðaleik" og horfa gagnrýnislaust til næsta dags, þá miðar okkur seint áfram í endurreisninni....

Og ég vil taka fram að ég hef einstaklega gaman af pistlunum þínum og skoðanir þínar fara óþægilega oft saman við mínar.....!

Ómar Bjarki Smárason, 4.11.2012 kl. 22:46

5 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Kannski er rétt að bæta aðeins við það sem ég skrifaði hér að ofan, Halldór minn ágætur. En flokkur sem ekki þolir umræðu og hvassa gagnrýni á ekkert erindi í pólitík. Þú hefur nú hingað til þorað að gagnrýna ýmislegt og auðvitað er það ekki hafið yfir gagnrýni hver stýrir flokknum. Og ég ræð því ekki eða þú hverjir hafa geta skapað traust og samheldni hjá þjóðinni. Ég ber t.d. meira traust til Illuga en Bjarna og finnst að sá fyrrnefndi hafi tekið sína ábyrgð alvarlega og er ekki að burðast með persónulega kúlulán, það ég viti.

Annars er ég bara áhorfandi í pólitík og aumur kjósandi. Gæti aldrei orðið annað því pólitísk trúfesta mín er hvergi nægilega sterk til að ég geti fylgt einhverri forystu eins og þægur fjárhundur.... Kannski er um að kenna slæmu uppeldi eða þá að þetta er genetískur galli sem ég hef reyndar lítinn áhuga á að finna mér lækningu við. Þjóðfélagið væri fátækara ef við værum allir eins....

Ómar Bjarki Smárason, 4.11.2012 kl. 23:29

6 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Sælir strákar! Ég lýsi yfir efsta stigi hættuástands,þótt enginn taki mark á því. Við þær aðstæður kaupi ég ekki staðlaðar yfirlýsingar,en læt mig hafa það að ganga að þeim framboðskandidati,sem mér er boðið til,og kynni fyrir honum mínar forsendur fyrir stuðningi við hann;” Að hann berjist fyrir fullveldi Íslands”.

Ef já! Hann rétti 10 fingur upp til guðs,sem heilagt loforð þess.

Það brást ekki í æsku,því skyldi það bregðast nú.

Helga Kristjánsdóttir, 5.11.2012 kl. 01:20

7 Smámynd: Halldór Jónsson

Jónatan, ég treysti Landsfundi til að leysa málefni flokksins.

Helga, við erum sammála um fullveldið. Ég kýs aldrei með framsali þess frekar en þú.

Og Ómar, ég tek þig fyrir sérstaklega og þakka þér fyrir hreinskiptni þína og ákveðni.

Halldór Jónsson, 5.11.2012 kl. 08:50

8 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Ætli það sé verið að horfa til varðandi Bjarna Benediktsson að honum sem stjórnarformanni N1 ásamt félögum viriðst hafa tekist að skuldsetja félag sem þeir keyptu sæmilega stöndugt fyrir um 150 milljarða. Ráku gríðarlega útþennslustefnu þar sem þeir keyptu upp örugglega nálægt helming af öllum varahlutaverslunum og dekkjaverkstæðm og fóru svo á hausinn eða þurftu að afhenda kröfuhöfum fyrirtækið sem var jú mjög stöndugt áður en þeir keyptu.  Ef þetta er rétt hjá mér með skuldirnar þá nema þær nærri því skuldum Landsvirkjunar vegna Kárahnjúka. Svo er fólk að horfa til viðskipta með Vafning.  Er nema von að fólk velti því fyrir sér hvort og þá hvernig farið yrði með fjármál ríkisins ef að Bjarni yrði Forsætisráðherra (stjórnarformaður) Íslands.  Svo er náttúrulega Þorgerður að hætta óánægð með flokkinn sinn, Ásbjörn að hætta og væntanlega að reka fyrirtækið sitt sem skuldaði milljarða minnir mig og hann greiddis sér arð samt út úr því þrátt fyrir tap. Svo var það Tryggvi og Askar Capital. Og við getum haldið áfram. Kristján Þór held ég að sé yfirvegaður maður og klár, Vilhjálmur Bjarnason og Ragnar Önundarson held ég líka. En þeir 2 síðarnefndu eru nú ekki komninr á þing og flokkurinn nærri sem heild vinnur á móti a.m.k. Ragnari. Árni Johnsen kann ekkert með peninga að fara.

Magnús Helgi Björgvinsson, 5.11.2012 kl. 08:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 3419727

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband