Leita í fréttum mbl.is

Athyglisverð?

er þessi frétt?:

"Hópur starfsmanna í fjármálageiranum fundaði með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, í gær og hvatti hann til þess að beita sér gegn því að nauðasamningar við kröfuhafa í þrotabú Kaupþings og Glitnis yrðu samþykktir en stærstur hluti þeirra munu vera erlendir vogunarsjóðir sem upphaflega keyptu kröfurnar á lítið.

Fjallað var um þetta í fréttum Stöðvar 2 í kvöld en þar sagði ennfremur að hópurinn óttaðist að útgreiðsla á hundruðum milljarða í erlendri mynt úr þrotabúunum gæti grafið undan gjaldeyrisstöðu Íslands og valdið miklu tjóni á efnahagslífi þess.

Ekki kom fram í fréttinni hverjir skipa hópinn en hann mun ennfremur hafa lýst áhyggjum sínum á fundinum á þekkingarleysi íslenskra stjórnmálamanna á stöðu þessara mála og ennfremur furðað sig á því að mögulegt væri að greiða út slíkar upphæðir þrátt fyrir tilvist gjaldeyrishaftanna."

"Þekkingarleysi íslenskra stjórnmálamanna"(væntanlega Alþingismanna) á máli sem varðar fjöregg þjóðarinnar? Í huga fagmanna í fjármálum?

Er þetta ekki einkar athyglisvert?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Þetta er stórmerkilegt, ef rétt er. Og hvað eru alþingismenn að hugsa. Er verið að hleypa peningum úr landi til "gæðinganna" sem arðrændu okkur. Eru þeir raunverulegir eigendur að vogunarsjóðunum? Tvöfalt rán?

Og svo er athyglisverð tillaga Guðlaugs Þórs, ef hún gengur út á það að koma í veg fyrir frekara fjárstreymi úr landi.

Gjaldeyrishöftunum virðist fyrst og fremst beint gegn blásaklausum almúganum til að koma í veg fyrir að fólk geti haft eðlileg samskipti út fyrir landssteinana, við ættingja og vini. En þegar kemur að "gæðingunum" þá skiptir ekki máli þó það hverfi miljarðatugir eða -hundruð úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Er þetta velferðarstjórn með hagsmuni almennings í huga? 

Hvað hagfræðingi eða hagfræðikenningum ætli þessi stjórnviska þjónki....?

Ómar Bjarki Smárason, 9.11.2012 kl. 23:34

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Bíðum við ekki eftir því að mesta fjármálaséní Íslandssögunnar, Steingrímur J. Sigfússon jarðfræðistúdent, úttali sig um málið. Hann byrjaði málið með því að afhenda vogunarsjóðunum bankafallíttin í óendanlegri visku sinni. Það er ekki okkar að skilja hans vegu Ómar minn.

Spurning hvort hann Gulli skilur það fyrir þjóðina. En hann má víst ekki hafa skoðun á neinu skv. því sem vinstri réttrúnaðurinn býður því hann fór einu sinni í prófkjör fyrir Sjálfstæðisflokkinn af dugnaði. Þess á hann að gjalda ævilangt ef þeir fá að ráða.

Halldór Jónsson, 10.11.2012 kl. 00:02

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Þetta er athyglisverð setning í ljósi yfirlýsts afskiptaleysis þíns af stjórnmálum:

"Gjaldeyrishöftunum virðist fyrst og fremst beint gegn blásaklausum almúganum til að koma í veg fyrir að fólk geti haft eðlileg samskipti út fyrir landssteinana, við ættingja og vini. En þegar kemur að "gæðingunum" þá skiptir ekki máli þó það hverfi miljarðatugir eða -hundruð úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Er þetta velferðarstjórn með hagsmuni almennings í huga? "

Halldór Jónsson, 10.11.2012 kl. 00:03

4 identicon

3. umr.:

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu á þskj. 965 sem ég flyt hér við 3. umr. og lýtur að því að taka upp ákvæði 3. gr. í þeim lögum sem við höfum til umfjöllunar. Hún lýtur að því að skýra skilmerkilega hvaða þætti af eignum hinna föllnu banka er ekki ætlunin að taka undir gjaldeyrishöftin og var aldrei ætlunin að gera með frumvarpinu heldur var ætlunin að undanskilja þá þætti í þeim reglum sem Seðlabankinn gæfi út á grundvelli þeirra.

Til að taka af öll tvímæli er þessi breytingartillaga flutt og þessi áskilnaður hafður í lögunum sjálfum til að vekja ekki óþarfaáhyggjur erlendra aðila sem eiga kröfur á hina föllnu banka. Þessar undanþágur lúta að reiðufé sem er á bankareikningum erlendis í erlendri mynt og að eftir sem áður verði heimilt að nýta það til greiðslu til erlendra aðila enda hefur það enga viðkomu á Íslandi eða í íslenskum efnahag. Sömuleiðis að innstæður þessara aðila í erlendri mynt í Seðlabanka Íslands verði þeim að sjálfsögðu til reiðu enda hafa þær ekki áhrif á aflandskrónurnar eða snjóhengjuna eða þau verkefni sem við er að fást innan lands.

Hér var spurt um umfang þessa við 2. umr. Umfangið á innstæðum aðila í Seðlabanka Íslands er liðlega 294 milljarðar í erlendum innstæðum sem þessi undanþága nær til. Hins vegar kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að erlendar eignir búanna losa 1.700 milljarða kr., 1.700 milljarða íslenskra kr. eða sem jafngildir því og að vænta megi þess að um fimmtungur þess sé reiðufé á erlendum bankareikningum. Sú stærðargráða sem sá þáttur undanþágunnar nær til gæti þá verið um 350 milljarðar .

Þessi undanþága nær til þeirra innstæðna sem eru á þessum reikningum að kvöldi 12. mars, sem er núna síðastliðins, en áframhaldandi ákvæði lúta að því erlenda reiðufé sem skapast mun á reikningum og heimildum fyrir Seðlabankann til að setja frekari reglur um framkvæmd þessarar undanþágu. Það helgast meðal annars af þeim skamma tíma sem var til að formgera hana í breytingartillögu við lagafrumvarpið.

Ég vildi enn fremur nota tækifærið og svara fyrirspurnum sem fram komu varðandi gjaldeyrisforðann, bæði til að svara þeim og líka til að undirstrika að þó að efnt sé til kvöldfundar á Alþingi til að styrkja gjaldeyrishöftin er það ekki vegna þess að hér sé að skapast mikill órói á gjaldeyrismarkaðnum. Seðlabankinn hefur 1.081 milljarð í gjaldeyrisvarasjóði og er í góðum færum til þess að bregðast við þeim hræringum sem kunna að vera á honum. Af því eru 600 milljarðar hreinn forði sem kallað er, en hreinn forði er brúttóforðinn mínus þær skammtímaskuldir sem við höfum á honum. Þegar litið er hins vegar líka til langtímaskuldanna er gjaldeyrisforðinn náttúrlega einhvers staðar í kringum núllið, en það eru skuldbindingar sem ekki þarf að standa skil á nema á löngum tíma. Ég vildi að þetta kæmi fram vegna þess að spurst var fyrir um þetta við umræðuna.

Ég mæli með því við þingið að breytingartillagan verði samþykkt og frumvarpið svo breytt gert að lögum á þessum fundi.

 

Hægri grænir, flokkur fólksins (IP-tala skráð) 10.11.2012 kl. 07:02

5 Smámynd: Halldór Jónsson

Takk fyrir hægri grænir. Það þarf ekki að spyrja frekar að fjármálavisku vinstri manna.

Halldór Jónsson, 10.11.2012 kl. 10:23

6 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Opinberar ofangreind málsgrein ekki bara mína pólitísku fávisku, Halldór minn? Ég er algerlega skoðanalaus í pólitík og bergmála bara það sem mér finnst skynsamlegt sem ég heyri eða sé frá þér og öðrum forfrömuðum í faginu! Það, ásamt hóflegri réttlætiskennd sem ég hlaut í uppeldinu, veldur því að ég bý við þá afleitu fötlun að standa frekar með þeim sem minna mega sín en hinum sem fara offari í því að bjarga sér sjálfir. Þetta er erfiður djöfull að draga, sérstaklega í þeim pólitísku lygavefum sem tröllríða flestu..... En ég eigi von í Vilhjálmi Bjarnasyni og ég held að hann og Karen eigi eftir að verða okkur "aumingjavænum" góður stuðningur í þinginu næstu 4 árin, og vonandi lengur....

Ómar Bjarki Smárason, 10.11.2012 kl. 14:25

7 Smámynd: Halldór Jónsson

Ég held að þau bæði hafi sterka réttlætiskennd og láti ekki vaða yfir sig. Klukkan 15 höfðu kosið 922 hérna á nr. 19 móti skrifstofunni minni í Hlíðarsmára 17. Og það er mikil traffík núna , ég held að þetta fari í 1500-2000 fyrir 18.00 þegar lokað verður.

Halldór Jónsson, 10.11.2012 kl. 15:44

8 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Ég held það líka og það verður mikill fengur að fá þau í þjóðmálin á hinu vonandi virðingarvaxandi Alþingi. En fróðlegt verður að sjá hvað "kragverjar" þora að pota Vilhjálmi og Ragnari Önundar hátt.....? Fyrirfram myndi maður búast við að Vilhjálmur lenti ofar, nema Ragnar hafi haft úr meira fé og betur smurðri kosningavél að ráða.... Því snýst þetta ekki alltaf allt um peninga meðfærileika, frekar en andlega burði frambjóðenda...?

Ómar Bjarki Smárason, 10.11.2012 kl. 18:40

9 Smámynd: Halldór Jónsson

Þú hafðir rétt fyrir með Villa. Ég talaði við hann í morgun og spurði hann hvort hann hefði látið hringja fyrir sig. Hann kvað nei við því og sagði eitthvað sem svo: Það er ég sem er söluvaran. Ef fólk vill ekki kaupa vöru sem ég býð þá get e´g ekki búist við að aðrir geti selt hana. Ef þú vilt ekki Coca Cola þá bara drekkurðu eitthvað annað.Þessvegna eyddi ég engum peningum í þetta. Vinir mínir settu eina auglýsingu en ég er sjálfur varan og þessvegna hringdi ég bara sjálfur í nokkra vini mína. Eyddi sáralitlu fé.

Karen átti auðvitað undir högg að sækja nokkuð óþekkt á móti þessu frægðarfólki þó hún hafi verið í bæjarpólitík. En hún kom í gegn á málflutningi og svo hópuðust líka vinir hennar að henni og virkilega lögðu nótt við dag við að hringja í fólk sem tók henni vel og sjálf talaði hún við fjölda fólks.Hún sagðist líka vera svo stórrík manneskja af vinum að það toppaði það enginn með peningum. Og ekki eyddi hún stórum fjárhæðum auglýsingar enda ekki peningarík. Það var dásamlegt að horfa á það hversu yndislegt fólkið hennar var við hana.

Halldór Jónsson, 11.11.2012 kl. 10:40

10 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Ég hef aðeins fylgst með því sem Karen hefur skrifað og sé að hún hefur erft það besta frá föður sínum, hógværðina og yfirvegunina.... Hún á örugglega eftir að vinna sig í rólegheitum upp listann ef hún heldur áfram á sömu braut. Og oft er nú sígandi lukka öðrum betri.....

Það mátti ljóst vera að Villa tækist vel upp. Hann hefur verið í sviðsljósinu mikið síðustu árin og staðið sig vel í Útsvarinu, sem við vonum auðvitað að muni lækka með setu hans á Alþingi! Hann hefur í raun svipað forskot á keppinautana og fréttamenn RÚV og Stöðvar 2. En þó Coca Cola sé vinsælt þá er það að sama skapi ekkert voðalega hollt og við í minni fjölskyldu erum t.d. hætt að mestu að drekka það og annað "ropvatn". Vonandi reynist Villi þjóðinni hollara en blessað kókið, en hætt er við að reynt verði að ýta honum til hliðar líkt og Pétri Blöndal af því að þeir leyfa sér að hugsa út fyrir "flokksboxið".

Ómar Bjarki Smárason, 11.11.2012 kl. 15:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 11
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 58
  • Frá upphafi: 3418273

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 58
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband