Leita í fréttum mbl.is

Framhaldsskólinn

er viðfangsefni Skúla Halldórssonar í miðopnu Moggans í dag.

Skúli veltir þarna upp málum sem eru umhugsunarefni. Hann lýsir því hvernig óskilvirkni ríður húsum í skólakerfinu. Tíma er sóað í frídaga og allskyns frábrigði frá því sem er hinn raunverulegi tilgangur með skólanum, en það er að gera fólk hæfara til þess að taka þátt i atvinnulífinu. Þess í stað virðist skólakerfið vera að skila afurðum sem miðast við að geta verið á kassa hjá Bónus eða Pizzusendill.Áfangakerfið hleypir fólki í gegn án þess að árangur hafi verið staðfestur af starfinu.

Þegar ég var í framhaldsskóla fyrir margt löngu vorum við meira en þrjátíu í bekk. Það var A-bekkur, B-bekkur, C-bekkur og jafnvel D-bekkur. Þessa bekki skipaði fólk eftir námsárangri. Það er alkunna að fólk hefur mismunandi áherslur í lífinu og áhuga. Þannig voru gjarnan margir gæjar og pæjur í lægri bekkjunum sem voru öðru vísi þroskaðir en kúristarnir í A-bekknum, kannski meiri fyrir sér líkamlega og frjálslegri. Þar voru jafnvel flottari stelpur og töffari gæjar eftir á að hyggja. Þeim farnaðist mörgum samt ágætlega í lífinu það sem maður sá til síðar, margir verksmiðjueigendur og verktakar, meðan A og B-bekkingar fóru í langskólanám og urðu læknar, lögfræðingar og prestar, sumir jafnvel fóru í verkfræði. Ekki minnist ég þó neinna sérstakra afreksmanna eða kvenna frá þessum árum, flestir urðu bara venjulegir borgarar, fyllibyttur, dóu ungir, komust af eða hurfu sjónum. En að menn yrðu viðskiptaséní eins og menn urðu á fyrsta áratug þessarar aldar voru gersamlega óþekkt fyrirbrigði frá þessum árum og síðar.

Þá voru framhaldsskólakennarar hinsvegar meiriháttar fólk, flestir karlkyns og margir þjóðþekktir flottir kallar. Við bárum fyrir þeim virðingu og flestir reyndu að svekkja þá ekki með að gata sífellt eða vera tregir. Það var ekkert um það að velja að læra ekki stærðfræði, sem þá var nú bara kallaður reikningur, prósentur, víxlar og algebra en mengi og orðagátur engar. Skylda var líka að læra eðlisfræði, ensku og dönsku. Það var líka skylda að læra fag eins og kristnifræði hvað sem mönnum þótti það óþarfi. Margir þessara kennara urðu vinir manns og kunningjar ævilangt, jafnvel vinnufélagar á sumrin.

Ég fullyrði að þá kom enginn kom í fyrsta bekk í Gaggó sem ekki kunni margföldunartöfluna eða illa læs. Núna er það undantekning að hitta 13-15 ára framhaldsskólaungling sem kann töfluna og getur margfaldað og deilt hiklaust á blaði. Hann verður að hafa reiknivél. Og líka undantekning að hitta karlkyns kennara á skólagöngum. Nú er blandað í bekki tossum og þeim sem hafa lítið fyrir að læra og rétt tuttugu í bekk. Yfirferðin verður því hæg og fleirum leiðist í skólanum bæði tossunum og hinum sem fá ekki kennslu sem þeir gætu tekið við en fá ekki meðan verið er að kenna þeim síðustu. Almennt verksvit virðist bannorð. Það virðist vanta einhvern anda í framhaldsskólana sem var og nemendur virðast ekki endilega vita af hverju þeir eru þarna.

Ég er nokkuð sannfærður um það að flestir unglingar geta lært miklu meira en þeir gera í skólunum með réttri kennslu og raunverulegrar námfýsi. Ég hef lent í að kenna drop-outum að reikna á stuttum tíma. Þeir urðu hissa hversvegna þetta hafði aldrei verið útskýrt fyrir þeim í skólanum og hversu auðvelt þetta var í rauninni. Þeir höfðu sótt tíma í einhverju sem var kallað stærðfræði eitt tvö og þrjú. En þeir kunnu bara ekki að reikna svo þeir tímar urðu að engu því undirstöðuna vantaði. Afleiðingin feimni, fælni og vansæld, tölvuleikir og þess lags bull.

Skúli vekur athygli á því að nemendum er heimilt að velja námsefni sitt þannig að valið útilokar þá frá frekara námi í tæknigreinum. Þeir leiti í áfanga sem fæstir falla í og pródúktið verður því ekki annað en undirbúningur fyrir kassavinnu og pitsusendilstarf. Auðvitað alhæfi ég sjálfsagt allt of mikið því maður kynnist fremur vandamálunum en hinu og hitt að maður er orðinn gamalla og úreltur. En þetta er samt allt öðruvísi en það var.

Þessi grein Skúla er athyglisverð um hvert stefnir í skólamálum. Einmitt meðan þörf þjóðfélagsins fyrir tæknimenntað fólk hefir aldrei verið meiri þá er tíma sóað í allskyns pseudovísindi eins og allskyns samfélagsfræði, lífsleikni, starfsdaga kennara, frí og hvað þetta er nú allt kallað sem kemur í stað margföldunartöflunnar og raunverulegs náms í hagnýtum fræðum í framhaldsskólum landsmanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband